Pressan - 04.05.1989, Blaðsíða 16

Pressan - 04.05.1989, Blaðsíða 16
16 Fimmtudagur 4. maí 1989 siúkdó—iar og fólk HÁ BLÓÐFITA Gourmet-vorveisla Ég fór um daginn í veislu til vinar míns, sem er mikill kokkur og lífs- nautnamaður. Sjálfur kallar hann sig gourmet, sem er franska og þýð- ir sælkeri. Veisluna hélt hann í til- efni af væntanlegri vorkomu til að létta skapferli og lund í öllum kuld- unum og snjókomunni undanfarið. Ég fór í vorveisluna, prúðbúinn og glaður í bragði, öslaði gegnum snjóslabbið á nýju Etienne Aigner- skónum mínum. Að loknum for- drykk og nokkrum skemmtilegum slúðursögum um drykkjuskap og kvennafar mektarmanna var sest að borðum. Eins og venjulega hafði vinur minn lagt sig allan fram við eldamennskuna svo maturinn yrði sem bestur. í forrétt hafði hann gert Terrine dc canard au poivre vert (andarkæfa með grænum pipar), i aðalrétt var Perdrix de neige á la bourguignonne (rjúpa að hætti Búrgúndara) og í eftirrétt var Sal- ade d’oranges au Grand Marnier (appelsínusalat, legið í Grand Marnier). Með þessu var drukkið árgangsvín, en sjálfur Iét ég mér duga Egils-appelsínulímonaði frá því í ár. Það er of langt mál að skýra frá uppskriftum að þessum réttum, en allir voru þeir stórkostlegir og báru matreiðsluhæfileikum vinar míns gott vitni. Ég sat til borðs með ungum hjónum og veitti því strax athygli að maðurinn tók ekki þátt í þessari upplifun bragðlaukanna. Hann fékk sér lítinn salatdisk og borðaði af honum þreytulegt hvít- kál blandað saman við nokkrar tómatsneiðar og 4—5 linkuleg vín- ber. Ég minntist þess þá, að kokk- urinn hafði eiginlega aldrei kunnað að búa til salöt. „Þegar ég hætti að gera stóra gourmet-kjötrétti og fer að hræra saman salöt eins og nátt- úrulækningapostuli úr Hveragerði er ég feigurþ sagði hann stundum. Ég er á „dœett“ — Af hverju borðar þú ekki kjötið? spurði ég að lokum þennan sessunaut minn, nagandi rjúpu- bein, sem ég velti upp úr feitri sós- unni og dæsti af vellíðan. — Ég má það ekki, svaraði maðurinn, ég er á „dæett“. Hann horfði fýlulega á rjúpurnar fyrir framan okkur hin og síðan á salatdiskinn sinn. — Af hverju? spurði ég, ertu kannski í einhverjum trúflokki sem borðar ekki kjöt? — Nei, svaraði maður- inn, ég er í ætt þar sem hjartasjúk- dómar eru algengir og auk þess er ég með alltof háa blóðfitu, svo læknirinn minn setti mig á sérfæði til að ná þessu niður. — Já, sagði ég og horfði á rjúpusósuna, sem gerð var úr rjúpusoði, olíu, rjóma og rauðvíni, og hugsaði með mér: Kannski maður ætti að fara að láta niæla hjá sér blóðfituna. Þegar heim var komið lá ég andvaka nokkra stund, enda máttfarinn af ofáti og lífsnautnum, og fór þá að hugsa um blóðfituna og fyrirbyggj- andi aðgerðir, eins og salatátið á manninum í veislunni. Kólesteról og lípóprótein Þegar rætt er um áhættuþætti varðandi hjartasjúkdóma berst tal- ið fljótlega að blóðfitunni. Það er vitað, að fitan í blóðinu er í réttu hlutfalli við þá fitu, sem við látum í okkur, og tíðni hjartasjúkdóma fer vaxandi eftir því sem fitan eykst. Japanir borða fitusnauðan mat og hafa lága blóðfitu og Iága tíðni hjartasjúkdóma. Finnar borða mikið af fitu, hafa háa blóðfitu og tíðni hjartasjúkdóma er einhver sú hæsta í heiminum. Þegar rætt er um blóðfitu er einkum átt við kólest- eról og þríglyceríða, en auk þess er talað um ákveðin fitueggjahvítu- efni eða lípóprótein, sem skipta af- armiklu máli. Þríglyceríðamæling- ar segja lítið um áhættu varðandi hjarta- og æðasjúkdóma, en LDL (low density lipoproteins) virðist hafa þýðingu fyrir æðakölkun. LDL flytur kólesterólið um líkam- ann og því meira LDL þeim mun meiri er hættan á æðakölkun. Kólesteról flyst líka um líkamann með HDL (high density lipopro- teins) og magn þess stendur í öfugu hlutfalli við æðakölkunina. Þvi meira sem er af HDL í blóðinu, þeim mun minni líkur eru á hjarta- sjúkdómum. HDL er því stund- um kallað góða blóðfitan, en kólesterólmælingin segir okkur hvað mest um hættuna svo og hlut- fallið milli kólesteróls og HDL. Kólesteról er mælt í milligrömm- prósentum eða millimolum í lítra. Yfirleitt er miðað við að kólesteról- magnið fari ekki yfir 220—240 mg% eða 5,7—6,2 mmol/1. Ef mæling er hærri verður að reyna að lækka þá tölu. Megrun og breytt matarœði Besta leiðin til að minnka kólest- eról í blóðinu er að breyta mataræð- inu og megrasig. Kólesteról er aðal- lega í fæðutegundum úr dýrarík- inu; eggjum, kjöti og fitu. Mettaða mjólkurfitan, eins og t.d. í smjöri, rjóma og feitum ostum, inniheldur mikið af kólesteróli, sem er skað- legt. Ráðlegt er, að fita sé einungis 30% af heildarhitaeiningunum sem neytt er, og sérlega þýðingarmikið er að minnka neyslu mettaðrar fitu eins og þeirrar sem er í landbúnað- arfitunni. í staðinn er mælt með að auka neyslu ómettaðrar fitu úr jurtaríkinu og borða meira af fiski og fuglakjöti, grænmeti og ávöxt- um. Líkamshreyfing er mikilvæg, þegar lækka á kólesterólmagnið í blóðinu, bæði megrast menn og HDL eykst í blóði þegar trimmað er. Allir sem mælast með hátt kól- esteról ættu að reyna að ná kjör- þyngd sem fyrst. Lýsi virðist hafa þau áhrif að auka HDL og hefur þannig hagstæð áhrif á kólesteról- búskapinn. Auk þess er sérlega þýð- ingarmikið að ráðast til atlögu við aðra áhættuþætti eins og reykingar og háan blóðþrýsting þegar kólest- eról mælist of háft. Þegar áhættu- þáttunum fjölgar aukast líkurnar á æðakölkun og hjartasjúkdómum, svo að kólesterólmælingin ein segir. ekki alla söguna, en ef aðrir áhættuþættir eru líka fyrir hendi verður gildi hennar mun meira. Ef ekki tekst að lækka blóðfituna með megrunaraðgerðum og líkamshreyf- ingu verður stundum að grípa til annarra ráða eins og að lækka kól- esterólið með lyfjum, en yfirleitt er það ekki gert fyrr en í lengstu lög. Þau lyf sem mest eru notuð til þess nú eru Questran (kolestyramin) og Mevacor (Lovastatin). Hamborgarar og fita Nokkru síðar hitti ég sessunaut- inn úr boðinu fina á hamborgara- stað einum, þar sem hann sat og át hamborgara með frönskum með sælusvip. Ég vék mér að honum og spurði hvort hann væri hættur I að- gerðunum gegn blóðfitunni. — Ég er í smápásu, svaraði hann og stakk upp í sig feitri franskri kartöflu. Við kvöddumst og hann stóð upp til að fá sér ábót af kokkteilsósu. — Þetta líst mér ekki á, sagði ég við sjálfan mig og fékk mér salatdisk og „dæett“-kók. Greinilegt var, að maðurinn hafði sprungið á limm- inu og gefist upp á megruninni. Að hann skyldi þá ekki taka sér pásu þegar við fengum okkur rjúpuna að hætti Búrgúndara. En sinn er siður- inn hjá hverri manneskju og mörg- um finnst vondur matur góður, eins og vinur minn Gunnar Ingi Gunn- arsson er vanur að segja. ÓTTAR GUÐMUNDSSON 0T pressupennar ÁNÆGJULEG JARÐARFÖR Menn lögðu stundum lík fyrir ut- an gluggann hjá mér I vetur. Ástæð- an fyrir þessu var sú, að gangstéttin var heldur breiðari þarna en annars staðar I götunni. Það var því hæg- ara um vik að athafna sig. Sem var eins gott, því menn hentu ekki lík- um þarna í hirðuleysi, heldur fylgdi þessu umstang. Menn brugðu upp tjaldhimni yfir kistuna, komu fyrir stólum og borðum og settu upp eld- hús. Fyrst eftir að ég flutti í þessa gömlu götu í Singapore snerust at- huganir mínar á útfararsiðum um það, hvernig gengið var frá festing- um á kistulokinu. Þetta er rétt við miðbaug þar sem náttúran eyðir sínum efnum á skömmum tíma, og stundum með fnyk. Áhyggjur af þessu voru óþarfar, festingar voru kyrfilegar, og þess utan var reykels- um brennt í slíku magni, að þefur hefði varla fundist frá heiðursgestin- um. Það var alltaf renneri af fólki í kringum þetta frá því snemma morguns og fram á nótt. Fólk kom stundum með reykelsi með sér, kveikti í þeim og muldraði eitthvað við kistuna, en á henni var alltaf stór mynd af þeim sem þarna var kominn á sinn stað. Mest var þetta þó endalaus tedrykkja, hrísgrjóna- át og skraf. Ég skildi lítið af skraf- inu, því þetta voru Kínverjar, en ekki Malajar, sem eru mitt fólk þarna fyrir austan. Það var þó ekki annað að heyra en menn ræddu al- mælt tíðindi, og í öllu falli varð ég ekki var við að menn gerðu mikið veður út af því að gestgjafinn lá þarna rotnandi I kistu. Af myndun- um að dæma var þetta líka allt gam- alt fólk, sem þarna var kvatt, og rás atburða því varla óvænt. Fyrir nokkrum árum sá ég hins vegar fólk í öðru landi fara til útfar- ar gamals manns með hávaða og látum. Þetta var á flugvelli I isl- ömsku Afríkulandi og svo virtist sem menn gerðu hópferð, flugleiðis, I þessa útför og hefur gamli maður- inn því ekki verið neinn Jón Jóns- son, eða neinn Achmed Abdulla. Fólkið réð sér hreinlega ekki fyrir gráti. Menn og konur, börn og gam- almenni æddu þarna fram og aftur með myndir af gamla manninum og orguðu hástöfum. Menn gerðu stutt hlé á grátinum til að tékka sig inn og velja sér sæti í flugvélinni en tóku svo upp fyrri hætti og hágrétu alla leið út í vél, þó með stuttu hléi í fríhöfninni. Þessi grátur hefur hins vegar ekk- ert með Múhameð eða hans trú að gera og sjálfsagt ekki mikið með þann látna heldur. Þetta þykir bara rétt þarna og enginn vill syrgja á rangan hátt. Menn gera það oftast eftir bókinni. Það myndast vani og siður og þetta verða í hverju Iandi eins konar farvegir fyrir tilfinning- ar tengdar dauðanum. Tilfinning- arnar geta hins vegar verið misjafn- ar eftir því hvernig er lifað. Sums staðar í Indónesíu, til að mynda, þar sem ég hef verið að flakka svo- lítið.á síðustu misserum, virðast all- ir útfarargestir hæstánægðir með framvindu mála og gera útförina að léttri samkundu þar sem allir brosa en enginn grætur. Annars staðar í því stóra landi má sjá sorg af því tagi sem við erum vanari. Hvergi þarna eystra er dauðinn þó einangraður frá lífinu á sama hátt og gerist norðar á hnettinum. Mér hefur verið þetta hugstætt-síðustu daga, því það blasir kirkjugarður við glugganum mínum hér í Amst- erdam. Hér mæta menn ekki í jarðarfarir á eigin bílum. Fólk leigir sér svartar amerískar drossíur sem transport I útfarir. Líkið kemur I einum sííkum afturbyggðum bíl og á eftir fylgir lest svipaðra vagna, sem annars sjást ekki á götum hér í Hollandi. Lengd lestarinnar er sennilega góð vísbending um efnahag hins látna. Menn geta því tekið sín stöðutákn með sér allt að grafarbakkanum. Þar tekur svo annað við, ef rétt er hermt í góðum bókum, og á þeirri ferð duga víst dýrir bílar ekki sem fótabúnaður, né heldur verður mönnum víst stoð í öðru sem þeir hafa eytt lífinu í að sanka að sér. En svo maður haldi sig áfram hérna megin grafar, þá er rétt að bæta því við, að Hollendingar hafa frjálslegri skoðanir á rétti manna til dauðans en annað fólk. Hér í landi er sagt, að sex af hundraði allra manna endi líf sitt fyrir eigin at- beina eða að ákvörðun sinna nán- ustu. Annars vegar er þarna um að ræða fólk, sem hefur enga heila- starfsemi eftir slys eða sjúkdóma, og hins vegar fólk, sem fær lækna til að gefa sér inn eitur. Slík tilfelli eru sögð skipta tugum á hverjum degi og þúsundum á ári hverju. Læknar gera þetta ekki nema til komi mjög eindregin ósk þess sem vill deyja, samþykki einhverra af hans nánustu og að engar Iíkur séu til ánægjulegs lífs viðkomandi. Oftast er þetta fólk á síðustu stigum krabbameins eða annarra sjúk- dóma sem leika líkamann illa áður en til dauða dregur. Fólk sem tekið hefur þátt í dauða ástvina sinna hefur sumt hvert sagt þetta reynslu, sem hafi gefið síðustu vikum hins látna meiri frið og dýpt en fannst í lengri tímabilum lífsins, þegar lifað var af gömlum vana. Það er i sömu veru og gamall Malaji sagði eitt sinn við mig, þegar hann útskýrði kátínu manna við jarðarför eldri manns. Hann sagði, að sá maður hefði ekki óttast dauðann, því hann hefði verið ánægður og hefði aldrei langað að eignast neitt. Maður sem vill eignast hluti, bætti hann við,. tapar tvisvar; vont líf og vondur dauði.

x

Pressan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Pressan
https://timarit.is/publication/298

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.