Lesbók Morgunblaðsins - 13.04.2002, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 13.04.2002, Blaðsíða 13
Er lent VICTORIA & Albert-safnið í London, gjarnan nefnt V&A, hýsir þessa stundina sýningu þar sem demantar, smaragðar og rúbínsteinar eru í aðal- hlutverki. Sýningargripirnir eru smákórónur og er saga þeirra rakin á sýningunni allt frá fyrsta hluta 19. aldar. Hönn- un sögufrægra gullsmiða á borð við Fabergé, Cartier og Bouch- eron getur að líta í V&A, en alls hafa um 200 munir verið fengn- ir að láni vegna sýningarinnar – m.a. krúnudjásn frá Frakklandi og Rússlandi. Að sögn breska dagblaðsins Daily Telegraph er sýningin með áhugaverðustu sýningum sem finna má í London þetta árið, ekki síst fyrir sagnfræðilegt gildi hennar. Smákórónurnar vekja líka verulegan áhuga hjá safngestum í London og hafa stórir hópar fyllt sali safnsins frá því sýningin var opnuð. Metverð fyrir Clausen VERK eftir listakonuna Franc- isku Clausen fór fyrir metverð á uppboði hjá Bruun Rasmussen- uppboðshúsinu í vikunni að því er danska dagblaðið Berlingske Tidende greindi frá í gær. Alls var greidd ein milljón danskra króna fyrir verkið Contastes des formes eða sem nemur tæpum 12 milljónum íslenskra króna. Contastes des formes, sem byggist á sterkum dýnamískum línum, er frá árinu 1927 og var Clausen undir sterkum áhrifum frá listamanninum Fernand Léger við gerð þess. Há upphæð var einnig greidd fyrir annað verk Clausen, sem og verkin Opus Tamaris, La Roseraie eftir listamanninn Richard Morten- sen og Erindringsbillede eftir Michael Kvium. Menningarverðlaun Óslóborgar veitt MENNINGARVERÐLAUN Óslóborgar fyrir árið 2001 voru veitt í gær. Fyrstu verðlaun, sem nema tæpri milljón ís- lenskra króna, komu í hlut tón- skáldsins og tónlistargagnrýn- andans Arnes Nordheims. Voru honum veitt verðlaunin fyrir tónsmíðar sínar, en ekki þó síð- ur fyrir gagnrýniskrif sín og störf í þágu tónlistar. Nordheim er eitt best þekkta núlifandi tón- skáld Norðmanna. Benissa Ahssain var einnig verðlaunuð af borgaryfir- völdum. Hlaut hún viðurkenn- ingu sem dansari, danshöfundur og leikari, sem og fyrir baráttu sína gegn ofbeldi og kynþátta- fordómum í gegnum „Dancing Youth“-hópinn. Sidsel Endresen voru þá veitt verðlaun fyrir norska samtíðardjasstónlist, Marianne Heske fyrir höggmyndalist, Tom Tellefsen fyrir leiklist og Björn Vik rithöfundi fyrir skrif sín. Glitrandi steinar og eðalmálmar LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. APRÍL 2002 13 HANDRIT, sviðslíkön, leikmuni, búningaog búningateikningar, ljósmyndir ogmargt fleira forvitnilegt getur að líta ásýningunni Laxness og leiklistin. Þar verður einnig sýnt myndband með stuttum við- tölum við nokkra þekkta leikhúsmenn um kynni þeirra af Halldóri Laxness og samstarfi við hann. Þá verður fjölbreytt dagskrá í Iðnó þann tíma sem sýningin stendur, söngur, upplestrar, mara- þonleiklestur allra leikrita skáldsins, kynning á nýjum ballett Auðar Bjarnadóttur eftir Sölku Völku o.fl. Þá verður dagskrá í Ráðhúsi Reykja- víkur laugardagskvöldið 20. apríl í samvinnu við Hugvísindastofnun Háskóla Íslands sem stendur fyrir Laxness-þingi þá um helgina. Að sögn þeirra Ólafs J. Engilbertssonar, leikmyndahöf- undar og sagnfræðings, og dr. Jóns Viðars Jóns- sonar verður ýmislegt fleira á dagskrá sýning- ardagana sem auglýst verður er nær dregur. Samning sýningartexta og verkefnisstjórn hefur verið í höndum Jóns Viðars en hönnun sýn- ingarinnar og sýningarskrár er verk þeirra Björns G. Björnssonar, Jóns Þórissonar og Ólafs J. Engilbertssonar. Straubolti og steiktar skógardúfur Margt forvitnilegra muna er á sýningunni, t.a.m. frumteikningar Gunnars Hansen leik- stjóra og höfundar leikmyndar að frumupp- færslu Straumrofs í Iðnó 1934, en það var fyrsta leikrit Laxness. Af öðrum munum sem nefna má eru straujárn og strauborð úr frumuppfærslu LR á Dúfnaveislunni, hnallþórurnar margfrægu úr frumuppfærslu LR á Kristnihaldi undir jökli ásamt fjölmörgum merkum ljósmyndum af æf- ingum og sýningum leikrita og leikgerða skáld- sagna skáldsins. Þá eru ýmsir munir er tengjast kvikmyndum er gerðar hafa verið eftir verkum hans, en þær eru orðnar allnokkrar, Brekkukots- annáll, Paradísarheimt, Atómstöðin, Kristni- haldið, Ungfrúin góða og húsið, svo þær helstu séu nefndar. Í veglegri sýningarskrá er að finna tæmandi skrá Jökuls Sævarssonar yfir allar upp færslur á leiksviði og kvikmyndun á verkum skáldsins. Þar er einnig að finna ritgerð eftir Jón Viðar Jónsson um leikrit Halldórs Laxness, Björn G. Björnsson skrifar um kvikmyndun Brekkukotsannáls, Ólafur J. Engilbertsson skrifar um uppfærslur á Silfurtunglinu og Sjálfs- stæðu fólki. Frú Vigdís Finnbogadóttir verndari samtakanna ritar ávarp í sýningarskrá. Á sýningartíma verður boðið upp á margvís- legar veitingar, m.a. dúfnaveislu þar sem aðal- rétturinn er franskar skógardúfur, sjaldgæfur sælkeramatur sem mörgum kann að finnast for- vitnilegt að bragða. Það er Margrét Rósa Ein- arsdóttir veitingamaður í Iðnó sem á heiðurinn af sýningarmatseðlinum. Forsmekkur að leikminjasafni Að sögn sýningarhaldara er sýningin Laxness og leiklistin eins konar forsmekkur að því sem leikminjasafn gæti verið, en stofnun slíks safns er höfuðmarkmið og baráttumál Samtaka um leikminjasafn. „Leikminjasafn er safn um sögu leikhúss og leiklistar. Þar er haldið til haga öllum upplýs- ingum um leiklistariðkanir fortíðarinnar sem hafa gildi fyrir síðara tíma kynslóðir. Úr þessum upplýsingum er síðan unnið og þær kynntar al- menningi á eins ljósan og líflegan hátt og kostur er,“ segir Jón Viðar. Ólafur J. Engilbertsson tekur undir þetta og bætir við að hér vanti enn sárlega leikminjasafn. „Af því leiðir að flest sem tengist leiklistarsögu okkar, annað en skrifaðir textar, er í glötunar- hættu. Á meðan það ástand ríkir hlýtur leiklistin að glata sögu sinni að verulegu leyti. Jafnframt fer allur almenningur á mis við afar skemmtilega menningar- og listastofnun.“ Samstarfsaðilar um sýninguna Laxness og leiklistin eru Leikfélag Íslands og Iðnó veitinga- hús. „Réttari umgjörð um sýninguna en Iðnó er ekki hægt að hugsa sér. Hér kynntist skáldið ungur áhrifamætti leiklistarinnar í fyrsta sinn er hann sá sýningu á Fjalla-Eyvindi 12 ára gamall,“ segir Jón Viðar í inngangstexta að sýningunni. „Hér fylgdist hann með vexti og viðgangi ungrar listgreinar og vann síðar á ævinni eftirminnilega sigra. Tengsl Laxness við leikhúsið voru marg- vísleg og þræða sig í gegnum íslenska leiklist- arsögu hátt í heila öld eins og þessi sýning bregð- ur upp mynd af.“ Sýningin er styrkt af Menningarborgarsjóði, menntamálaráðuneytinu og Reykjavíkurborg. Þá veittu Íslandsbanki, Ístak, Seðlabanki Ís- lands, Orkuveita Reykjavíkur og Grandi styrki til verkefnisins. Morgunblaðið/Þorkell Umsjónarmenn sýningarinnar Laxness og leiklistin, dr. Jón Viðar Jónsson, Björn G. Björnsson, Ólaf- ur J. Engilbertsson, Jón Þórisson og veitingamaðurinn Margrét Rósa Einarsdóttir. Samtök um leikminjasafn standa fyrir opnun sýningar í Iðnó í dag á leikminjum og leiklistarsögulegu efni er tengist leiksýningum og kvikmyndum á verkum Hall- dórs Laxness. Sýningin verður opin til 1. maí og er opin daglega frá 11–18. Dúfnaveisla og leikminjar LOKATÓNLEIKAR 15:15 tónleikaraðarinnar á Nýja sviði Borgarleikhússins verða í dag kl. 15:15. Þá standa ,,Ferðalög“ og Poulenc-hóp- urinn fyrir tónleikum þar sem hlustendur fá tækifæri til að kynnast kammertónlist frá Tékklandi og Rússlandi í verkum eftir Strav- insky, Janácek, Rachmaninov og Prokofiev. Flytjendur eru Þórunn Guðmundsdóttir sópran, Valgerður Andrésdóttir píanóleikari, Greta Guðnadóttir fiðluleikari, Guðmundur Kristmundsson víóluleikari, Hávarður Tryggvason kontrabassaleikari, Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari, Eydís Franzdóttir óbóleikari, Ármann Helgason klarínettuleikari, Kjartan Óskarsson bassaklarínettuleikari, Anna Sigurbjörnsdóttir hornleikari og Kristín Mjöll Jakobsdóttir fagottleikari. Tónleikarnir hefjast á Pastorale eftir Igor Stravinsky. Verkið er söngur án orða, fyrst samið fyrir söngrödd og píanó 1907 en árið 1924 útsetti Stravinsky það fyrir sópran og fjóra blásara og verður það flutt í þeirri útgáfu á tónleikunum. Þá er komið að tveimur verk- um eftir tékkneska tónskáldið Leoša Janácek; Mládí fyrir blásarasextett frá 1924 og Xíkadla fyrir sópran, klarínett og píanó frá árinu 1925. Mládí, eða Æska fyrir flautu, óbó, klarínett, bassaklarínett, fagott og horn, er eitt af meist- araverkum tónbókmenntanna fyrir blásara. Í barnagælunum Xíkadla eru textarnir mikið grín eða jafnvel bull eins og oft vill verða í barnalögum. Verkið verður flutt í íslenskri þýðingu Þórunnar Guðmundsdóttur söngkonu og leikskálds. Að loknu hléi verður flutt sönglagið O, cease thy singing eða Hættu að syngja eftir Rachm- aninov við ljóð eftir Pushkin. Fritz Kreisler gerði útsetningu af laginu fyrir söngrödd, pí- anó og fiðlu og er það í þeirri mynd sem það heyrist að þessu sinni. Í laginu kemur treginn sem oft er tengdur við Rússland sterklega fram. Tónleikunum lýkur svo á Kvintett fyrir óbó, klarínett, fiðlu, víólu og kontrabassa eftir Serge Prokofiev. Morgunblaðið/Sverrir Poulenc-hópurinn: Ármann, Eydís, Þórunn, Kristín Mjöll, Greta, Guðmundur, Hallfríður, Hávarður, Kjartan og Anna. Fjarverandi þegar ljósmyndari fangaði hópinn á æfingu var Valgerður. Poulenc- hópurinn á Ferðalaga- tónleikum

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.