Lesbók Morgunblaðsins - 27.07.2002, Side 7
til þess að fullorðnir geti trúað því að börn hafi
gaman af henni.
Eyjan hans múmínpabba kom út á Íslandi
1972 og næsta bók, Ósýnilega barnið, kom ekki
út á íslensku fyrr en 1998. Ósýnilega barnið er
smásagnasafn sem gerist í múmíndalnum eða
meðal þeirra sem múmínálfabækurnar hafa áð-
ur sagt frá. Sögurnar eru frekar dimmar og vart
við hæfi barna, þ.e. ef kona heldur börn eigi
bara að lesa jákvæðar og skemmtilegar bækur.
Ein sagan, ‘Fillífjonkan sem trúði á hörm-
ungar’, er um Fillífjonku sem býr ein af skyldu-
rækni í húsi sem henni hafði verið talin trú um
að amma hennar hefði búið í. Þegar í ljós kemur
að amma hennar bjó aldrei í húsinu getur Fillíf-
jonkan samt ekki flutt í burt: „Þau gætu haldið
að hún væri skrítin.“ Fillífjonkan hefur safnað
að sér allskyns smáhlutum og dóti sem gera
eiga heimili hennar heimilislegt. En húsið er
ómögulegt í laginu og kuldalegt og skrautmunir
jafnt sem húsgögn njóta sín ekki. Henni finnst
húsið hræðilegt og ströndin sem það stendur á
jafn hræðileg. Hún reynir að segja Hrifsu sem
kemur í heimsókn frá því hve mikil ógn henni
stafi af staðnum en Hrifsan skilur ekki tal um
kvíða og vægðarlausar ógnir. Þegar svo storm-
urinn skellur á og eyðileggur allt innanstokks í
húsi Fillífjonkunnar, flýr hún út og áttar sig þá á
því að hljóðin sem gerðu hana svo hrædda
heyrðust ekki úti, heldur tilheyrðu húsinu og
húsmununum.
„Stormurinn hélt áfram að hvína rólega og
stöðugt. En öll hræðilegu hljóðin voru á bak og
burt, allt sem hvein, krafsaði, splundraðist, dun-
aði og rifnaði í sundur. Það hættulega var inni í
húsinu, ekki fyrir utan.“
Þarna tekst höfundi á áhrifaríkan hátt að lýsa
kvíða sem býr innra með fólki og Fillífjonkum.
Óttinn er ekki raunverulegur, hann er heima-
tilbúinn og lausnina er að finna úti í náttúrunni.
Eða að minnsta kosti með því að sættast við um-
hverfið og hætta að láta stjórnast af innri ótta.
Þegar storminn lægir veltir Fillífjonkan fyrir
sér hvort hún eigi að endurreisa heimili sitt, þvo,
strjúka og mála. „O, nei! Og síðan að stilla allri
eymdinni upp aftur á sama hátt í sömu dap-
urlegu herbergjunum og halda áfram að reyna
að láta sér finnast þau heimilisleg ...“
„Nei, ég geri það ekki!“ hrópaði Fillífjonkan
og stóð upp stirðum fótum. „Ef ég reyni að gera
allt eins og það var áður verð ég líka eins og ég
var áður. Ég verð aftur hrædd, ég finn það á
mér. Þá læðast stormsveipirnir aftan að mér og
hvirfilbyljirnir ... “
Aðsteðjandi hvirfilbylur tekur ákvörðunina
fyrir Fillífjonkuna; hann rífur þakið af húsinu
hennar og tæmir það. Hún gleðst ákaflega yfir
þessu og leikur sér í briminu. „Nú verð ég aldrei
aftur hrædd,“ sagði hún við sjálfa sig. „Nú er ég
algjörlega frjáls. Nú get ég gert hvað sem er.“
Önnur saga segir frá ‘Ósýnilega barninu’.
Ninna, sem er á stærð við Míu litlu, bjó hjá
meinfýsinni frænku sinni. Smám saman varð
Ninna ósýnileg, eftir því sem sjálfsvirðing henn-
ar minnkaði. Þegar hún kemur til múmínfjöl-
skyldunnar mætir hún allt öðru viðmóti og
smám saman öðlast hún sýnileika/ sjálfsvirð-
ingu. Það eina sem vantar er andlitið. Míu litlu
líkar alls ekki við Ninnu og reynir sífellt að ögra
henni.
„Hún kann ekki að reiðast,“ sagði Mía litla.
„Það er það sem er að henni. Heyrðu,“ hélt Mía
áfram og gekk alveg að henni og horfði ógnandi
á hana. „Þú færð aldrei þitt eigið andlit aftur
fyrr en þú hefur lært að slást. Sannaðu til.“ Með
brögðum tekst múmínfjölskyldunni að gera
Ninnu öskuilla og þá kemur höfuð hennar loks í
ljós.
Í enn einni sögunni, Jólatrénu, vakna múm-
ínálfarnir upp með andfælum um miðjan vetur
við það að hemúll rekur þau á fætur vegna þess
að jólin séu að koma. Múmínálfarnir, sem hafa
upplifað halastjörnu og ýmsar aðrar hættur,
reyna sitt besta til að blíðka þessi ógnvænlegu
jól. Sagan er frábær ádeila á tilstandið í kring-
um jólin.
Múmínstelpan og Fillífjonka.
Höfundur er bókmenntafræðingur.
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 27. JÚLÍ 2002 7
MARGIR styðja þá tilgátu að saganendurtaki sig sífellt. Þegar sögursem varla eru til fara að endurtakasig hlýtur það að styðja þessa til-
gátu. Sú tilvistarlitla saga sem ég vísa hér í er ís-
lensk heimspekisaga. Mér datt þetta í hug þar
sem ég sat á síðastliðinni aðventu og sauð saman
opinbert svar gegn fyrirlestri um notkun vís-
indalegrar verufræði í samtímafrumspeki á með-
an aðrir gátu leyft sér að hita rauðvín á mann-
fögnuðum. Fyrir 246 árum var landi minn og
kollegi í sömu sporum í Kaupmannahöfn. Líkt og
ég nú eyddi hann síðustu dögunum fyrir jól í að
rökstyðja skoðanir sínar um hvernig útskýra
bæri uppbyggingu veruleikans og verja þær
gagnrýni frá andstæðum kenningum.
Slíkar vangaveltur eru líklega ekki uppi á
borðum hjá flestum á þessum árstíma og því ekki
að undra að það hafi tekið þennan kafla íslenskr-
ar heimspekisögu óramörg ár að endurtaka sig.
Hins vegar geymir saga heimspekinnar í víðasta
skilningi óteljandi dæmi um þær. Allt frá dögum
Forn-Grikkja hafa menn velt fyrir sér uppbygg-
ingu veruleikans, eðli hans og hverjar séu
smæstu eindir hans. Enn þann dag í dag er varla
hægt að segja með vissu hverjar þessar eindir
eru og í hvaða skilningi þær séu efnislegar. Einn-
ig hlýtur hver sá sem les í dag um frumeindir að
eiga bágt með að skilja hvernig margar slíkar
geta tengst og myndað saman sjáanleg fyrir-
bæri.
Íslenskur námsmaður
ver mónöðufræði Leibniz
Eitt þekktasta dæmi heimspekisögunnar um
tilraun til þess að útskýra samsetningu veru-
leikans er svokölluð „mónöðufræði“ þýska heim-
spekingsins Gottfried W. Leibniz (1646–1716).
Samkvæmt þeim samanstendur veruleikinn af
óefnislegum, ódeilanlegum eindum – mónöðum –
sem hvorki geta eyðst né virkað hver á aðra og
hafa frá sköpun heimsins starfað saman í fyr-
irfram stilltri samhljóðan. Endanlega mynd
þessara fræða setti Leibniz fram í upphafi upp-
lýsingaraldar og áttu margir heimspekingar og
vísindamenn á þeim tíma erfitt með að setja sig
inn í svo frumspekilega heimsmynd. Það voru þó
margir sem studdu heimspeki Leibniz, sérstak-
lega í þýskumælandi ríkjum Evrópu sem og á
Norðurlöndum. Ritdeilur um hana voru því tíðar
og mörg löng og lærð rit sett saman ýmist gegn
eða til stuðnings heimspeki hans, jafnvel þótt
augljóst sé nú að margir hafi aðeins þekkt til
verka hans af afspurn eða frá ýmsum minni
heimspekingum sem höfðu lagt misnákvæmlega
útfrá þeim. Má jafnvel deila um hvort margir
helstu stuðningsmenn Leibniz hafi í raun og veru
verið að verja kenningu hans.
Ein slík ritdeila er einmitt ástæða þess að ég
sting niður penna núna eftir að ég ætti að vera
löngu sestur við arin á hlýrri krá. Hún átti sér
stað á síðum Kiøbenhavnske Nye Tidender om
lærde og curieuse Sager eða Lærde Efterretn-
inger eins og það var stundum kallað. Í því birt-
ust innsendar greinar um mennta- og menning-
armál víðs vegar í Evrópu. Eins og svo margar
slíkar hófst ritdeilan að sjálfsögðu ekki sem slík.
Hinn 18. desember 1755 birtist ritfregn frá París
um að út sé komið verkið Refutation du Systeme
des Monades. Ekki er tekið fram hver sé höf-
undur verksins, en það mun vera lítt þekktur
franskur klerkur og kennimaður, Gilbert-Joseph
Vallé (1715–1784) að nafni. Höfundur ritfregn-
arinnar getur heldur ekki nafns en það er þegar
augljóst að tilgangurinn með því að segja frá út-
gáfu þessa verks er að lýsa yfir stuðningi við
gagnrýni Vallé á mónöðufræðin og í raun hafna
þeim í flestum atriðum vegna þeirra innbyggðu
mótsagna sem Vallé taldi sig finna í þeim. Við
sjálfan Kaupmannahafnarháskóla studdu guð-
fræðingar og heimspekingar á þessum tíma
mónöðufræðin í einni eða annarri mynd og er
fréttaritarinn því væntanlega lærður maður með
aðsetur í París sem hefur hugsað sér gott til
glóðarinnar að geta verið gagnrýninn úr fjar-
lægð í skjóli nafnleyndar. Í sjálfu sér var gagn-
rýnin ekki sérstaklega frumleg. Menn sem áttu
erfitt með að setja sig inn í frumspekilegan heim
hugsunar Leibniz vildu gjarnan meina að það
hlyti að orsakast af mótsögnum í henni. Leibniz
sjálfur taldi sig hafa losað heimspeki sína við all-
ar slíkar mótsagnir í Lögmálum heimspekinnar
eða Mónöðufræðunum (Principes de la
Philosophie ou Monadologie) frá 1714, en eins og
áður sagði gerðu flestir þeir sem gagnrýndu
mónöðufræðin á 18. öld það eftir kynni af end-
ursögnum og túlkunum á kenningu Leibniz þar
sem ýmislegt hafði skolast til. Svo má einnig leik-
andi rangtúlka og misskilja allar kenningar ef
vilji manna stendur til þess, en það var leikur
sem margir léku í þeim umbrotum sem fylgdu
upplýsingunni.
Ritfregnin og greinin sem henni fylgdi tók yfir
fleiri en eitt tölublað og áður en henni lauk birtist
á jóladag sama ár tilkynning um að „einn lærður
stúdent hafi ákveðið að deila með lesendum
hugsunum sínum um mónöðurnar til þess að
bjarga þeim frá þeirri gagnrýni sem á þeim hafi
dunið á síðum blaðsins“. Grein stúdentsins birt-
ist í nokkrum hlutum fram til 15. janúar 1756 og í
henni setur hann fram þrjár röksemdir fyrir því
að mónöðufræðin standist alla gagnrýni og að til-
raunir til þess að saka þau um að vera mótsagna-
kennd stafi af vanþekkingu. Þessi stúdent var
Þorleifur Þorleifsson, sem einmitt lauk lárvið-
arprófi frá heimspekideild Kaupmannahafn-
arháskóla árið 1755. Var það eina prófið sem
hann lauk við. Um Þorleif þennan er lítið vitað
nema hvað hann er talinn hafa fengist eitthvað
við bóksölu í Kaupmannahöfn þar sem hann lést
árið 1782, 49 ára gamall. Hann virðist þó hafa
verið meðal fremstu heimspekinema háskólans á
þeim tíma eins og sést best á því að kennarar
heimspekideildarinnar hafa látið nægja að leyfa
þessum unga stúdent að halda uppi vörnum fyrir
svo mikilvæga kenningu í heimsmynd þeirra á
svo áberandi vettvangi. Kallar hinn merki pró-
fessor J. E. Gunnerus (1718–1733) Þorleif meira
að segja „hinn lærðasta Íslending“ í einu verka
sinna og vitnar í það sem Þorleifur hefur að segja
í ritdeilunni. Hef ég ekki séð Gunnerus sýna öðr-
um ungum hugsuðum þvílíka virðingu í verkum
sínum. Þrátt fyrir að Þorleifur hafi ekki, svo vit-
að sé, sett saman önnur verk um heimspeki síðar
þá dugir þetta framlag hans fyllilega til þess að
honum ber mikilvægur sess í íslenskri heim-
spekisögu.
Svarbréfið með þremur röksemdum Þorleifs
dró hann inn í ritdeilu sem stóð fram á sumar
1756. Andstæðingur hans gaf aldrei upp sitt eigið
nafn, eftir því sem hann taldi vera franska tísku,
og gaf heldur ekki eftir neinar af skoðunum sín-
um á mónöðufræðunum. Það kemur augljóslega
fram í greinum hans að þar er um að ræða mun
reynslumeiri mann í slíkum þrætum. Í svörum
Þorleifs kemur einnig skýrt fram að hann álítur
sjálfan sig ekki vera mikinn bóg og minnir hann á
í upphafi að hann sé aðeins ungur stúdent sem
standi í þakkarskuld við þá meistara sem hann
dregur röksemdir sínar frá. Því miður eyðir Þor-
leifur mestu púðri í það sem hann taldi sjálfur
vera vísindaleg rök, s.s. þau að verund sem sam-
astandi af óendanlega mörgum hlutum hljóti þar
með að vera óendanlega stór. Stærð hvers hluta
ráði stærð þess sem hlutarnir mynda. Andstæð-
ingur hans hafði reynt að skjóta þessa röksemd í
kaf með því að segja sem svo að jafnvel þó að sú
fjárupphæð sem þú gengur með á þér sé deil-
anleg endalaust þá sé hún ekki þar með óend-
anlega mikil. En sem betur fer hafði Þorleifur
meira til málanna að leggja. Andstæðingur hans
hafði haldið því fram að mónöðurnar væru í raun
og veru ekki neitt, þ.e. þær væru ekki einu sinni
mögulegar. Ritdeilan rennur einmitt út í sandinn
eftir að Þorleifur setur fram röksemdir sínar um
hina frumspekilegu ástæðu tilveru hluta. Þessar
röksemdir eru í raun það sem mónöðufræðin
snúast um og það sem andstæðingar mónöðu-
fræðanna vildu ekki skilja. Helsti tilgangur
þeirra var ekki svo mikið að útskýra hvernig
hinn efnislegi veruleiki er uppbyggður frá því
vísindalega sjónarhorni sem síðar varð viðtekið
eftir upplýsinguna. Tilgangur þeirra var fremur
að útskýra hvers vegna veruleikinn er eins og
hann er.
Mónöðufræðin byggjast meðal annars á heim-
speki sem á sér rætur í skólaspeki miðalda, sem
sjálf sótti flest til Aristótelesar (384–322 f.kr.).
Eitt af því sem þessi heimspeki kenndi var að
eiginleikar vera væru tvenns konar. Annars veg-
ar væru frumlegir eiginleikar sem hefðu ástæður
sínar frá sjálfum sér, þ.e. þeir eru sjálfir ástæðan
fyrir því að þeir eru eins og þeir eru. Hins vegar
væru til eiginleikar sem draga tilvist sína frá hin-
um frumlegu eiginleikum. Frumspekileg vera er
samkvæmt þessari hugsun vera sem hefur
ákveðna frumlega eiginleika sem geta mögulega
verið til staðar á sama tíma í samsettri veru.
Samsetningin er möguleg ef þessir eiginleikar
standa ekki í mótsögn hver við annan. Frum-
spekileg vera er sem sagt „möguleg vera“, en
efnisleg vera er raunveruleg. Veruleikinn getur
ekki komið inn í myndina nema vegna þess að
sum möguleg fyrirbæri hafa til að bera eitthvað
„afl“ sem er orsök tilveru þeirra. Mónöðufræð-
unum er sem sagt ætlað að varpa ljósi á hvers
vegna svo lítill hluti allra mögulegra fyrirbæra sé
raunverulegur. Ef við gerum einungis ráð fyrir
að hinn efnislegi veruleiki sé samansettur af efn-
islegum eindum sem hver um sig er deilanleg
niður í minni efnislegar eindir, þá er varla hægt
að hugsa sér að ein þeirra geti verið ástæða ann-
arrar. Leibniz taldi sig þurfa að sýna fram á að
einhvers staðar í veruleikanum væru til staðar
upplýsingar og ástæður þess sem er. Skaparinn
hefði þegar valið þann farveg sem sköpunarverk-
inu var ætlað að taka og það val er hin eina sanna
fullnægjandi ástæða fyrir því hvaða möguleikar
eru raunverulegir. Það er því tilgangur í öllu sem
mónöðunum er ætlað að uppfylla. Heimsmynd
okkar þarf að gera ráð fyrir einhverju sem getur
varðveitt það val sem sköpunin setti af stað.
Í tilraunum sínum til þess að halda í við and-
stæðing sinn með „vísindalegum dæmum“, gerði
Þorleifur því miður of lítið úr þessari grunnhugs-
un mónöðufræðanna. Þess í stað lentu svör hans
báðum megin þeirrar gjár sem hafði verið að
myndast frá því á endurreisnartímanum milli
heimspekinga sem vildu annars vegar leitast við
að setja fram heimsmynd sem lýsir virkni og
uppbyggingu veraldarinnar og hins vegar þeirra
sem leitaðu enn tilgangs í fyrirbærum hennar.
En hann var ekki einn á báti. Flestir sporgöngu-
manna Leibniz lentu í þessari togstreitu upplýs-
ingaraldarinnar og var það ein ástæða þess að I.
Kant (1724–1804) hafnaði frumspeki þeirra und-
ir lok aldarinnar. Hann gerði það ekki vegna
þess að menn hefðu verið að fást við frumspeki
sem slíka, heldur vegna þess að hann taldi þetta
slæma frumspeki. Svar Þorleifs er dæmi um
þessa þróun. Vísindi leitast við að skilja veru-
leikann til þess að geta myndað forspár um
hvaða stefnu hann kunni að taka. Mónöðufræðin
snúast um að viðurkenna að hann hafi yfirleitt
ákveðna stefnu og hvers vegna sú stefna sé sú
sem hún er.
Glæsilegur vitnisburður
Eins og ég nefndi í upphafi er ég ekki viss um
að við séum miklu nær því að svara þeim spurn-
ingum sem brunnu hvað mest á heimspekingum
18. aldar. Sú heimspeki sem ég hef núna á að-
ventunni í upphafi 21. aldar reynt að finna svör
gegn telur að heimspekin skuli sækja verufræði
sína í samtímaeðlisfræði. Aðeins þannig fáum við
efnivið til þess að leysa þau heimspekilegu
vandamál sem brenni á mönnum. Ég er hins veg-
ar þeirrar skoðunar að þeir sem yfirgefa þær
vangaveltur sem Þorleifur fæst við undir lok rit-
deilunnar gefi frá sér um leið möguleikann á að
takast á við mikilvægan hluta spurningarinnar
um eðli veruleikans. Hér gefst auðvitað ekkert
rúm til þess að fara ofan í ástæður þessarar skoð-
unar minnar. Ég læt nægja að segja að það virð-
ast ávallt fylgja því óleysanleg vandamál að halla
sér um of að verufræði sem neitar að taka tillit til
spurninga hvers vegna veruleikinn er eins og
hann er. Þorleifur tók tillit til hennar með vísun
til þess Guðs sem hann þekkti. Ég er ekki viss
um að Guð sé nauðsynlegur fyrir þá mynd. En sú
spurning má bíða. Fyrir mig er nóg að minnast
þess að enda þótt skrif Þorleifs geti kannski ekki
talist hafa heppnast sem best að öllu leyti sem
varnarræða fyrir mónöðufræðin um miðbik 18.
aldar, þá eru þau sem heimild um þau átök sem
áttu sér stað um þetta efni á þessum tíma ómet-
anleg. Veit ég ekki til þess að það séu til önnur
slík skrifuð á dönsku um þetta leyti. Að það skuli
hafi verið ungur íslenskur námsmaður sem stóð
þar í fremstu röð hlýtur að hrekja ýmsa fordóma
um áhuga Íslendinga fyrr á heimspeki ásamt því
að standa sem glæsilegur vitnisburður um þann
árangur sem margir íslenskir námsmenn náðu
við Kaupmannahafnarháskóla á 18. öld. Og það
er meðal annars í ljósi þess sem ég vil meta brölt
mitt í dag. Ég vil geta metið það sem hluta af
sögu, sem ýmist endurtekur sig eða ekki, og er
lifandi að því leyti að ennþá leitum við svara sem
tilgangur okkar segir okkur að leita en sem okk-
ur um leið virðist ekki vera ætlað að finna.
KAFLI ÚR ÍSLENSKRI
HEIMSPEKISÖGU
E F T I R H E N RY A L E X A N D E R H E N RY S S O N
Höfundur er heimspekingur.