Lesbók Morgunblaðsins - 15.11.2003, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 15.11.2003, Blaðsíða 8
8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 15. NÓVEMBER 2003 V IÐ Hreinn höfum mælt okkur mót á hóteli í miðbænum, og þegar snarpheitt te er komið á borðið færir hann mér sýn- ingarskrá sem ég hafði óskað eftir að sjá, og gefin var út í tilefni yfirlitssýningar á verk- um hans í Frakklandi í fyrra. Ég blaða í henni og staldra við verk sem ég hef ekki séð áður, nýlegar ljósmyndir af kindum og hestum í haga í Miðdölum, við Bæ, þar sem Hreinn ólst upp. Þarna er einnig mynd sem heitir Tungustapi og sýnir sérkennilegan stapa í Dölunum sem Hreinn segir áhrifamiklar huldu- fólkssögur tengjast. Ég velti því fyrir mér hvort hann sé að snúa aftur heim með þessum verkum frá bernskuslóðunum – eða hvort hann hafi kannski aldrei farið að heiman. „Einhver hluti af mér hefur aldrei farið það- an,“ svarar Hreinn. „En ég ólst upp við sögur um umhverfið, eins og álfasögurnar. Þegar ég fór að gerast þátttakandi í listalífinu og hugsa um hvað var að gerast í listinni og umhverfinu á þeim tíma fór ég fljótlega að tengja mig við þennan sagnaheim. Á fyrstu einkasýningu minni, árið 1971, voru eingöngu álagablettir; tólf ljósmynda- og textaverk. Mér fannst þetta alveg eiga heima í því and- rúmslofti sem var í myndlistinni á þeim tíma. Það var verið að tala um konseptúalisma, land- art og annað slíkt, en mér fannst þetta bara upplagt efni í verk og það stóð mér nærri. Það var rótin og um leið samtíminn sem ég andaði að mér. Og nú hef ég haldið áfram að afgreiða þetta svona, alveg eins og þessar rollur þarna og lömbin; fyrir löngu fór ég að líta á þessi fyr- irbæri með augum myndlistarmannsins, svo hafa einhverjir áratugir liðið og þá set ég það fram sem myndlist.“ – Er það meðvitað sem þú horfir til baka nú, á staðinn þar sem þú sast sem ungur strákur og teiknaðir tígrisdýr á blað? „Ég hef mjög lítinn áhuga á því að sækja til baka, að snúa heim. Þvert á móti, mér finnst gott að geta afgreitt ýmislegt úr fortíðinni sem ég mæti nú en umgekkst áður. Nú get ég af- greitt þetta á einhvern hátt sem ég vel mér. Ég kem þessum minningum og gamla veruleika frá mér og á þennan myndlistarvettvang. Þetta er ekkert sérstakt við þessa tilfærslu. Þetta er það sem menn hafa verið að gera í háa herrans tíð, að færa hlutina til og við það breyta þeir um merkingu. Ég hef aldrei velt fyrir mér hvernig ákvarð- anir um verkin verða til. Í þessu tilviki eru þess- ar ljósmyndir efnið og hægt að setja þær fram án þess að gera neitt við þær; þær eru eins og heimildir.“ Ég er ekki reiðubúinn að sleppa Hreini strax við hugleiðingar um æskuslóðir hans, segi frá því að ég var á ferð um Miðdali í síðustu viku og upplifði hvernig lág vetrarsólin lýsti upp bæina að norðanverðu, undir Sauðafelli, en Bær er að sunnanverðu og var í skugga. Ég velti fyrir mér hvort þar væri einhver tenging við verkin sem Hreinn hefur verið að gera með ljósi, kristöllum og gleri á síðustu árum; hvort hann hafi verið að bera ljós í bæinn. „Það má hiklaust spekúlera í því,“ segir hann, brosir og þykir hugmyndin líklega langsótt. „En ég man vel eftir þessu. Skugginn var þarna yfir okkur, við vorum í skugganum sunnan í daln- um.“ – Og svo kemur birtan fram í verkum þínum nú fjörutíu fimmtíu árum seinna … „Það er ekkert ólíklegt að það megi rekja þetta allt til bernskunnar.“ – Það má allavega leggja fram þessa kenn- ingu. „Já, þú getur gert það! En eins og þú veist þá er ég ekki með neinar kenningar, eða skýringar á verkunum.“ Kútvelst gegnum tímann – Þú segist bara setja verkin fram, en efnivið- urinn er ætíð fjölbreytilegur. „Hann er það og hefur verið mjög fjölbreyti- legur gegnum tíðina. Þetta er orðinn nokkuð langur tími og maður er búinn að kútveltast ein- hvernvegin gegnum þennan tíma. Í hvert skipti sem ég geri verk langar mig til að eitthvað gerist sem ekki hefur gerst áður. Það er eftirsóknarvert. Maður setur fram tölu- verðan slatta af einhverju sem eru frekar uppá- stungur en eitthvað fullgert. Það verður ein- hvers konar safn af efnivið, litlar einingar, litlar heildir, sem ég fer svo í kringum, í einhverjar áttir. Ég yfirgef það í bili, tíminn líður og svo fer ég oft langa leið til baka og tek aftur upp þráð- inn. Hugmyndin vakir enn og hægt að halda áfram með hana en sumum hlutum er einfald- lega lokið. Þetta ferðalag er afskaplega óreiðu- kennt, farið fram og til baka; hringsól. Það má þó vel vera að það sé líka einhver hreyfing fram á við. Þegar yfirlitssýningar hafa verið settar saman koma tengsl verka og hugmynda betur í ljós en hvað efniviðinn varðar hef ég ekki átt mér neitt uppáhald. Ég hef mikið unnið með ljósmyndir og texta, mikið meira en í þung efni. Ég hef gert einhver smíðisverk en þau eru fá. Það var tímabil á níunda áratugnum þegar svo- lítið var smíðað og klambrað en það stóð til- tölulega stutt og fátt sem eftir er af þeim verk- um. Því skásta var leyft að lifa.“ Umsnúningur eins og árátta List Hreins er oft lýst sem ljóðrænni og form- rænni. En kalla hugmyndirnar venjulega á efni eða langar hann stundum að vinna með ákveðið efni og það kallar á hugmynd? „Það getur verið hvort tveggja. Ég nota mikið tilbúna hluti, efnivið sem er framleiddur og seld- ur í verslunum, eins og hænsnanet til dæmis. Maður fer að velta þessum hlutum fyrir sér og stundum verða hlutirnir til á tilviljanakenndan hátt, eitthvað mistekst og þá sér maður aðrar leiðir, að það má búa til eitthvað áhugavert úr næstum engu. Það er alltaf gott ef hægt er að umbreyta hlutum, gera þá að einhverju allt öðru, með lágmarks íhlutun.“ – Verkið Höllin, sem sýnt var í Galleríi 11 árið 1990 var gert úr hænsnaneti og vakti mikla at- hygli. Viltu að umbreyting efnisins opni áhorf- endum nýjan heim? „Mér finnst gaman þegar svona hugmyndir eru að taka á sig mynd, hlutir eru látnir breyta um eðli. Svona hlutir eins og hænsnaetið eru alls staðar til, eru oft fyrir augum okkar, eru venju- legir og kunnuglegir; ég skemmti mér yfir að sjá verk verða til úr þeim. En hvort ég sé að hugsa um hvort fólk sjái það sama úr þessu og ég, það er mér ekki efst í huga. Það er engin dramatík í því,“ segir hann og brosir. – En þessi umsnúningur er þér mikilvægur? „Það er töluvert um umsnúning í verkunum, það er eins og árátta. Ég kann ekkert að skýra það. Ég veit ekki hvort það er gott eða slæmt en þessi árátta er mjög sterk í mér. Að hvolfa öllu helst á haus. Ég verð alltaf heillaður þegar ég rekst á eitthvað af því tagi sem hefur verið gert og tekist. Það er með það eins og annað, maður heldur að maður sé að verða búinn með þess háttar hugmyndir, en þá líður einhver tími og þá gýs þetta upp aftur, þótt mann langi til að losna við það!“ Á árinu 2000 var Hreinn í sviðsljósinu er hann hlaut Ars Fennica-verðlaunin í Finnlandi og verðlaun á Carnegie-sýningunni. Þá voru settar upp yfirlitssýningar á verkum hans í Finnlandi en hann segir álagið ekkert aukast í kjölfar slíkrar athygli. „Fyrirbærum eins og Ars Fennica fylgja yf- irlitssýningar, það voru tvær stórar sýningar í Finnlandi en svo var það líka búið. En hversu mikið ég sýni, það er afskaplega breytilegt frá einu ári til þess næsta. Það var ró- legra á áttunda áratugnum. Hægt og sígandi hefur boðum um sýningar fjölgað. Stundum er ég með eina einkasýningu, stundum fleiri; flest- ar hafa þær verið sex sem mér finnst meira en nóg. Ég ræð ekki við það með minni tegund af myndlist og mínum vinnuaðferðum. Ég hef þá áráttu að vilja alltaf finna einhverja viðbót fyrir hverja sýningu. Ég get ekki byggt mikið á end- urtekningum á ákveðnum þemum. Í ár er ég með tvær sýningar, fyrir utan svo þessa kynn- ingu í Safni. En vissulega hefur verið meira að gera hjá mér en fyrir 20 til 25 árum.“ Tekur þátt í lífinu hér Á sýningunni sem var opnuð í Galleríi i8 á fimmtudaginn var sýnir Hreinn skúlptúra. „Á efri hæðinni verða glerinnsetningar í tveimur hlutum, prójekt sem er til í ýmsum samsetningum, og svo þriðja verkið sem er spil- að svolítið af fingrum fram. Niðri verða lítil ný- leg verk, pínulitlir hlutir, og svo fara kannski upp einhverjar ljósmyndir ef við finnum pláss fyrir þær. Þetta kemur allt í ljós þegar við för- um að setja upp.“ ÓREIÐUKENN Ónefnt, 2001 - 2002; eitt verkanna á sýningu Hreins í Galleríi i8. A Folded Star, 1983. Eitt verka Hreins í Safni. Hann vinnur stóra glerskúlptúra en segist ekki hafa neinn áhuga á gleri, er að endurgera gömul kassaverk og segist vera búinn að gleyma SÚM. Tvær sýningar á verkum Hreins Friðfinnssonar verða opnaðar í þessari viku, ný verk í Galleríi i8 og kynning á verkum þriggja áratuga í Safni. EINAR FALUR INGÓLFSSON ræddi við Hrein sem er nýorðinn sextugur og segir það vera sér áráttu að umbreyta hversdagslegum hlutum.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.