Lesbók Morgunblaðsins - 15.11.2003, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 15.11.2003, Blaðsíða 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 15. NÓVEMBER 2003 13 Þ AÐ var ekki bara vofa kommún- ismans sem fór á stúfana á síðari hluta nítjándu aldar. Þetta var líka tími þjóðernisvakningar um alla Evrópu sem snerti að sjálf- sögðu allar þjóðir sem lutu er- lendu valdi. Meðal þeirra þjóða voru Ungverjar og rétt eins og Íslendingar áttu þeir sína aldamótakynslóð sem hélt þjóðerninu á lofti og ræktaði allt það sem þjóðlegt gat talist. Í þeim hópi voru tvö tónskáld á svipuðu reki, Béla Bartók og Zoltán Kodály (borið fram Kodaj). Á Tónlistardögum Dómkirkjunnar verður að þessu sinni flutt eitt af helstu kirkjutónverkum þess síðarnefnda: Missa brevis, hefðbundin messa fyrir orgel, kór og einsöngvara. Báðir eru þeir fæddir í ungverskum sveita- þorpum, Bartók 1881 og Kodály ári síðar, og drógu dám af uppruna sínum. Eftir tónlist- arnám lögðu báðir fyrir sig þjóðlagasöfnun sem var eins konar eldskírn allra tónskálda á þessum árum. Þjóðlögin mörkuðu tónlistarfer- il og tónsmíðar beggja en Kodály hélt tryggð við þjóðlagaarfinn alla sína tíð. Raunar mark- aði sá arfur allar hans tónsmíðar nema kannski síst kirkjutónlistina þar sem hann var undir greinilegum áhrifum evrópskra tónskálda. Sjötíu ára ferill Um Kodály hefur verið sagt að fáir lista- menn 20. aldar hafi haft eins mikil áhrif á jafn- mörgum sviðum og hann. Auk þess að safna þjóðlögum og skrá þau gaf hann út mörg þjóð- lagasöfn og skrifaði lærðar ritgerðir um tón- listararf Ungverja. Hann kenndi við Tónlistar- akademíuna í Búdapest frá 1907 og lagði grunn að merkri stefnu í tónlistaruppeldi sem hann bar gæfu til að hrinda í framkvæmd í Ungverjalandi. Þá er ótalið framlag hans til tónlistarinnar sem slíkrar en leitun mun að tónskáldum sem eiga sér lengri feril. Hann var byrjaður að semja tónlist á barnsaldri og elstu ópusarnir í safni hans eru frá árinu 1897 þegar hann var fjórtán ára. Síðasta verkið sem hann sendi frá sér er frá 1966 – ári áður en hann lést – svo fer- illinn spannar rétt tæp sjötíu ár. Tónlist hans er af ýmsum toga, allt frá smæstu kammerverkum upp í óperur og verk fyrir kór og hljómsveit. Mestu stórvirki hans eru flest frá árunum milli stríða og þekktast er eflaust svítan um Háry János sem upphaflega var samin sem gamanópera og frumflutt árið 1926. Af öðrum þekktum verkum má nefna hljómsveitarverk eða dansa sem kenndir eru við Marosszék og Galanta og óratoríuna Psalmus hungaricus en þau verk eru einnig samin á þriðja áratug síðustu aldar. In tempore belli Verkið sem Dómkórinn flytur í Neskirkju annan sunnudag er hins vegar samið á stríðs- árunum. Kodály komst að sjálfsögðu ekki frek- ar en aðrir menn í hans stöðu undan því að taka afstöðu í helsta hildarleik síðustu aldar. Fram- an af stríðsárunum starfaði hann við kennslu og tónsmíðar en þegar djöfulgangur heimsins jókst lagði hann sitt af mörkum til að forða góðu fólki undan ofsóknum nasista. Þar kom að honum var ekki lengur vært og leitaði hann þá skjóls ásamt eiginkonu sinni í kjallara klausturs í Búdapest. Þar leyndist hann frá 1943 til stríðsloka og hélt áfram að semja tónlist. Í klaustrinu lauk hann meðal annars við Missa brevis sem frumflutt var á laun í búningsherbergjum óperuhússins í Búdapest meðan barist var um borgina. Und- irtitill verksins er reyndar In tempore belli – á tímum stríðs – og á vel við. Missa brevis er byggð á eldra orgelverki en hún er samin fyrir þrjá einsöngvara, orgel og kór. Formið er hefðbundið að því leyti að verk- ið skiptist í sex kafla eins og messur gera yf- irleitt – Kyrie, Gloria, Credo, Sanctus, Bene- dictus og Agnus Dei – en auk þess samdi hann forleik og eftirspil fyrir orgel eins og algengt var á miðöldum. Steingrímur Þórhallsson mun flytja forleikinn en eftirspilinu verður sleppt á tónleikum Dómkórsins. Kunnáttumenn í tónlist þykjast merkja tölu- verð áhrif frá Franz Liszt á messuna, einkum í fyrsta og síðasta kaflanum. Áhrif þjóðlegrar ungverskrar tónlistar eru minni í þessu verki en flestum öðrum sem Kodály samdi en þess ber að geta að tónskáldið fór ungur í ferðalag til Berlínar og Parísar. Á síðarnefnda staðnum kynntist hann tónskáldinu Debussy sem hann hreifst mjög af og eru áhrif frá honum víða merkjanleg í verkum Kodálys. Samsöngur er lykillinn Eins og áður segir var hann alla tíð trúr þjóðlagaarfi Ungverja en vann úr honum á nú- tímalegan hátt. Það er því engin furða þótt menn eigi erfitt með að draga Kodály í dilka. Hann stóð föstum fótum í þjóðlegri hefð ung- verskrar bændamenningar en var um leið óhræddur við að takast á við ögranir módern- ismans og var í engum vandræðum með að sameina þessa ólíku strauma. Kórsöngur var að mati Kodálys afar mik- ilvægur í tónlistaruppeldi þjóðar og öflugt kórastarf stuðlaði jafnt að því að ala upp nýjar kynslóðir og viðhalda tóneyra þeirra eldri. Hann ferðaðist um landið og reyndi að ýta und- ir kórastarf í krafti þeirrar sannfæringar að samsöngur væri mun traustari grunnur undir öflugu tónlistarlífi en kunnátta á hljóðfæri. Ungverska þjóðin og stjórnvöld tóku þessum kenningum vel og að loknu stríði urðu þær leiðarljós í skólastarfi Ungverjalands. „Takmarkið með þessu starfi er að auka skilning nemandans og ást á hinum sígildu meistaraverkum tónbókmenntanna … Þær standa þjóðlögunum miklu nær en almennt er talið sem sést best á því að megineinkenni þjóðlagasöngs eru bein tjáning og hrein form,“ segir á einum stað í ritum Kodálys. Í þessu felst kjarninn í öllu starfi þessa merka tónlist- armanns: að sameina nútímalega listræna sköpun þeirri tónlistarhefð sem þjóðirnar hafa ræktað með sér um aldir. Rétt fyrir andlát sitt árið 1967 sagðist Ko- dály óttast að vélvæðingin í heiminum væri að „leiða okkur inn á braut sem endar með því að maðurinn breytist í vél; ekkert annað en andi söngsins getur forðað okkur frá þeim örlög- um“. Það er tími til kominn að kynna verk þessa ágæta listamanns sem lítið hafa heyrst hér á landi, ekki síst vegna þess að fegurri tón- list er vandfundin. SÖNGURINN EINN GETUR BJARGAÐ OKKUR Dómkórinn flytur Missa brevis eftir ungverska tónskáldið og uppeldisfrömuðinn Zoltán Kodály í Neskirkju á morgun sunnudag kl. 17. Hér er sagt frá ferli Kodálys. „Fáir listamenn 20. aldar sagðir hafa haft eins mikil áhrif á jafnmörgum sviðum og Kodály.“ E F T I R Þ R Ö S T H A R A L D S S O N Höfundur er blaðamaður. ÍSLENSKUR menningardagur er hald-inn hátíðlegur í dag í The Nordic Hall íScandinavian Living Center í Boston.Ár hvert kynnir Scandinavian Living Center hverja Norðurlandaþjóð fyrir sig og býður þá listafólki frá viðkomandi landi að koma fram. Í ár hefur Ferðaleikhúsinu verið boðið að koma og sýna atriði úr leik- sýningunni Light Nights – Bjartar nætur, en auk þess munu Íma Þöll Jónsdóttir fiðluleikari, Sigríður Freyja Ingimarsdóttir söngkona og Sigurður Helgason sem leikur á píanó, flytja tónlist eftir íslensk tónskáld. Kynnir á hátíðinni er Elín Proppé. Spurð um efnisskrá sína segist Kristín G. Magnús, stofnandi og framkvæmdastjóri Ferðaleikhússins, m.a. ætla að fjalla um jólahald Íslendinga um aldamótin 1900, sem að mörgu leyti var frábrugðið jóla- haldinu í dag. „Því næst mun ég sýna myndina Iceland sem danskur skipstjóri að nafni Andres M. Dam gerði árið 1938 sem sama ár var sýnd á heimssýningunni í New York. Þetta er einstök mynd sem veitir mikinn fróðleik um liðna tíð, en meðal þess sem sjá má í myndinni eru svipmyndir frá síldarverkun á Siglufirði,“ segir Kristín, en þess ber að geta að myndin er í boði Kvik- myndasafns Íslands. Í framhaldinu mun Kristín fjalla um þjóðararfinn eins og hann birtist í þjóðsög- unum. „Fyrst leik ég söguna um Óhreinu börnin hennar Evu, síðan leikles ég Sög- una af Flumbru – Ástarsögu úr fjöllunum eftir Guðrúnu Helgadóttur og um leið verður myndum Brians Pilkingtons varpað upp á skjá og að lokum verður sagan um Djáknann á Myrká flutt, en þetta er ein magnaðasta draugasaga okkar Íslend- inga.“ Að sögn Kristínar verður Halldór Snorrason með í för sem sérlegur aðstoð- armaður sýningarinnar, en Magnús Snorri Halldórsson mun sjá um uppsetningu tæknibúnaðarins og stjórna hljóði, ljósum og skyggnumyndasýningunni. „Það hefur krafist talsverðs undirbúnings að gera sal- inn þarna úti leikvænan, því smíða hefur þurft pall, koma fyrir kösturum og sýning- arbúnaði fyrir skyggnuvél. Allur þessi und- irbúningur hefur verið í höndum The Scandinavian Library, sem annast einnig alla kynningu á íslenska menningardeg- inum.“ Þess má geta að allar veitingar á menningardeginum verða í boði Carberry’s Bakery sem m.a. er í eigu Íslendingsins Ágústs Gunnarssonar. Þessi uppfærsla Ferðaleikhússins á Light Nights er styrkt af menntamálaráðuneytinu og Menning- arsjóði Íslandsbanka. Kristín G. Magnús í hlutverki Guðrúnar í þjóðsögunni um djáknann á Myrká. Ferðaleikhúsið til Boston

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.