Lesbók Morgunblaðsins - 05.07.2003, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 05.07.2003, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 5. JÚLÍ 2003 7 þola lausnir annarra á vanda tilverunnar getur verið þungbært, hvort sem það eru lausnir móður, föður, systkina, vina eða maka.“ Nú kom hjúkrunarfræðingur inn og ég spyr: Hvernig er Halldór sem sjúklingur? Og hún svarar: „Hann er góður sjúklingur en alltof sjálfstæður.“ Hún snýr sér að honum og spyr: „Hvernig líður þér Halldór minn?“ Hann svarar: „Ég er laus við verki sem stendur.“ Hún lokar dyrunum og við höldum áfram. Verkir Þú ert verkjalaus núna, en þú þekkir vel til verkjanna. Hvaða hugmyndir hefur þú um verki? „Verkir þjóna allskyns tilgangi, kannski fyrst og fremst þeim að segja manni að eitt- hvað sé ekki í lagi og að eitthvað þurfi að gera til að kippa því í lag. Í flestum tilfellum er ástæða fyrir verkjum og í langflestum tilfell- um er það eitthvað líkamlegt. Sálrænir verkir eru svo vissulega eitthvað sem allir þekkja af eigin reynslu og annarra. Verkir eru yfirleitt eitthvað sem líkaminn ræður við og getur los- að sig við eftir eðlilegum leiðum. En í sálræn- um verkjum er vandinn yfirleitt sá að líkaminn er ekki fær um að losa sig við þá, annaðhvort vegna þess að þeir eru of kröftugir eða vegna þess að þeir fá ekki eðlilega útrás. Þeir eru eins og stífla á leiðinni út úr líkamanum, það myndast spenna í líffærum eða taugum sem er sterkari en svo að viðkomandi líffæri eða taug sé fært um að ráða við hana. Líkaminn losnar ekki við verkinn á venjulegan og eðlilegan hátt. Það verða til sálræn óþægindi. Sálrænir verkir eru af sömu rót sprottnir og venjulegir verkir nema að það er eins og einhverskonar stífla í kerfinu.“ Geðveiki Er það þessi „spenna“ sem veldur geðtrufl- unum? „Geðveiki er í flestum tilfellum eðlileg tján- ing á einhverju sem er annaðhvort of sterkt til að líkaminn ráði við það eða á einhverju sem fær ekki eðlilega útrás. Ef við tökum banalt dæmi: Ef þú færð slæman verk og vilt t.d. segja „æ, hver andskotinn“ en gerir það ekki eða getur það ekki, þá fær tilfinningin ekki út- rás um það líffæri sem ætlast er til – munninn – heldur fær tjáningin á þessu útrás einhvers staðar annars staðar í líkamanum. Yfirleitt eru geðsjúkdómar náttúrulegar nauðvarnir.“ Sállækning Ef líkaminn, líffæri og taugar eru farin að bera slíka hluti hvernig má þá koma lækningu við? „Það fyrsta sem maður þarf að gera er að reyna að átta sig á því „hvað veldur, hver held- ur“ og reyna að skilja hvernig þetta ástand hefur orðið til. Í flestum tilfellum er svarið að finna í sjúklingnum sjálfum og þá á einhverj- um svæðum hugarheimsins sem hann sjálfur áttar sig illa á. Þess vegna er mikilvægt að sjúklingurinn segi sjálfur frá upplifun sinni, bæði óþægindunum og öllu því sem hann hefur gert til að losa sig undan þessum óþægindum. Þetta gerir maður í þeirri trú að einhvers stað- ar og á einhvern hátt sé svarið að finna í sjúk- lingnum sjálfum – en ekki í lækninum. Lækn- irinn eða þerapistinn þarf að ganga út frá því sem vísu að sjúklingurinn sjálfur geti leitt hann að sannleika málsins en ekki öfugt. Læknirinn má ekki byrja með fyrirframgefnar skoðanir.“ Spurningar Hvert er þá hlutverk læknisins? „Það er að hlusta og að spyrja – og að spyrja þannig að svarið sem maður leitar að felist ekki í spurningunni sjálfri. Markmiðið er að spyrja þannig að það hjálpi sjúklingnum við að halda sig við það sem skiptir máli og fari ekki út af sporinu eins og hann myndi að öllu lík- indum gera undir venjulegum kringumstæð- um. Læknirinn þarf að leiða og styðja sjúk- linginn inn á þá braut sem hann myndi að jafnaði forðast eða beygja út af vegna þess að hann nálgast eitthvað sem er óþægilegt og fari að beita vörnum sjálfsins.“ Sjálf Þú hefur nefnt „sjálf“ öðru hverju. Hvað áttu við með hugtakinu? „Hugtakið sjálf hefur þrönga merkingu á ís- lensku. Enska orðið self er víðtækara og er annarsvegar talað um kjarnasjálf (core self) sem er í reynd það sem liggur persónuleik- anum til grundvallar og hinsvegar virknisjálf (functional self) sem vex út úr hinu. Sjálfið er sá hluti sálarlífsins sem er séreiginlegur og að- skilur þig frá öðru fólki. Þrátt fyrir að þú eigir margt sameiginlegt með öðru fólki þá er eitt- hvað sem er aðeins „þú“ og enginn annar. Þetta er sá hluti þinn sem hefur gagnast þér hvað best í lífinu. Þetta er verkfæri þitt.“ Er ekki viðleitni innan fræðanna að reyna að losna við þetta sjálfshugtak? „Þá eru menn komnir út fyrir klassíka kenn- ingu og þeir sem það gera eru þá oft með í huga allt aðra skilgreiningu á sjálfinu en við- tekin hefur verið. Sjálfshugtakið hefur með- ferðarlegt gildi fyrir lækni og sjúkling þegar meðferð er á því stigi að rætt sé um slík tækni- leg atriði við sjúklinginn. Sjálfið getur vissu- lega lent í árekstrum gagnvart öðrum sjálfum en maður rekst ekki aðeins á aðra, maður rekst líka á sjálfan sig. Það koma upp mál sem maður reynir að takast á við í sjálfum sér en einhverra hluta vegna festist maður og kemst ekki að kjarna sjálfsins.“ Kjarninn Hvernig skynjar maður þennan kjarna? „Það er allur gangur á því. Það eru einkum tvennskonar vandamál sem maður sér í þessu sambandi: Annarsvegar er fólk sem setur vandamál sín upp í gátur þar sem kjarninn er falinn. Viðkomandi reynir að skilja gáturnar en tekst það ekki því vandinn er í dulvitund- inni. Þetta skapar taugaveiklun (neurosis). Hinsvegar er fólk sem hefur alla þætti vand- ans uppi á borðinu, skoðar þá alla en getur ekki, sama hvað það reynir, séð samhengið á milli þeirra því kjarninn er of truflandi. Þetta er alvarlegra vandamál og skapar alvarlegri geðtruflun (psychosis). Báðir eru að reyna eft- ir mætti að vinna úr sínum vandamálum. Þeg- ar unnið er með taugaveiklun þarf maður að geta opnað gáturnar fyrir viðkomandi og það getur kallað á mikla mótstöðu. Það þarf að finna hvað sjúklingurinn er að glíma við og hvers vegna hann kemst ekki í samband við það. Þegar unnið er með geðtruflanir þar sem sjúklingurinn leggur allt á borðið en getur ekki fengið neinn botn í allt efnið þá þarf að hjálpa honum að tengja og fá merkingu í efn- ið.“ Sálgreining Ég heyri að þú vísar leynt og ljóst í kenn- ingar sálgreiningar – hvernig kynntist þú þeim? „Á Hillside voru flestir kennarar mínir sál- greinar. Sálgreiningin leiddi margt merkilegt í ljós en hún er á margan hátt óhagkvæm vegna þess að hún krefst tíma og er því dýr. En það er margt í henni sem nýtist vel. Ég hef mest unnið utan spítala og þar hefur þessi þekking gagnast mér mjög vel í samskiptum við fólk sem af einhverjum ástæðum hefur siglt í strand og veit ekki hvernig það á að snúa sér. Ef maður hefur tíma og fjármagn þá er aðferð- in gild og áhrifarík. Sálgreining hefur líka víða skírskotun. Þegar hún var að verða til og nýtt fólk fór að taka við af Freud urðu átök og ég held að á tímabili hafi stefnan þrengst og fest í aðdáun á Freud og á uppgötvunum hans. Við tók að sumu leyti kyrrstaða en líka þróun í ýmsar áttir. Þó að maður tileinki sér ekki nema hluta af innsýn sálgreiningar þá er mað- ur ríkari en ella.“ Anna Hittir þú einhverja af forgöngumönnum sál- greiningarstefnunnar? „Ég sótti þing í barnageðlækningum í París, Kiev, Moskvu, Prag, Leníngrad, Póllandi, Ítal- íu, London, New York og víðar. Þarna voru margir brautryðjendur á þessu sviði. Ég hitti t.d. Donald W. Winnicott í London og Önnu Freud á fundi í Amsterdam í Hollandi þar sem hún hélt fyrirlestra. Það er svolítið gaman að segja frá því að Anna átti gamla frænku frá Kaupmannahöfn sem var á ráðstefnunni og hékk alltaf utaní þessari frægu frænku sinni. Þar sem ég talaði dönsku við frænkuna gat Anna losnað undan ágangi hennar. Við þrjú drukkum saman kaffi og spjölluðum en Anna var orðin fullorðin á þessum tíma.“ Sigmund Faðir Önnu, Sigmund Freud, hefur nokkuð verið til umræðu á Íslandi undanfarið. Hvað hefur þú um hann að segja? „Hefði Freud ekki verið Vínarbúi þá er ég ekki viss um að honum hefði flogið í hug hug- myndin um dulvitund. Um 1812, eftir Napóle- onsstríðin, komst á einskonar lögregluríki í Vínarborg. Ef fólk talaði frjálslega og sagði hug sinn gat það lent í vandræðum og til varð það sem kallað var Schmah sem þýðir í reynd „að tala undir rós“ og var einskonar dulmál til að verja sig fyrir leynilögreglunni. Þetta gaf tóninn fyrir Freud og flýtti fyrir uppgötvun hans því hann áttaði sig á því að fólk talaði stundum við sjálft sig eins og það væri að tala við einhvern hættulegan. Freud sá að fólk gat líkt og óttast að segja hug sinn við sjálft sig til að forða sér frá óþægindum en yfirleitt leiddi þetta til aukinna óþæginda og jafnvel til geð- truflana.“ Barnageðlækningar Hvað hefur þú að segja um barnageðlækn- ingar í samtímanum? „Eftir að hafa verið barnalæknir í heila ævi þá hef ég fleiri spurningar en svör. Það er mik- ið vitað um þroskaferli barna en ef maður fer að segja of mikið um þetta, er hætta á mis- skilningi. Ég held þó að það sé hættulegt í meðferð barna að hugsa í of einföldum tækni- legum lausnum. Góður sállæknir þarf að geta opnað fyrir skilning og skapað tengsl. Það er rangt sem margir virðast gefa sér nú á dögum að börn taki ekki samtalsmeðferð því að þau skorti vitsmunaþroska, þvert á móti eru þau mjög móttækileg fyrir slíku – það er að segja ef þerapistinn kann að komast á þeirra plan. Börn eru í senn flóknar og einfaldar verur: Það þýðir t.d. ekki að hóta barni sem getur ekki sagt tiltekið orð; og barn sem getur ekki gert grein fyrir sér í orðum tjáir sig oft með öðrum hætti, t.d. í ofvirkni. Það er mikil þörf á raunverulegri meðferð og leiðbeiningu til al- mennings um eðli þessara hluta. Ég held að enginn barnageðlæknir sé ánægður með stöð- una í dag en það er hvorki til mannskapur með tilhlýðilega menntun né peningar – þeir sem starfa við þetta gera hvað þeir geta.“ Líknardeild Nú liggur þú á líknardeild og ert þegar bú- inn að liggja fjórar banalegur eins og þú orð- aðir það einhverntíma. Hvernig tekst þú á við þetta? „Það er rétt. Ég er búinn að liggja fjórar banalegur að minnsta kosti (brosir). Fyrst fékk ég nýrnakrabba, svo krabbamein í ristil og einu sinni var ég skorinn upp í hasti vegna hættulegra samgróninga í kviðarholi. Nú glími ég við eitlakrabbamein. Ég reykti mikið allt til ársins 1976 þegar ég fékk lungnakrabbamein. Ég get kannski ekki skýrt hvernig ég tekst á við þetta. Ég verð bara máttlaus og missi áhugann og fagna því að geta hvílt lúin bein og ég svala mér á þeirri tilhugsun að ég sé nokk- urnveginn að gera það sem ég get gert og megi því slaka á og hvílast í friði.“ Nú gefur tölvan mér merki um að batteríið sé að verða búið. Batterí okkar Halldórs eru þó enn virk og vel það. Ég slekk á tölvunni og við höldum áfram spjallinu maður á mann án tæknilegra milliliða. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson Það er hlutverk læknisins að hlusta og að spyrja, segir Halldór Hansen. Höfundur er sálgreinir.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.