Lesbók Morgunblaðsins - 26.07.2003, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 26.07.2003, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 26. JÚLÍ 2003 11 Hafa fjölmiðlar bein áhrif á hegðun fólks? SVAR: Á sunnudagskvöldi, 30. október 1938 (kvöld- ið fyrir hrekkjavöku, e. Halloween), flutti bandaríska útvarpsstöðin CBS leikritið Inn- rásina frá Mars ( The War of the Worlds ) sem byggt var á vísindaskáldsögu H. G. Wells (1866–1946). Að leikgerðinni stóðu Orson Welles (1915–1985), sem síðar varð frægur kvikmyndaleikstjóri og -leikari, og leikhóp- urinn Mercury Theatre. Samkvæmt rannsókn American Institute of Public Opinion lögðu níu milljónir fullorðinna og þrjár milljónir barna við hlustir þegar leik- ritinu var útvarpað. Litlu munaði að leikritið yrði aldrei flutt því að leikurunum þótti það fremur leiðinlegt og höfundur leikgerðarinnar átti í erfiðleikum með að gera söguna að góðu leikriti. Engan óraði fyrir hversu gífurleg áhrif leikritið myndi hafa og að það kæmist á spjöld sögunnar. Í stuttu máli fjallaði leikritið um innrás Marsbúa á Bandaríkin. Var leikritið flutt í fréttaformi og hlustendum fluttar „fréttir“ af tortímingu bæja og borga. Þeim var meðal annars tilkynnt að Marsbúar hefðu lagt undir sig stór landsvæði og að New York-borg væri rústir einar eftir eiturefnaárás þeirra. Talið er að minnsta kosti ein milljón Bandaríkjamanna hafi orðið skelfingu lostin við „fréttirnar“ og þeir hlustendur trúað því að þeir væru að hlusta á raunverulegan fréttatíma. Viðbrögð fólks báru því einnig vitni að það hélt að innrás Marsbúa stæði yfir. Símalínur til fjölmiðla urðu rauðglóandi, hundruð skelfdra New York-búa flúðu heimili sín í ofboði og maður í Pittsburgh kom að konu sinni þar sem hún var um það bil að stytta sér aldur til að lenda ekki í klónum á Marsbúunum. Viðbrögð áheyrenda við Innrásinni frá Mars eru eitt besta dæmið um hversu mikil áhrif fjölmiðlar geta haft á hegðun fólks, það er að segja, sé ákveðnum skilyrðum fullnægt. Miklu máli skipti að leikritið þótti raunverulegt, hlustendur voru vanir að fá mikilvægar fréttir og tilkynningar í gegnum útvarpið, í leikritinu var rætt við „sérfræðinga“ til að auka enn á trúverðugleika þess og notuð voru staðarnöfn sem fólk þekkti. Síðast en ekki síst skipti máli hvenær fólk fór að hlusta á leikritið þar sem í upphafi var greint frá að um leikrit væri að ræða. Tæplega helmingur hlustenda byrjaði að hlusta eftir að leikritið hófst og missti því af byrjuninni. Einnig má nefna annað og nærtækara dæmi um áhrif fjölmiðla. 17. júní 1994 hélt íslenska þjóðin upp á hálfrar aldar afmæli lýðveldisins á Þingvöllum. Dagskráin á Þingvöllum hófst þegar um morguninn en það var ekki fyrr en um hádegisbilið sem umferðarhnútar mynd- uðust á helstu akleiðum frá höfuðborgarsvæð- inu. Margar fjölskyldur eyddu deginum í bíl- um sínum, pikkfastar í umferðinni. Hægt er að velta fyrir sér hvað olli því að allir lögðu af stað á sama tíma. Líklegasta skýringin er sú að fólk vildi vita hvernig veðrið væri á Þingvöllum áð- ur en lagt væri af stað og þegar sjónvarps- myndir sýndu að þar væri ágætis veður var ekki að sökum að spyrja. Að sumar- sem og vetrarlagi reiða Íslend- ingar sig á veðurspár fjölmiðlanna og láta þær iðulega hafa áhrif á gerðir sínar. Er dagblöð slá því upp á forsíðum að besta veður sumars- ins verði um helgina, draga fjölskyldur fram útilegubúnaðinn eða skipuleggja grillveislur. Yfirleitt vara áhrif fjölmiðla á hegðun fólks aðeins í skamman tíma. Við dillum okkur í takt við tónlist í útvarpinu, tárumst yfir sorglegum kvikmyndum og ræðum við vini og starfs- félaga um fréttir gærdagsins – svo nokkur dæmi séu nefnd. Því miður eru að auki til alltof mörg dæmi um skaðleg langtímaáhrif fjöl- miðla á hegðun fólks, sérstaklega á börn og unglinga. Börn hafa til dæmis slasað sig eða aðra eftir að hafa hermt eftir teiknimyndum og margir þjást af einhvers konar fælni eftir að hafa séð hryllingsmyndir, þora ekki í sund eftir að hafa séð kvikmyndina Jaws eða þola ekki dúkkur nálægt sér eftir að hafa séð myndina Child’s Play. Við erum oft meðvituð um áhrif fjölmiðla á okkur og við notum þá markvisst til að ná fram ákveðnum áhrifum. Margir hlusta á rólega tónlist í útvarpi til að slappa af og rannsóknir hafa meðal annars sýnt hvernig vinnudagur- inn hjá fólki getur haft áhrif á val þess á sjón- varpsefni í lok dags. Að lokum má geta þess að fjölmiðlar eru iðulega notaðir til að ná fram jákvæðri breyt- ingu á hegðun fólks, til að mynda til að fá fólk til að draga úr hraðakstri eða hætta að reykja. Fjölmiðlar hafa því ekki eingöngu neikvæð áhrif á hegðun fólks heldur geta þeir einnig haft mjög jákvæð áhrif á notendur sína. Guðbjörg Hildur Kolbeins, lektor í hagnýtri fjölmiðlun. HAFA FJÖLMIÐLAR BEIN ÁHRIF Á HEGÐUN FÓLKS? Hvað gerist ef Alþingi setur lög sem stangast á við Stjórnarskrána, hvernig fara tvíburarann- sóknir fram, hvaða dýr eru í mestri útrýmingarhættu og af hverju er orð- ið „taxi“ notað um leigubíla? Þessum spurningum og fjölmörgum öðr- um hefur verið svarað að undanförnu á Vísindavefnum. VÍSINDI ÍSRAELSKI sagnfræðingurinn og hug-sjónakonan Fania Oz-Salzberger var með-al frummælenda á málþinginu Fjölmenn-ingarleg Evrópa í Helsinki á dögunum og vakti þar athygli með persónulegu erindi sínu um evrópskar bókmenntir frá ísraelsku sjón- arhorni. Hún er menntuð í sögu og heimspeki, kennir við sagnfræðideild háskólans í Haifa og starfar sem sjálfboðaliði hjá Ísraelsku mann- réttindasamtökunum. Oz-Salzberger er dóttir rithöfundarins Amos Oz og ferðast, líkt og hann, víða um lönd til fyrirlestrahalds. Arfur fortíðarinnar lifir „Ég er ekki Evrópubúi, en mig langar að lýsa aðstæðum mínum. Ég tala nútíma hebr- esku og á því máli reynum við í mínu landi að tala saman, elskast og semja frið. Þetta er fal- legt tungumál og hæft til alls þessa,“ sagði Oz- Salzberger. „En báðir afar mínir og ömmur og allir langafar og langömmur voru Evrópubúar. Þau komu frá löndum á borð við Frakkland og Þýskaland og flúðu aðför nasista með bækur í ferðatöskunum sínum.“ Oz-Salzberger lýsti því hvernig foreldrar hennar og ömmur og afar hefðu hikað við að kenna henni móðurmál þeirra, eftir að til Ísr- aels var komið að lokinni síðari heimsstyrjöld, vegna þeirrar beiskju sem þau báru í brjósti gagnvart fortíðinni. Í staðinn þýddu þau bæk- ur sínar yfir á hebresku fyrir börnin – í það minnsta fyrst um sinn. Og hin fróðleiksþyrsta Fania pældi í gegnum ríkulegan bókmennta- heim, allt frá Cervantes til Erich Kästner. „Ef einhver hefði spurt mig, þegar ég var sextán ára, hvort eitthvað væri til sem héti evrópskar bókmenntir hefði ég hiklaust svarað játandi og bent á bókahillurnar okkar. Það var til evr- ópskur bókmenntaarfur, en okkur var sparkað út úr honum, við vorum send í útlegð. Gamla bókasafnið okkar er vitnisburður um þann sameiginlega heim sem var, eða átti að verða,“ sagði hún og vísaði til þess rofs sem útrýming- arstefna nasista gagnvart gyðingum olli. „Bókmenntir bjarga ekki mannslífum. Þær björguðu ekki langafa mínum sem talaði 17 tungumál og var ritfær á 7 þeirra. Evrópa bjargaði ekki lífi hans – hún tók líf hans,“ sagði Oz-Salzberger ennfremur í erindi sínu. „En þetta er samt sú arfleifð sem ég er tilbúin að umfaðma og byggja á til framtíðar. Ég hef gert mér grein fyrir því með tímanum að evr- ópskar bókmenntir grundvallast á mótum, ýmiss konar tímamótum og vegamótum. Milli karla og kvenna, fortíðar og framtíðar, ólíkra landa, heimilis og framandleika. Hið sama gildir um sögu Ísraels. Og hvers vegna skyld- um við ekki einmitt nota okkur það mynstur, viðurkenna að það er í lagi að tilheyra fleiri en einum menningarheimi samtímis?“ Hún ítrekaði að Evrópa við upphaf 20. ald- arinnar hafi verið draumaland, þar hafi stór- kostleg bókmenntaverk og kvikmyndir sprott- ið úr hinum frjóa evrópska jarðvegi þar sem margir menningarheimar mættust. Í sam- bærilegu umhverfi væri hugsanlega hægt að skapa evrópska menningu til framtíðar á 21. öld. Gestur í sal taldi þessa sýn á Evrópu tals- vert rómantíska, en Oz-Salzberger sagðist síð- asta manneskjan til þess að sjá Evrópu í róm- antísku ljósi. „Evrópa var móðir sem breyttist í Medeu. Það er alveg ljóst. Ég er bara að biðja fólk um að muna hvar við vorum stödd, muna að gyðingar voru hluti af evrópsku menningar- lífi í þúsund ár.“ Við þörfnumst Evrópu Í spjalli að umræðum loknum reyndi Oz- Salzberger ekki að afsaka pólitíska þráðinn í erindi sínu, þvert á móti sagðist hún jafnan blanda pólitík í menningarumfjöllun sína þar sem þetta tvennt væri óaðskiljanlegt. „Evr- ópumenn gætu svo vel aðstoðað við friðar- umleitanir fyrir botni Miðjarðarhafs. Þeir mega auðvitað líka skamma okkur eins og þá lystir. En fyrst viljum við einfaldlega að þeir komi til okkar, viðurkenni að þeir þekki okkur, segist jafnvel sakna okkar. Við þurfum nefni- lega á Evrópu að halda, það er ekki nóg að eiga stóran frænda með byssu,“ sagði hún og átti við Bandaríkin. „Við deilum ekki menning- arlegri fortíð með Ameríku, tengslin eru ein- göngu á sviði valds og stjórnmála og það er ekki það sem við þörfnumst. Ég bendi reyndar á að þetta er ekki endilega skoðun meirihlut- ans í mínu landi, en ýmsir deila þessari skoðun minni og ef við Ísraelar höfum hefð fyrir ein- hverju þá er það einmitt margradda sam- félag.“ Einn þinggestur taldi vanta umfjöllun um stríð í umræðuna. Vopnuð átök hefðu alltaf verið, hvort sem fólki líkaði betur eða verr, ein tegund samskipta í Evrópu. Þess vegna væri ekki hægt að aðskilja sögu gyðinga og sögu styrjalda. Oz-Salzberger svaraði að bragði: „Það er ekki rétt að gyðingar hafi verið hluti af herveldisstefnu Evrópu. Ég vildi að svo hefði verið, þá hefðum við kannski getað varið okkur. Eina framlag gyðinga til evrópskrar stríðssögu var „hæfileiki“ þeirra til þess að stöðva byssukúlur með líkama sínum.“ Síðar svaraði hún spurningum um ástandið og ofbeldið í Palestínu. „Einn vinur minn, frægur sagnfræðingur, heldur því fram að það eina sem sameini Ísraela og Palestínumenn séu átökin. Leysist landfræðilegu deilurnar muni ekkert verða eftir til þess að byggja framtíðina á,“ sagði indverskur þinggestur, búsettur í Berlín. Oz-Salzberger kvað þetta af og frá. „Við eig- um mjög margt sameiginlegt og um leið og stjórnmála- og landamæradeilan leysist mun menningarlífið blómstra. Það eru allir að bíða eftir því. Listamenn eru að bíða, samkyn- hneigðir bíða – en í samfélagi hinna síðar- nefndu í Tel Aviv eru til dæmis fjölmargir arabar. Þeir mæta ekki skilningi í sínum hópi og hafa því fundið samleið með samkyn- hneigðum Ísraelum. Tel Aviv er kraumandi staður núna, þar er margt spennandi að gerast og þegar friður kemst á verður svo ótal margt mögulegt á öllum sviðum lista og samskipta. Einnig þess vegna tel ég mikilvægt að gott samband komist á við Evrópu – svo við getum haldið áfram að auðga hvor annars menningu eins og áður.“ AÐ BJARGA MANNSLÍFUM Morgunblaðið/Sigurbjörg Ísraelski sagnfræðingurinn Fania Oz-Salzberger fléttar saman menningarsögu og pólitík: „Við þurfum á Evrópu að halda – það er ekki nóg að eiga stóran frænda með byssu.“ Evrópskur bókmenntaarfur stendur nærri hjarta margra Ísraela, var SIGURBJÖRGU ÞRASTARDÓTTUR tjáð á málþingi í Finnlandi. sith@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.