Lesbók Morgunblaðsins - 04.05.2002, Page 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 4. MAÍ 2002 7
kemur fyrir á opinberum vettvangi lífs síns, en
það eru þessir andstæðu þættir sem ég hef
áhuga á að kljást við í skáldskapnum. Mér
finnst ég stöðugt uppgötva nýjar leiðir til að
nálgast þessi tengsl, enda er augljóst að maður
stendur ekki frammi fyrir miklu vali þegar
maður ákveður um hvað maður vill skrifa, mað-
ur er alltaf að skrifa sömu sögurnar,“ segir
Michèle og slær á létta strengi.
„Annars hefur það verið að renna upp fyrir
mér að ég hef haft ríkari tilhneigingu en áður til
að skrifa um karla að undanförnu. Það er þó
ekki vegna þess að ég hafi glatað áhuga mínum
á konum, síður en svo, en staðreyndin er þó sú
að ef maður skrifar um konur og notar orðið
„kona“ í því samhengi þá eru verk manns skil-
greind eins og þau tilheyri í flokki sem er í and-
stöðu við bókmenntir karla. Ég hef svo sem
ekki átt mikinn þátt í því að skilgreina merking-
armyndir orðsins „kona“,“ segir hún hógvær,
„en þrátt fyrir það hef ég þurft að hugsa um
hvað orðið „karl“ þýðir og hvað það felur í sér. Í
augnablikinu má enda merkja ákveðin straum-
hvörf í lífi margra karla og umræða um hlut-
verk karlmannsins er þegar í gangi. Orðið
„karl“ vekur því upp margar spurningar sem
athyglisvert er að skrifa um, rétt eins og ég
gerði í Impossible Saints.“
Michèle hefur ekki vikið sér undan því að
fjalla um hið stóra sögusvið mannkynssögunnar
í verkum sínum, jafnvel þótt það sé yfirleitt með
óbeinum hætti, en á síðustu 6–8 árum hefur
skáldskapur með sögulegu ívafi átt auknu fylgi
að fagna í Bretlandi. Í The Daughters of the
House segir hún átakasögu Breta, Frakka og
Þjóðverja með því að brjóta upp sjálfsmynd og
blekkingarvef þjóðerniskenndar og samsömun-
ar í lífi tveggja kvenna. Söguna segir hún í
brotakenndri frásögn er endurómar það nið-
urbrot sem á sér stað meðal persónanna og
bera brotin heiti hversdagslegra hluta er til-
heyra heimilinu; svo sem Myndaalbúmið, Sápu-
skálin og Lykillinn, en þannig verður lesand-
anum smám saman ljóst að styrjöldin var ekki
einungis háð á vígvöllunum, heldur náði hún
einnig að helgustu véum allra þeirra sem lifðu
þessa tíma.
„Lengi framan af var augljóslega alltaf geng-
ið framhjá þessari staðreynd og það er ekki fyrr
en á síðustu 50 árum að umfjöllun um sögulegt
samhengi fór að breytast. Breytingarnar má í
rauninni rekja til áhrifa af sósíalisma, þar sem
„venjulegt“ fólk var álitið eiga hlutdeild í sög-
unni. Þau form sem notuð eru til tjáningar hafa
einnig breyst og merkja má mun meiri áhuga á
sögu smáu eininganna – mikrósögunni – heldur
en áður var. Mér finnst þessi þróun mjög
áhugaverð, en það sem mér finnst þó sérstak-
lega heillandi er fólk sem lifði í annarri sögu en
ég sjálf, ef svo má að orði komast, fólk sem ég
hef einungis óljósa sýn á eða þekki jafnvel ein-
ungis úr draumum eða hálfgerðum ofskynjun-
um, í gegnum raddir sem ofsækja mig,“ segir
Michèle og brosir, „ég verð að leggja eyrun eftir
þessum röddum, greina hvað þær eru að segja
og skrifa það niður.“
Áttu þá við fólk sem hefur verið afskrifað í
sögunni, frekar en fólk sem hefur gleymst?
„Já einmitt. Við getum tekið sem dæmi sög-
urnar í Impossible Saints. Saga kvenna hefur
verið látin liggja á milli hluta, nema þegar þær
hegða sér illa. Konur eru nefndar í sagnfræði-
legum skjölum, svo sem þegar þær eru dregnar
fyrir rétt eða eitthvað þess háttar. Þær birtast
okkur þannig opinberlega sem illvirkjar, en allt
annað úr lífi þeirra er okkur hulin ráðgáta þar
sem þess er hvergi getið. Hin óljósa tilvist þess-
ara kvenna vekur áhuga minn, eða öllu heldur
þau slitróttu merki sem finna má um hana. Ég
les mjög mikið af sögulegu efni, sérstaklega af
þessari nýju tegund sagnfræðirannsókna þar
sem menn hafa sökkt sér í skjalageymslur til að
rannsaka t.d. dómsskjöl, sem síðar vekur upp
forvitni um það hvað konur voru að gera í líf-
isínu sem ekki var skráð. Það er líka athygl-
isvert að sjá hvaða glæpi konur eru ásakaðar
um. Þeir tengjast oft kynlífi, svo sem því að eiga
barn utan hjónabands eða því að hafa verið hjá-
kona einhvers.
Kvenrithöfundur er eins og trúleysingi
Svo má ekki gleyma trúleysingjunum, því
Rannsóknarrétturinn geymdi t.d. mjög ítalegar
skýrslur sem eru frábær uppspretta heimilda
um konur á miðöldum og allt fram yfir end-
urreisnartímann. Þær eru nú að koma fram í
dagsljósið sem hluti af þeirri arfleið er kirkjan
býr yfir. Sjálf sé ég einmitt kvenrithöfundinn
fyrir mér innan þessa myndmáls; kvenrithöf-
undurinn er trúleysinginn sem skrifar gegn
þeirri vitneskju sem er álitin algild í samfélag-
inu. Mér finnst því á einhvern hátt eins og ég
hafi náð sambandi við hina dauðu þegar ég er að
skrifa um sögulegt efni. Ég heyri þessar raddir
og verð forvitin um þær, sem eflaust tengist
þeim áhuga sem ég hef alltaf haft á þeim sem
eru kúgaðir er bældir. Maður spyr sig hverju
hafi ekki verið sagt frá og reynir svo að lesa á
milli línanna, en það er einmitt eitt helsta hlut-
verk rithöfunda. Þeir eiga að skapa eitthvað úr
þeim efniviði sem ekki hefur þegar verið komið
á framfæri,“ segir Michèle ákveðin.
„Ef maður er einungis að endurvinna það
sem aðrir hafa þegar sagt, þá hlýtur það að
verða óskaplega leiðinlegt. Þess vegna finnst
mér t.d hefðbundnar flækjur í skáldverkum
frekar þreytandi. Fólk er alltaf að spyrja mig
hvort ég þurfi ekki að vita fyrirfram hvernig
skáldsagan sem ég er að skrifa eigi að enda.
Alls ekki, þvert á móti, svara ég, því ég gæti
aldrei klárað sögu á þeim nótum, mér myndi
leiðast svo!“ segir hún og hlær dátt.
Þú vinnur þá eftir aðferðum sem sprottið
hafa upp úr póstmódernismanum, þar sem búið
er að viðurkenna að sögur fara sínar eigin krók-
óttu leiðir og byggingin er ekki lengur línuleg
heldur meira eins og minnið sjálft?
„Einmitt, og ég held að þessi samlíking við
minnið eigi einstaklega vel við. Ef manni tekst
að kortleggja bók með þeim hætti þá opnar það
um leið möguleikann á því að skapa eitthvað
áhugavert.“
En þegar þú talar um að rannsaka dulvitund-
ina, ertu þá að vísa til freudískra aðferða eða
einhvers annars?
„Ætli ég sé ekki að vísa í Freud. Í mínum
huga hefur dulvitundin tvíþætta merkingu; hún
er eins og staður sem er samnefnari ímynd-
unaraflsins – og ég sé þennan stað fyrir mér
sem innri veruleika sem nær yfir ótrúlega um-
fangsmikinn alheim sem ég get nálgast með
ýmsum leiðum, svo sem í gegnum mín skapandi
skrif, í gegnum hugsunina o.s.frv. En dulvit-
undin felur einnig í sér virka leið til tjáningar og
tengist þannig ástríðum manns, endurminning-
um og því sem maður gleymir, viljandi eða óvilj-
andi. Dulvitundin er því eins og sögn og nafnorð
í senn þegar hún er afhjúpuð,“ útskýrir Mich-
èle, en hún hefur lesið mikið um sálgreiningu
sem alltaf hefur heillað hana. „Þegar ég var í
háskóla lærði ég mikið um miðaldabókmenntir,
en ég lærði alls ekkert um það hvernig ég ætti
að beita huganum. Okkur var ekki kennt að
hugsa. Ég tók því hlutverk mitt sem ung upp-
reisnarkona alvarlega, ég var í marxískum les-
hring og freudískum leshring,“ segir hún hlæj-
andi, „og þar lærði ég að hugsa.“
Fólk bregst illa við femínisma
Nú virðist manni sem margir rithöfundar
samtímans, – þeir sem eru kynslóð yngri en þú
– hugsi með allt öðrum hætti?
„Já, þeir hugsa allt öðruvísi. Annars er mjög
áhugavert að sjá nýja kynslóð koma til sögunn-
ar, en það sem vekur athygli mína er hversu
„svalir“ margir þessir höfundar eru, þeir eru
svo háðskir í verkum sínum sem þó eru mjög
fáguð og fullkomin á yfirborðinu.“
Heldurðu að sú umræða sem kom fram á sjö-
unda áratugnum, t.d. hvað femínisma og marx-
isma áhærir, hafi ekki haft þau áhrif sem fólk
vonaðist eftir?
„Marxismi laut auðvitað í lægra haldi fyrir al-
þjóðlegum kapítalisma, en það breytir ekki
þeirri staðreynd að öll sú þjóðfélagsumræða
sem átti sér stað á sínum tíma í tengslum við
hann hefur haft svo djúpstæð áhrif á líf almenn-
ings að fólk gerir sér ekki einu sinni grein fyrir
hvaðan áhrifin koma. Nákvæmlega það sama á
við um femínisma. Ungar konur í dag fyrirlíta
og hafa ímugust á femínisma en gera sér um
leið litla grein fyrir því að án kynslóðar mæðra
þeirra sem börðust fyrir réttindum kvenna,
myndu þær ekki njóta þess umfangsmikla frels-
is sem þær gera í dag. Að vísu er enn til mikið af
fólki sem finnst femínísk aðferðafræði og hugs-
un mikils virði, en það er þó meira undir yf-
irborðinu. Sjálf er ég mjög meðvituð um að nota
ekki orðið femínismi mikið, því það er ótrúlegt
hvað fólk bregst illa við því. Ég kýs því frekar
að tala óbeint um þessi málefni, enda myndi ég
hvort eð er aldrei predika pólistísk skilaboð fyr-
ir lesendum mínum eða viðmælendum á opin-
berum vettvangi. Það á sérstaklega við þegar
ég er að tala við ungt fólk, þá reyni ég iðulega að
koma pólitískum skilaboðum á framfæri með
óbeinum hætti, ég vel orð mín þannig að þau
trufli engan.“
Talið berst að mismunandi viðhorfum til fem-
ínisma, í hinum ýmsu Evrópulöndum og í
Bandaríkjunum, og þeirrar þversagnar sem
felst í því að orðið skuli víðast hvar hafa yfir sér
blæ skammaryrðis. Blaðamaður segist þó vona
að ástandið sé aðeins skárra á Íslandi og í
Skandinavíu en annars staðar þar sem hún
þekkir til þó ekki sé hægt að neita því að við-
brögð við femínískri orðræðu eru oft mjög nei-
kvæð.
Michèle segir Frakka sérstaklega óvinveitta
femínisma, „enda eru hugmyndir þeirra um
hlutverk kynjanna ótrúlega fastmótuð og
stöðnuð. Sem kona er maður á margan hátt for-
réttindavera í Frakklandi, en kvenhlutverkinu
þar fylgja líka mikil höft. Það er því ákaflega
erfitt að brjótast undan viðteknum hugmynd-
um um hvernig maður á að hegða sér og hvað
þykir tilhlýðilegt að maður geri. Annars hef ég
mestar áhyggjur af því hversu unga kynslóðin
telur sig örugga og hversu lítinn áhuga hún sýn-
ir réttindum kvenna – og þá á ég ekki bara við
unga karlmenn, heldur ekki síður ungar konur.
Það er eins og það vanti alla pólitíska vitund í þá
kynslóð sem er að vaxa upp. En einhverntíma
kemur að því að þessir krakkar fara út í sam-
félagið og reka sig á veggi. Ef til vill liggur
vandinn að hluta til í því að vettvangur samtím-
ans er að verða einsleitari á flestum sviðum.“
Michèle segir sömu þróun vera að eiga sér
stað í bókmenntum, „það er mjög mikið til af
ungum rithöfundum sem kunna vel til verka,
eins og ég var að segja áðan – sem skrifa þessar
fáguðu, fyndnu og klóku bækur. En ég velti því
stundum fyrir mér hvort þessi verk gætu ekki
verið meira hvetjandi sem bókmenntir, og
hvort ekki mætti leggja meiri áherslu á form-
tilraunir og frumleika. Það er einnig dálítið
áberandi hversu gömlu skiptingarnar á milli
kven- og karlrithöfunda skipta orðið miklu máli
á nýjan leik,“ segir Michèle og andvarpar hlæj-
andi, „ég sem hélt að það væri liðin tíð! Nú eru
þessar hræðilegu andstæður í bókmenntunum
komnar upp aftur í formi „skutlurita“ annars
vegar og „alvarlegra“ karlrithöfunda hins veg-
ar. Ég trúi því varla að þetta sé að eiga sér stað,
eftir allt það sem búið er að gera til að konur séu
teknar alvarlega. Dagbók Bridget Jones ýtti
skriðunni af stað og nú flæða fram bækur af
sama toga. Í sjálfu sér er ekkert að því að skrifa
á þessum nótum, en þegar bókmenntir af þessu
tagi verða til þess að ýta ungum stúlkum út í
ákveðið hegðunarmunstur, þá finnst mér það
hreint út sagt hræðilegt.“
Líkaminn aftur inn í
menningarumræðuna
Af orðum Michèle má marka að henni finnst
umræðunni um stöðu kvenna í samfélaginu að
ýmsu leyti hafa farið aftur. Við veltum dálítið
vöngum yfir því hvort eitthvað af þessum til-
hneigingum megi rekja til þess að fólk fyllist
íhaldssemi og þrái formfestu horfinnar tíðar
þegar tímamót á borð við aldamót eiga sér stað.
„Mér finnst eins og nýaldarspeki af öllu tagi
hafi farið út böndunum við lok tuttugustu aldar.
En það er ef til vill einungis enn ein birting-
armynd póstmódernismans, þar sem veruleik-
inn er bara eins og stór verslun þar sem maður
getur nálgast hitt og þetta úr andlegum veru-
leika og steypt það saman að eigin geðþótta til
að mynda sín persónulegu trúarbrögð. Fólk er
knúið áfram af löngun til að útskýra hugsanleg-
an heimsendi eða komu antíkrists, en mér
finnst ég sjá alltof mikið af þessháttar brjálsem-
ishugmyndum á sveimi. En svo er að sjálfsögðu
margt skemmtilegt á ferðinni og meðal þess
sem vekur athygli mína er ótrúlegur áhugi á
mannslíkamanum og þeim fagurfræðilegu
möguleikum sem í honum felast. Við sjáum
þetta t.d. vel í nútímadansi, þar sem framfar-
irnar eru sláandi og þá ekki síður í myndlist
listamanna á borð við Söruh Lucas og Tracey
Emin, en þau má að einhverju leyti rekja til
verka Helenar Chadwick, sem dó sorglega ung.
Hún bjó til fræga gosbrunna úr súkkulaði og
blóm úr ís, auk þess að vinna með birtingar-
myndir mannslíkamans sem einnig tengjast
hinu vitræna í lífi okkar. Það er einna helst á
þessum sviðum sem mér finnst ég sjá tengsl við
það sem mín kynslóð var að gera á sjöunda og
áttunda áratugnum. Okkur langaði til að koma
líkamanum aftur inn í menningarumræðuna og
mér finnst mjög fallegt að sjá það gerast í verk-
um þessara listamanna, þótt það sé í öðru list-
rænu samhengi heldur en hjá okkur.
Annars get ég haldið áfram að rekja þessa
þróun í samtímanum því ég held að við séum
ekki einungis mjög upptekin af líkamanum,
heldur einnig af hinum dauða líkama. Sjálf er ég
afskaplega upptekin af þessum efniviði og er
t.d. í augnablikinu að skrifa bók um dauðann og
drauga. Ég hef orðið vör við að aðrir skáld-
sagnahöfundar eru að fást við skyld þemu og
menn eru að kanna hvað gerist í þessu sam-
hengi þegar við höfum ekki kristin trúarbrögð
til að reiða okkur á í sama mæli og áður. Við höf-
um misst sjónar af lífinu eftir dauðann og velt-
um því fyrir okkur hvað eða hvert okkar himna-
ríki sé. Í borgarsamfélagi eins og við þekkjum í
dag, þar sem siðmenningin hefur náð ákveðnu
stigi meðal millistéttanna, eru hugmyndir um
drauga algjörlega á skjön við allt sem við við-
urkennum. Samt sem áður er það svo – og mér
finnst það algjörlega heillandi – að ef maður
byggir upp traust við manneskju þá er næsta
víst að hún geti dregið einhverja yfirnáttúru-
lega reynslu upp á yfirborðið sagt þér frá henni
í trúnaði þótt hún myndi aldrei gangast við
henni opinberlega af ótta við að verða að at-
hlægi. Í sveitinni í Frakklandi, þar sem sam-
félagið er frumstæðara í einhverjum skilningi,
er mun meira um þjóðsögur og hjátrú heldur en
hér í London, umræðan er opnari og því er auð-
veldara að koma auga á þetta þar. Á ferðum
mínum fram og til baka hefur þetta smám sam-
an runnið upp fyrir mér.“
Það er langt liðið á kvöld og ágætt að hætta
spjallinu á því augnabliki þegar samtalið leitar
aftur í sama farveg og við hófum það. Michèle
segir blaðamanni að einu sinni hafi henni þótt
þetta flakk sitt á milli tveggja heima bera merki
um hálfgerða taugaveiklun. „Ég var endalaust
að fara fram og til baka og ímyndaði mér að það
væri ekki hægt að lifa lífinu þannig. Núna finnst
mér hins vegar þessi lífsstíll vera hluti af sjálfri
mér, ég bý í tveimur menningarheimum og það
hefur líklega mótað sjálfsímynd mína meira en
nokkuð annað.“
fbi@mbl.is
Eftirfarandi brot er úr sög-
unni Daughters of the House,
eða Dætur hússins, eftir Mic-
hèle Roberts, en fyrir þá bók
var hún tilnefnd til Book-
erverðlaunanna árið 1992,
auk þess sem hún vann W.H.
Smith bókmenntaverðlaunin
fyrir verkið árið 1993. Sagan
er ekki síst athyglisverð fyrir
þær sakir að Michèle, sem er
tvítyngd og býr í bæði í Eng-
landi og Frakklandi, rann-
sakar þar afstæði og þýðingu
þjóðernis við mótun sjálfs-
ímyndarinnar í lífi tveggja
stúlkna, þeirra Léonie og
Theresu, á tímum heimsstyrj-
aldarinnar síðari en þjóð-
ernið skipti að sjálfsögðu
sköpum í þeim átökum sem
þá áttu sér stað. Michèle lýsir hér ferðalagi
stúlkunnar Léonie með móður sinni Made-
laine yfir Ermarsundið þar sem tungu-
málin tvö mætast á miðri leið um leið og
hún sjálf skiptir um þjóðerni:
La Manche var það kallað á frönsku. Til
að nálgast frönsku fór maður yfir hafið.
Hljómfallið í frönsku fór upp og niður eins
og öldugangur. Franska var framandi þeg-
ar maður var langt í burtu, kunnugleg þeg-
ar maður var nálægt. [...] Franska var
nokkuð sem Léonie gleymdi að hún gat tal-
að. Sór að hún gæti ekki talað. Enska fólkið
í úthverfinu þar sem hún bjó fyrirleit og
hataði alla útlendinga. Niggarar og hrís-
grjónaætur voru þeir kallaðir. Júðar. Börn
og fullorðnir sömuleiðis, kölluðu Léonie
fransara. Þau byrjuðu að læra frönsku á
síðustu önn í barnaskólanum. Léonie upp-
götvaði að þó henni hefði aldrei verið
kennd ein einasta málfræðiregla gat hún
talað málið fullkomlega. Og núna renndi
báturinn henni yfir til þess,
agnarsmár á svörtum sjón-
um. Hún var falin innan-
borðs. Hún reið á stórum
öldukambi munnvatns, frá
einni tungu, einu vatns-
bragði, til annars.
Því um leið og þær skildu
við England þá skildu þær
við enska tungu. Kunnugleg
orð leystust upp í vind og
saltan úða, sem var plægður
aftur niður í froðu, í dimm-
an kaldan sjóinn þar sem
skrímsli syntu í botnlausu
djúpinu, án nokkurs þekkts
þjóðernis. Hálfa leiðina yfir,
þar sem Ermarsundið varð
La Manche, tók tungumálið
á sig mynd á ný, reis upp úr
öldunum og varð franska. Á
meðan Madeleine hraut í neðri kojunni
barðist Léonie við að halda sér vakandi, til
að finna á hvaða einstaka augnabliki, ná-
kvæmlega á miðju sundsins, hnífjafnt frá
báðum ströndum, veggir vatns og orða
mættust, föðmuðust blautt og þétt, runnu
saman, skapaðir úr hljóðum hvors annars.
Því á þessu augnabliki fann hún hið sanna
tungumál. Óháð aðskildum orðum, eins
heilt og vatn, bar það hana með sér sem
hluta af sjálfu sér, gullinn straumur sem
tengdi allt, leynilækur sem rann neð-
anjarðar, hinn djúpi brunnur, uppspretta
lífsins, flóð sem reið í gegnum hana, saltur
brotsjór á hennar eigin ströndum, straum-
ur af orðum og ó-orðum, raddir sem köll-
uðu sundurslitnum tónum, bergmáluðu,
lofuðu alsælu.
Síðan hristist báturinn áfram. Hann yf-
irgaf ensku og hélt í áttina að frönsku.
(Úr óbirtri þýðingu Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur á
Dætur hússins,eftir Michèle Roberts.)
Bókin Dætur hússins var
útnefnd til Bookerverð-
launanna árið 1992.
BROT ÚR DÆTRUM
HÚSSINS