Lesbók Morgunblaðsins - 15.11.2003, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 15.11.2003, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 15. NÓVEMBER 2003 5 orða hans, til dæmis þegar ég fór í gönguferð og vissi að þegar ég kæmi heim aftur yrði ég að skrifa samtal milli Jóns Arasonar og Mar- teins Einarssonar sem yrði ekki aðeins að standast trúna heldur og í öllu öðru tilliti. Ég las anzi mikið um þessa tíma og velti því mikið fyrir mér, hvaða tungumál hentaði þess- ari bók. Það kom mér á óvart, að bréf sem Daði í Snóksdal skrifaði um 1550 er á öllu aðgengi- legri íslenzku, en til dæmis Íslandsklukkan. Halldór Laxness bjó til sérstakt mál fyrir þá bók, en skrif manns, sem var uppi um 200 ár- um áður en sú saga á að gerast, standa okkur nær. Mér fannst ég þurfa að velja frásagnarmáta með íslenzku, eins og við þekkjum hana og einnig keim af Íslendingasögunum. Ég renndi því aftur í gegnum fornsögurnar; Njálu og Eg- ils sögu, til þess að finna rétta tóninn.“ – Hvað um sögusviðið? Lagðir þú land undir fót? „Já, já. Ég eyddi tveimur sumrum í þau ferðalög. Það var gaman að fara um landið og eftir á finnast mér Hólar vera paradís á Ís- landi. Satt að segja kann ég hvergi betur við mig en heima á Hólum. En ég fór á allar söguslóðirnar. Ég þramm- aði meira að segja inn í Vindárdal.“ – Fórstu Helju? „Nei. Ekki gerði ég það nú. Ég var orðinn svo slæmur til fótanna, þegar kom að því. En ég hitti þar fyrir fólk, sem var að ganga yfir í Svarfaðardal og ég sat fyrir ferðamönnum, sem voru að koma yfir um og spurði þá spjör- unum úr um ferðalagið.“ Trú, brennisteinn og skreið – Þú ert þá með þitt á hreinu. „Það ætla ég rétt að vona! En hvað sem öll- um staðreyndum líður er söguleg skáldsaga fyrst og fremst tilfinning höfundarins fyrir liðnum atburðum. Efnið þarf að snerta hann því án snertingar verður engin kveikja. En sagan verður aldrei nema það sem höfundinum finnst. Það er mál að ofgera ekki sögulegri skáld- sögu með aðfengnum lýsingum. Þær geta snú- ist upp í hreinan fáránleika. Við megum heldur aldrei gleyma því, að þetta var fyrst og fremst fólk, sem var kannski ekki svo ólíkt manninum eins og hann hefur alltaf verið.“ – Hvernig var að skrifa söguna? „Ég hafði mjög gaman af að skrifa þessa bók. Að skrifa er að uppgötva og mér fannst, þeg- ar ég var að vinna bókina, að ég kæmi að svo mörgum nýjum hlutum; ég var alltaf að upp- götva eitthvað nýtt!“ – Nú eru átök sögunnar ekki bara af trú- fræðilegum toga. „Nei. Átökin eru trúarleg, en snerust á hinn bóginn um auð og völd og voru því afskaplega veraldleg. Menn börðust um brennistein og skreið. Brennisteinninn var fluttur út til púðurgerðar og skreiðin var viðurværi hermanna. Skreiðin var eins og gull. Það var því eftir miklu að slægjast. Þetta blandaðist allt saman, en trúin var í brennidepli.“ – Hvað ertu að segja okkur með þessari sögu? „Ég held, að þegar ég skrifaði þennan sam- hangandi bókaflokk, sem við minntumst á hafi ég að minnsta kosti haft einhvern boðskap um stöðu mannsins á plánetunni. Ég sjálfur hafði eitthvað ákveðið að segja. En í þessari bók er ég fyrst og fremst að segja sögu, frekar en að ég dragi allt saman til einnar ályktunar í lokin. Í Vetrarferðinni er söguhetjan Sigrún kven- legur Job. Hennar niðurstaða er allt önnur en hans. Job beygði sig fyrir Drottni, en það gerði Sigrún ekki. Ég ætla mér enga svona yfirlýsingu í þess- ari nýju bók. Mér fannst efnið einfaldlega upplagt til þess að segja sögu.“ Gott að hafa Balzac yfir sér – Eitthvað nýtt í gangi? „Já, já. Ég er byrjaður á nýju verki. Það er alltaf eitthvað í gangi.“ – Eitthvað í líkingu við þessa bók? „Nei, ég held ekki. Ég ætla ekki að skrifa bókaflokk sagnfræðilegra skáldsagna. Svo verða menn nú bara að hvíla sig. Ég held að synir mínir hafi haldið ungir að það væri auðvelt líf að vera rithöfundur; hann lá bara uppi í sófa, fitlaði í hárinu á sér og horfði upp í loftið – fékk sér svo vínarbrauð með fýlusvip. Ég er ekki viss um, nema þeir hafi svolítið aðra mynd af þessu nú. Enda; hvað gagnast það manni að þykjast vera í fríi, þegar hann á óskrifaða 400 síðna bók? Það held ég sé hálfgerð gervilukka.“ Ólafur segist hafa skrifað Öxina og jörðina undir mynd af franska rithöfundinum Balzac. „Mér fannst gott að hafa hann yfir mér. Hann skrifaði 150 bækur. Þegar sjálfs- vorkunnin náði tökum á mér, leit ég til Balzac á veggnum og hann minnti mig á, að ég væri ekkert í slæmum málum! Maður verður nefnilega að láta vaða í svona verk. Ef maður hefur þá tilfinningu að maður sé að ýta einhverju á undan sér, sem er tómt erfiði, þá er eitthvað að. En þegar maður verð- ur að hlaupa á eftir textanum, eins og þegar maður teikar strætó, þú mátt alls ekki sleppa takinu, þá er gaman að skrifa! Kannski er ekki farsælt að hugsa of mikið um það sem maður er að skrifa! Bara gefa sér lausan tauminn. Ég á enskan vin, rithöfund, sem er þannig, að hann skrifar eina síðu og les hana svo yfir. Þá finnst honum það ekkert í lík- ingu við Tolstoj og bara æ og ó og hann er lagztur fyrir. Það þarf alveg ákveðinn skammt af hort- ugheitum til þessara hluta. Joyce Carol Oats sagði að rithöfundurinn yrði að trúa á sjálfan sig. Það gerir það enginn fyrir hann.“ Að gera það sem mann langar til – Vafðist það ekkert fyrir þér að gerast rit- höfundur? „Jú. Mjög svo. Mér fannst það óhugsandi viðfangsefni. Ég þekkti engan rithöfund og fannst þetta fáránleg tilhugsun. Ég var sölumaður og keyrði oft til Víkur. Þá gisti ég á Hótel Vík og þar sat maður við borð og skrifaði, milli þess sem honum var fært kaffi og kökur. Þetta var Oscar Clausen. Ég seldi líka rakspíra á rakarastofu á Sel- fossi. Þá sat þar stundum maður í stólnum með sápu um vangana. Allt í einu rétti rakarinn honum blokk og blýant og hann skrifaði niður eina setningu eða svo. Svo hélt raksturinn áfram. Þetta var Guðmundur Daníelsson. Mér sýndist af þessu, að starf rithöfund- arins gæti ekki verið verra en sölumennskan!“ – Þú byrjaðir á ljóðinu. „Ójá. Ég byrjaði á ljóðum 18, 19 ára í Verzló. Það var mikið ljóðafargan í gangi. Það voru all- ir að yrkja og ekkert var stórfenglegra en að vera ljóðskáld. En svo fór ég frá ljóðinu. Reyndar var ekki frá miklu að hverfa, því ég var afskaplega vont ljóðskáld. Þetta voru eng- in ljóð. Ég var bara að segja litlar sögur í ljóð- um. Ég hef reynt að yrkja ljóð síðar meir. En mér fer ekkert fram, því það er ekkert varið í þau! En þegar ljóðinu sleppti, tók við nokkurra ára hlé. Ég rak mína heildverzlun og kynnti Ís- lendingum vörur frá Burton á Englandi, meðal annars kexið sem nú er auglýst gott báðum megin. En ég var einhvern veginn aldrei sáttur við sjálfan mig. Einn góðan veðurdag rann það upp fyrir mér að ég hafði kynnzt of mörgum sem grétu hlutskipti sitt í lífinu og töluðu um að þeir hefðu getað orðið þetta eða hitt ef þeir hefðu bara látið slag standa og gert það sem þeir helzt vildu. Mig hafði alltaf langað til að skrifa og ég ákvað að skera mig úr og prufa. Tilveran er nú einu sinni þannig, að þú færð engan annan sjens.“ – Erfið ákvörðun? „Ekki þegar ég á endanum tók hana. Ég ætlaði mér að komast í gegnum þetta. Og ég lagði mjög hart að mér. Ég er ekki mikið náttúrutalent sem rithöf- undur. Ég þarf að hafa mikið fyrir hlutunum.“ – Ertu sáttur við árangurinn? „Ég er sáttur við að hafa gert það sem mig langaði til að gera.“ En hvað sem öllum stað- reyndum líður er söguleg skáld- saga fyrst og fremst tilfinning höfundarins fyrir liðnum at- burðum. Efnið þarf að snerta hann því án snertingar verður engin kveikja. En sagan verður aldrei nema það sem höfundinum finnst. Það er mál að ofgera ekki sögu- legri skáldsögu með aðfengnum lýsingum. Þær geta snúist upp í hreinan fáránleika. Við megum heldur aldrei gleyma því, að þetta var fyrst og fremst fólk, sem var kannski ekki svo ólíkt manninum eins og hann hefur alltaf verið. freysteinn@mbl.is Síra Jón Bjarnason stóð í dyrunum oghorfði á Jón Arason og biskupifannst hann yrði að kveða vísu fyrirmanninn. Þegar hann var orðinn einn hafði hann vísuna yfir með sjálfum sér, hún hefði getað verið verr ort þessi síðasta vísa sem hann mælti af munni fram: Vondslega hefur oss veröldin blekkt, villt og tælt svo nógu frekt: Ef ég skal dæmdur af danskri slekt, og deyja svo fyrir kóngsins mekt. En fyrir mekt hvaða konungs? hugsaði Jón Arason. – Stýrði ekki Guð öllu af vilja sínum þrátt fyrir allt? Hjá biskupi brann stillt ljós í kolu, það var hans eini félagi þessa nótt. Eins og Ari hafði hann afþakkað prest. Að þeim skyldi detta í hug að bjóða honum upp á útvatnaða trú? Honum, sem var hinn styrki stafkarl norð- ursins! Og brjóst hans bifaðist af kulda- hlátri. Þá fann hann eitthvað kitla sig í hand- arbakið. Hann bar handarbakið í áttina að kolunni. Könguló stóð á hendi hans graf- kyrr eins og veröldin hefði komið henni að óvörum og aldrei þessu vant tókst honum að halda handleggnum án þess að hann tinaði. – O, þú ert ekki ein um að bregða við, sagði biskup. Undarlegt mátti heita að þessi litlu dýr höfðu jafnan verið það eina sem hann ótt- aðist. Og nú óttaðist hann engan lengur, hvorki þetta kvikindi né dauðann. En hann var reiður! Reiður ósigrinum! Og reiður Guði sínum. Hann beygði sig og hristi köngulóna á gólfið. – Ég læt eina könguló sleppa, sagði hann stundarhátt og háðslega. – En þú, hann var að tala við Guð, – lætur mig, eina biskup Norðurlanda með réttu, hvorki halda lífi né reisn og nú deyja báðir synir mínir! Hann þagði nokkra stund og sagði síðan hátt: – Og það af hendi Dana! Dana! Það svíður mér sárast, Drottinn! Hvers vegna greipstu ekki inn í og stýrðir heilagri kirkju til dýrðar og sigurs? Ég skil þig ekki, Guð. Og í fyrsta sinn á ævi minni þá er ég þér sárreiður. Honum of- bauð hreinskilni sín við þann sem öllu réð. En samt gat hann ekki annað en sagt hug sinn. –Já, ég reiðist allt til dauðans, Drott- inn! sagði hann. Honum varð hugsað til ára sinna á Grýtu þegar hann var ungur drengur, til námsins í klaustrinu á Munkaþverá. Enginn hafði trú- að að úr honum yrði maður, en með Guðs hjálp hafði hann sýnt þeim hvað í honum bjó. Bjargið biskupsefninu! Ungur drengur hafði honum sigið í brjóst á hestbaki og oltið ofan í keldu en vaknað upp með andfælum og uppljóstrað um sína innstu drauma með því að æpa: Bjargið biskupsefninu! Að þessu hafði verið hent mikið gaman út um sveitir, en samt fór það svo að einn dag stóð hann frammi fyrir Ólafi Engilbrekts- syni í dómkirkjunni í Niðarósi og var vígður biskup á Hólum, með Guðs hjálp hafði það orðið. Hann horfði ráðþrota á myrkrið í kring- um koluna. Vildi þá Guð ekki veg heilagrar kirkju sem mestan? Gott hefði verið að njóta návista Helgu Sigurðardóttur á þessari stundu. En hann var einn. Var umbylting kirkjunnar Guði þóknanleg þegar allt kom til alls? Er það vilji þinn? Með þinni hjálp hefði mér tekist að ná stjórn á landinu en þess í stað skal ég höggv- inn. Og til hvers? Er vilji okkar mannanna þér svo helgur að þú grípur ekki einu sinni í taumana til þess að bjarga kirkju þinni? Var kannski enginn Guð? Spurningin kom sem heljarhögg! Hann horfði í svartnætti um stund. Svo vék myrkrið burt. Með Guðs hjálp hef ég átt langa og góða ævi og nú skal ég deyja fyrir trú mína, hugs- aði biskup. – Er það vilji þinn? mælti hann svo stund- arhátt. Og allt í einu vissi hann að það var vilji Guðs. Og um hann fór mikill fögnuður. Svo það er vilji þinn að ég deyi fyrir trú mína. Fyrst þú hefur kosið mig til svo mikils heið- urs, Drottinn, þá hefur líf mitt verið þér þóknanlegt og hvernig gæti ég farið fram á meira? Hann fann að hann skalf af fögnuði. – Eitt er það samt sem ég fer fram á! Og það er að þú sýnir sonum mínum og öllum sem eftir lifa mildi þegar þeir ganga fyrir dóm þinn á efsta degi. Og svo hætti Jón biskup Arason að ræða við Drottin og sat með hendur í kjöltu sinni og beið morguns. Morgunninn kom. Hann átti ekki von á öðru en hann yrði leiddur til aftöku fyrstur. Það var Jón Bjarnason sem knúði dyra. Með honum var Christian Schriver. – Tæpast eruð þið komnir til þess að segja yfir mér annan dauðadóm, mælti biskup. – Nei, sagði Jón Bjarnason. – Kon- unglegur umboðsmaður er kominn til þess að bjóða þér líf. – En hvað þá um syni mína? – Þeir hafa þegar verið afteknir. Jón Arason reis á fætur. Hann gerði það með krafti viljans, af sinni gömlu snerpu reis hann upp á móti böðlum sínum, rétti að þeim steyttan hnefa og sagði hárri röddu: – Og á ég að þiggja líf þegar báðir synir mínir eru drepnir? Hann hristi höfuðið og gamla þóttageifl- an kom á munninn. – Fyrst svo er, sagði Jón Bjarnason. – Þá er að mæta Drottni. Hann gekk með þeim úr klefanum og fram í göngin. Í útskoti var Maríulíkneski og logaði á kerti frammi fyrir því. Á meðan Christian Schriver og Jón Bjarnason voru inni hjá biskupi hafði einhver laumast til þess að tendra ljósið. – Það lifir þá ljós fyrir framan heilaga móður þrátt fyrir allt, sagði biskup og vildi lúta líkneskinu en Jón Bjarnason tók undir handlegg honum og varnaði honum að krjúpa og bað biskup láta af villu sinni. Jón Bjarnason tók kertið niður og blés á það. Þá var ekkert annað ljós en dagsbirtan sem féll inn um dyrnar. – Líf er eftir þetta líf, herra, sagði Jón Bjarnason. – Veit ég það, svaraði Jón Arason. Hann studdi sig við biskupsstaf og bar mítur. Fjöldi fólks beið hans úti í morgn- inum. Hann leit á Jón Bjarnason sem gekk við hlið hans. Jón Bjarnason las hugsanir hans úr svipnum og sagði: – Nei, líkamar þeirra eru fjarri. Höggstokkurinn hefur verið færður til. Þeir komu út. – Guð blessi þig, biskup Jón, heyrði hann kallað hárri röddu. – Guð blessi þig! Biskup leit til og sá þar norðlenskan mann. Hann lyfti upp hendi og gerði kross- mark fyrir honum og sagði: – Guð blessi þig og verndi. Svo staðnæmdist hann því hann þurfti að biðja manninn fyrir kveðju heim til Hóla: – Og þar sem ég nú skal kanna ókunna staði með öðrum helgum mönnum, hann fann sjálfur að hann talaði með þeirri vissu sem næturstundin hafði gefið honum, – þá bið ég þess að þú flytjir heim kveðju, það var kom- ið fram á varir hans að senda Sigurði beiskjublandin orð en gjöf næturinnar varð til þess að hann komst við í anda og sagði klökkum rómi: – Ber þú kveðju mína Sig- urði syni mínum og Þórunni dóttur minni og Helgu konu minni. Hann átti allt eins von á að heyra háðs- yrðin útjöskuðu: Kaþólskur biskup getur enga konu átt, en allir þögðu og margir krupu á kné, sumir grétu. Og nú kom böðullinn í augsýn. Það var ræfilslegt drengtötur sem skalf á beinunum og var með táratauma niður óhreint andlit- ið. Og biskup minntist þess að um nóttina hafði hann mælt: Sýndu sonum mínum og öllum sem eftir lifa mildi á efsta degi. – Og þar átti ég líka við þennan dreng, mælti hann nú. Hann tók eftir því að Daði Guðmundsson og Marteinn Einarsson stóðu hlið við hlið. Marteinn var fölur og fár. Daði streittist við að halda storkunarsvipnum. – Og ég átti líka við þá, Drottinn minn, sagði Jón biskup. – Líka við þá. Viltu að ég leysi þig úr banni, Daði? spurði hann. – Það hvílir ekki meira bann á mér en þér, svaraði Daði. – Verði þá Drottinn til þess að leysa þig, sagði Jón Arason og gerði krossmark fyrir þeim báðum og Christian Schriver. Síðan gerði hann krossmark fyrir mann- fjöldanum öllum, kraup við höggstokkinn, lagði hönd á hjartastað, beygði höfuð sitt og sagði: – Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn. VONDSLEGA HEFUR OSS VERÖLDIN BLEKKT Sjöundi nóvember 1550

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.