Lesbók Morgunblaðsins - 13.07.2002, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 13.07.2002, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. JÚLÍ 2002 7 eiga þá ekki fyrir mat. Ég átti hvorki hræri- vél né ísskáp en það truflaði mig ekkert.“ – Þetta hefur nú samt verið ansi hart líf fyrir danska prestsdóttur? „Ég ólst upp hjá fólki þar sem efnislegir hlutir skiptu litlu máli. Það var aldrei rætt um peninga, það var ósiður, næstum syndsam- legt …““ Þau Sigurjón eignuðust fjögur börn á sex árum og í fimm ár bjó fjölskyldan í 35 fer- metra húsnæði, sem var áfast við vinnustofu- bragga Sigurjóns. Ragnar í Smára lét síðan reisa nýtt íbúðarhús fyrir fjölskylduna. Í samtali þeirra segir Kristín Marja: „ – Sigurjón hlýtur að hafa verið góður eig- inmaður úr því þú nenntir að standa í þessu öllu með honum og byggja svo þar að auki safn yfir verk hans að honum látnum? Birgitta brosir: „Já , hann var engum líkur. Hann heillaði mig strax upp úr skónum. En maður er sosum blindur á alla galla þegar maður er ástfanginn …“ Birgitta Spur segir, að það hafi ekki verið neinn „galdur“ að gefa frá sér sína eigin lista- göngu. „Ekki þegar þú ferð að eiga börn! Ég ætlaði auðvitað að gera allt, en það er ekki hægt. Þetta var líka stór spurning um mitt vinnuframlag. Það var erfitt um aðföng hér á Laugarnesinu, ég þurfti að ganga niður á Sundlaugarveg til að versla inn, já, já, með eitt í vagni, annað ofan á vagnsvuntunni – það fór oftast hálfur formiddagurinn í að ná í mjólkina.“ – Var ekki leiðinlegt fyrir unga listhneigða konu að þurfa að eyða öllum sínum tíma í matseld, bleiur og börn? Það kemur skrýtið bros á hana: „Ég er bú- in að gleyma því. Það er ekkert til að rifja upp. En ég man hvað mér fannst berangurslegt hér í fyrstu, sá þó fljótlega að það þýddi ekki að vera með samanburð ef ég ætlaði að búa hér …““ Í ævisögu Sigurjóns segir, að upp úr 1970 hafi afkoma fjölskyldunnar í Laugarnesi loks- ins verið trygg. Heimili þeirra Birgittu og Sigurjóns verður miðpunktur listamannalífs og í lýsingu á heimsókn í Laugarnesið talar Thor Vilhjálmsson um ærslin í Sigurjóni og tigna hæversku húsfreyjunnar Birgittu. „Ég fáguð? Ha? Nei þetta er feimni, óör- yggi,“ segir Birgitta í samtalinu við Kristínu Marju. „Uppeldi okkar systranna var mjög frjálslegt, ég er bara glanni og klunnaleg í allri framkomu, er það kannski ekki glanna- skapur að giftast manni upp á Íslandi? Nei, ég veit ekki hvað þið kallið fágun.“ Brosir svo breitt. „Ja, ég kem náttúrlega frá mjög kúltiveruðu samfélagi ekki satt!?“ Gefst svo upp á þessum útskýringum og segir þurrlega: „Ég veit af hverju ég er fág- uð, ég þurfti að reka svo margar fyllibyttur á dyr þegar ég bjó í bragga.“ Sigurjón Ólafsson andaðist 20. desember 1982. Eftir lát listamannsins tók Birgitta Spur þann kostinn að byggja listasafn yfir verk hans á Laugarnesinu, jafnvel þótt það kostaði það að hún yrði að brjóta boðorð bernsku- heimilisins og taka upp þann næstum synd- samlega ósið að tala um peninga! „En ég var lengi hikandi við að hrinda þessu í framkvæmd. Sigurjón lést árið 1982 og eftir að skiptum var lokið tveimur árum seinna sat ég hér í verðlausu húsnæði með mjög verðmætar myndir sem lágu undir skemmdum. Mín hugsun var sú að varðveita listaverkin á staðnum og með því að stofna safn var auðveldara að fá aðstoð opinberra aðila. Ég varð að búa til verðmæti á staðnum, en safnið er ekki einkamál mitt eða barna minna …“ Öðru nær. Birgittu hefur tekizt það ætl- unarverk sitt að skapa lifandi safn í Laug- arnesinu. Þar sækir fjöldinn Sigurjónssafn og nýtur listaverka og tónlistar, sem þar er reglulega boðið upp á, rétt eins og þegar Björn Ólafsson konsertmeistari lék ásamt nemendum sínum kammertónlist í stofunni á Laugarnesi. Í lok samtalsins reifar Birgitta Spur draum sinn um listaverkagarð í Laugarnesinu. „Mér hefur dottið í hug upp á síðkastið að næsta skref yrði Höggmyndasafn Íslands, því ekki? Hér á nesinu? Ekki næstu tíu árin kannski, en það væri hægt að koma því á blað.“ Höggmyndasafn Íslands er ekki komið á blað. En vel án þess hefur Birgitta Spur alið í Laugarnesinu sitt dýra fóstur í íslenzkri list og heimslistinni þar fyrir. Grete og Gunnlaugur „Við fluttumst heim til Seyðisfjarðar og fórum að búa saman, síðan til Reykjavíkur og sýndum þar saman 1933, en í byrjun stríðsins var stúlkan mín erlendis – og við skildum að lögum nokkrum árum síðar …“ Þannig lýsir Gunnlaugur Scheving sambandi sínu og dönsku listakonunnar Grete Linck í samtali við Matthías Johannessen. Matthías getur þess að Grete hafi verið frá Friðriksbergi og numið málaralist á akademí- unni í Höfn. Hún var dóttir rithöfundarins Helge Einar Linck og Betty Kristine Pet- ersen. Matthías bætir svo við: „Grete Linck hefur sagt Gunnlaugi Þórðarsyni, hollvini Gunnlaugs Schevings, að hún hafi farið aftur heim til Danmerkur vegna fátæktar þeirra.“ Grete Linck skrifaði bók um „Árin okkar Gunnlaugs“. Hún segist hafa dag nokkurn í endaðan október 1927 tekið eftir pilti í skól- anum; hávöxnum og grönnum með þykkt, skollitað hár og blá augu. Hann var klæddur ryðrauðum kyrtli og afar hæglátur. Þessi hægláti Íslendingur vann hug hennar og hjarta og er frásögn hennar af samdrætti þeirra og trúlofun tær og fögur. Þegar belg- ísku konungshjónin koma í opinbera heim- sókn til Danmerkur 16. apríl 1928, fylgjast nemendur Hinnar konunglegu akademíu fyrir fagrar listir með framhjáakstri hátignanna. „Þegar hin konunglega fylgd var farin fram hjá fórum við Scheving til vinnustofu okkar, settumst í gluggakistuna og röbbuðum sam- an. Við skröfuðum og hlógum. Ég rétti út höndina til að benda á eitthvað í Nýhöfninni og hann greip um hana og kyssti á hana. Síð- an kysstumst við eins og ósjálfrátt. Ég stökk vandræðalega á fætur en hann dró mig að sér og við gleymdum því alveg hvað það var auð- velt að sjá okkur sitja þarna ástfangin í gluggakistunni ef einhver liti þangað upp.“ Lítil efni lögðu á elskendurna að vera í sundur. „Við Gunnlaugur skiptumst á elsku- legum bréfum allt sumarið og hann orti til mín falleg kvæði. Þau voru örstutt og birtust hingað og þangað um bréfið, jafnvel á dönsku.“ Að loknu námi fer Gunnlaugur enn og aftur heim til Íslands og hafa þau Grete þá orðið ásátt um, að hann yrði á Seyðisfirði allt næsta ár til að undirbúa komu hennar næsta saum- ar, eftir síðasta veturinn á Akademíunni. For- eldrar hennar ætluðu að greiða fargjaldið. Ísland heilsaði þessari nýju tengdadóttur litsterkt og svalt. „Loftið var afar tært og lit- irnir sterkir og fallegir. Ég var í sumarkjól og mér var kalt. Ég náði í kápuna mína en hún dugði ekki til.“ En þótt falleg fjöll trónuðu í litfögru landi, fór hið daglega líf fram með frumstæðari hætti en Grete átti að venjast. „– Hvar er salernið? spurði ég. – Ég veit það ekki, svaraði Gunnlaugur. Ég skal spyrja konuna. Hann kom aftur með þau tíðindi að salerni væri ekkert. En ég gat notað fjósið sem lá spölkorn frá húsinu. Ég varð skelfingu lost- in … Gunnlaugur hafði alveg gleymt þessum vanda, þegar hann tók á leigu íbúðina.“ En Grete lét slag standa og á afmælisdegi föður hennar, 23. september 1932, vígir sýslu- maðurinn á Seyðisfirði þau Gunnlaug heima hjá sér. „Sýslumaðurinn var svo elskulegur og tillitssamur að vígja okkur bæði á íslensku og dönsku.“ Ísland var Grete nýtt og framandi, bauð henni upp á kröpp kjör, sem gerðu henni að venjast ýmsu, eða í öllu falli að umbera margt. Landið og fólkið féll henni vel, en kuldinn og myrkrið kvöldu hana. Frásögn hennar ber framandleika og fátækt vitni, en er þrátt fyrir allt hlý og vinsamleg. Ekki tókst henni samt að aðlaga danska húmorinn íslenzkum aðstæðum! Þar kom haustið 1936, að þau Gunnlaugur og Grete fluttu suður. En það var ekki allt fengið þar. Fjárhagurinn var áfram slæmur og kuldinn beit ekkert minna í höfuðstaðnum en fjallpottinum fyrir austan. Grete þráði danskan sumaryl. Þeim verður þá að ráði, að Gunnlaugur verði heima og máli, en hún fari í heimsókn til systur sinnar. Það var grátt yfir, þegar Grete fór frá Reykjavík 1938. Hún lýk- ur bók sinni svo: „Skipið seig hægt frá bryggjunni, sneri sér og bjóst til að leggja á haf út. Gunnlaugur stóð kyrr á bryggjunni og um leið og hann varð mér fjarlægari og fjarlæg- ari hugsaði ég: Hvenær sjáumst við aftur?“ Þau sáust aldrei aftur. Í eftirmála segir þýðandi bókarinnar, Jó- hanna Þráinsdóttir, að Grete og Gunnlaugur hafi haldið bréfasambandi eftir að stríðið skall á. Grete tók hverja þá vinnu sem til féll og vann um tíma við að mála postulín. Fjórum árum síðar hitti hún málarann Niels Grön- bech og felldu þau hugi saman. Grete skrifaði Gunnlaugi þar um, en því bréfi svaraði hann aldrei öðru vísi en svo, að íslenzka sendiráðið í Kaupmannahöfn tilkynnti Grete að skiln- aður hennar og Gunnlaugs væri kominn í kring. Þau Grete og Gunnlaugur tóku aftur upp bréfasamband og hélzt það allt þar til Gunnlaugur lézt 1972. Hann kvæntist ekki aftur. Grete og Niels Grönbech giftust 3. janúar 1943 og eignuðust soninn Morten, sem starfar við handritaviðgerðir hjá Stofnun Árna Magnússonar í Kaupmannahöfnm, þegar bók móður hans kemur út á Íslandi. Grete kom til Íslands með bókarhandritið 1977. Segir Jóhanna, að henni hafi fundizt landið eiga lítt sameiginlegt því landi sem hún kynntist fjörutíu árum fyrr, svo miklar voru breytingarnar á högum fólks. „Þetta var ekki lengur landið þeirra Gunnlaugs þar sem fá- tækt og sár örbirgð einkenndi líf almennings og réð örlögum manna.“ Grete bjó í Kaupmannahöfn, þar sem hún stundaði ritstörf og hlaut viðurkenningu fyrir teikningar sínar. Í bók Matthíasar Johannessen um Gunn- laug Scheving segir á einum stað: „Enn er eitt, hélt Gunnlaugur Scheving áfram, sem ég hef lítið hugsað um, en þú hefur spurt mig um: ástin. Mér finnst hún of sjálfsögð til að hægt sé að hugsa um hana. Það er ekkert hægt að gera úr henni. Hún er eins og þessi 37 stig í líkamanum. Á námsárum mínum í Höfn kynntist ég konunni minni. Við bjuggum hér saman nokkur ár, en svo fór hún til Dan- merkur, skömmu áður en Þjóðverjar gerðu innrás í landið, og komst ekki heim aftur. Eft- ir stríðið sagðist hún hafa kynnzt manni, sem hún vildi giftast, og bað um skilnað þegar í stað. Maður hennar var á listaakademíunni, þegar ég var þar. Ég man vel eftir honum. Þetta hafði lítil áhrif á mig. Ég er kaldlyndur, ef með þarf. Ég vil halda allri blíðu frá mér. En þar með er ekki sagt, að ég sé hrifinn af ruddaskap. Nei ástin hefur engin áhrif haft á mig.“ Í minningargrein um Gunnlaug Scheving í Morgunblaðinu sagði Gunnlaugur Þórðarson: „Gunnlaugur var um skeið kvæntur danskri konu Grethe Linck Grönbech, listmálara. Á erfiðleikaárum kreppunnar skildu leiðir þeirra og hún giftist á ný. Hann bar samt allt- af hlýjan hug til hennar og sendi henni síð- ustu árin kveðjur. Og sparaði ekki við sig þegar hann gat miðlað veraldarauð.“ Örlygur Sigurðsson sagði m.a. frá því, að hann hefði heimsótt Gunnlaug á sjúkrabeði kvöldið fyrir andlátið og þá séð bréfumslag með dönskum póststimpli við höfðalagið. „Það hefir eflaust verið þakkarbréf frá fyrrverandi eiginkonu hans. En fyrir tilviljun komst ég Gunnlaugur Scheving um það leyti sem hann var á Akademíunni. Gunnfríður Jónsdóttir Tove og Jón Engilberts. Gunnfríður Jónsdóttir – sjálfsmynd. Grete Linck um það leyti sem hún var á Akademíunni. Grete Linck situr fyrir vegna myndar Gunnlaugs Scheving af bændafólki á engjum. 

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.