Lesbók Morgunblaðsins - 31.08.2002, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 31.08.2002, Blaðsíða 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 31. ÁGÚST 2002 G ÍSLI Sigurðsson ver doktorsritgerð í íslensk- um bókmenntum við heimspekideild Háskóla Íslands í dag. Ritgerð hans heitir Túlkun Ís- lendingasagna í ljósi munnlegrar hefðar. Til- gáta um aðferð. Í ritinu er kynnt ný aðferð til að fjalla um þátt munnlegrar hefðar í íslensku miðaldasamfélagi. Ritið miðar að því að sýna fram á að sterk munnleg hefð hafi verið í því samfélagi sem ól af sér Íslendinga sögur. Gísli fjallar um lögsögumenn sem geymdu lög þjóð- veldisins í minni sér og höfðu því mikil völd. Hann kannar hvernig þeir hafi tekið því þegar ritmenningin kom til sögunnar en vænta má að hún hafi dregið úr hlutverki þeirra og völdum. Þá dregur hann upp bókmenntalegan sjón- deildarhring bróðursonar Snorra Sturlusonar, Ólafs Þórðarsonar, með því að rýna í mál- skrúðsfræði Ólafs þar sem hann notar íslensk kvæði eftir nafngreinda höfunda sem dæmi um latnesk stílfræðihugtök. Í öðrum hluta fjallar gísli um persónur, ættir og atburði Austfirð- inga sagna í ljósi þeirrar hugmyndar að þeir sem rituðu sögurnar hafi gert ráð fyrir ákveð- inni þekkingu áheyrenda á söguefninu. Og í þriðja hluta ritsins er fjallað um sögur af Vín- landsferðum sem heimild um munnmæli sem varðveittu minningu um raunverulegar sigl- ingar til framandi landa. Í lokahluta bókarinn- ar eru síðan dregnar saman niðurstöður um þær breytingar sem verða á forsendum rann- sókna í íslenskum miðaldafræðum sé tekið tillit til munnlegrar hefðar að baki fornsagna. Gísli kemst að þeirri niðurstöðu „að illmögu- legt sé að skýra bókmenntalega sérstöðu Ís- lands á miðöldum nema með því að hér hafi blómgast sterk munnleg frásagnarlist,“ eins og segir í lokakafla ritsins. „Séríslenskar aðstæð- ur á 12. og 13. öld, mikill latínulærdómur og menningarstraumar frá meginlandinu duga ekki til að gera grein fyrir því af hverju við eignuðumst Íslendingasögur. Sögurnar eru í meginatriðum óskýranlegt fyrirbæri nema þær hafi haft innlenda frásagnarhefð að baki,“ segir Gísli. Uppruni sagnanna skiptir verulegu máli Áhugi Gísla á þætti munmæla við ritun Ís- lendinga sagna vaknaði er hann kom heim frá námi á Írlandi með bók í farteskinu sem hann hafði ritað um gelísk áhrif á Íslandi. „Starfsbræður mínir hér á landi voru þá mjög uppteknir af þeirri hugmynd að Íslend- inga sögur væru bókmenntir samdar af rithöf- undum og þær ætti að lesa eins og fagurbók- menntir okkar tíma. Sú hugmynd rúmar ekki neinar bollaleggingar um það hvort sögurnar séu undir áhrifum frá Írlandi og Skotlandi. Ég lenti þess vegna í þeirri aðstöðu að þurfa að benda á að sögurnar væru ekki sprottnar út úr kollinum á rithöfundum heldur hefðu menn skrifað niður sögur sem fólk hefði verið að segja. Ég varð þó að viðurkenna að þær hefðu ekki verið skrifaðar orðrétt niður heldur hefðu höfundarnir sett þær saman með bókmennta- legar fyrirmyndir í huga og úr hefðu orðið bók- menntaverk sem ættu ekki lifandi fyrirmyndir. Í þessum umræðum, sem voru iðulega fjör- legar, kviknaði sú spurning hvort það skipti yf- irleitt einhverju máli að munnleg hefð væri á bak við sögurnar. Getum við ekki notið text- anna eins og þeir eru eftir sem áður? Og meg- inhugmyndin í doktorsritgerðinni er sú að það skipti einmitt verulegu máli hvernig við hugs- um um uppruna sagnanna því það hefur áhrif á það hvernig við lesum textana og túlkum þá. Þeir sem lært hafa um fornsögurnar í skól- um hafa flestir fengið nasaþef af kenningum um bókfestu og sagnfestu. Sagnfestan fjallar um að sögurnar séu munnlegar og jafnvel sannar en bókfestan segir okkur að rithöfund- ar hafi unnið upp úr bóklegum heimildum að verulegu leyti. Þessi umræða var að mínu mati komin í strand. En mér sýndist að upplýsingar um lifandi munnlega hefð á tuttugustu öld gætu nýst til þess að skilja það baksvið sem við verðum að gera ráð fyrir að Íslendinga sög- urnar hafi átt. Með þessum upplýsingum gæt- um við snúið við ýmsum viðurkenndum hug- myndum um tilkomu sagnanna. Það er til dæmis algengt að skólabörnum sé kennt að það hafi verið mikill léttir fyrir lögsögumennina að fá ritmál til að skrifa lögin. Þeir hefðu þá ekki þurft að muna þau. Slíkt höfðar vitanlega til skólabarna sem eiga erfitt með að muna allt það sem verið er að kenna þeim. En allt sem við vitum um munnlegt samfélag og getum yfir- fært á stöðu lögsögumanna bendir til þess að völd þeirra og virðing í samfélaginu hafi byggst á því sem þeir kunnu. Þeir höfðu úrskurðarvald um vafamál í lagadeilum enda hvergi hægt að fletta upp nema í kollinum á þeim. Maður gæti séð fyrir sér að stjórnmálamenn á okkar dög- um væru mun sterkari ef þeir mættu ráða hvernig lögin væru þegar upp kæmu deilur – í stað þess að þurfa að fletta upp í lagasafninu. Það hlýtur því að hafa verið eftirsóknarvert fyrir lögsögumennina að halda stöðu sinni. Og það eru í raun aðrir en þeir sem höfðu áhuga á að skrifa lögin niður. Menn vildu hafa ein- hverja aðra heimild fyrir lögunum en lögsögu- mennina. Sennilega hefur það verið eitt af fyrstu skrefum kirkjunnar inn á hið veraldlega valdsvið að styðja við bakið á lagarituninni. Og það stendur heima að eftir að lagaritun hófst þá fóru ættlitlir prestar að gegna embætti lög- sögumanns í bland við ólæsa menn af ættum löglærðra manna. Þannig öðluðust þeir meiri völd í samfélaginu á grundvelli þekkingar sinn- ar í ritun og lestri. Þessu mætti kannski líkja við tölvulæsi nú á tímum. Menn eru smámsam- an að komast til valda og áhrifa í samfélaginu vegna þekkingar sinnar á þessari nýju tækni; komast með öðrum orðum upp valdapíramída samfélagsins eftir öðrum leiðum en áður, framhjá gömlum flokkum, ættum og fyrirtækj- um í krafti menntunar. Hinar gömlu valda- blokkir kappkosta síðan að tileinka sér hina nýju tækni og eiga annars á hættu að verða undir í samfélaginu – ekki ósvipað því og þeir gömlu lögspekingar sem hafa horft til rittækni- nnar sem nýmóðins hégóma og eiga nú engar sögur skráðar um sig og ættir sínar þótt þeir hafi verið mikils háttar í lifanda lífi.“ Verður að gera ráð fyrir hinu óþekkta Þú segist í formálanum að ritgerðinni hafa fundið mjög sterklega til þess að í flestum fræðiritum um fornsögur gæfu höfundar sér forsendur sem þér þóttu ekki réttlætanlegar og bætir við: „Lágmarkskrafa væri að menn gerðu sér og öðrum grein fyrir takmörkunum fræða sinna en létu ekki eins og eitthvað væri traust og áreiðanlegt sem í raun hvíldi á fyr- irframgefnum forsendum og ósannanlegum kenningum.“ Geturðu útskýrt hvað þú átt ná- kvæmlega við með þessu? „Menn voru farnir að vinna með þá hugmynd sem þróaðist innan bókfestukenningarinnar að hún væri ekki kenning heldur aðferð. Og að- ferðin væri sú að það ætti að vinna út frá varð- veittum textum og nálgast þannig einhvern sannleika um uppruna sagnanna. En ég vil halda fram að það verði að gera ráð fyrir hinu óþekkta í þessum rannsóknum, ekkert síður en í stærðfræði. Ef ekki er reiknað með x-i í jöfn- unni verður útkoman aldrei rétt. Ef maður ger- ir ekki ráð fyrir takmörkunum þekkingar sinn- ar sem stafar af því að ekki er allt vitað um tilkomu sagnanna, til dæmis um þátt munn- mæla, þá leiðist maður fljótlega út í að halda einhverju fram sem er ekki mikill fótur fyrir. Fræðin verða þá haldlausar kenningar. Oft þarf ekki mikið til þess að gera ráð fyrir þessari óþekktu stærð í kenningum fræði- manna um sögurnar. Þetta er fyrst og fremst spurning um hugsunarhátt, orðalag og nálgun. Sjálfur reyni ég að ganga alla leið og benda á hvar munnlega hefðin skiptir máli. Dæmi um þær forsendur sem fræðimenn gefa sér þegar þeir lesa sögurnar sem höfund- arverk eru rittengsl eða skyld rit þar sem finna má sams konar atburði og persónur. Fyrr en varir er búið að byggja upp heilmikið rit- tengslanet og álykta um aldur einstakra sagna út frá því og jafnvel ætlun höfundar eða mis- tök. Gert er ráð fyrir glötuðum ritum sem skýra eiga ósamræmi í tengdum sögum og svo framvegis. Og til verður gagnabanki um eitt- hvað sem er bara kenningasmíð og er til dæmis algerlega ótækt að hafa eftir í alfræðiorðabók þar sem staðreyndir um tiltekin efni þurfa að koma fram. Sjálfur skrifaði ég kaflann um fornbókmenntirnar í Íslensku alfræðiorðabók- ina sem kom út hjá Erni og Örlygi árið 1990 og stóð þá frammi fyrir þeim vanda að þurfa að segja einungis það sem við vissum fyrir víst um þessar bókmenntir. Niðurstaða mín var sú að við vissum einungis með vissu að sögurnar eru varðveittar í tilteknum handritum, sem við get- um dagsett nokkuð nákvæmlega, og við vitum um hvað þessar sögur eru vegna þess að við getum lesið þær. En spurningar um aldur hinna upphaflegu gerða og um höfunda þeirra eru algerlega mistri huldar. Ég, eins og aðrir, verð að vinna með ein- hverja hugmynd eða kenningu um það hvernig og hvenær sögurnar urðu til en þetta er spurn- ing um að maður sé sér meðvitandi um það hversu langt raunveruleg þekking okkar nær. Með ritgerðinni vil ég vekja athygli á að fræði- menn hafi hingað til treyst kenningasmíð sinni miklu meira en eðlilegt er þegar þeir hafa dregið ályktanir um umfjöllunarefni og túlkun sagnanna. Þetta óþekkta x sem ég vil gera ráð fyrir í rannsóknum á sögunum er að þegar fólk heyrði sögurnar lesnar fyrir sig hafi það þekkt helstu persónur þeirra, ættir og atburði utan hinna rituðu sagna. Það er ekki hægt að skýra tilurð þessara verka öðruvísi en svo að það hafi verið sagðar sögur um þessar persónur og þessa at- burði. Síðan má rekja það hvernig sögurnar voru settar saman á bók með bókmenntalegri byggingu – upphafi miðju og endi – til latínu- lærdóms samtíðar þeirra. Ein af ástæðunum fyrir því að sögurnar eru til í þessari mynd er að menn lærðu að setja saman langar sögur og sú þekking var innflutt af kirkjunni. Höfund- arnir tileinkuðu sér sögurnar í munnlegri hefð en beittu svo hinni nýju tækni bókmenning- arinnar til þess að setja þær saman með skipu- legum hætti. Og við það að vinna úr hinum munnlegu heimildum á skipulegan hátt verður til þessi höfundarvitund sem við þekkjum úr nútímabókmenntum og setur mark sitt á text- ann. Menn hafa fært sögurnar yfir á annað list- form, úr munnmælum yfir í bókmenntir, sem hefur að sjálfsögðu breytt eðli sagnanna eins og þegar sögur eru fluttar á milli listforma á vorum dögum, til dæmis úr bókum á svið eða í kvikmynd. Það er mikilvægt að gera ráð fyrir þekkingu áheyrenda. Ég tek dæmi um það úr Austfirð- inga sögum en í þeim koma víða fyrir sömu per- sónur og atburðir. Fræðimenn hafa talið þetta til marks um rittengsl, að höfundarnir hafi haft eldri sögu fyrir augunum þegar þeir settu sam- an sögur sínar, og á slíkum rittengslum hafa menn byggt ályktanir um aldur einstakra sagna. Fræðimenn hafa almennt verið lítið gagnrýnir á þessar niðurstöður en þegar rýnt er í það tengslakerfi sem búið hefur verið til þá kemur í ljós að það er mjög óvíða hægt að benda á orðalagslíkindi sem staðfesta að ein saga hafi notað aðra. Stundum má þó sjá slík rittengsl. En þegar ekki er um augljós rit- tengsl að ræða er eðlilegra að gera ráð fyrir því að bak við búi munnleg sagnageymd. Í Aust- firðinga sögum má til að mynda víða sjá vísað til tengsla manna sem eru hvergi rakin eða skýrð heldur er ætlast til þess að áheyrendur þekki til og skilji því hvers vegna persónurnar gera það sem þær gera. Ef ekki væri fyrir þessa utanaðkomandi þekkingu þá væru ýmsir atburðir í sögunum óskiljanlegir. Skýrt dæmi um munnlega hefð í Austfirð- inga sögum er hvernig má raða ævisögu einnar persónu þeirra, Þorkels Geitissonar, saman með brotum úr nokkrum þeirra. Ferill hans er ekki rakin í heild sinni í neinni sagnanna en með því að raða brotakenndum upplýsingum saman úr þeim sögum sem segja frá honum má fá heildstæða mynd.“ Horft fram hjá munnlegu hefðinni En þetta verða væntanlega alltaf mjög ótraust fræði. Það þarf ekki aðeins að gera ráð fyrir munnlegri geymd heldur og að sama hug- mynd getur á sama tíma sprottið upp í koll- inum á tveimur mönnum sem hafa aldrei hist og búa jafnvel hvergi nærri hvor öðrum. Menn kunna jafnvel að rita hluti með svipuðum hætti án þess að styðjast við texta hvor annars. Og þetta eru bara almennir fyrirvarar sem þarf augljóslega að hafa. „Já, vissulega, þetta er allt mjög erfitt. En við verðum að nálgast vandamálið með ein- hverjum hætti. Og það hefur ekki verið gert heldur hefur verið gengið út frá því sem vísu að höfundar sagnanna hafi stuðst við ritaðar heimildir og þannig horft fram hjá því að í því samfélagi sem þeir störfuðu var mun algeng- ara að sögur væru sagðar en lesnar. Ritheim- ildanotkun var ekki eins almenn og nú. Til þess að ætla að rituð heimild hafi verið notuð þarf þess vegna að færa fyrir því sérstök rök og þau rök eru að orðalag sé svo líkt að ólíklegt sé að það komi fram á tveimur stöðum á svipuðum tíma óháð öðrum texta. Við höfum mörg dæmi um slík tengsl sem ættu að minnsta kosti að geta staðfest að ritheimildanotkun af þessu tagi hafi ekki verið óhugsandi. Síðan höfum við mörg dæmi um að sagt sé frá sömu hugmynd- um og atburðum og persónum en textarnir eru samt ólíkir um margt, svo ólíkir að það er ekki hægt að líta svo á að slíkt klúður milli tveggja ritaðra texta hafi orðið ef annar hefur notað hinn sem heimild.“ Meðvitaðir höfundar? En hér verður væntanlega að hafa þann fyr- irvara að höfundar Íslendinga sagna notuðu stundum atburði úr öðrum sögum en heim- færðu þá upp á persónur sínar, aðlöguðu þá að þeim og sögu sinni, skopstældu þá jafnvel. Nefna mætti eitt dæmi. Í Egils sögu er sagt frá því þegar Egill Skallagrímsson drepur Atla hinn skamma með því að bíta hann á barkann. Frásögn þessi virðist svo vera endurtekin í Hávarðar sögu Ísfirðings, með nokkuð breytt- um áherslum þó. Þar er það ekki nein hetja á borð við Egil sem vinnur verkið heldur rag- mennið og ræfilstuskan hann Atli í Otradal. Frásögnin í Egils sögu lýsir hreysti og atgervi hetjunnar en frásögnin í Hávarðar sögu er hreinn útúrsnúningur á hetjuímyndinni, virðist með öðrum orðum vera hrein skopstæling á frásögn Eglu (orðalag er að nokkru hið sama, aðstæður eru svipaðar, nafnið Atli kemur fyrir í báðum frásögnunum o.s.frv.). Í fjórum öðrum sögum er sagt mjög svipað (hvað varðar orða- lag og aðstæður) frá drápi þar sem maður bítur annan á barkann, tvisvar í Finnboga sögu ramma, í Jökuls þætti Búasonar og Harðar sögu og Hólmverja. Allar þessar sögur eiga það sameiginlegt með Hávarðar sögu að vera taldar ungar, yngri en Egla. Vissulega vekur þetta nokkrar spurningar um skyldleika og áhrif en líka um paródíska tilburði höfunda yngri Íslendinga sagna sem mætti segja að benti til höfundar- eða skáldsöguvitundarinnar sem þú nefndir áðan. En það er kannski ómögulegt að segja til um það hvort höfundar þessara sagna hafi þekkt þessa frásögn í munnmælum eða lesið um hana í eldri sögu – og þá væntanlega í Eglu – eða hvort þeir hafi þekkt hana bæði í rituðum heimildum og munnlegum. Hingað til virðast menn hafa haft tilhneigingu til þess að líta svo á að hér væri verið að skopstæla eða að minnsta kosti stæla Eglu og þannig mætti ganga út frá því að hinar sögurnar væru yngri en hún. En gætu menn hafa (skop)stælt munnmælasögur? Mætti færa rök fyrir því að höfundar- eða skáldsöguvitund vakni um leið og menn fara að setjast niður við skriftir? „Þetta eru að sjálfsögðu allt mjög mikils verð atriði og ekkert er líklegra en menn hafi smám saman gert sér grein fyrir lífi texta á X-IÐ Í ÍSLENDINGA SÖGUNUM „Ef ekki er reiknað með x-i í jöfnunni verður útkoman aldrei rétt,“ segir Gísli Sigurðsson í samtali við ÞRÖST HELGASON en Gísli ver doktorsrit um íslenskar bók- menntir við Háskóla Íslands í dag er fjallar um túlkun Íslendinga sagna í ljósi munnlegrar hefðar.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.