Lesbók Morgunblaðsins - 05.07.2003, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 05.07.2003, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 5. JÚLÍ 2003 Í SLAND er eitt af fáum löndum í Evrópu þar sem ein tunga er nær allsráðandi sem tungumál fjölmiðla, yfirvalda og flestra sem þar búa. Finnar beita bæði sænsku og finnsku, á Möltu er töluð maltneska og enska, ásamt ítölsku, í Þýskalandi, Danmörku og Portúgal eru stórir hópar innflytjenda, á Spáni er m.a. töluð katalónska og galísíska, Rúmenar búa með sígaunum, í Eistlandi er töluð rúss- neska og eistneska og þannig mætti áfram telja. Þetta virðist munu breytast hér á landi, eins og annars staðar, og einmitt þess vegna er hollt fyrir Íslendinga að kynnast því hvernig sambúð ólíkra tungumála gengur í öðrum löndum. Það er líka hollt að láta minna sig á að íslenska er ekki eina „litla“ málið í Evrópu, hvað þá í heiminum öllum – þar er allt krökkt af gömlum, staðbundnum, sögulegum, dýr- mætum tungumálum sem miðla menningu heilla þjóðflokka, þjóða eða hópa. Og hollast af öllu er fyrir þessi litlu málsvæði að skiptast á upplýsingum, styðja hvert annað, dýpka gagn- kvæman skilning. Orkan þarf ekki endilega að fara í að brjótast inn í stóru málsvæðin eða kvarta yfir því að búa í skugga stærri ná- granna. Eru þjóðarbókmenntir ennþá til? Þetta var nokkuð leiðandi, en um leið nauð- synlegur formáli, og þar með hefst formleg frásögn af þingi því sem snerist um framan- greindar hugmyndir og fór fram í Helskinki nú í júní. Yfirskriftin var Multicultural Europe: National Literatures Revisited eða Fjölmenn- ingarleg Evrópa: Þjóðarbókmenntir endur- skoðaðar. Fyrir þinginu stóð Kynningarmið- stöð finnskra bókmennta (FILI) ásamt samtökunum Literature Across Frontiers (LAF) sem stuðla að kynningu evrópskra bók- mennta á hinum smærri tungumálum álfunn- ar, að ógleymdum stuðningi Evrópusambands- ins, Norræna ráðherraráðsins, UNESCO og finnska menntamálaráðuneytisins. Hugtakið þjóð lá til grundvallar þegar fram- sögumenn fluttu erindi sín og í framhaldi af þeim spunnust margvíslegar umræður. Þátt tóku rithöfundar, þýðendur, menningarfræð- ingar og starfsmenn bókmenntakynningamið- stöðva frá ýmsum svæðum í Evrópu og víðar og voru flestir sammála um það sem Ulpu Iivari, fulltrúi Finnlands á Evrópuþinginu, sagði í opnunarræðu: „Það er ekki pólitík sem ákvarðar sjálfsvitund fólks, heldur menningar- mótun og tungumál.“ Hún minnti á að Evrópu- sambandið hefði það yfirlýsta markmið að varðveita evrópskan arf og menningarlega fjölbreytni, það væri m.a. gert með Culture 2000-áætluninni, sem tæki til allra listgreina. „Fjöldi bóka hefur verið þýddur fyrir tilstuðl- an Culture 2000, og kynningarmiðstöðvum bókmennta í viðkomandi löndum ber líka að þakka útbreiðslu óteljandi verka sem annars lægju óbætt hjá garði. Að mínu viti mun bókin halda velli á tímum örrar hnatt- og tæknivæð- ingar, enda eru bókmenntir nauðsynlegar til þess að efla gagnkvæman skilning á okkar tím- um – tímum þar sem „hinir“ vekja með okkur ótta.“ Hnattvæðingin heimtar erkitýpur Gríski rithöfundurinn Demosthenes Ko- urtovik greip orðið hnattvæðing á lofti: „Hnattvæðing innleiðir ekki eina menningu – hina amerísku – á alþjóðavísu, eins og margir halda. Sannleikurinn er enn verri; hnattvæð- ingin innleiðir einn markað. Hún reynir ekki að þurrka út menningarlega fjölbreytni, þvert á móti viðheldur hún fjölbreytninni, því hún getur grætt á henni,“ sagði Kourtovik og út- skýrði hvernig hnattvæðingin býr til söluvöru úr staðbundinni menningu, með því að gera hana kunnuglega og framandi í senn. „Til verða niðursoðnar menningarafurðir og heim- urinn er einn stór súpermarkaður, handa jafnt túristum sem menningarvitum. Hindúísk viska og andstaða gegn kvennakúgun á Indlandi, töfraraunsæi í S-Ameríku, goðsagnir sem rek- ast á nútímann á Grikklandi … þetta er það sem við búumst við í viðkomandi löndum því þetta eru erkitýpurnar sem myndast hafa. Og í hnattvæðingunni mega menningarsvæðin ein- ungis hafa þessa einu framhlið, ekki er gert ráð fyrir að fjölbreytni þrífist á hverjum stað fyrir sig því þá riðlast skiptingin í hillurnar.“ Hann áréttaði að í Ameríku væri reyndar að finna afró-amerískar bókmenntir, gyðinga- menningu, suður-ameríska list og svo fram- vegis, en minni svæðum væri hins vegar mein- uð slík fjölbreytni. Þetta hefði þau áhrif að höfundar, til dæmis grískir höfundar, reyndu gjarnan að hafa eitthvað „sérgrískt“ í bókum sínum, þar sem þeir héldu að annað væri svik við upprunann. Tímabært væri hins vegar að meta almennt gildi, e.k. alheimsgildi, hins sí- breytilega í hverri menningu: „Á meðan hnatt- væðing (e. globalization) ýkir og lokar, þá opn- ar alheimsleiki (e. universalism) skelina og hleypir innihaldinu út. Þá kemur í ljós að suð- ur-amerískar bókmenntir eru ekki bara töfra- raunsæi, heldur líka spænskur módernismi, engilsaxnesk áhrif, Borges og García Márquez og allt hitt. Þjóðleg menning í þröngum skilningi gerir ekkert nema selja gull sitt á lágu verði, þjóðleg menning í víðum skilningi – þar sem fjöl- breytnin ríkir – er hins vegar sterkt vopn gegn hnattvæðingunni og með því mæli ég.“ Regnbogaþjóð: uppspuni Mandela Suður-afríski rithöfundurinn Lewis Nkosi, sem nú býr í Sviss og hefur kennt bókmenntir í háskólum víða í Evrópu og Ameríku, fjallaði í erindi sínu um hugtakið „regnbogaþjóð“ sem Nelson Mandela hefur notað til þess að lýsa íbúum S-Afríku. Að mati Nkosi á hugtakið sér ekki grundvöll, þar sem íbúar landsins hafi aldrei verið þjóð í menningarlegum skilningi orðsins. „Eftir mörg hundruð ára sögu átaka og aðskilnaðar eigum við enn eftir að læra hvernig deila eigi gæðum landsins. Fólkið end- urspeglar vissulega liti regnbogans, en erum við yfir höfuð þjóð?“ spurði Nkosi og svaraði: „Hugmyndin um þjóð, í þessu landi ólíkra þjóðflokka, er okkur mjög framandi. Hún er í besta falli kjaftasaga sem eftir er að stað- festa,“ sagði hann og stiklaði þar næst á stóru í samtímasögu landsins. „Af þessu má sjá að hugtökin ríki og þjóð falla ekki alltaf saman. Við erum vissulega nú- tímaríki með skýr landamæri, en höfum ekki þróað með okkur vitund um þjóðerni.“ Hann minnti á að fortíðarþrá væri gjarnan eitt helsta hráefnið í smíði þjóðernisvitundar og birtist gjarnan glögglega í listaverkum og bókmenntum þess hóps sem reynir að þjappa sér í þjóð. „Eitt af einkennum nútímaskáldskapar í S- Afríku er hins vegar skortur á nostalgíu. For- tíðin er óafturkræfur missir sem enginn vill upplifa aftur. Þessi Paradísarmissir bjargar okkur frá því að baða okkur í fortíðarljóma. Og ef skáldsagan er í eðli sínu, eins og sumir segja, framsaga þjóðar, hefur s-afríska skáld- sagan alltaf verið munaðarlaus, jafnvel heim- ilislaus. Skáldsagan okkar hefur lengst af verið saga andspyrnu og helsta viðfangsefnið hefur verið munur milli kynþátta. Ást, kynlíf og hamingja skutu bara upp kollinum stöku sinn- um,“ sagði Nkosi, sem sjálfur er blökkumaður. Og bætti við: „Það er gagnvart þessum sögu- lega bakgrunni sem nauðsynlegt er að skoða suður-afrískar bókmenntir og skilja þrá okkar til þess að sættast við samtímann, von eftir nýrri framtíð.“ Er Guð hugmynd eða veruleiki? Fundarstjóri dagsins, Mikko Lehtonen, tók undir með Nkosi og benti á að þjóð væri alltaf búin til, hún væri ekki náttúrulegt fyrirbrigði. „En í miðju þjóðarvitundar er alltaf eitthvert tóm. Þetta tóm er til dæmis nostalgía, sem er að mínu viti spurning um rými, þrá eftir heim- ili. En í framangreindu tilfelli er ekki hægt að fara heim. Ég held að bókmenntir séu ein þeirra að- ferða sem við notum til þess að reyna að fylla þetta tóm. Kannski er það sísifísk viðleitni, sem tekur aldrei enda, en við reynum. Og leið- irnar eru tvær, annars vegar að finna ný gildi og hins vegar að sætta okkur við að geta ekki farið aftur heim,“ sagði Lehtonen og bætti við að dagskipunin væri ekki bara að skilja „ann- arleika hinna“ heldur átta okkur á því „að við sjálf erum alltaf í einhverjum skilningi „hinn““. Úr sal kom að auki sú athugasemd að tími þjóðanna væri kannski að verða liðinn, aðrir straumar og skilgreiningar væru að taka við. „Ríki þarfnast ekki þjóðar, heldur aðeins valdakerfis, landsvæðis og þegna. Þjóð er eitt- hvað annað og meira en þetta þrennt,“ sagði Veronica Pimenoff, finnskur mannfræðingur, heimspekingur og rithöfundur, og kvað mann- kynssöguna sýna að valdhafar hefðu engan áhuga á minnihlutahópum nema í því skyni að útrýma þeim. Ennfremur var bent á að þótt hugmyndir væru „manngerðar“, væri oft nauðsynlegt að umgangast þær sem veruleika – annars væri erfitt að fjalla um lífið almennt. Þetta ætti við um hugmyndir eins og Guð, þjóð og menningu. „Sumt fólk beinlínis þrífst á hugmyndinni um Guð og slíkt ber að virða,“ sagði Nkosi. „Og ef hingað inn ryddust allt í einu vopnaðir fasistar og æptu: „Allir niggarar komi sér tafarlaust út!“ þá yrði ég fyrstur til þess að hlaupa. Spurningin væri ekki hvort ég væri sammála hugmyndum þeirra.“ Chile-búi snýr á Dani Rubén Palma var næstur á mælendaskrá og fjallaði um reynslu sína af því að vera innflytj- andi frá Chile í Kaupmannahöfn. Hann yfirgaf fæðingarlandið Chile um tvítugt, var um tíma flóttamaður í Argentínu en komst um síðir til Danmerkur þar sem hann hefur búið síðan. Og í þrjátíu ár hefur hann skrifað á dönsku, þótt það hafi ekki gengið þrautalaust í upphafi. „Ég ákvað fljótlega að skrifa á dönsku, en hlaut litla áheyrn. Þegar ég hins vegar vann ritgerðasamkeppni [sem dagblaðið Politiken stóð fyrir], neyddust menn til að taka mig al- varlega. Samkeppnin var undir dulnefni, þann- ig að enginn vissi að útlendingur var höfundur textans. En jafnvel eftir það, rakst ég oft á veggi. Það er erfitt fyrir höfunda almennt að komast í gegnum „öryggisvörslu“ útgefanda, og fyrir innflytjanda er það enn erfiðara,“ sagði Palma. Og til þess að fá endanlega úr því skorið hvort tregðan beindist gegn honum sjálfum eða meintu hæfileikaleysi hans, gerði hann litla til- raun. Hann gekk um kaffihús Kaupmanna- hafnar og sýndi fólki texta sem hann sagðist hafa skrifað. Nema hvað að það voru textar eftir fræga, danska höfunda. „Og fólk leit á mig, benti og sagði: „Neeiii, veistu, þetta geng- ur ekki. Og þetta er líka einkennilegt. Svona myndi Dani aldrei skrifa.“ Mér fannst raunar ótrúlegt að fólk kannaðist ekki við þessa frægu höfunda, en það breytti ekki niðurstöðunni: Ef ég skrifa eitthvað, er það rangt. Ef Dani skrif- ar það, er það frumlegt.“ Þrátt fyrir þessar móttökur lét Palma ekki hugfallast og hefur í tímans rás skrifað smá- sögur, barnabækur, leikrit, ljóð og söngleiki, allt á dönsku. „Við erum ekki margir, útlend- ÞJÓÐ ER HEIMAGERÐ HUGMYND Í Evrópu fjölmenningarinnar eru fjölradda bækur skrifaðar á fjölmörgum tungumálum um fjölbreytta reynsluheima. Kannski er ekki lengur hægt að tala um þjóðarbókmenntir því inn- flytjendur eru líka höfundar og mállýskur eru líka raddir. SIGURBJÖRG ÞRASTARDÓTTIR sat ráðstefnu í Helsinki þar sem gengið var á hólm við gamla hugmyndafræði. – FYRRI HLUTI – Reuters Táknmynd Bandaríkjanna í fylkingarbrjósti þýskra Trabant-bifreiða sem hafa yfir sér ljóma horf- innar Evrópu. Hér er ekið í gegnum borgina Zwickau sem lenti á sínum tíma austan landamæra- línu hins gamla Þýskalands – hefði allt eins getað hafnað hinum megin þegar kortið var hannað.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.