Lesbók Morgunblaðsins - 05.07.2003, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 05.07.2003, Blaðsíða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 5. JÚLÍ 2003 9 tíma, enda liggja þær á mörkum sjónvarpsaug- lýsinga, sjónvarpsleikrita og heimildamynda. Í fyrstu myndinni, „Me/We“, fer heimilisfaðir of- an í saumana á fjórum fjölskyldumeðlimum í ein- ræðu sinni. Fjölskyldumeðlimirnir herma hins vegar eftir varahreyfingum hans þannig að fljót- lega reynist erfitt að geta sér til hver sé að tala um hvern, einkum þegar heimilisfaðirinn tíund- ar tilfinningar hinna úr fjölskyldunni. Í „Okay“ fjallar kona um grimmúðlega sam- búð sína meðan hún stikar herbergið fram og til baka eins og taugatrekkt dýr í búri. Meðan hún talar skiptir hún um raddir og öðlast jafnvel karlmannsróm stöku sinnum. Hún fjallar um barsmíðar, kynsvelti og andlegt ofbeldi með óhefluðu orðfæri, og sveiflast milli ofsa og eftir- sjár þannig að einræðan verður æði mótsagna- kennd. Vegna ólíkra raddanna hefur áhorfand- inn á tilfinningunni að manneskjan sé að tapa jafnt sjálfri sér sem sjálfi sínu og leysast á end- anum upp í ótal ólíkar persónur. Í síðustu myndinni, „Gray“, segir frá um- hverfisslysi handan landamæranna. Þrjár konur þjóta niður í vörulyftu og enda neðansjávar þar sem þær svamla um eins og fiskar. Þær virðast ekki eiga afturkvæmt en tala í ákafa um kjarn- orkuslys og afleiðingar þess. Í málæði þeirra blandast staðreyndir um geislavirkni, sprengi- þrýsting og kjarnorkuvetur saman við ótta, þrá eftir að komast aftur heim og örvæntingu yfir að geta ekki komið í veg fyrir keðjuverkun með því að slökkva á ofninum. „Engin huggun dugar, hundrað rad – mælieining geislavirkni – jafn- gildir einum gráum,“ segir í lok þessarar þriðju myndar. Þannig endurspeglar ytri vá innri kreppu einstaklinganna og öfugt. Guðdómlegar ímyndir Ef tala má um rauðan þráð í verkum Eiju- Liisu Ahtila, til að einfalda ögn hlutina, þá fjalla flestar kvikmyndir og myndbönd hennar um vanda mannsins við að axla hlutverk sitt. Að hennar mati höfum við í gegnum tíðina búið svo um hnútana, með ýkjum okkar og yfirdrifnum væntingum, að við kiknum hæglega undan hversdagslegustu ábyrgð, eða göngum með sektarkennd út af ófullkomleik okkar í sjálfsögð- ustu efnum. Þannig lætur samfélagið sér fátt um finnast þótt foreldrahlutverkið – þessi algeng- asta rulla kynslóðanna – vefjist fyrir stórum hópi barnafólks. Kaja Silverman, kvikmyndafræðingurinn frægi, hefur bent á það hvernig Ahtila gagnrýnir framsetningu guðsmyndarinnar í mannlegu samfélagi – svo sem Drottinn og heilaga Maríu meðal kristinna – sem viðmið eða vegvísi for- eldrum til handa. Fyrir Eiju-Liisu virðist það augljóst að hver venjuleg móðir af holdi og blóði hlýtur að blikna í samanburði við ímynd guðs- móður, og enginn raunverulegur faðir getur nokkru sinni jafnast á við guð almáttugan. For- eldrar, sem ættu skilið að njóta stuðnings og virðingar samborgara sinna í óendanlega brot- hættu hlutverki sínu, mega því burðast með ævarandi sektarkennd út af loftköstulum sam- félags sem gengur fyrir óraunhæfum klisjum, nærist á einfölduðu ímyndarskrumi og neitar að horfast í augu við raunveruleikann eins og hann er í öllum sínum margbreytileik. Þar sem það er praktískt séð ögn léttara að sefa sig með ýkjum en leita sannleika sem ekki liggur í augum uppi heldur blindan áfram að vísa okkur leið eftir blekkingarveginum. Hin bráðsmellna, tíu mínútna kvikmynd og DVD-skipan „Ef 6 væru 9“, frá 1996 fjallar ein- mitt um fjórar unglingsstúlkur og sakleysislegt líf þeirra í dagsins önn. Þó svo að tilvera þeirra sé að mestu laus við flækjur fullorðinna skipa vangaveltur um kyn- líf og hlutverk kynjanna stóran sess í umræðum þeirra. Þar takast á tilfinningaleg málefni í bland við drepfyndnar meiningar, sönnur þess að mikilvægustu rök lífsins eru mjög á reiki í hugmyndaheimi táningsins. „Anne, Aki og Guð“, frá 1998, er mun alvöruþrungnara verk, enda snöggtum viðameira. Það er hálftíma langt, og sem DVD-skipan er því varpað á tvö tjöld og fimm skjái. Sagan er byggð á sannsögulegum heimildum og fjallar um forritarann Aki, sem í tortryggðar- og vanmetakasti sagði upp vinnu sinni og lokaði sig af inni í íbúð sinni. Þar fór hann í geðsýki sinni að ná sambandi við ýmsar ímyndaðar verur, þeirra á meðal Guð, sem kynnti hann fyrir Anne Nyberg framtíðarföru- nauti hans. Að vera eða vera ekki Eija-Liisa fékk útlærða leikara til að fara í prufu fyrir hlutverk Akis og leika glefsur úr handritinu. Fyrir Anne setti hún hins vegar upp auglýsingu á atvinnuleysisskrifstofu og sneið rulluna í takt við viðtölin við stúlkurnar sem sóttu um vinnuna. Þannig tala þær öðru fremur um sig sjálfar og hæfileika sína en væntanlegt samband sitt við Aki. Að lokum urðu til fimm ólíkar gerðir af Aki og sjö af Önnu, sem birtust samtímis á skjám og skermum uppsetningarinn- ar. Að auki leigði Ahtila raunverulega Önnu til að birtast í sýningarsalnum sem holdgervingu hins ímyndaða förunautar Akis. Í þessu margslungna verki, sem að ýmsu leyti minnir á allar þær fjölmörgu altaristöflur sem lýsa boðun Maríu og finna má í kirkjum út um alla Evrópu – að ógleymdri „Heill þér María“, kvikmynd franska leikstjórans Jean-Lucs God- ard – verða hlutverkin sjálfinu yfirsterkari og persónurnar taka að klofna í eiginlega frum- parta sína. Áhorfandinn skynjar gegnum öll þessi undarlegu hlutverkaskipti að manneskjan getur ekki haldið utan um ímynd sína að eilífu með leikaraskap. Að því kemur fyrr eða síðar að hver maður verður að koma til dyranna eins og hann er klæddur. En um leið er eins og Eija- Liisa vilji benda okkur á þá staðreynd að hver persóna og hvert sjálf búi yfir ýmsum óræðum eigindum, á stundum óvæntum og órökrænum svo engin leið er að sjóða mennina ofan í dós eins og einhverja fyrirfram gefna ímynd. Árið 1999 hlaut Eija-Liisa verðlaun fyrir mynd sína „Consolation Service“, eða Huggun- arstofuna. Sem kvikmynd er þetta tæplega 24 mínútna verk einfaldara í sniðum en fyrri stór- virki hennar, þó svo að rýmisskipanin með DVD- varpinu sé ögn flóknari en kvikmyndin. Verkið fjallar um skilnað elskenda, Anni og J-P, og þá staðreynd að hvert eitt samband tveggja ein- staklinga er einstakt og óafturkræft. Breyting á sambúðarhögum leggur þá skyldu á herðar ein- staklingnum að hann sætti sig við fortíðina og sættist á að búa sér til nýja framtíð. Ef til vill er það með þessu ágæta verki sem Eija-Liisa Aht- ila skipar sér hvað augljósast á bekk með öðrum norrænum starfsbræðrum sínum, hvort sem þeir heita Bergman eða von Trier. Þegar öllu er á botninn hvolft eru verk hennar eins og þeirra, bakstrar til að lina þrautir og þjáningar biturrar reynslu og misjafnrar tilvistar. Býsna alvöru- þrungið, segja eflaust margir, svona eins og sannra mótmælenda er von og vísa. En því er þá til að svara að list Eiju-Liisu Ahtila er ekki verri fyrir það. Helstu heimildir: - Eija-Liisa Ahtila, Fantasized Persons and Taped Conv- ersations, Kiasma, Helsinki, 2002. - Women Artists in the 20th and 21st Century, Taschen, Köln, 2001. - Tiina Erkintalo: „Die Sprache des Audiovisuellen und der Raum des Betrachters“, úr sýningarskránni Norden, Kunsthalle Vínarborg,2000 bakstrar til að lina þrautir og þjáningar biturrar reynslu og misjafnrar tilvistar. m þegar er farið að kalla endurreisn norrænnar listar á tíunda áratugnum. R EKKI GEFIN Höfundur er lektor við Listaháskóla Íslands. Persónur og leikendur í kvikmyndinni og DVD-sýningunni „Tänään/Í dag“, frá 1996-97, sem fjallar um sorgir drengs sem drap föður sinn í árekstri. aninni „Jos 6 olis 9/Ef 6 væru 9“, frá 1995-96. Úr uppsetningunni á „Anne, Aki og Guð“, 1998, í Kiasma, Samtímalistasafninu í Helsinki.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.