Lesbók Morgunblaðsins - 24.07.2004, Blaðsíða 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 24. júlí 2004 | 3
skáldum og hægt er, ungu og gömlum, frægum
og óþekktum, ljúfum og viðskotaillum, fram-
hleypnum og feimnum, dularfullum og klæmn-
um, setja þau öll saman eða hvert á fætur öðru
með hljóðnema í hönd, og leyfa þeim að sýna af-
urðir sínar frammi fyrir áheyrendum sem sam-
anstanda af venjulegu fólki sem menn vona að
þannig breytist í aðdáendur, það er að segja í
lesendur (og kaupendur), en eru í rauninni
sjálfir ekkert annað en ljóðskáld sem bíða þess
með óþreyju að vera boðið á næstu ljóðahátíð.
Þessi aðferð býður auðvitað uppá ýmsar út-
gáfur (það er hægt að halda þetta á kaffihúsum,
torgum, í skólum, undir sirkustjaldi, úti á akri;
það er hægt að hafa tónlist með upplestrinum
eða ekki; ýmsar uppákomur – vandlega und-
irbúnar og afmarkaðar – geta átt sér stað, eins
og það að einhver fletti sundur borða með „nið-
urrifsskilaboðum“, mótmæli að næturlagi,
óvænt innrás í ráðhús, óvænt heimsókn þekkts
menningarvita, sjónvarpssmástjörnu), en í
megindráttum – fjöldi ljóðskálda sem boðið er
og það að þau koma öll fram opinberlega – er
þetta allt svo svipað að það er hægt að sjá úr
hátíðinni, eða úr hátíðarljóðinu, eitt af þeim
„föstu formum“ sem helst einkenna samtíma-
ljóðlist, svona svipað og sonnettan, rondan eða
ballaðan hér forðum tíð.
Hátíð ljóðahátíðanna, sú sem er eftirsóttust
og frægust vegna þess að hún er að mestu hald-
in í París, er eflaust Vor ljóðskáldanna sem var
hleypt af stokkunum árið 1999 af listamann-
inum og ráðherranum Jack Lang, en síðast
þegar hún var haldin (mars 2004) var hún stór-
fenglegri og hlægilegri en þær sem áður hafa
verið haldnar: fimmtán þúsund viðburðir „af
öllum stærðum og gerðum“, gríðarmikið ljóða-
kvöld sem fólk sótti með því að flakka á milli
staða, kallað „Hlustunarnóttin“, dagar þar sem
menn skeggræddu „hið áríðandi erindi sem
ljóðlistin á við fólk, ljóðræn ljóðamaraþon sem
stóðu óendanlega lengi, meðal annars skipulagt
af „Frönsku slamljóðasamtökunum“, sem, það
þarf varla að taka það fram, er „opinber sam-
starfsaðili“ menningarmálaráðuneytisins, og að
sjálfsögðu hávaðasamri nærveru allra þeirra
ljóðskálda sem til eru í Frakklandi, frönsku-
mælandi löndum og ef til vill heiminum öllum,
stórum og smáum, vinstri- og hægrisinnuðum
rímskáldum, eldþjófum og öðrum þeim sem
feta margtroðnar slóðir. Það er þó í það
minnsta hægt að segja að þarna hafi ýmislegt
gengið á, það var fjör, mikið um að vera. Enda
sagði viðburðastjórinn sjálfur í samtali við blöð-
in: „Það er eitthvað að gerast í ljóðlistinni, það á
sér stað meiri sköpun þar en á sviði skáldsög-
unnar3.“
Það er þó rétt að taka fram að þetta árið átti
umrædd sköpun sér stað innan mjög ákveðins
ramma og undir formerkjum ákveðins þema
sem var yfirskrift og viðfangsefni allrar hátíð-
arinnar. En þemað – sem var ætlað að sanna
hversu mikið er „um að vera“ í ljóðlistinni og
hversu miklum endurnýjunarmætti hún býr yf-
ir – var þetta einfalda og fallega orð, og sér-
staklega „áríðandi“ nú á tímum þar sem al-
mennt þunglyndi er ríkjandi: vonin. Þannig
voru vorskáldin beðin að lofsyngja og næra
vonina; ljóðin þeirra, umræður, samband þeirra
við áheyrendur og starfssystkin, allt átti það að
snúast um þessa fótumtroðnu dyggð, guð-
fræðilega eðliskost sem tengir hið hagnýta og
hið notalega og einkar þægilegt er að yrkja um:
vonina. Baudelaire hefði heldur betur orðið kát-
ur við þetta.
En hvers geta ljóðskáldin sem stunda hátíð-
arnar af miklum móð vænst nú á tímum, um
hvað geta villtustu draumar þeirra snúist, ef
ekki um það að sækja aðra hátíð? Þess vegna
hafa þeir sem sjá um að skipuleggja Vorhátíð
ljóðskáldanna ákveðið að héðan í frá verði henni
ekki lengur þjappað á nokkra stutta daga í
mars, heldur spanni hún allt árið. Þannig verð-
ur hátíðin, umgjörð hátíðarinnar, ekki lengur
nokkurs konar slys fyrir ljóðlistina, afmarkaðar
og sérstakar kringumstæður, heldur verður
hún sjálft innihald hennar, náttúrulegur staður
þar sem hún þrífst. Ljóðlistin og hátíðahöldin
renna saman í eitt.
Auðvitað er þetta nokkuð sem veldur vanda
af rökrænum, jafnvel heimspekilegum toga:
hvernig á að búa til árstíð – „vor“ – sem stendur
yfir í tólf mánuði? Er stöðug kjötkveðjuhátíð
ennþá kjötkveðjuhátíð? Upphafning, hækkun á
spennu, það andlega og tilfinningalega holdris
eins og það sem ljóðahátíð á venjulega að fram-
kalla, getur það varað svona lengi án þess að
fara að þykjast eða rembast? Allir vita nátt-
úrlega að ljóðlistin hefur fyrir löngu losað sig
við þunglamalega rökvísi og þreytandi tak-
markanir raunveruleikans. Þvert á móti þarf að
leysa áþreifanleg og lágkúruleg vandamál, þau
sem annars vegar snúast um það að fjármagna
slíkt húllumhæ sem hvorki á sér upphaf né endi
(ráðherrarnir sjá örugglega um að leysa þau) og
hins vegar líkamlega þreytu vesalings skáld-
anna sjálfra, sem eru farin að lifa ærið þreyt-
andi lífi frá því að það fór allt að snúast um há-
tíðarhöld og mannamót. Það að vera ljóðskáld á
okkar tímum felst nefnilega ekki einungis í því
að skrifa ljóðlínur, einkum við sólarupprás; það
felst einkum í því að vera með öðrum ljóð-
skáldum allan daginn og undirbúa sig með þeim
undir samkomur, uppákomur, upplestrarkvöld
og fleiri viðburði sem fylla dagbækur og neyða
þau til að vera uppistandandi langt fram á
rauðanótt. Enda þótt það að yrkja ljóð (einkum
nútímaljóð) útheimti hvorki mikla orku né tíma,
þá verður það sama ekki sagt um öll hin verk-
efnin sem samviskusamt nútímaljóðskáld verð-
ur að taka að sér og gera það að verkum að lífið
er þeim ægileg byrði: fara þarf í ferðalög í flug-
vélum eða í rútum til að sækja staðbundnar eða
alþjóðlegar hátíðir, vera á löngum upplestr-
arkvöldum frammi fyrir alls kyns áheyrendum,
fara á barnaheimili, hæli og bókasöfn, ráð-
stefnur, vinnustofur þar sem fólk skrifar á
staðnum, standa tímunum saman og rekja ævi
sína frammi fyrir áheyrendum, svo ekki sé nú
minnst á allar mótmælagöngurnar (gegn hinu
illa) eða kröfugöngurnar (í þágu ljóðlistarinnar,
náttúrunnar, dygðarinnar og öllu öðru fallegu í
þessu lífi) sem er ætlast til að þau taki þátt í, sé
þeim annt um að halda áfram að vera við-
urkennt ljóðskáld. Og allt fer þetta fram í hóp-
um, alltaf innan um sömu hégómafullu starfs-
félagana, frammi fyrir hávaðasömum
mannsöfnuði, stundum dauðadrukknum, oft al-
veg menningarsnauðum, þótt það verði að við-
urkennast að yfirleitt sé hann afar áhugasamur.
Það er skiljanlegt hvers vegna fólk þarf að vera
(sí-) ungt til að standa í þessu og hvers vegna
ljóðskáld, jafnvel þau ungu, eru alla jafna náföl
og heilsutæp. En nú stendur til að Vorið þeirra
vari í tólf mánuði! Það verður ekki friður einn
einasta dag! Þegar maður hugsar út í það, þá er
þetta hreinlega ómannúðlegt. En sem betur fer
er það ekkert vandamál, því nú á tímum er eng-
inn hörgull á ljóðrænu vinnuafli, ljóðskáldin eru
ævinlega til í tuskið, bræðraböndin milli þeirra
svo sterk og svo auðvelt að skipta einu þeirra út
fyrir annað, að það er ekkert mál fyrir þau að
taka eitt við af öðru og hvíla sig til skiptis, eins
og verkamenn á færibandi, til að Hátíðin stöðv-
ist aldrei.
Ég vil ítreka það að breytingin sem ég tala
um, umbreytingin myndarinnar af einræna
skáldinu sem fyrirlítur heiminn yfir í endalausa,
glaðværa hjörð ljóðskálda sem þyrpast á hátíð-
ir, er ein þeirra nýjunga sem einkenna samtíma
okkar. Menn nefna þá kannski að ljóðrænt fé-
lagsstarf sé margþætt fyrirbæri og að skáldin
hafi alltaf haft meiri og minni tilhneigingu til að
mynda ýmiskonar hópa, strauma og stefnur.
Poetae poetas fricant. Ennfremur benda menn
ef til vill á það að það er ekki nýtt fyrirbæri að
ljóðskáld troði ljóðunum sínum upp á skilnings-
vana áheyrendur. Molière orti meðal annars um
þetta í leikriti sínu, Les Femmes savantes.
En Molière gat ekki séð það fyrir að sú árátta
að troða upp fyrir aðra, nokkuð sem herjaði
bara á sum ljóðskáld á hans tíma, er á okkar
tímum orðin skylda fyrir öll ljóðskáld, það er að
segja ein tegund „birtingar“ og viðurkenningar
sem er þeim algerlega bráðnauðsynleg til að lifa
af. En einkum gat hann þó ekki séð það fyrir, að
til að svala þörf sinni fyrir að sýna sig fyrir öðr-
um myndu ljóðskáldin, sem áður fyrr var mjög
annt um sérstöðu sína og sérkenni þess sem þau
voru að yrkja um, myndu samþykkja að koma
fram uppi á sviði þar sem þau koma fram í
þröngum röðum, hvert á fætur öðru eða hlið við
hlið, eins og hermenn á sýningu eða dansarar í
frönskum kan-kan-dansi (því miður þó án þess
áhugaverðasta, búninganna).
Það er því sannarlega eitthvað nýtt við það
tvöfalda ljóðræna fyrirbæri sem við horfum
uppá nú á tímum – hátíðahöld sem drifin eru
áfram af sýniþörf og því að þröngva sér uppá
aðra – nokkuð sem á ekkert skylt við einstaka
dæmi sem menn gætu tínt til frá þeim tíma áður
en póstmódernisminn kom til sögunnar. Þannig
hópuðu ljóðskáld sig áður fyrr saman á svipaðan
hátt og sértrúarsöfnuðir sem fara meira og
minna leynt, eða eru í það minnsta á jaðrinum,
og meðlimir þess – ungir, fáir og hlédrægir –
sem ýmist drógust að vegna tiltekins meistara
eða hugmyndar, hittust af og til sér til skemmt-
unar fjarri augnaráðum annarra og, á alvarlegri
augnablikum, til að verja nokkrar hugmyndir
sem þeim voru kærar, skoðanir sem einkum
voru af listrænum toga og taldar framúrstefnu-
legar, en það gerði þau tortryggileg í annarra
augum og þjappaði þeim enn meira saman.
Þessar skoðanir birtust síðan í einni eða fleiri
yfirlýsingum og síðan leystist hópurinn yfirleitt
upp og hver og einn meðlimur í hópnum gat
annaðhvort snúið sér að einhverju öðru eða
haldið einn áfram að byggja upp eigin feril og
höfundarverk sitt sem ljóðskáld. Í stuttu máli
sagt, þá var það að tilheyra einhverjum hópi til-
tekin og tímabundin fagurfræðileg gjörð, nokk-
uð sem er gerólíkt því sem nú tíðkast, þar sem
samruninn við andlitslausan og hávaðasaman
hóp ljóðskáldanna er ekki einungis orðin eina
og eðlilega leiðin til þess að stunda ljóðlist, held-
ur skylduform sem öll ljóðskáld verða að virða
ef þau vilja láta vita af sér í heiminum. Það sem
einna helst vekur athygli við ljóðahátíðarnar og
aðrar slíkar ljóðamessur er einmitt að þau eru
ekki endilega undirlögð af undirmálsskáldum
eða leirbullum, þótt þau séu oft í meirihluta,
heldur draga til sín öll ljóðskáld og ljóðaheiminn
sem slíkan, þar á meðal fjölda ljóðskálda sem
talin eru þau „alvarlegustu“ og ólíklegust til að
láta blekkjast af þessum misstóru en tilgerð-
arlegu hátíðahöldum sem einkum er ætlað að
höfða til ferðamanna og meðaljóna.
Þess vegna kviknar fjöldi spurninga hjá okk-
ur, vesælum „áhafnarmeðlimum“. Hvernig geta
alvöru ljóðskáld þolað það að taka þátt í slíku
húllumhæi, slíkri afbökun á ljóðlistinni? Hvern-
ig geta þau gengið svona langt í því að svíkja
hina miklu forvera sína? Hvernig geta þau látið
sig hafa það að draga list sína niður í það að láta
setja henni efnisskorður á borð við „von“ og
leyfa að henni sé stillt upp í kastljósi fjölmiðl-
anna? Og ennfremur má spyrja: hvað er það í
sálarlífi nútímaskálda sem ýtir þeim svona
ákaft í faðm hvers annars? Hvaða söknuður eft-
ir frumstæðum, munnlegum samskiptum þjóð-
flokksins, hvaða sakleysi eða hvaða leynda sekt-
arkennd, hvaða hræðsla við einsemdina eða
hvaða óviðráðanlega þörf fyrir hylli almennings
er það eiginlega sem veldur því að þau eru eins
og útspýtt hundsskinn út um allt og hlýða strax
kalli minnstu hátíðarhaldara, og troða upp í fé-
lagi við klappstýrur, tamda hunda og trúða?
Eins og þekkingu manna er háttað nú er ekki
einu sinni hægt að fá byrjun að fullnægjandi
svari við þessum spurningum. Til þess þyrfum
við að hafa aðgang að nýrri tegund rannsóknar
sem einungis menn eins og Henri Fabre eða
Maeterlinck, höfundur hinnar heillandi og ná-
kvæmu bókar, Líf býflugnanna, gætu ef til vill
framkvæmt fyrir okkur. Þangað til verðum við
allavega að viðurkenna að gömlu fallegu líking-
arnar sem lýstu ljóðskáldinu sem vængjaðri
veru, holdgervingi einsemdarinnar og stoltsins,
albatrosinn hjá Baudelaire, svanurinn hjá Mal-
armée, engillinn hjá Valery, henta fráleitt leng-
ur til að lýsa raunveruleikanum eins og hann er
nú. Líkingin núna myndi frekar útheimta ann-
ars vegar iðandi fjölda einstaklinga og hins veg-
ar hvarf þeirra í eina sameiginlega vitund og
hreyfingu, mynd sem vissulega væri ekki eins
glæsileg en ef til vill mun öflugri. Til dæmis, og
til að halda mig enn við svið fuglafræðinnar: ger
af svölum eða flokkur af mörgæsum. Þessi lík-
ing á raunar í það minnsta tvennt sameiginlegt
með fundum nýljóðskálda samtímans. Í fyrsta
lagi, hávaðasöm nærvera: það syngur, eða það
gefur í það minnsta frá sér hljóð, gaggar og
kvakar án afláts, öfugt við albatrosinn, svaninn
og engilinn, sem er sjaldgæfur og lítt áberandi
fiðurfénaður. Og í öðru lagi, alger samhæfing
þrátt fyrir að það líti út fyrir að vera óreiða:
enda þótt fuglarnir séu í tuga, hundraða, jafnvel
milljóna tali, þá fljúga hóparnir eða gerin æv-
inlega í takt, mynda eina samfellda heild; saman
hefja þeir sig til flugs og setjast, fljúga saman til
þessa eða hins staðarins, saman eru þeir æstir
eða rólegir, en einkum er það saman sem þeir
kveikja von í brjósti mannanna með sínum glað-
lega söng.
En því miður verða þessar tvær myndir líka
úreltar um leið og Vorhátíð ljóðskáldanna
stendur stöðugt yfir. Því það má ekki gleyma
því að enda þótt svölurnar eða mörgæsirnar lifi
saman í hópum, þá breytist hegðunarmynstur
þeirra eftir árstíðum. Þá eigum við ekki eftir
nema eina einustu myndlíkingu sem hentar
verulega vel til að lýsa siðum vina okkar ljóð-
skáldanna: hænsnahúsið.
Friðrik Rafnsson þýddi.
[1] Sjá Le Monde des livres, 31. október 2003, p. II
[2] Sjá Le Monde des livres, 7. nóvember 2003, p. II
[3] Sjá Le Monde des livres, 5. mars 2004, p. II
François Ricard er bókmenntakennari við McGill-
háskóla í Montréal í Kanada. Hann var um skeið rit-
stjóri bókmenntatímaritsins Libérté og hefur skrifað
fjölda greina og bóka um kanadískar og evrópskar bók-
menntir. Nýjasta bók hans nefnist Lokasíðdegi Agnesar
– ritgerð um verk Milans Kundera (Gallimard, París
2003). Grein þessi birtist í franska bókmenntatímarit-
inu L’Atelier du roman í júní sl.
’Hátíð ljóðahátíðanna, sú sem er eftirsóttust og frægust vegna þess að hún er að mestu haldin í París, er eflaust Vorljóðskáldanna sem var hleypt af stokkunum árið 1999 af listamanninum og ráðherranum Jack Lang, en síðast þegar
hún var haldin (mars 2004) var hún stórfenglegri og hlægilegri en þær sem áður hafa verið haldnar …‘
Morgunblaðið/Kristinn
Ljóðskáldið „Þangað til verðum við allavega að viðurkenna að gömlu fallegu líkingarnar sem lýstu
ljóðskáldinu sem vængjaðri veru, holdgervingi einsemdarinnar og stoltsins, albatrosinn hjá
Baudelaire, svanurinn hjá Malarmée, engillinn hjá Valery, henta fráleitt lengur til að lýsa raunveru-
leikanum eins og hann er nú.“ Myndin er af verki eftir Victor Boullet, listamaðurinn sem hugsuður
og fagurkeri, sem framleiðandi markaðsvöru og ljóðskáld, listamaðurinn sem spegill samfélagsins.