Lesbók Morgunblaðsins - 15.11.2003, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 15.11.2003, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 15. NÓVEMBER 2003 Á rið 1703 var lokið við töku fyrsta heildarmanntals hér á landi. Þetta manntal á því stórafmæli um þessar mundir. Á því skal vakin at- hygli enda er um einstæða heimild að ræða. Manntalið 1703, eins og það er jafnan kallað, er elsta varðveitta manntal í heimi sem nær til allra íbúa í heilu landi þar sem getið er heimilis, nafns, aldurs og stöðu eða atvinnu allra íbúanna. Það manntal sem kemst næst því íslenska var tekið árið 1666 í Nýja Frakklandi í Kanada. Það manntal taldi þó aðeins franska íbúa nýlend- unnar en þeir voru þá 3.200 að tölu. Frá þessum árum og fram um 1700 eru til talningar á fólki í Noregi og Englandi. Þær voru ekki eins ná- kvæmar og náðu ekki til allra. Árið 1719 var tekið heildarmanntal í Prússlandi og er það fyrsta heildarmanntal á meginlandi Evrópu. Fyrir daga manntala hafði tíðkast víða um heim að telja skattgreiðendur og vopnfæra menn. Svipað þekktist hér á landi löngu áður en mann- talið 1703 var tekið. Gissur Ísleifsson Skálholts- biskup mun hafa látið telja skattbændur um 1100. Önnur slík talning fór fram 1311. Engar talningarskýrslur hafa varðveist en til eru frá- sagnir af þessum talningum. Þá má nefna skrá yfir skattgreiðendur frá árinu 1681 þegar lagð- ur var á aukaskattur á Íslendinga vegna stríðs Dana og Svía. Ákvörðun um töku manntalsins má rekja til slæms efnahagsástands á Íslandi á 17. öld og stöðugra harðinda í lok aldarinnar. Það var þó ekki bara slæmt árferði með erfiðleikum til lands og sjávar sem skóp hið bága ástand. Breytt skipulag einokunarverslunarinnar á síð- asta fjórðungi 17. aldar hafði hér mikið að segja. Þar má einkum nefna skiptingu landsins í versl- unarsvæði með boði og bönnum og ströngum refsingum ef brotin voru. Íslendingar kvörtuðu undan þessu ástandi við yfirvöld í Kaupmannahöfn og óskuðu þess að fá að senda fulltrúa sinn á fund konungs. Sú beiðni var samþykkt og það kom í hlut Lauritz Gottrups lögmanns að ganga fyrir konung og skýra stöðu mála á Íslandi. Í kjölfarið skipaði konungur jarðabókarnefndina svokölluðu en í henni voru þeir Árni Magnússon skjalavörður og prófessor í Kaupmannahöfn og Páll Vídalín varalögmaður. Hlutverk nefndarinnar var margþætt en mestur starfi þeirra félaga var heildarúttekt á efnalegum aðstæðum Íslend- inga og fólst í því að telja fólk og fé og semja ná- kvæmar lýsingar á öllum bújörðum á landinu. Manntalið var tekið árin 1702 til 1703, kvikfjár- talið sumarið 1703 og jarðabókin var í smíðum 1702 til 1714, enda mikið verk. Þessar heimildir eru varðveittar í Þjóðskjalasafni Íslands. Mann- talið er að fullu varðveitt. Í kvikfjártalið vantar nokkuð og Múla- og Skaftafellssýslur vantar í jarðabókarverkið. Líklega hefur sá hluti jarða- bókarinnar farið í brunanum mikla í Kaup- mannahöfn árið 1728. Þrátt fyrir að örlítið vanti á að þessar heimildir séu að fullu varðveittar er hér engu að síður um að ræða einstæðar heim- ildir um íslenskt þjóðfélag á öndverðri 18. öld. Líklega getur engin önnur þjóð státað af sam- bærilegum heimildum. Bæði manntalið og jarðabókin voru gefnar út á prent á fyrri hluta síðustu aldar. Fyrirmæli um manntal Erindisbréf konungs til Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 22. maí 1702 felur í sér mörg fyrirmæli og er alls í 30 liðum. Áttunda greinin kveður á um töku manntalsins. Hún hljóðar svo: Skal de ved Sysselmændene, hver i sit Syssel, item Præsterne, hver i sit Sogn, lade forfatte et rigtig Mandtal over alle Familier i Landet, og derudi specificere Husbond og Hustru, Börn og Tyende, item et Mandtal over indensogns Betl- ere, saavel som over de andre omstrippende Betlere, saavidt mueligt, eftersom der ere Kla- gemaal indkommene, at Landet til dets store Besvær dermed skal være opfyldt, ved dets An- ledning de ogsaa med Flid skal efterforske, om ikke deris Ladhed mere end Mangel af Arbeid dertil Aarsag er, og paa hvad Maade de bedst kunde sættis udi Arbeid, hvorved de kunde for- tjene deris Föde, foruden at besværge Almuen med deris Betleri. (Lovsamling I, bls. 586–87.) Viðhorf yfirvaldanna til flökkufólks í niður- lagi greinarinnar eru eftirtektarverð og eins spurningin um hvort leti eða atvinnuleysi ráði þar för. Fyrirmælin um manntalstökuna eru annars mjög almenn og því þurftu Árni og Páll að taka afstöðu til margra álitamála þegar þeir skipulögðu framkvæmdina og rituðu fyrirmæli til þeirra sem sjá skyldu um sjálfa talninguna. Það má því eigna þeim heiðurinn af því hversu vel tókst til um framkvæmdina og þakka þeim hversu nákvæmlega fólk var skráð sbr. það sem segir hér í upphafi. Skipulag og framkvæmd manntalsins 1703 Í október 1702 sendu Árni og Páll bréf til allra sýslumanna þar sem gefin eru nákvæm fyrirmæli um töku manntalsins. Sýslumenn létu fyrirmæli nefndarmanna ganga áfram til hreppstjóra sem sáu um töku manntalsins. Á þessum tíma voru hrepparnir 163 og venjulega voru 3–5 hreppstjórar í hverjum hreppi. Rétt er að vekja athygli á því að það voru hreppstjórar sem tóku manntalið en ekki prestar eins og mælt var fyrir um í bréfi konungs. Það hefur legið beinast við að nota hið veraldlega stjórn- kerfi til verksins. Það var sem sagt í höndum sýslumanna og hreppstjóra að annast talningu landsmanna. Manntalið skiptist því eftir sýslum og hreppum innan hverrar sýslu. Fólk er svo skráð eftir heimilum á bæjum og hjáleigum innan hvers hrepps. Manntal hvers hrepps hefst á því að nafn hrepps eða sveitar er skráð. Því næst er hver bær nefndur og undir nafni hans eru rituð nöfn alls heimilisfólks. Fyrst er bóndi nefndur, síðan húsfreyja og þeirra börn. Því næst aðrir fullorðnir ásamt börnum. Sveitarómagar eru síðast taldir. Þeir sem tilfallandi voru til staðar á bæ vegna heimsóknar eða tímabundinnar vinnu skyldu ekki skrást í þeim hreppi heldur þar sem þeir áttu heima. Í lok manntalslista hvers hrepps eru svo skráðir þurfalingar eða ómagar hreppsins þar sem þeir dvöldu á langa- föstunni. Loks skyldi gera sérstaka skrá yfir alla utansveitarhúsgangsmenn og þeir taldir þar sem þeir gistu nóttina fyrir páska árið 1703. Manntalið fór fram frá desember 1702 til júní 1703, en á flestum stöðum í mars og apríl árið 1703. Sums staðar virðist sem hreppstjórarnir hafi farið um hreppinn og skrifað fólkið á hverj- um bæ en annars staðar hafa þeir stefnt mönn- um til sín og skráð heimilisfólk eftir frásögn þeirra. Vegna þess að manntalið var ekki alls staðar tekið á sama tíma orsakaði það allmargar tví- eða fleirtalningar, einkum á ómögum og ut- ansveitarfólki. Flest slík tilvik má finna og leið- rétta talninguna sem þessum oftalningum nem- ur. Ekki voru búin til prentuð eyðublöð að nota við skráninguna eins og síðar varð og því eru upplýsingarnar með mismunandi sniði. Mann- talið er varðveitt úr öllum hreppum landsins. Í mörgum tilvikum eru skýrslur hreppstjóranna varðveittar og eru þær oft nokkrar síður í smáu broti, þétt skrifaðar og stundum með bundnu letri og skammstöfunum. Í öðrum tilvikum eru manntalsskýrslurnar varðveittar í afskrift sýslumanns. Manntalinu var skilað til Árna Magnússonar og Páls Vídalíns á Alþingi í júní 1703. Hvenær það var svo sent til Kaupmannahafnar er óvíst. Væntanlega hafa Árni og Páll tekið manntals- skýrslurnar til athugunar og talið úr þeim með einhverjum hætti. Í Kaupmannahöfn virðist það svo hafa legið óhreyft í áratugi eða þar til Skúli Magnússon landfógeti vann úr því fyrir jarða- bók sína árin 1777–78. Manntalsskýrslurnar voru fluttar til Íslands árið 1921. Ljóst er að manntalið þótti sérstakt og vakti athygli alþýðu. Og geta annálar þess að sumir hafi nefnt veturinn 1702–1703 manntalsvetur. Jón Ólafsson nefnir það til dæmis í Grímsstaða- annál en segir auk þess: „Þá var pappír dýr í sveitum víða, er öllu þessu var aflokið.“ (Ann- álar III, bls. 522–523.) Þessi pappírsnotkun var að vísu ekki mikil miðað við það sem nú tíðkast. Manntalið er t.d. ekki nema um 1700 síður. Hvað var skráð? Eins og áður segir er heimilisfang flestra skráð, þ.e.a.s. sýsla, hreppur og nafn býlis. Allir voru svo skráðir með nafni, aldri og stöðu eða atvinnu. Þá kemur hjúskaparstaða og skyldleiki fram. Hjón eru tilgreind og tilgreint þegar heimilismaður er þeirra barn. Auk þess er oft getið um annan skyldleika. Og oft fylgja ein- kunnarorð eða ummæli sem lýsa fólki eða for- dómum skrifarans. Á Snæfellsnesi má finna 45 ára gamlan mann sem sagður er „lausingi og prakkari“. Þar eru ummæli eins og „latur og þjófgefinn“ og „óhaldandi fyrir óknyttum“ er skrifað um 28 ára konu þar umslóðir. Flestir fá engar slíkar umsagnir, eru bændur, búðamenn, eiginkonur, börn, vinnumenn og vinnukonur. Manntalsskýrslur í Þingeyjarsýslum eru óvenjulegar fyrir þær sakir að skrásetjarar þar skráðu allir sem einn athugasemd um heilsufar íbúanna. Þannig var lagt mat á heilsufar 98% Þingeyinga. Eiginleg læknisskoðun lá hér auð- vitað ekki að baki og líklega var heilsufarið oft- ast metið af einstaklingunum sjálfum. Heilsu- farsgreiningin var einkum „heill“ eða „vanheill“ eða „heil“ og „vanheil“. Karlar voru í þessu fyrsta heilsufarsmati í Þingeyjarsýslum örlítið heilsubetri en konur, 69% þeirra voru sagðir heilir en 63% kvenna. Útgáfa manntalsins 1703 og talning fólks Hagstofa Íslands gaf manntalið 1703 út á ár- unum 1924–1947. Þorsteinn Þorsteinsson hag- stofustjóri hafði veg og vanda af þeirri vinnu. Þá var gerð skrá yfir þá sem fundust á fleiri en ein- um stað í manntalinu. Eru það um 500 manns. Rúmlega þriðjungur þeirra eru sveitarómagar í tveimur hreppum, Kleifarhreppi í Skaftafells- sýslu og Stokkseyrarhreppi, sem taldir eru bæði á bæjunum þar sem þeir dvöldu og auk þess í sérstakri skrá aftan við hreppinn. Að frádregnum þessum tví- og fleirtalningum reyndist mannfjöldinn á Íslandi árið 1703 vera 50.358 manns. Þar af karlar 22.867 og konur 27.491. Eftir landshlutum er skiptingin þessi: Sunnlendingafjórðungur 15.564, Vestfirðinga- fjórðungur 17.831, Norðlendingafjórðungur 11.777 og Austfirðingafjórðungur 5.186. Týndur miði og leiðrétt fólkstala Árið 1964 fannst í Þjóðskjalasafni miði með níu nafngreindum einstaklingum úr Trékyllis- vík árið 1703 og tveimur ónafngreindum börn- um. Þessi miði fannst í kvikfjártalinu frá sama ári en enginn vafi er á því að hann tilheyrir manntalinu 1703. Meðal þeirra sem þar eru nefndir er kona og tvö börn hennar sem þegar eru skrá í manntalinu á öðrum stað og eru því tvítalin. Við þetta eykst heildarfólksfjöldi árið 1703 um átta manns eftir því sem næst verður komist. Hin opinbera tala gæti því verið 50.366. Þessar upplýsingar virðast ekki hafa orðið op- inberar þegar seðillinn fannst og því fer ágæt- lega á því að þær birtist nú fyrir sjónum al- mennings á þessu afmælisári manntalsins. Sýning Til að minnast þeirra tímamóta sem mann- talið í raun var þegar það var tekið og halda upp á varðveislu þess til okkar daga, í þrjú hundruð ár, hefur Þjóðskjalasafn sett á fót sýningu á frumskjölum manntalsins. Sýningin er í skrif- stofubyggingu safnsins á Laugavegi 162. Sýn- ingin er opin virka daga frá kl. 9–16. Henni lýk- ur 14. nóvember. Þá hafa Hagstofan og Þjóðskjalasafn í félagi við Sagnfræðingafélag Íslands og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands undirbúið þing af þessu tilefni. Þingið verður 15. nóvember kl. 13-17 í húsakynnum Hagstofu Ís- lands. Helstu heimildir: Óprentaðar: Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn rentu- kammers. II 1–2. Manntalið 1703. Prentaðar: Annálar 1400–1800. III, Reykjavík 1933–37. Einar Laxness, Íslandssaga II, Reykjavík 1995. Lovsamling for Island I, Kjöbenhavn 1853. Manntal á Íslandi árið 1703. Útgefið af Hagstofu Íslands. Reykjavík 1924–1947. Formáli eftir Þorstein Þorsteins- son. ÞRJÚ HUNDRUÐ ÁRA MANNTAL Ráðstefna um manntalið 1703 verður haldin í húsa- kynnum Hagstofu Íslands kl. 13 í dag og Þjóðskjala- safnið hefur sett á fót sýningu á frumskjölum mann- talsins. Hér er fjallað um aðdraganda og efni þess. Hér er fyrsta síða manntalsskrárinnar yfir Snæfellsnessýslu: „Fólks Registur yfer alla Snæfells- nes Syslu Anno 1703. Fyrst yfir Skoogarstrandar sveit samanteked j Martio.“ Höfundur er sviðstjóri upplýsinga- og útgáfusviðs Þjóðskjalasafns. E F T I R E I R Í K G . G U Ð M U N D S S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.