Lesbók Morgunblaðsins - 10.05.2003, Side 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 10. MAÍ 2003
F
RUMMYNDIR ljósheimsins er
heitið á sýningu á verkum
bandaríska listamannsins Rich-
ards Vaux sem opnuð verður í
Hafnarborg í dag. Í myndunum
ber fyrir himin, haf, sjáv-
arstrendur, ský og skóga, dag
og nótt, skaplyndi veðurguð-
anna – en ekki í neinum þekktum myndum,
staðsetningum eða hlutföllum – heldur er hér
á ferðinni heimur utan heimsins.
Sjálfur segir listamaðurinn að verkin séu
frásagnir, sprottnar úr óendanlegri frum-
mynd náttúrunnar. Myndirnar sem unnar
eru úr kolefnisduftinu eru sjónræn ljóð um
birtu og uppljómun … hið sýnilega við hlið
þess ósýnilega. Og í texta sem Jacob Wisse
ritar í hefti um listamanninn segir: „Og þegar
horft er inn í geislandi víddina í málverkum
Richards Vaux opnast dularfull veröld sem er
einhvers konar bergmál náttúrunnar.“ En
verk Vaux eru ekki bara bergmál náttúrunn-
ar, heldur bergmál af því strengjahljóðfæri
sem mannssálin er og hver mynd leikur á til-
finningu sem sækir sér hljóm í djúpin og við
ráðum hversu lengi við stöldrum við fyrir
framan myndina til þess að skoða hvað hún
kallar fram.
Kannski eru myndirnar bara af innra
landslagi – þar sem segja má að listamað-
urinn noti myrkrið til að finna ljósið. Efnið
sem hann vinnur með er kolefnisduft sem
hann strýkur með þurrum pensli, fínlegum og
oddmjóum, á yfirborð einfaldra efna eins og
til dæmis washi, sem er japanskur pappír.
Vaux stillir áferð, línur og form og bætir
stundum við vatnslitum, mismunandi þéttum.
Kolefnisduft er afar svart efni og vand-
meðfarið, „einkum þegar nota á það til að búa
til ljós“, eins og listamaðurinn segir. „Ef ég
strýk það of þétt, eða í of miklu magni, er
verkið ónýtt, því það er ekkert hægt að
þurrka út.“
Maður náttúrumynda
Richard segir algera tilviljun hafa ráðið því
að hann fór að vinna með kolefnisduft. Allt
byrjaði með ljósritunarvél sem bilaði í
Adelphi-háskólanum í New York þar sem
hann er prófessor. Hann tók duftið úr vélinni
til að láta nemendur sína gera tilraunir, en
varð að hverfa fljótt frá öllum slíkum hug-
myndum, þar sem reynst getur hættulegt að
anda efninu að sér. Ári síðar fékk hann árs-
leyfi frá störfum og tók þá til við að skoða
möguleikana sem kolefnisduftið bauð upp á.
„Í gegnum árin hef ég sótt mér innblástur í
náttúruna og þótt ég hafi ekki málað ákveðna
staði, hafa verk mín ótvírætt verið nátt-
úrumyndir. Þessar myndir spruttu úr þeim
farvegi.
Ég hef einatt verið skilgreindur sem
„abstrakt-impressjónisti“, og líkar sú skil-
greining vel. Ég hef áttað mig á því að hún
skapar mér dálitla sérstöðu vegna þess að ég
er að ólíkur impressjónistunum að því leyti
að ég vinn verk mín í svarthvítum litum; verk
um samleik ljóss og myrkurs.“
Hvernig virkar ljósið hér á Íslandi á þig?
„Alveg einstaklega vel … Það verð ég að
segja.
Þegar ég kom hingað ætlaði ég að stoppa
stutt og fara síðan til Lundúna til þess að
stúdera verk Williams Turner á Tate-safninu.
Hann er landslagsrómantíker og ég geri mér
grein fyrir því að það er mjög sterk róm-
antísk taug í mínum verkum. Ég er hins veg-
ar hættur við að fara þangað. Ég gekk í gær
meðfram sjónum hér í Hafnarfirði og skildi
að hér hef ég allt sem ég er að leita að í
vangaveltum mínum um ljósið, myrkrið og
náttúruna. Þegar ég fer aftur til Bandaríkj-
anna, þarf ég að gera skýrslu og halda erindi
um ferð mína við Adelphi-háskólann. Mein-
ingin var að skila erindi um Turner en ég
hafði samband við skólann og sagði þeim að
ég hefði skipt um skoðun og myndi fjalla um
Ísland. Það var samþykkt eins og skot.“
Nálægð og fjarlægð
Verk Richards Vaux eru eins óræð og tón-
list. Það verður að hlusta til að skilja þau,
enda bera þau mörg hver tónlistarheiti á við
Rhapsody, Concerto, Nocturne. Þegar hann
er spurður hvort hann sé að leika sér að því
að láta tónlist og myndlist renna saman, segir
hann: „Ef til vill. Hins vegar hef ég aldrei
lagt stund á tónlist. Ég elska tónlist og hvað
varðar hönnun á tónlist og myndlist, held ég
að munurinn sé ekki svo mikill. Hugmyndin
kom frá Kandinsky. Þetta er leið til þess að
flytja verkið frá því að vera mynd og gera
það að hljómkviðu fyrir augað, eins konar
ljóði. Með því að tengja myndverkið tónlist
og ljóðlist, er nánast hægt að gæða það
hljómi. Það gerir verkið óræðara, rétt eins og
notkun mín á ljósinu. Ég hef meiri áhuga á
áhrifum ljóssins og blekkingum, því sem ljós-
ið gefur í skyn, heldur en ljósinu sjálfu. Hvar
og hvernig fellur ljósið – og hvað lesum við út
úr því?
Um það leyti sem ég byrjaði að vinna með
kolefnisduftið hreifst ég mjög af sýningu sem
ég skoðaði í Metropolitan-safninu í New
York. Þetta var kínversk sýning sem var tví-
þætt. Annars vegar voru myndir þar sem
listamenn beindu sjónum sínum að örlitlu
broti af einhverjum stað í náttúrunni, eins og
hún væri skoðuð með stækkunargleri. Hins
vegar voru myndir af kínversku landslagi,
þar sem listamaðurinn tók sér stöðu í mikilli
fjarlægð og skoðaði náttúruna hlutlaust.
Fjarlægðir geta verið svo afstæðar í myndlist
og haft áhrif á það hvernig við skynjum þau
og náttúruna. Í verkum mínum er ekki óal-
gengt að einn fersentimetri sýni svæði sem
spannar marga kílómetra – en þar sem ég bý
við sjóinn fela þau eiginlega alltaf í sér sjón-
deildarhringinn.“
Ákveður þú alltaf fyrirfram hvað þú ætlar
að mála?
„Nei, aldrei. Ég vinn yfirleitt um átta til tíu
verk á hverju þriggja mánaða tímabili. Þegar
upp er staðið líkar mér kannski tvö til þrjú
verk, annað fer í glatkistuna. Nýjasta verkið
mitt á sýningunni hér í Hafnarborg er sería
sem ber heitið Nocturne. Þegar ég byrjaði á
því átti það að vera allt öðruvísi. Það átti að
vera sprengikraftur af ljósi … En það tók allt
aðra stefnu – og varð að næturljóði.“
NÆTURLJÓÐ LJÓSHEIMSINS
Bandaríski myndlistarmaðurinn Richard Vaux
opnar sýningu á verkum unnum með kolefnisdufti í
Hafnarborg, menningarmiðstöð Hafnarfjarðar, í dag.
SÚSANNA SVAVARSDÓTTIR ræddi við hann um
heim ljóssins sem hann skapar úr þessu myrka efni.
Morgunblaðið/Jim Smart
„Ég hef meiri áhuga á áhrifum ljóssins og blekkingum, því sem ljósið gefur í skyn, heldur en ljós-
inu sjálfu,“ segir bandaríski myndlistarmaðurinn Richard Vaux sem sýnir verk sín í Hafnarborg.
ALLT er í heiminum hverfult. Þegar und-
irritaður var unglingur í sveit í Suður-Þingeyj-
arsýslu bar svo við eitt sumarið að í sveitina
kom fræðslufulltrúi S.Í.S., flutti erindi og
sýndi, ef ég man rétt, kvikmynd um samvinnu-
starfið í landinu. Bændur létu sig ekki vanta
og fengu bæði börn og unglingar að fara með.
Að samkomunni lokinni settust menn undir
vegg og ræddu boðskap fulltrúans og þá lýsti
einn viðstaddra því yfir, að þrennt myndi
ávallt verða til í heimi hér: Sambandið, Sov-
étríkin og kaþólska kirkjan (í þessari röð). Nú
er öldin önnur, Sambandið er fallið, Sovétríkin
eru gengin fyrir ætternisstapann en Rómar-
kirkja stendur enn keik.
Af einhverjum ástæðum rifjaðist þessi löngu
liðni atburður frá norðlensku sumarkvöldi upp
fyrir mér þegar ég las bókina, sem hér er til
umfjöllunar. Sambandið, Samband íslenskra
samvinnufélaga (S.Í.S.) er að verða að eins
konar goðsögn í sögu Íslands á 20. öld. Saga
þess er í hugum margra sveipuð dulúð og nafn
þess vekur enn blendnar tilfinningar í hugum
margra. Að undanförnu hefur hefur verið
næsta hljótt um þetta mikla fyrirtæki, sem
einu sinni var, og nú, á tímum vaxandi pen-
ingahyggju, er ekki laust við að ýmsir séu
farnir að minnast Sambandsins með nokkrum
söknuði – líka þeir sem verst töluðu um það á
meðan það var og hét. Þeir tala nú sumir eins
og maðurinn sem missti glæpinn.
Saga Sambandsins – og samvinnuhreyfing-
arinnar í íslensku viðskiptalífi – var um margt
einstæð. Framan af 20. öldinni, allt fram yfir
1960, var vöxtur fyrirtækisins oft ótrúlega
hraður og mikill og mér er til efs að nokkurt ís-
lenskt fyrirtæki hafi fyrr eða síðar átt jafn
langt og samfellt vaxtarskeið. Þegar kom fram
á 7. áratuginn hægði á og síðustu tíu árin eða
svo, eftir 1980, fjaraði nánast stöðugt undan en
þó mun Sambandið hafa verið stærst allra ís-
lenskra fyrirtækja allt þar til yfir lauk. Enda-
lok þess voru býsna dramatísk og eftir að það
hætti eiginlegum rekstri hefur lítið farið fyrir
því, þótt það muni enn vera til, hefur a.m.k.
ekki verið formlega slitið svo mér sé kunnugt.
Á næstliðnu ári var öld liðin frá stofnun
S.Í.S. og af því tilefni tóku Áhugahópur um
samvinnusögu og Sögufélag höndum saman og
efndu til fyrirlestrahalds um sögu samvinnu-
hreyfingarinnar á Íslandi. Aðalfyrirlesari var
Helgi Skúli Kjartansson sagnfræðingur. Hann
vann um alllangt skeið að ritun sögu Sam-
bandsins og sögu samvinnuhreyfingarinnar og
er tvímælalaust fróðastur allra núlifandi
manna um þessa miklu og margslungnu sögu.
Sex fyrirlestrar voru haldnir í fyrirlestra-
röðinni og eru þeir birtir í þessari bók. Helgi
Skúli er höfundur fjögurra þeirra. Hinn fyrsti
er yfirlit yfir sögu samvinnustarfs á Íslandi í
rúm 120 ár, en hinir þrír fjölluðu um afmark-
aðri efni: Samvinnuhreyfinguna og sveitirnar,
Samvinnuhreyfinguna og stjórnmálin og Sam-
vinnuhreyfinguna og samkeppni. Fimmta fyr-
irlesturinn flutti Jónas Guðmundsson, fyrrver-
andi rektor á Bifröst, og fjallaði um fall
Sambandsins og framtíð félagslegs reksturs
og loks ræddi Jón Sigurðsson, fyrrverandi
rektor á Bifröst, um samtíð og framtíð sam-
vinnustarfs.
Allir eru þessir fyrirlestrar fróðlegir aflestr-
ar og fjalla um einn mikilvægasta þáttinn í ís-
lenskri félags- og hagsögu á 20. öld. Engu máli
skiptir hvaða skoðanir fólk kann að hafa á
samvinnuhreyfingunni og fyrirtækjum henn-
ar, allir hljóta að viðurkenna að starfsemi
þessarar hreyfingar skipti miklu í sögu Ís-
lands á öldinni sem leið og mótar hana að veru-
legu leyti. Þess vegna hljóta allir sem áhuga
hafa á sögunni að vera forvitnir um þátt sam-
vinnuhreyfingarinnar. Og þeir geta fræðst
mikið af þessum fyrirlestrum. Fyrstu fjórir
fyrirlestrarnir, þeir sem Helgi Skúli flutti,
gefa að minni hyggju gott yfirlit yfir sögu sam-
vinnustarfsins og þá þætti sem hann gerir að
umtalsefni. Þarna er þó aðeins vikið að
ákveðnum þáttum, margir verða útundan, ekki
síst þáttur samvinnufélaganna og forkólfa
þeirra í menningarmálum. Fyrirlestrar Jón-
asar og Jóns varpa skýru ljósi á viðfangsefni
þeirra og Jón ræðir nokkuð um framtíð sam-
vinnustarfs á Íslandi. Eru þær hugleiðingar
allar hinar fróðlegustu.
Allur frágangur þessarar bókar er smekk-
legur og í bókarlok eru nauðsynlegar skrár.
Þættir úr
merkri sögu
Jón Þ. Þór
BÆKUR
Sagnfræði
- Erindi á vegum áhugahóps um samvinnusögu og
Sögufélags. 123 bls. Sögufélag, Reykjavík 2003.
SAMVINNUHREYFINGIN Í SÖGU ÍSLANDS