Tíminn Sunnudagsblað - 03.03.1963, Blaðsíða 10

Tíminn Sunnudagsblað - 03.03.1963, Blaðsíða 10
goð. Þar var þó skeggið skylt hök- unni: „Þá er Njörður var með Vön- um, þá hafði hann átta systur sína, því að það voru þar lög. Voru börn þeirra Freyr og Freyja. En það var bannað með Ásum að byggja svo náið að frændsemi". Systir Njarðar er hvergi nefnd með nafni. Var hún kannski gyðja sú, sem Tacitus nefndi Nerþusi? Sænskar örnefnarannsóknir hafa leitt í ljós, að Njörður var mjög tign- aður í Svíþjóð, áður en Freyr kom fram á sjónarsviðið sem frjósemiguð, og Snorri Sturluson segir í Heims- kringlu: „Freyr tók þá ríki eftir Njörð“. Og lengi virðist hafa eimt eftir af minningunni um þann sess, sem Njörður skipaði að fornu. í Vatnsdælu kemur fyrir orðtækið „auðugur sem Njörður", og enn í dag iðulega komizt svo að orði um þvert og endilangt ísland, að galli sé á gjöf Njarðar, þegar allmikill hæng- ur er á einhverju góðu. Og virðingar- sess skipaði Njörður í hinum forna eiðstaf íslendinga. „Hjálpi mér Freyr og Njörður og hinn almáttki Ás“. Tacitus segir, að Nerþusi hafi verið ekið byggða á milli f heilögum vagni, unz hún hvarf aftur í lundinn, södd af samvistum við menn. Ef til vill getum við gert okkur nokkra grein fyrir því, hvernig ferðum gyðjunnar var varið, ef við tökum til saman- burðar frásögnina í þætti Ögmundar dytts og Gunnars helmings um öku- ferð Freys um sænskar byggðir, þótt sá þáttur sé raunar ýkjublandinn og seint skrifaður. Gunnar fór land- flótta til Svíþjóðar fyrir Ólafi kon- ungi Tryggvasyni: „Þar voru blót stór í þann tíma, og hafði Freyr verið þar mest blótaður lengi . . . Frey var fengin kona til þjónustu, ung og fríð. Var það átrún- aður landsmanna, að Freyr væri lif- andi, sem sýndist í sumu lagi, og ætl- uðu, að hann mundi þurfa að eiga hjúskaparfar við konu sína. Skyldi hún og mest ráða með Frey fyrir hof- staðnum og öllu því er þar lá til goðahússins. Gunnar helmingur kom þar fram um síðir og bað konu Freys að hjálpa sér og beiddi, að hún mundi láta hann þar vera“. Lét kona Freys það eftir, að hann fengi þar að vera þrjár nætur,' svo að fram kæmi, hversu Frey þokkaðist til hans. Konunni þótti að sönnu sem Frey væri lítið um hann, en leyfði honum þó enn að vera í hálfan mán- uð. Loks féllst hún á, að Gunnar yrði með sér vetrarlangt og færi á veizlur með þeim Frey. Gunnari þótti vel skipast sitt mál, og kom nú senn að því, að búizt væri að heim- an. Freyr og kona hans settust á vagn, en þjónustumenn þeirra skyldu ganga á undan. Leiðin lá yfir fjall, og hreppti ferðafólkið þar hríð. Urðu þjónustumennirnir viðskila við vagn- inn, en Gunnar leiddi eykinn. En þegar hann þreyttist að ganga, vildi hann sjálfur setjast á vagninn og láta eykinn ráða ferðinni. Loks kom þar, að Gunnar kastaði Frey úr vagnin- um, rændi hann búningi sínum og tók að sér hlutverk hans. Þegar veizlur liófust, reyndist Freyr í vand- fýsnasta lagi, því að hann vildi ekki offur þiggja „utan gull og silfur, klæði góð eður aðrar gersemar“. Þegar þau kona Freys höfðu ferðazt alllengi um byggðir með þessum hætti, þóttust menn sjá, „að kona Freys fer eigi ein saman og er með barni. Það verður mönnum aUágætt, og þykir nú mörgum allvænt um Frey, guð sinn. Var og veðrátta blíð og allir hlutir svo árvænir, að eng- inn maður mundi slíkt. Spyrjast þessi tíðindi víða um lönd, hversu blót- guð Svía var máttugur“. Auðvitað kennir í þessari frásögn háðs kristinna manna um guði og helga dóma fyrri tíðar og óvildar í þeirra garð. Gætir þar hins sama og þegar orðið blót, sem táknaði guðs- þjónustu og helgiathafnir Ásatrúar- manna, fékk merkinguna bölv og for- mælingar, hliðstætt því, ef sögnin að messa væri nú látin merkja að bölva. Þar fyrir þarf sú mynd, sem brugðið er upp af ferðalagi Freys um sænsk- ar byggðir, ekki að vera að öllu leyti fjarri lagi, og mjög minnir hún að minnsta kosti á það, sem Tacitus seg- ir um Nerþusi, vagn hennar og veizlufögnuð þann, sem hvarvetna fylgdi komu gyðjunnar. n. Eins og áður segir, eru nítján hundruð ár liðin síðan Tacitus skráði frásögn sína af trúarsiðum Germ- ana. En guðirnir eru engar dægur- flugur. Fyrir þeim eru þúsund ár dagur, ei meir. Og þess vegna er það ekki neitt undrunarefni, að sum- arið 1961 fannst í mýrlendi á Aust- ur-Jótlandi, ekki langt frá Skander- borg, hin álitlegasta frjósemigyðja, sem á margan hátt ber þau einkenni, sem ætla má, að Nerþus hafi haft, ef það er ekki þá ein útgáfa hennar sjálfrar, sem þarna er komin í leit- irnar, nokkrum öldum eldri en sú, sem bjó í lundinum helga á eynni. í Illerupárdal hafa hvað eftir ann- að fundizt ævafornar minjar, bæði vopn og mannabein, og hefur verið grafið þar í leit að fornminjum á ýmsum stöðum um langt árabil. Á striðsárunum fundust þar leirker og munir úr tré í mógröf, og sumarið 1960 var ráðizt í að kanna nokkuð umhverfi þessarar mógrafar. Kom þegar í Ijós, að vert myndi að gera þarna mjög rækilega rannsókn. Hún var framkvæmd sumarið 1961. Þá voraði vel í Danmörku, og Iller- upárdalurinn iðaði af lífi. Árgæzkan var slík sem fólk á þessum slóðum hefði blótað hina máttugustu gyðju sér til árnaðar eða þeir feðgar, Njörður og Freyr, væru á ný setztir í hásætið. Grasið þaut upp, tré og runnar skutu sprotum í sælli grósku, fuglarnir flugu fram og aftur með söng og kvaki, hver moldarköggull var kvikur. Þegar fornleifafræðing- arnir fóru að grafa, fylltist allt hjá þeim af halakörtum, sem af ungæðis- legri óforsjálni duttu niður í grafir þeirra og skurði. Þeir urðu að gera sérstakar brýr handa körtunum, svo að þær kæmust upp aftur til hins vorglaða lífs. Og svo komu börnin úr byggðarlaginu í kring í flokkum til þess að taka þátt í dásemdunum — og þau voru svo mörg, að ekki þurfti frekar vitnanna við um það, Hér sjáum við sjálfa gyðjuna, ásamt leirkerunum, skíðunum og hörnum, •r henni hefur verið offrað. Gfst er trékylfa. 202 X I M I N N — SUNNUDAGSBLAÐ

x

Tíminn Sunnudagsblað

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn Sunnudagsblað
https://timarit.is/publication/301

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.