Lesbók Morgunblaðsins - 13.04.2002, Blaðsíða 5
fjallaði hún að sjálfsögðu um njósnir og hvað í
þeim felst. Með því að láta þessar blaðsíður
fljóta með – og mér finnst enn þann dag í dag að
þær eigi skilyrðislaust að vera þar – var það
orðspor sem ég hafði áunnið mér fyrir fyrstu
sögurnar mínar endurlífgað, sem var í raun
ólán,“ segir Ian og hlær strákslega. „Fólk kom
aldrei auga á bókina í heild sinni, þessar örfáu
blaðsíður urðu bara að minniháttar hneyksli, en
bókin sem slík var aldrei lesin eins vel og mig
hefði langað til. Ég hugsa alltaf um The Inn-
ocent sem þá bóka minna sem öllum hefur sést
yfir, einungis vegna þessara sex blaðsíðna.“
Heldurðu að fyrstu verkin þín hafi verið
minna lesin vegna þessa orðspors, – eða
kannski enn meira lesin, í það minnsta meðal
ungs fólks sem deildi róttækum skoðunum þín-
um á samfélaginu?
„Ég held að verkin mín hafi alltaf notið fylgis
í bókmenntaheiminum sem slíkum. En það er
líka töluvert af fólki sem hefur heyrt mín getið
en vill ekki lesa neitt eftir mig, það var alveg
ljóst. Það hefur þó aldrei snert mig neitt.“
Tilraunastofur til að
rannsaka mannlegt eðli
Ef litið er til sambandsins á milli einstak-
lingsins og umhverfisins í verkum þínum, þá
eru margir sem tala um dæmigert McEwan-
upphaf og eru þá að vísa til þess stílbrags að
staðsetja venjulegt fólk í afar óvenjulegum ytri
kringumstæðum og sjá svo hvernig það ynni úr
því. Er eitthvað til í þessu?
„Mér finnst þetta ekki eiga við nema í
Enduring Love (Eilíf ást, 1998) og The Child in
Time (Barnið í tímanum, 1987). Ég veit ekki
hvort hægt væri að nota þessa lýsingu t.d. um
Amsterdam eða Black Dogs (Svartir hundar,
1992). Hugsanlega þó The Innocent þó svona
atburðir marki ekki upphaf þeirrar sögu. Að
mínu mati eru erfiðleikar og stórslys af öllu tagi
næstum eins og tilraunastofa þar sem hægt er
að rannsaka mannlegt eðli. Og þó ég verði ekki
fyrir miklum áhrifum af umfjöllun um bækurn-
ar mínar yfirleitt, þá hef ég oft lesið að ég noti
alltaf ákveðna tegund upphafs til að leggja upp
með sögu. Þetta varð sérstaklega áberandi þeg-
ar Enduring Love kom út, en ég minnist þess
ekki að mikið hafi verið gert úr þessu fyrir þann
tíma,“ segir Ian, en viðurkennir um leið að
þetta stílbragð megi þó líklega í raun rekja allt
til The Cement Garden þar sem hvörfin í verk-
inu verða er börnin í sögunni ákveða að leyna
dauða móður sinnar með því að jarða hana sjálf
í kjallaranum heima hjá sér.
„Ég hef hreinlega ekki áhuga á bókmenntum
sem fjalla ekki um óvenjulegan atburð af ein-
hverju tagi. Með öðrum orðum má segja að ég
finni mig ekki snortinn af venjulegri hegðun
sem teygir sig yfir 350 blaðsíður – sem er lík-
lega ástæðan fyrir því að ég nenni ekki að lesa
tilfinningaþrungnar sögur um hjónaskilnaði,
barnæsku eða daglegt líf fólks. Mér virðist sem
Joyce hafi tekist að framkalla kraftaverk í
Ulysses (Ódysseifi), með því að skrifa um
hversdaglegt daglegt líf á máta sem hægt er að
yfirfæra á alla mannlega reynslu sem og á goð-
sögulegt hugarflug. En við hin þörfnumst samt
líklega skærari lita á litaspjald okkar ef við ætl-
um okkur að leggja upp í könnunarleiðangur.
Mér virðist næstum því óhjákvæmilegt að eitt-
hvað þurfi að gerast.
Litrík frásögn höfðar til mín og hefur alltaf
gert. Slík frásögn er nokkuð sem mér finnst t.d.
margir jafnaldrar mínir á meginlandi Evrópu
hafa misst tengslin við. Það er eins og módern-
istarnir hafi blásið þeim í brjóst skyldutilfinn-
ingu er leiðir þá inn í skáldsagnaheim tilvist-
arstefnunnar, en hann vekur ekki áhuga minn.
Minn áhugi hefur alltaf beinst að formi sem er
frekar einfalt og gamaldags, en hefur jafnframt
aðra hluti til að bera. Svo sem sterkan sögu-
þráð, niðurlag sem ekki er hægt að sjá fyrir,
takmarkaðar upplýsingar fyrir lesandann og
brögð af því tagi sem hægt er að beita á áhorf-
andann. Um það leyti sem ég skrifaði The Child
in Time, og alveg örugglega þegar ég skrifaði
The Innocent, hafði ég óskaplegan áhuga á per-
sónusköpun. Nítjándu aldar skáldsagan hafði
þegar náð fullkomnun á þessu sviði sem varð til
þess að tuttugustu aldar skáldsagan varð að
brjóta hana upp – og það má t.d. taka Beckett
sem dæmi um það.
En þegar ég fór að skrifa fannst mér kominn
tími til að raða skáldsögunni saman á nýja leik.
Mig langaði til að leggja áherslu á mikilvægi
persónusköpunar, skapa raunverulegar per-
sónur sem voru ekki bara útfærslur á manni
sjálfum, besta vini manns, eða eiginkonu – held-
ur skáldaðir persónuleikar. Og það var t.d. sá
metnaður sem lá að baki Atonement (Friðþæg-
ingin) og persónunnar Briony. Mig langaði til
að búa til persónu sem lesandinn fylgist með í
gegnum langt tímabil, í gegnum erfiðleika og að
lokum í gegnum uppgjörið á þeim erfiðleikum.“
Ástand mannsandans frekar
en firring einstaklingsins
Það er óhjákvæmilegt að spyrja þig um við-
horf þín til mannkynssögunnar í tengslum við
þessa síðustu bók þína, en eins og þú bendir á
þá spannar hún langan tíma og gerir söguleg-
um viðburðum skil á máta sem enn virðist eiga
erindi til okkar jafnvel svo löngu eftir að þeir
gerðust. Þú skilgreinir The Innocent sem sagn-
fræðilega skáldsögu þar sem hún fjallar um
endalok stríðsins, það sama má segja um Black
Dogs er fjallar um fall Berlínarmúrsins og fas-
ismann í Evrópu, og þá síðast en ekki síst
Atonement, en þar hverfur þú aftur til atburð-
anna í Dunkirk í seinna stríði. Bera þessar
bækur ef til vill vitni um tilraun þína til að end-
ursegja sögulega atburði frá nýjum sjónarhóli?
„Ætli það megi ekki hreinlega segja að eftir
því sem ég eldist og eftir því sem ég skrifa
meira, því meiri sagnfræði birtist í bókunum.
Tíminn sjálfur hefur því orðið að ákaflega mik-
ilvægum þætti. Um leið og áhugi minn á sagn-
fræði hefur aukist hefur þáttur firringar
minnkað í verkunum. Um leið og maður er far-
inn að fjalla um sagnfræði þá er maður farinn
að fjalla um ástand mannsandans frekar en ein-
angrun einstaklingsins. Ef maður hefur áhuga
á skáldskap sem ekki er hægt að skilgreina í
tíma eða rúmi – en það var það sem mér fannst
áhugaverðast þegar ég var að hefja minn feril,
enda var ég undir miklum áhrifum frá Kafka og
fannst persónur mínar vera eins konar sam-
nefnarar – þá verður útkoman öðruvísi. The
Cement Garden gerist t.d. ekki á neinum sér-
stökum stað og þó hægt sé að skilgreina per-
sónurnar þá reyndi ég mitt besta til þess að
nefna hvorki borg eða stað.“
En þú vinnur samt með mjög þröngt sögu-
svið í þeirri bók?
„Einmitt. Og það gefur mér sem höfundi
tækifæri til að leika mér með söguþráð sem
byggist á firringu og einangrunarkennd. Það
sama á við um Feneyjar í The Comfort of
Strangers, en ég lagði mikið á mig til þess að
komast hjá því að nefna borgina á nafn. Þessir
þættir hafa þó minna vægi í The Child Time og
enn minna í The Innocent. Ég hef reyndar aldr-
ei sagt þetta áður, en ég held að frá því um miðj-
an níunda áratuginn hafi ég orðið sífellt meira
upptekinn – ekki endilega í pólitískum skiln-
ingi, þó það hafi vissulega verið þáttur í því – af
því verkefni, eða ferli sem felst í því að vera
manneskja á tuttugustu öldinni. Mér finnst
ekki lengur eins og ég skrifi eða nenni að lesa
bókmenntir er fjalla um firringu eða einangrun.
Ég reyndi að lesa Nausea eftir Sartre fyrir
tveimur árum og fannst hún óskaplega leiðin-
leg. Í dag finnst mér mikilvægt að einhvers
konar átök eigi sér stað.“
Alheimsstraumarnir móta
líf einstaklingsins
„Ætli það megi ekki líka segja að sú saga sem
mér finnst áhugaverðust sé saga seinni hluta
tuttugustu aldarinnar, en það er auðvitað sú
saga sem ég hef lifað því ég er fæddur ’48. Þeir
meginstraumar sem hafa mótað þetta tímabil;
heimsstyrjöldin síðari, kalda stríðið og síðan
endir þess, vekja svo sannarlega áhuga minn –
það hvernig ógnarsterk öfl, alheimsstraumarn-
ir móta líf einstaklingsins.
Þegar ég var að vinna við þessa síðustu bók,
varð mér að sjálfsögðu hugsað til minnar eigin
fjölskyldu, en ég hafði eiginlega aldrei velt því
fyrir mér áður hversu sterkt fjölskylda mín var
mótuð af síðari heimsstyrjöldinni. Móðir mín
missti fyrri mann sinn 1944, en hann dó í inn-
rásinni í Normandí. Faðir minn var í Dunkirk,
særðist þar og var þess vegna settur í þann
starfa að þjálfa aðra hermenn og hitti þannig
móður mína. Þegar faðir minn særðist var hann
fluttur til Liverpool og lá þar á sama sjúkrahúsi
og faðir hans hafði legið á þegar hann særðist í
fyrri heimsstyrjöldinni.“
Blaðamaður skýtur því inn í að þetta séu eru
skrítnar staðreyndir að horfast í augu við fyrir
þjóð á borð við Íslendinga, sem aldrei hafa tekið
beinan þátt í stríði.
„Já,“ segir Ian og ítrekar að allar fjölskyldur
í Bretlandi hafi orðið fyrir margvíslegum missi
á borð við þann sem hans eigin varð fyrir.
„Fyrri tengdamóðir móður minnar missti ekki
einungis þann son sinn er mamma var gift,
heldur einnig tvo aðra syni sína, en þeir sigldu í
skipalestunum á Norður-Atlantshafi. Og ef
maður lítur á lífið með þeim hætti sem ég geri,
þ.e.a.s. út frá því að örlög manns séu ekki ráðin
fyrirfram, né heldur af forsjón eða Guði, heldur
af hendingu sem þröngvar sér tilviljanakennt
upp á fólk, þá má jafnvel líta svo á að það sem
varð til þess að faðir minn hitti móður mína, svo
manneskja á borð við mig fæddist, hafi verið
heimsstyrjöld. Ef hún hefði ekki komið til hefði
faðir minn verið í herþjónustu í Egyptalandi og
Indlandi þar sem hans herdeild þjónaði venju-
lega – og þá hefði hann aldrei hitt móður mína.“
Og þessa þætti tilverunnar rannsakar þú ein-
mitt fyrst í The Child in Time?
„Já, einmitt. Og það á afar sértækan hátt, þar
sem tíminn sem slíkur verður að umfjöllunar-
efninu verksins.“
Og þar kemurðu einnig beinlínis inn á upp-
runa einstaklingsins?
„Ja, eins og ég sagði þá er ég ekki forlagatrú-
ar,“ segir Ian og hikar, „en ég held að einn þátt-
ur í áhuga mínum á erfiðleikum og hamförum,
eða atvikum sem umbylta lífi fólks á augnabliki,
felist í því að þessi umbylting er afleiðing tilvilj-
ana. Ef Robbie í Atonement hefði ekki farið
einn út í myrkrið, ef hann hefði t.d. farið út með
Ceciliu, þá væri allt sem sagan segir frá með
öðrum hætti. Ef Briony hefði orðið eftir hjá
móður sinni, eins og hún næstum gerði, þá hefði
líka allt orðið öðruvísi. Mér finnst mjög áhuga-
vert að allt lífið skuli ákvarðast með þessum
hætti, mun áhugaverðara heldur en sú hug-
mynd að lífið gangi eftir fyrirfram ákveðnu
mynstri, eða að örlög okkar séu ákveðin á þann
hátt að eitthvað sé óhjákvæmilegt.
Stundum lendir maður í því – og þú hlýtur að
hafa upplifað það líka – að umferðin hægir á sér
og maður keyrir framhjá bílslysi. Það fyrsta
sem mér dettur í hug er að þetta fólk hafi verið
á leið eitthvert alveg eins og ég, en líf þess hafi
nú tekið algjörum stakkaskiptum eða jafnvel
verið lögð í rúst.“
Sem minnir á kaflann í The Child in Time þar
sem bílslysi er lýst í eins konar hægagangi?
„Já, og ef þetta fólk hefði lagt af stað mínútu
seinna eða augnabliki fyrr – ekki farið aftur inn
til að ná í jakkann sinn eða eitthvað þess háttar,
þá hefði það kannski ekki lent í árekstrinum.
STÆRRI MYNDFLÖT
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. APRÍL 2002 5
SÍÐASTA bók Ians McEwans, Atonement
hefur notið fádæma vinsælda og hlotið lof-
samleg ummæli margra þeirra sem hann
hafði aldrei áður átt upp á pallborðið hjá.
Bókin þykir sýna vel hversu góð tök Ian
hefur á stóru sögusviði, þar sem heims-
styrjöld, ást og stéttskipting ensks sam-
félags eru efniviður sálfræðilegs uppgjörs
sektar og fyrirgefningar. Að auki er
Atonement athyglisverð rannsókn á hlut-
verki höfundarins sjálfs í skáldskapnum,
því aðalsöguhetjan, Briony, er rithöfundur
sem finnur sig knúna til að takast á við af-
stæði sannleikans. Eftirfarandi brot er úr
upphafi bókarinnar og lýsir því hvernig
hinn ungi og efnilegi lágstéttarpiltur,
Robbie, er látinn sæta ábyrgð fyrir atvik er
var í raun ekki honum að kenna, en það
þjónar sem einskonar „pars pro toto“, eða
hluti fyrir heild, í samhengi sögunnar.
Glíma Celiu, eldri systur Briony, og Robbie
á að stórum hluta til rót sína að rekja í
vaknandi áhuga þeirra á hvort öðru en
samdráttur þeirra er erfiðleikum bundinn
vegna stéttaskiptingar. Smávægilegt atvik-
ið, sem hverfist um verðmætan postulíns-
vasa er brotnar fyrir slysni, hrindir af stað
afdrifaríkri atburðarás þar sem þau verða
bæði fórnalömb ímyndunarafls Briony.
„Celia and Robbie frusu í stellingum
átakanna. Augu þeirra mættust og það sem
hún sá í göróttri blöndu af grænu og app-
elsínugulu var ekki geðshræring, eða sekt-
arkennd, heldur einhverskonar ögrun, eða
jafnvel sigur. Hún var nógu yfirveguð til að
leggja ónýtan vasann aftur frá sér á þrepið
áður en hún horfðist í augu við þýðingu
slyssins. Hún vissi að það var ómótstæðilegt
og jafnvel yndislegt, að því alvarlegra sem
það var, því verra yrði það fyrir Robbie.
Frændi hennar sem féll, hinn ástkæri bróð-
ir föður hennar, eyðilegging stríðsins,
hættuförin yfir ána, verðmæti sem ekki var
hægt að meta til fjár, hetjuskapurinn og
góðmennskan, öll árin sem fólust í sögu
vasans allt aftur til snilligáfu Horoldt, og
fyrir hans tíð leikni leirkerasmiðanna sem
höfðu uppgötvað leyndardóma postulínsins.
„Hálfvitinn þinn! Sjáðu hvað þú ert búinn
að gera.“
Hann horfði niður í vatnið, síðan leit
hann aftur á hana, og hristi einfaldlega
höfuðið um leið og hann lyfti hendinni til að
hylja á sér munninn. Með þeirri hreyfingu
hafði hann tekið á sig fulla ábyrgð, en á því
augnabliki hataði hún hann samt fyrir
ófullnægjandi viðbrögð hans. Hann horfði
yfir að gosbrunninum og andvarpaði. Eitt
augnablik hélt hann að hún væri í þann
veginn að stíga aftur fyrir sig á vasann,
lyfti hendinni og benti, þó hann segði ekk-
ert. Þess í stað byrjaði hann að hneppa
skyrtunni frá sér. Hún sá um leið hvað
hann ætlaði sér. Óþolandi. Hann hafði
heimsótt þau og farið úr skónum og sokk-
unum – jæja, hún myndi sýna honum í tvo
heimana. Hún sparkaði af sér sandölunum,
hneppti blússunni frá sér og fór úr henni,
losaði pilsið sitt, steig upp úr því og fór yfir
að veggnum umhverfis gosbrunninn. Hann
stóð með hendur á mjöðmum og starði á
hana klifra ofan í vatnið á undirfötunum.
Afneitun á aðstoð hans, á nokkrum mögu-
leika á að bæta úr hlutunum, það var refs-
ing hans. Vatnið, óvænt svo ískalt að hún
tók andköf, var refsing hans. Hún hélt niðri
í sér andanum og sökk, svo hárið á henni
breiddist út á yfirborðinu. Hún myndi
drekkja sér og það yrði refsing hans.“ (Úr
Atonement eftir Ian McEwan, bls. 29-30,
Fríða Björk Ingvarsdóttir sneri úr ensku.)
BROT ÚR ATONEMENT
Bókin Atonement, eða Friðþægingin, er
nýjasta skáldsaga Ian McEwan og nýtur
fádæma vinsælda í Bretlandi um þessar
mundir. Hann fjallar þar m.a. um óljós
mörk skáldskapar og raunveruleika í
tengslum við hefðbundið sögusvið bresks
samfélags á tuttugustu öld.
Morgunblaðið/Þorkell