Lesbók Morgunblaðsins - 13.07.2002, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 13.07.2002, Blaðsíða 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. JÚLÍ 2002 3 F YRIR 20 árum tók ég þátt í stóru verkefni á vegum þjóð- háttadeildar Þjóðminjasafns- ins. Styrkur fékkst frá heil- brigðisráðuneytinu til að taka viðtöl við aldraða Íslendinga á elliheimilum víða um land. Gamla fólkið var spurt í þaula um æsku og uppeldi, mataræði og vinnu, húsakost og ýmislegt fleira sem var að finna á spurningalistum þjóðháttadeild- arinnar. Hundruð karla og kvenna fengu heimsókn og allt var samviskusamlega skráð niður. Á Hrafnistu ræddi ég við eldhressan gamlan bónda ofan úr Borgarfirði, Geir Guðmundsson, sem hafði frá mörgu að segja. Það sem mér er þó minnisstæðast er frásögn hans af uppruna glæsilegrar „mublu“ sem hann hafði hjá sér í herberg- inu. Þetta var stórt og mikið skatthol sem hann sagði komið úr búi læknisins Struen- ses. Þegar danski aðallinn tók sig saman og steypti hinum upplýsta þýska lækni af stóli 1772, fékk lýðurinn að ganga um hús hans til að hirða það sem hugurinn girntist. For- faðir Geirs sem var við nám í Danmörku var þeirra á meðal og lagði á sig að koma skattholinu til Íslands þar sem það hefur varðveist til þessa dags. Ef ég man rétt er sagan af skattholinu skjalfest í viðtalinu við Geir Guðmundsson. Í áranna rás hef ég stundum velt fyrir mér hvað hafi orðið um gripinn og viti menn, nú í vikunni var upp- lýst að hann er kominn í hendur Haraldar Blöndal lögfræðings sem eflaust kann að meta þessa sögulegu gersemi. Viðtal við hann varð kveikjan að þessum hugleið- ingum mínum um Struense og söguna Sumir atburðir í sögu þjóða eru með þeim hætti að þeir kalla sífellt á nýja skoð- un. Um túlkun þeirra næst ekki sátt. Oft kemur til nýtt sjónarhorn eða nýjar kenn- ingar sem leiða til þess að sögulegt ferli er skoðað upp á nýtt. Stundum er verið að reyna að finna nýjar skýringar á óþægileg- um staðreyndum sem erfitt er að sætta sig við, stundum hefur heimildum verið stung- ið undir stól og leiða þarf sannleikann í ljós. Eitt dæmi um slíkan atburð úr danskri sögu er fall líflæknisins Struenses og af- taka hans árið 1772, sem varð til þess að ís- lenskur bóndi eignaðist glæsilegt skatthol. Örfáum árum síðar hefði líflæknir kóngsins sloppið með lífstíðardóm eða útlegð, er hugmynda upplýsingastefnunnar tók að gæta í Danaveldi t.d. um réttindi fanga og réttinn til lífsins. Struense var ekið í opnum vagni að af- tökustað þar sem hann var líflátinn og líkið sundurlimað að þeirra tíma hætti. Hann hafði unnið það sér til óhelgi að verða of valdamikill, hann hélt við drottninguna og greip til ýmissa aðgerða í anda upplýs- ingastefnunnar sem ekki voru aðlinum að skapi, enda sumar þeirra heldur óskyn- samlegar miðað við stöðu mála. Struense rak t.d. fjölda embættismanna sem flestir voru aðalsmenn og lítt líklegir til afreka í þágu lands og þjóðar. Struense svipti þá um leið eftirlaunum en því kunnu þeir að vonum illa. Aðalsmenn efndu til samblást- urs gegn lækninum náðu honum á sitt vald sem og drottningunni, dæmdu hann til dauða en settu drottningu í einangrun. Aumingja kóngurinn sem var fárveikur fékk litlum vörnum við komið. Aðallinn stýrði för. Danskir sagnfræðingar hafa margsinnis fjallað um þessa atburði, sem þykja heldur leiðinlegir til afspurnar ekki síst vegna þeirrar miklu grimmdar og villimennsku sem einkenndu aðfarir aðalsins, þar á með- al sú aðgerð að beita lýðnum á hús Struens- es. Það eru þó ekki sagnfræðingarnir sem dregið hafa athyglina að Struensetímanum að undanförnu heldur sænski rithöfund- urinn Per Olov Enquist sem valdi sér þessa atburði að yrkisefni. Saga hans er nýkomin út á íslensku og er afar athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Ekki veit ég hvort hægt er að segja að Enquist varpi nýju ljósi á söguna, en hann sýnir hana svo sann- arlega frá ýmsum hliðum. Þegar ég las fyrstu kafla bókarinnar varð mér hugsað, skyldi þetta vera rétt? Hvaðan hefur hann þetta? Ég fletti upp í gömlu dönsku lexikoni í Þjóðarbókhlöðunni og þar kom í ljós að Enquist fylgir mjög ná- kvæmlega þeim heimildum sem til eru um þennan átakatíma og dregur ekkert undan. Það sem vakti spurningar hjá mér var meðferðin á kónginum, Kristjáni 7., en hann átti ekki sjö dagana sæla. Faðir hans, Kristján 6., drakk sig í hel og móðirin skipti sér ekkert af prinsinum, enda ekki til þess ætlast. Hann var settur í hendur umsjón- armanna og kennara sem sumir beittu hann miklu harðræði, þar á meðal bar- smíðum. Drengurinn var algjörlega brot- inn niður og vissi aldrei hvers vegna verið var að refsa honum, hann skildi ekki mun á réttu og röngu og var fullur af alls kyns ranghugmyndum. Hann dreymdi um að verða bjargað úr þessari hræðilegu prísund hallarinnar, en sat blýfastur í valdaneti að- alsins. Einn kennara prinsins skrifaði end- urminningar sínar frá vistinni við hirðina og lýsir þar þeirri hörmulegu meðferð sem prinsinn sætti og gerði hann illa geðveikan. Inn í spillt líf hirðarinnar kom læknirinn Struense, maður upplýsingarinnar og nýrra hugmynda um samfélagið og réttindi þegnanna. Hann reis til mikilla valda á stuttum tíma og tók að sér hina ungu ensku drottningu en saga hennar var litlu skrárri en saga hennar vesalings ektamaka. Kóng- ur og drottning höfðu afar lítinn áhuga hvort á öðru, en hlutverk þeirra var auðvit- að að sjá konungsríkinu fyrir nýjum erf- ingjum. Milli drottningar og læknisins tók- ust ástir, þau áttu börn saman og þar með varð fjandinn laus við hirðina. Píetistar og púritanar 18. aldarinnar áttu erfitt með að þola slíka lifnaðarhætti við hirðina, þótt þeir væru sjálfir gjörspilltir af valdabrölti og auðsöfnun. Þetta er ljót saga og skilj- anlegt að Dönum sé ekki skemmt við að rifja hana upp. Bók Enquists hefur þó verið mikið lesin og fengið feikigóða dóma. Til skamms tíma var hún efst á sölulistum bóka í Danmörku. Við verðum öll að lifa með fortíðinni og þekkja söguna. Hér er ekki rúm til að ræða hvort Stru- ensetíminn í Danmörku hafði önnur áhrif hér uppi á Íslandi en þau að borgfirskur námsmaður komst yfir glæsilegt skatthol. Eflaust hafa Íslendingar fylgst með þess- um tíðindum og þótt mikið um. Þess má minnast að í Íslandsklukku Halldórs Lax- ness sem gerist nokkrum áratugum áður en Struense kom til Kaupinhafnar var Jóni Hreggviðssyni refsað harðlega fyrir að gefa í skyn að kóngurinn hefði tekið sér frillu og það þá þriðju. Það var því eins gott að tala varlega um kóngaslektið þótt mikið gengi á. Íslendingar fengu líka um nóg að hugsa nokkru síðar því eldgos og jarð- skjálftar gerðu næstum út af við þjóðina. Það kom í hlut arftaka Struenses að glíma við þann vanda af spilltum mætti. Já, vegir sögunnar eru undarlegir og spennandi. LÍFLÆKNIR GENGUR AFTUR RABB K R I S T Í N Á S T G E I R S D Ó T T I R k r a s t @ s i m n e t . i s FORSÍÐUMYNDIN er af Ásmundi Sveinssyni og eiginkonu hans, Ingrid. Ljósmyndari: Ólafur K. Magnússon. Kona listamannsins nefnist grein Freysteins Jóhannssonar þar sem hann rifjar upp sögur nokkurra eig- inkvenna íslenskra listamanna og þátt þeirra í íslenskri myndlistarsögu. Hann ræðir meðal annars við Ástu Eiríksdóttur, ekkju Svavars Guðnasonar. Dyr/Portal er sýning tveggja myndlistarkvenna, frá Íslandi og Colorado, sem stendur nú yfir í Listasafni ASÍ við Freyjugötu. Inga María Leifsdóttir leit þar inn og spjallaði við þær um myndlistina og hugmyndirnar að baki sýningunni. Halldór og eggið nefnist grein Gerðar Kristnýjar þar sem hún fjallar um áhrif Halldórs Laxness á ævi sína og verk og segir: „Nei, persónur Hall- dórs hafa ekki snert mig neitt sérlega. Al- veg satt! Það hefur Halldór sjálfur og lífs- hlaup hans hins vegar gert, jafnvel þótt hann hafi fæðst nær 70 árum á undan mér.“ Dauði gagnrýnanda heitir nýjasta skáldsaga þýska rithöfund- arins Martins Walsers (á mynd til vinstri). Bókin hefur valdið miklum deilum í Þýska- landi undanfarnar vikur en í henni þykir gæta gyðingahaturs. Aðalpersónan þykir líkjast mjög hinum þekkta gagnrýnanda Marcel Reich-Ranicki (á mynd til hægri) en hún fær slæma útreið hjá höfundinum. Jón Bjarni Atlason rekur ritdeilurnar. LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR 2 6 . T Ö L U B L A Ð - 7 7 . Á R G A N G U R EFNI BJARNI THORARENSEN SIGRÚNARLJÓÐ „De jordiske, de röde Blus er’ slukt’ den rene Form staar Englehvid tilbage!“ Oehlenschläger Þú angraðir mig áðan með orðum þínum, Sigrún! Eg bað þig aftur mig hitta, ef andaðist þú fyrri; kvaðst þú ei trúa að kalda eg kyssa þig vildi, né hjúpaða hvítbleika þig höndum umspenna. Mín trúir þá ei meyja að muni eg sér unna ef hún eigi trúir eg unni sér fölri – Þínar það víst eru varir þó verði þær kaldar, kinnar eg sé þær sömu þó sjái eg þær hvítar. Kyssir ei á köldum kalda mjöllu vetri röðull, jafnt sem rauðar rósir á sumrum? Hvít er hreinust lilja, hvít er þú sjálf sem mjöllin. Muntu þá miður skarta þó munnur og kinnar hvítni? [---] Bjarni Thorarensen (1786–1841) hefur verið sagður fyrsta íslenska rómantíska skáldið og Sigrúnarljóð hárómantískt ljóð.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.