Lesbók Morgunblaðsins - 08.09.2001, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 08.09.2001, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 8. SEPTEMBER 2001 Þau áttu fagrar vonir um vaska drenginn sinn, en vor er stundum alltof fljótt að líða. Þá dauðans myrkur kemur svo hljótt í húsið inn, að harmi slær á alla menn og kvíða. En vissulega er dauðinn í vitund okkar hér sem vegur gagnsær milli tveggja geima. Því líkamsdauðinn fæðing til fullkomleikans er, sem flytur oss í nýja og betri heima. ARNÓR ÞORKELSSON Þetta ljóð Arnórs er endurbirt að ósk sendanda sökum þess að það var birt í rangri útgáfu er barst blaðinu. Höfundur er aldraður mál- ari í Reykjavík. MINNING Í SKÁLDSÖGUM sínum hefur DeLillo dregið upp myndir af atburðunum sem mótað hafa nýliðna öld, tímaskeið sem kallað hefur verið „bandaríska öldin“. Hann verður þó seint sakaður um upp- hafningu á bandarískum gildum og lífs- venjum, fremur hefur DeLillo beint sjónum að „veruleikanum“ á bak við ímyndirnar og því sem fjölmiðlafárið felur. Hann skyggnist undir yfirborðið, hvort sem fjallað er um launmorðið á Kennedy eða tákn- mál stórmarkaðarins ráðið. Þá ganga ákveðin viðfangsefni sem rauður þráður í gegnum verk hans: Hnattvæðing rafmiðla, upplausn gilda í nútímasamfélagi, varhugaverður máttur fjöldahreyfinga, hryðjuverk og samsæri. Nýjan tón kveður þó við í hans nýjustu skáld- sögu, The Body Artist, sem leikur á mörkum draugasögunnar og þroskasögunnar. Bókin hefst á langri lýsingu á morgunverði hjónanna Lauren og Rey sem í stílsnilld og hnitmiðun kallast á við rómað upphaf síðustu skáldsögu höfundarins, Underworld (1997). Að morgun- verðinum loknum sækir Rey fyrrverandi eig- inkonu sína heim þar sem hann fremur óvænt sjálfsmorð. Sagan lýsir tilvistarkreppu Lauren og undarlegum atburðum sem hana henda í kjölfarið. Skáldsagan, sem er allnokkuð styttri en fyrri verk höfundar, hefur verið ausin lofi og gagnrýnendur jafnvel haft það á orði að þarna hafi DeLillo e.t.v. fórnað breidd fyrir dýpt. Þegar Lauren snýr aftur í sumarhúsið sem þau hjónin höfðu dvalið í nokkru fyrr gerir und- arlegur maður, sem virðist hafa dvalið þarna um nokkurt skeið án vitundar þeirra hjóna, vart við sig. Í fyrstu virðist maðurinn mállaus, hugsanlega vangefinn og eitthvað ókennilegt er við hann: „Það var erfitt að henda reiður á manninum lengur en í andartak, líkamleiki hans virtist flöktandi.“ Þessi dularfulla vera tekur síðan að tala með rödd Reys, og hennar eigin, með svo mikilli nákvæmni að heilu sam- ræðurnar sem hjónin höfðu átt eru endursagð- ar orðrétt. Gæti verið um einhverskonar aft- urgöngu að ræða? Endurholdgun? Hver er þessi maður og leynist einhvers konar upphaf- inn sannleikur í fjarstæðukenndri orðræðu hans? Þetta eru spurningar sem DeLillo leyfir lesendum að velta fyrir sér í framrás sögunnar um leið og hann fjallar um einmanaleika og dauðleika einstaklingsins. Afspilunartæki guðanna Einn helsti styrkur nýjustu bókar DeLillos er óræður persónuleiki mannverunnar sem birtist Lauru, og hún nefnir hr. Tuttle, en er þá rétt að hafa í huga að persónuflóran í verkum DeLillos hefur í gegnum tíðina verið afar óvenjuleg. Helst mætti líkja sögupersónum hans við fólk sem lifað hefur einhverja óræða framtíð sem enn er ekki skollin á og virðist því á skjön við þann veruleika sem lesendur þekkja. Hr. Tuttle, sem hefur ekkert tímaskyn, og er ókleift að sundurgreina tíma í þátíð, nútíð og framtíð, er ein sterkasta birtingarmynd þessa í verkum höfundarins. Sökum tímaleysisins tjáir hann sig heldur ekki á neinn hefðbundinn hátt og í gegnum orðræðu hans, sem er í senn dul- arfull, fjarstæðukennd og forspá, gefst DeLillo tækifæri til að fjalla á áhugaverðan hátt um við- fangsefni sem honum hefur alltaf verið hug- leikið: Merkingarkerfið sem liggur samskiptum okkar til grundvallar; tungumálið, orðin sjálf. Miðlun frásagnarinnar er jafnan í forgrunni í verkum DeLillos, segja má að hann leiti í sög- um sínum að sannleikanum „á bak við táknin“, eins og aðalpersóna fyrstu bókar hans, Americ- ana (1971), orðar það og áhugavert er að skoða hr. Tuttle í þessu samhengi. Hefur hann losnað úr viðjum táknkerfisins sem mótar hugsun okk- ar farveg? Er hægt að sjá orðræðu hans, líkt og gjarnan var litið á orðræðu vitfirringsins á öld- um áður, sem beintengingu við einhvern sann- leika handan tungumálsins? Miðlun í ýmsum myndum er algeng í verkum DeLillos. Sjón- varp, útvarp, kvikmyndir, ljósmyndir, verald- arvefurinn – þessir þættir koma sífellt fyrir í bókum hans. Í persónu hr. Tuttles er sem De- Lillo hafi klætt einhvern frumstæðan, og á sama tíma framandlegan, miðil holdi, líkt og um nokkurs konar afspilunartæki guðanna sé að ræða. Hlutverk höfundarins „Allar fléttur stefna í átt að dauðanum,“ segir rithöfundurinn í White Noise (1985) og sögu- þráður Mao II (1991), tíundu bókar DeLillos, er þar engin undantekning. En forgengileikinn birtist þó hér með nýstárlegum hætti. Rithöf- undurinn Bill Grey, einfari gæddur pynchon- ískum mikilfengleika, hefur við upphaf sögunn- ar ekki skrifað bók í tuttugu ár og dregið sig í hlé frá umheiminum. Hann lifir í endalausri hringrás tungumálsins, skrifar og endurskrifar sömu orðin í skáldsögu sem aldrei virðist ætla að klárast. Til að lífga upp á litlausa tilveruna leyfir hann sænskum ljósmyndara, Britu, að taka af sér mynd – þá fyrstu sem birtist af hon- um á prenti í rúm þrjátíu ár. Sjálf er Brita und- arleg persóna. Hún er sannfærð um að rithöf- undar séu tegund í útrýmingarhættu og flýgur því um heiminn til að varðveita ímyndir þeirra á filmum. Kunningsskapurinn við Britu leiðir til þess að hinn einræni höfundur kemst aftur í snertingu við mannlífið og dregst að lokum inn í hringiðu alþjóðastjórnmála sem nær hámarki þegar Grey samþykkir að fara til London og lesa upp ljóð eftir svissneskt ljóðskáld í tilraun til að heimta það úr gíslingu hryðjuverkamanna í Beirút. Þar kemst hann hins vegar að því að raunverulegt skotmark hryðjuverkamannanna er hann sjálfur en ekki svissneska ljóðskáldið. Í kjölfarið hefst ferðalag Grey á vit örlaganna. Áberandi viðfangsefni DeLillo í Mao II er máttur fjöldans og birtist það jafnt í myndmál- inu sem umræðum sögupersónanna. Við lifum í ljósaskiptum einstaklingsvitundarinnar, sam- kvæmt bókinni, og framtíðin tilheyrir fjölda- hreyfingum. Þetta er strengur sem birtist á fjölda vegu í bókinni. Við sjáum risamúg safn- ast saman í Kína; sama gerist á fótboltaleikjum og þrettánþúsund meðlimir Moonie-sértrúar- safnaðarins taka þátt í fjöldabrúðkaupi. Við sjáum þetta í jarðarför Khomeini í Íran. Ímyndirnar flæða yfir lesandann í gegnum sjónvarpið, í gegnum ljósmyndir og í gegnum fjöldaframleiddar andlitsmyndir Andy War- hols, en titill bókarinnar vísar einmitt til sam- nefnds verks eftir Warhol. Í skáldsögunni er Grey hlutverk rithöfund- arins í samfélaginu ofarlega í huga, en mik- ilvægi þess fer minnkandi að hans mati. Þjóðfé- lagið – bandarískt þjóðfélag í öllu falli – er orðið svo gegnsýrt af offlæði upplýsinga og ímynda, suðinu í sjónvarpinu og ekkifréttum slúður- blaðanna að skoðanir rithöfunda og listamanna bókstaflega týnast í kraðakinu. „Fyrir mörgum árum,“ segir Grey á einum stað, „hélt ég að rit- höfundurinn gæti umbreytt menningunni inn- an frá. Núna hafa sprengjuvargar og byssu- menn tekið við því hlutverki. Þeir gera skyndiárásir á samvitund samfélagsins.“ Ekki er þó aðeins við yfirborðskennda dægurmenn- inguna að sakast, rithöfundarnir sjálfir eiga hlut að máli. „Hættan sem hryðjuverkamenn standa fyrir samsvarar nákvæmlega hættunni sem okkur rithöfundum mistókst að skapa í verkum okkar.“ Velta má fyrir sér hvort þarna sé ekki skoðun DeLillos sjálfs á ferðinni því svipaða þræði má rekja í fleiri verkum hans síð- ustu ár. Í Players (1977) flækist bitur uppi inn í ráðagerð hryðjuverkamanna um að sprengja í loft upp Kauphöllina í New York; í The Names (1982) lendir áhættusérfræðingur á kafi í bak- tjaldamakki bandarísku leyniþjónustunnar og, líkt og það flæki ekki atburðarásina nægilega, einnig í skotlínu morðóðs sértrúarsafnaðar; og í Libra ráðgerir Lee Harvey Oswald hvernig hann geti sett mark sitt á mannkynssöguna. Lokuð kerfi Enda þótt táknaveröld og tilvísanaheimur skáldsagna DeLillos sé afmarkaðri en í fjórum útgefnum skáldsögum Thomasar Pynchons eiga þessir höfundar ýmislegt sammerkt, ekki síst í viðhorfi sínu til kreppu nútímamannsins. Báðir ganga þeir út frá því sem vísu að tilhneig- ing hins vestræna manns til að skilgreina veru- leikann í formi lokaðra kerfa sem ekki eiga við neinn þekkingarfræðilegan grunn að styðjast leiði til sundrungar sjálfsins og hugsanlega endaloka mannkynsins. Í fyrstu bók sinni, Am- ericana, gaumgæfir DeLillo rafræna sam- skiptakerfið sem liggur öllu nútímalífi til grundvallar, og þá sérstaklega hina kvikmynd- uðu ímynd. Aðalsöguhetja bókarinnar, David Bell, dagskrárgerðarstjóri á sjónvarpsstöð, uppgötvar skyndilega að „orð og merking voru ekki sami hluturinn. Orð þýddu ekki það sem var sagt, og ekki andstæðuna heldur“. Bell, af- sprengi „Godards og Coca Cola“, tekur að sjá sjálfan sig og aðra í kring sem tilbúning úr ímyndum sem safnast hafa saman í gegnum æviskeið sjónvarps- og kvikmyndaneyslu. Svo virðist, hugsar David snemma í sögunni, sem fólk sé farið að líta á kvikmyndalinsuna sem sagnfræði. Sanna má veruleika þess sem tekið er upp en allt annað er óraunverulegt eða eitt- hvað þaðan af verra. Fjölmiðlakóngarnir sem í Americana smíða hinn kvikmyndaða sannleika eru enn að verki við að búa til óskasjálfsmyndir einstaklinga og breyta hörmungum í afþreyingu í nýlegri skáldsögum höfundarins og í ljósi þess að De- Lillo hitti naglann á höfuðið í sinni fyrstu bók er engin ástæða til annars en að fagna því að hann sé óþreyttur að fást við sömu þemu og í upphafi. Á sama hátt er hans nýjasta bók forvitnileg því þar notast hann ekki við svið alþjóðastjórnmála heldur skoðar líf einstaklings í smáatriðum en það er einmitt það sem að hans mati glatast í of- flæði ímyndanna. HÖFUNDURINN SEM HRYÐJUVERKAMAÐUR Nýjan tón kveður við í nýjustu skáldsögu bandaríska rithöfundarins Don DeLillo, The Body Artist, sem kom út í sumar. Rithöfundurinn Don DeLillo er tvímælalaust í fremstu röð bandarískra skáldsagnahöfunda og hverju nýju verki þessa háðska póstmódernista fylgir mikill viðbúnaður bókmenntaunnenda. Don DeLillo Höfundur er bókmenntafræðingur. E F T I R B J Ö R N Þ Ó R V I L H J Á L M S S O N Nýjan tón kveður við í nýjustu skáldsögu De- Lillos, The Body Artist, sem leikur á mörkum draugasögunnar og þroskasögunnar.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.