Lesbók Morgunblaðsins - 15.11.2003, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 15.11.2003, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 15. NÓVEMBER 2003 É g veit ekki hvað kalla skal þessi verk á íslensku. Kannski Hljóm- leika-stór-tvenndir? Eða Hljómleika-stór-tvíeyki? Þessi titill heillaði mig, en hann kem- ur fyrir á 19. öld, í þýsku róm- antíkinni, hjá Carl Maria von Weber, og eflaust fleiri meist- urum. En ég held að þetta hafi verið róman- tískar hugleiðingar, ekki endilega í sónötu- formi, þar sem mikið reyndi á leiksnilld flytjenda og bæði hljóðfærin voru nokkurn veginn jafnrétthá. Fyrsta verkið hét Grand Duo Concertante I, og svo kom undirtitillinn Handanheimar. Það var samið árið 1991, fyrir flautuleikarana Guð- rúnu Birgisdóttur og eiginmann hennar Marti- al Nardeau. Handanheimar er hugtak úr samtímaheim- speki, frá sjálfum Wittgenstein að ég ætla, og er þýðing úr enskunni: „another possible world“. Það segir okkur að þegar komið er að endamörkum allrar rökvísi, og haldið áfram þar sem henni sleppir, gæti kannski annar heimur tekið við, eitthvað sem kalla mætti handanheim, og væri sá heimur annaðhvort fyrir utan raunveruleikann eða inni í okkur sjálfum. En um þetta getum við ekki fullyrt neitt með vissu. Vera kann að þessi skilgrein- ing sé röng og fávísleg. Það verður þá að hafa það. En þessi músík reynir að lýsa handanheim- um eins og ég skil þá. Ég reyndi að búa til mús- ík sem lýsir því sem er utan við skilning minn eða innan í honum. Það eru mikil forréttindi að vinna með snill- ingum á borð við Guðrúnu og Martial. Þau fött- uðu verkið eins og skot, og hafa leikið það mörgum sinnum. Handanheimar hefjast á flautustríði: eins hratt og unnt er, mjög sterkt. Þennan kafla kölluðum við í spaugi „ástir samlyndra hjóna“ með tilvísum í samnefnda snilldarbók Guð- bergs Bergssonar. En þetta var bara saklaust grín. Þegar ég lít á nóturnar sé ég ferunda- hjakk, ósamstæða rýþma og samstiga hreyf- ingu flautnanna. Svo grípa söngraddir skyndilega inn í at- burðarásina. Ég hljóðritaði alls kyns raddir í stúdíói Didda fiðlu í gamla Ísbirninum úti á Sel- tjarnarnesi. Kannski átti þetta að vera söngur uxans og asnans í fjárhúsinu eða hljóð úr hin- um margraddaða barka einhyrningsins í kynjaskógi ástarinnar. Fyrst komu þrjár söngkonur: Margrét Pálmadóttir, Jóhanna Þórhallsdóttir og Jó- hanna Linnet. Þær fóru á kostum, létu röddina tjútta í tónum og hljóðum, skelltu í góm og frömdu alls konar lófaspil í ímynduðum dans- takti. Söngur þeirra var sírenusöngur og hann var stórhættulegur að sögn Hómers gamla í Ódysseifskviðu. Raunar gerði Debussy ægi- fagran sírenusöng í Noktúrnum sínum, sem var saminn undir sterkum áhrifum frá atriði Blómastúlknanna í Parsifal eftir Wagner. En nóg um það: þeir góðu stela frá þeim góðu en þeir vondu frá þeim vondu, segir norska tón- skáldið Arne Nordheim. Þá komu leikskólabörn á Nesinu með fóstr- um sínum. Af minnisblaði, sem dagsett er hinn 4. janúar 1991, sé ég að krökkunum er boðið upp á appelsínudjús og súkkulaðikex. Eftirfar- andi hljóð vil ég að krakkarnir fremji: hlátra- sköll, grátur, aðvörunaróp, eftirhermur og margt fleira. Einnig að þau snarstefji laghend- ingar og syngi, ein eða saman, lög sem þau kunni – líka mismunandi lög á sama tíma. Einn- ig eru fóstrurnar beðnar að koma með hug- myndir. Allt gekk þetta stórvel. Alls konar hljóðefni voru fest á band, eins og það var kallað þá, hljóðunum breytt og blandað saman, með þeirri stúdíótækni sem þá stóð til boða. Síðan voru hljóðin klippt og snurfusuð og þeim raðað niður. Þau mynda mótvægi við flautuspil- ið, trufla það, útskýra það og varpa á það nýju ljósi. Stundum eru hljóðin, sem nú eru flutt af geisladiski, nokk- uð hrá eða óunnin. Notuð eins og þau koma fyrir af skepnunni. Þetta er eins og að falbjóða mol- dugar kartöflur, sem eru ekkert verri en þær sem hafa verið pússaðar. Og flauturnar gera kostulegar at- hugasemdir við þennan þrísöng kvennanna, sem ætti að vera úr óp- eru, en sú ópera er ekki til og verður sennilega aldrei til. Þriðji hlutinn er framhald kynja- söngsins. Tónlistin verður sífellt sundurlausari og eins og biluð vél sem smám saman hættir að ganga; vél sem étur sjálfa sig upp. Og í lokahlutanum er geisladisk- urinn þagnaður, flauturnar tvær eft- ir. Þær spila óháð hvor annarri enda- lausan, fingerðan söng, sem merkir allt og ekkert. Þannig hverfur verkið inn í svarthol tímans: ekkert er eftir. Grand Duo II var samið 1993 fyrir flautuleikarann Kolbein Bjarnason og klarinettuleikarann Guðna Franz- son. Það ber undirtitilinn Schumann ist der Dichter eða Schumann er skáldið. Hér er vísað í verk eftir franska tónskáldið Pierre Boulez sem gerði verkið Cummings ist der Dichter og er við ljóð bandaríska góðskáldsins e e cummings, sem not- aði hvorki punkta, kommur né upp- hafsstafi að ég held. En annars er allt þetta sótt til Roberts Schumanns: hann samdi þátt í Kinderszenen eða Barnalögum þar sem lokaþátturinn heitir þessu margræða nafni: Skáldið talar. Og skáld- ið er auðvitað höfundurinn sjálfur, Schumann. Slíkir hugleiðslu- eða íhugunarþættir koma fyrir í fleiri verkum Schumanns. Þegar skáldið hefur lokið við að segja söguna lítur það til baka og rifjar upp allt það sem sagt var, og það sem sagt var ekki. Minningar eru hinn eini sanni raunveruleiki. Ég hef einhverra hluta vegna haft mikinn áhuga á verkum Schumanns. Mér finnst hann hafa verið misskilinn. Verk hans eru misjöfn að gæðum. Það er sannleikskorn í þeirri gömlu fullyrðingu að hann hafi byrjað sem séní en endað sem talent. Og þó. Mér finnst sinfóníur hans stórkostlegar, og sumt í kammermúsík- inni er meðal þess fallegasta sem gert hefur verið, fiðlukonsertinn er meistaraverk, alla vegana annar þátturinn, og Morgunsöngvarnir fyrir píanó er einstakt plagg. Ég held að það hafi verið seinasta verkið sem hann lauk við áð- ur en hann fór á geðsjúkrahúsið. Fyrsti hlutinn heitir Fantasiestücke og samdi Schumann nokkur píanólög með því nafni. Þar er að finna eitt fínasta tónverk hans, Warum eða Af hverju. Schumann var ekki són- ötuskáld eins og Beethoven, heldur fantasíu- og draumóraskáld. Þessi tónlist eru órar mínir og hugsýnir, tónsmíðaaðferðin er engin, kannski bara ósjálfráð skrift. Annar þáttur heitir Skáldið talar. Sá hluti er framhald af fyrsta hluta Handanheima. Þannig fléttast verkin saman. Á geisladisknum er spil- að sama efni og notað var í Handanheimum. Ég bætti varla nokkru við; þó einhverju smávegis, að mig minnir. Þetta er einhvers konar nagla- súpa söngkvenna- og barnsraddanna, sem er elduð upp á nýtt og bætt í hana einhverju nýju kryddi. Hljóðin eru þau hin sömu og áður, að- eins meira unnin og umbreytt, eiginlega endur- unnin líkt og gamall pappír. Þriðji þáttur nefnist Kinderszenen og Träumerei 1–5. Barnalög Schumanns eru eng- in barnalög: þau eru ekki fyrir börn heldur um börn. Schumann og Clara kona hans áttu átta börn að ég held. Þessi einföldu lög eru mjög vandmeðfarin og þarf snillinga á borð við Horowitz til að leika þau. Perlan í þessum bálki er draumljóðið Hugsýnir. Ég reyndi að búa til barnslega – ekki barnalega – músík. Lokahlutinn heitir Adagio. Flytjendur leika óháð hvor öðrum eins og í Handanheimum; þeir leika ekki saman, aðeins á sama tíma. Og þeir vekja upp Schumann. Adagíóið úr A-dúr- kvartettinum, einhver dásamlegasti kafli sem hefur verið saminn, heyrist undurveikt ein- hvers staðar lengst út úr geimnum og þar með lýkur verkinu. Þetta er óhöndlanleg músík af því að hún er svo veik. Þetta var í fyrsta sinn sem ég notaði beina tilvitnum í tónlist. Og hef gert það tvisvar síð- an, vitnaði þá í Wagner og Brahms. Annars hef ég látið mér nægja að semja sjálfur í stíl ann- arra ef svo bar undir. En hvað er stíll? Neyslu- vani, segir Adorno! Ég skrifaði í tónleikaskrá, þegar verkið var frumflutt 14. febrúar 1993, orð sem í dag eru mér framandi. Ég læt þau samt flakka: „Grand duo concertente segir sögu, leiðir okkur inn í heim frásagnartónlistar. Þetta er kannski ímyndað leikrit, ópera eða ballett. Illa upplýstir gagnrýnendur munu ekki finna neina úrvinnslu hugmynda. Á tónbandinu er ekki raftónlist, heldur tilbúningur eða reddí- meid. Frásögn flautu og klarinetts er stillt upp við bakgrunn sem kastar nýju ljósi á frásögn spilaranna, setur það efni í óvænt samhengi þegar best lætur. Ekki er reynt að magna upp spennu eða forma frásögnina. Efnið spýtist mestan part eins og út úr bilaðri tölvu. Þetta er því raunsæistónlist, því tölvur eru næstum allt- af bilaðar – okkur bara ekki alltaf sagt frá því. Verkið fjallar meðal annars um hugarheim Schumanns, en hann er mér alltaf hugstæður, og heiti þáttanna gefur það til kynna. Ég þakka Kolbeini Bjarnasyni og Guðna Franzsyni frá- bæra samvinnu.“ Grand Duo Concertante III heitir Portes ou- vertes eða Opnar dyr og er samið fyrir flautu og selló árið 1995. Undirtitilinn er að finna í kvæðabálkinum Útlegð eftir franska skáldið Saint-John Perse, sem til er á íslensku, í snilld- arþýðingu Sigfúsar Daðasonar, og er verkið til- einkað honum. Ég hef valið hendingar úr þessu mikla ljóði til að gefa þáttunum nöfn: … Þar sem liðu segl í fullu tré, þaðan ber rekald, sem er mýkra en draumur fiðlusmiðs … … Ævinlega var þessu glymur, ævinlega þessi ljómi … … Og snögglega eru mér allir hlutir afl og nálægð, þar rýkur ennþá af stefi einskis … … Er ég hingað kominn, fenginn aftur bernskuströnd minni … Engin saga nema af sálinni, engin sæla nema í sálinni. Þessir fjórir þættir eru leiknir án afláts. Og enn heyrast sömu raddirnar og í fyrri dúóun- um, en torkennilegri en fyrr og við hafa bæst flautu- og sellótónar með svartholsbergmáli. Börnin eru orðin gömul, þreytt, farlama – kannski dáin, og söngkonurnar eru fyrir löngu orðnar vitlausar. Hljóðin eru farin að mygla. Í þriðja þættinum – um stef einskis – ber nokkuð á síendurtekningum, sem kallaðar voru mínímalismi í gamla daga. Einkum voru það Ameríkanar eins og Phil Glass og Steve Reich, sem stunduðu vélræna endurtekningu smáefn- is, einhvers konar síbylju þríhljómanna. Þetta átti að vera andóf við svokallaðan módernisma. Margt var lapþunnt samið í atónalbaslinu, en ekki batnaði bullið við að vera sett fram í C-dúr og kallað póstmódernismi. En fyrir mér var endurtekningin seiðandi; afbrigði af galdri. Rímna- stemman hefur ekki áhrif fyrr en búið er að endurtaka hana þúsund sinnum, kveða hana tímunum saman. Þess vegna eru rímurmar svona langar. Þeir sem hafa dansað færeyskan dans hafa fundið í kroppnum á sér mátt endurtekningarinnar. Endurtekning diskósins er vélræn. Fólkið syngur ekki sjálft, heldur er það af græjunum, sem eru stilltar í botn. Rímnalagaútsetningar finnst mér oftast misheppnaðar, því seiðmáttur endurtekningarinnar er ekki hafður með. Þjóðlagið er í sjálfu sér ekkert merkilegt; það er endurtekningin sem gerði það merkilegt. Tónsmíðaaðferðin er engin, ekkert er fyrirfram ákveðið. Það er ekki unn- ið úr neinu. Aðeins impróvíserað, spunnið eða snarstefjað. Algjörlega treyst á innblásturinn. Ég hef aldrei trúað þeim sem segja að listin sá mestmegnis vinna að smá- vegis innblástur. Sumir sögðu að hlut- fallið væri 90% á móti 10%. Þetta er allavega ekki svona hjá mér. En ég spinn vonandi öðruvísi en aðrir. Grand Duo Concertante IV verður ekki flutt í þetta sinn. Það var samið fyrir tvær flautur eins og fyrsta dúóið: fyrir venjulega vestræna flautu og hina japönsku sakuhachi-flautu. Og sakuhachi-snillingurinn Teruhisa Fukuda býr í Tókýó. Hann frumflutti verkið ásamt Kolbeini Bjarnasyni árið 2001. Undirtitillinn er sóttur til Goethes. Í ljóðabók hans West-östlich- er Divan er þessa ljóðlínu að finna: Dämmerung senkte sich von oben Schon ist alle Nähe fern … „Rökkrið hneig og nú er nándin fjarlæg,“ mætti þýða þetta á íslensku en nær þó ekki nema broti af fegurð setningarinnar á þýsku. Ég kannast við þetta: haustkvöld, og í húminu breytist nálægðin í fjarlægð. Einhvern veginn minnir þetta á kínverska mynd. Gamla leynd- arráðið, Goethe, var ótrúlega næmur á margt og skáld gott, þótt sumir segðu að hann hefði verið höfðingjasleikja og strefari. Það er skilj- anlegt að mörg góð tónskáld gerðu fín sönglög við kvæði hans. Enn er tónbandið haft með; sama efni og áð- ur. Enn er það lagað að þörfum (eða óþörfum) nýs verks; gefinn nýr blær, litur og áferð. Klippt er niður í búta, skeytt saman á ný; búnar til fleiri rásir og alltaf verður hið upprunalega efni framandlegra: raddir barna og söng- kvenna ásamt flautu- og sellóbergmáli. Ungt tónskáld, Haraldur V. Sveinbjörnsson, var mér til aðstoðar í prýðilegu hljóðveri Tónlistarskóla Kópavogs, og var hann eins og hugur manns. Og þá er komið að Grand Duo Concertante V, sem er samið árið 2001. Undirtitillinn er úr kvæði Einars Ben. Álf- hamri. Lokaorð ljóðsins eru þessi: … til vökunnar helkalda voðadraums. Einar reynir að lýsa ástandinu milli svefns og vöku, þar sem maður greinir ekki milli draums og vöku eða raunveruleika. Og lífið er kalt eins og dauðinn, háskalegur draumur. Verkið er skrifað fyrir sópran- og barítón- saxófón, snillingana Vigdísi Klöru Aradóttur og Guido Baeumer. Þau eru tónlistarkennarar á Dalvík, og frumfluttu verkið þar. Og enn eru sömu hljóðin sem fyrr; niður- soðnar hendingar úr fyrri dúóum. Ég bætti enn við rásum til að gera hljóðmökkinn þykkari þannig að frumefnin verði tæpast sundurgrein- anleg. Og yfir það allt veina saxófónarnir í belg og biðu, oft á ystu mörkum í hæð og dýpt. Þetta er mengað verk. Það er ekki um meng- un, það er sjálft mengað. Það er mikið um end- urtekningar, líkt og í Opnum dyrum. En sí- biljuendurtekningin er ekki alltaf eins; við heyrum það sama, sem er ekki alltaf eins. Ég býst við að ekki muni verða til fleiri Grand Duo Concertante. Þó er aldrei að vita. En nú sem stendur hef ég áhuga á öðrum hlut- um: sinfóníugerð. Mér finnst að þessi grand dúó séu engu lagi lík í bókstaflegri merkingu. Þau áttu heldur ekki að vera það. Mig minnir að mottóið að grein Adornos Öldrun samtímatónlistar séu þessi orð enska skáldsins Johns Keats: „Heard melodies are sweet, but those unheard are sweeter …“ eða nokkurn veginn svona á ís- lensku: lög sem maður hefur heyrt eru fögur, en þau óheyrðu eru fegurri. HVORKI Í DÚR NÉ MOLL Tónverkið Grand Duo Concertante I–V eftir ATLA HEIMI SVEINSSON verður flutt í Borgar- leikhúsinu í dag, 15. nóvember, kl. 15:15. Tónskáldið segir hér frá verkinu. Nótnablað úr Grand Duo Concertante.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.