NT - 14.11.1984, Blaðsíða 4

NT - 14.11.1984, Blaðsíða 4
Miðvikudagur 14. nóvember 1984 4' M Sveinn Einarsson veiðistjóri frá Miðdal Fæddur 14. jan 1917 - Dáinn 2. nóv. 1984 ■ Með Sveini Einarssyni veiðistjóra er genginn langt um aldur fram góður drengur og prúðmenni sem samstarfs - og samferðamenn munu lengi minnast með þakklæti. Sveinn var fæddur 14. janúar 1917 í Miðdal í Mosfellssveit og oft við hann kenndur eins og fleiri af þeim bræðrum sem vel eru þekktir. Hann var sonur hjónanna Einars Guðmundssonar og Val- gerðar Jónsdóttur er þar bjuggu lengi við rausn og af myndar- skap og var heimilið vel þekkt enda í þjóðbraut við leiðina yfir Mosfellsheiði. Þar ólst Sveinn upp í stórum hópi systkina við heiðina og víðlendið að baki en í nágrenni sjávar og þéttbýlisins á hina höndina. Störfin munu hafa verið óvenju fjölbreytt því mikið var sinnt veiðum bæði á silungi, fugli og tófum. I samræmi við þetta stundaði Sveinn snemma fjölbreytt störf til lands og sjávar og kynntist lífinu og starfinu frá mörgum hliðum. Sveinn var bæði hagur og listhneigður eins og hann átti kyn til og fór ungur til bróður síns Guðmundar myndhöggv- ara til að læra leirkerasmíði og lauk prófi í þeirri grein. Eftir nokkur störf með Guðmundi fór hann til náms í Postulínsgerð og leirkerasmíði til Múnchen í Þýskalandi og var þar á árunum 1936-1938. Eftir það vann hann við það um 20 ára skeið hjá Listmunahúsinu sf fyrirtækinu sem Guðmundur bróðir hans stofnaði og í 10 ár var hann forstöðumaður þess fyrirtækis. Árið 1957 voru sett ný lög um eyðingu refa og minka. Með þeim lögum var stofnað til nýs starfs hjá Búnaðarfélagi íslands, starfs veiðistjóra, en Búnaðarfélaginu var falið að hafa umsjón með framkvæmd laganna. Veiðistjóri skyldi skipuleggja og samræma störf allra þeirra fjölmörgu sem unnu á vegum allra sveitarfélaga landsins að því að halda niðri tjóni af völdum refa og minka. Honum var falið að afla upplýs- inga um lifnaðarhætti þessara dýra og um heppilegustu leiðir til að vinna þau og leiðbeina grenjaskyttum og minkaveiði- mönnum í samræmi við það. Einnig skyldi hann skipuleggja skráningu á árangri veiðanna og annast ýmiskonar skýrsluhald. Það var því ljóst að hinum nýja starfsmanni mundi verða margur vandi á höndum og að miklu kynni að ráða hvernig tækist til um val á manni í starfið. Mér er ekki kunnugt um hvaða sjónarmið kunna að hafa verið uppi í því sambandi á þeim tíma en víst er að vel var ráðið þegar það var ákveðið að Sveinn Einarsson tæki við hinu nýja starfi. Sveinn hóf störf hjá Búnaðar- félagi íslands 1. janúar 1958 og starfaði þar til dauðadags eða í nær 27 ár og var því einn af elstu starfsmönnum félagsins. Sveinn hafði fjölþætta reynslu af veiði- málum er hann tók við starfi veiðistjóra. Auk þess sem hann var alinn upp við veiðiskap og sjálfsagt þar á meðal grenja- vinnslu hafði hann verið grenja- skytta hjá sveitarfélögum á Reykjanesskaga um nokkur vor. Hann var auk þess þraut- þjálfaður ferða- og útivistar- maður og vel á sig kominn. Það mun ekki hvað síst hafa verið áhugi Sveins á náttúru landsins og þörf fyrir útilíf og snertingu við landið sem gerði það að verkum að hann undi sér ekki við einber innistörf og sótti • eftir hinu nýja fjölbreytta starfi. Af störfum Sveins sem veiði- stjóra er það skemmst að segja að þau lánuðust í alla staði vel. Hann mun strax hafa náð góðu sambandi við veiðimenn hvar- vetna um landið og skapaði hann sér virðingu þeirra og vináttu. Enda átti hann létt með að leiðbeina og kenna bæði með tilsögn og því að sýna sjálfur í verki hvernig að hlutunum skyldi standa. Sagt er að enginn verði góður veiðimaður nema sá sem þekkir vel eðli og lífs- hætti veiðidýrsins og geti þar af leiðandi séð fyrir viðbrögð þess. Slíka þekkingu fá menn ekki aðeins af bókum og með því að kynna sér reynslu annarra held- ur einnig og ekki síður af eigin athugunum og reynslu og því fremur, sem menn eru gleggri að skoða og lesa af bók náttúr- unnar. En hvortveggja ntun Sveinn hafa notfært sér enda einstaklega skyggn náttúru- skoðari og mikill náttúruunnandi Af skýrslum veiðistjóra- embættisins frá upphafi og til þessa dags má glöggt sjá að mikill árangur hefur náðst í því að fækka refum og draga veru- lega úr tjóni af þeirra völdum þannig að það er nú hvergi tilfinnanlegt. Á sama hátt hefur baráttan við minkinn ótvírætt borið árangur þó að ekki tækist að eyða honum, eða hefta út- breiðslu hans um landið eins og menn vonuðust til fyrst eftir að hann varð hér villturog tók að gera usla í fuglalífi og veiði- vötnum. Sveinn lagði stöðugt megin áherslu á að halda min- knum niðri á þeim svæðum sem viðkvæmust voru í þessu tilliti og þar hefur náðst ótvíræður árangur. Ekki gat hjá því farið að þessi starfsemi sætti vissri gagnrýni, svo umdeilanlegir sem þessir hlutir hljóta að vera sakir mismunandi sjónarmiða og afstöðu manna til þess að maðurinn taki sér vald til að hafa áhrif á stærð dýrastofna. Slíkri gagnrýni, þó oft væri hún óbilgjörn, tók Sveinn alltaf vel og af ríkum skilningi. - En það sárnaði honum helst ef honum fannst gagnrýnendur ekki þekkja það, sem þeir fjölluðu um og því setja hlutina fram meira af kappi en forsjá en slíkt hefur æði oft komið fyrir. Sjálfur var Sveinn slíkt prúð- menni og svo laus við auglýs- ingamennsku að hann hafði ekki skap til að standa í karpi um störf sín eða þau málefni er hann vann að. Sveinn var glæsimenni í sjón og á allan hátt vel á sig kominn, íþróttamaður og þrekmaður til líkama og sálar og lét ekki á sjá þó að að steðjuðu raunir eða líkamleg vanheilsa, því tók hann með karlmennsku. Hann var á allan hátt góðum gáfum gæddur. Sveinn var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Kamma Norð- land Nilsen; þeim varð fimm barna auðið, þau eru: Örn kvik- myndatökumaður hjá Sjón- varpinu, Sigríður húsfreyja á Ásmundarstöðum, Valgerður húsfreyja í Reykjavík, Örlygur vélstjóri í Reykjavík og Einar arkitekt í Reykjavík. Þau slitu samvistum. Síðari kona Sveins var Lára Einarsdóttir. Hana missti Sveinn fyrir nær tíu árum eftir níu ára sambúð. Síðustu árin átti Sveinn við þrálátt heilsuleysi að stríða. Hann kom þó stöðugt til starfa svo sem heilsan framast leyfði og fór í veiðiferðalög þó að margir hefðu í hans sporum látið það vera. Karlmennska hans og æðru- leysi birtist okkur sem með honum voru ekki hvað síst í því hvað hann bar sig vel þó að oft væri hann þjáður. Viðmótið var stöðugt það sama, brosið hlýtt og handtakið þýtt. Samstarfsfólk Sveins Einars- sonar hjá Búnaðarfélagi íslands kveður hann með þakklæti. Börnum hans og barnabörn- um sendum við innilegar sam- úðarkveðjur. Jónas Jónsson ■ Fyrstu kynni mín af Sveini Einarssyni veiðistjóra voru þau að ég kom til hans á skrifstofu hans til að leita ráða og kynna mér hvaða aðstoð ég gæti fengið í baráttunni við refi, minka og vangfugla.Þetta var fyrir tæpum tíu árum. Á svipaðan hátt eign- aðist hann marga vini og kunn- ingja í áranna rás, því að þetta var jafnt starf hans og áhuga- mál. Sveinn var skipaður í nýstofn- aða stöðu veiðistjóra 6. desemb- er árið 1958. Á vegum þess starfs ferðaðist hann mikið um landið og kynnti sér aðstæður og hjálpaði mönnum að taka á vandamálum sem upp komu í því sambandi. Reynslu sína lét hann í té mörgum mönnum sem enn þann dag í dag stunda fækkunarstörf í nær öllum hreppum landsins í þágu náttúru- > vemdar og til að koma í veg, fyrir tjón. Sveinn var ákaflega vandaður maður til orðs og æðis, glað- lyndur og höfðingi í sjón og raun. Heimsóknir á skrifstofu veiðistjóra, á heimili hans og á sjúkrahús er hann dvaldist þar voru jafnan afar ánægjulegar þótt kringumstæður væru mis- jafnar. Spjall um veikindi hans voru ekkj á dagskrá en áhuga- mál hans og starfið vildi hann ræða þeim mun meira. Árið 1981 bauð Sveinn mér að gerast aðstoðarmaður sinn og tók ég því boði. Heilsu hans hrakaði um það leyti og hann vissi að hverju dró. Hann kveið ekki fyrir dauðanum. Hann orð- aði það á þann hátt. „Ég hef átt viðburðaríka ævi og ánægjulega og ég þarf ekki að biðja um meira.“ Ég naut nærveru Sveins og er ég rita þessar línur líður hugur minn aftur til þeirra stunda sem of fáar urðu, er við sátum við sama borð og töluð- um um ýmis mál sem upp komu í starfi okkar. Ég stóð mig oft að því þá að hugsa um það tómarúm sem myndi verða er Sveins nyti ekki lengur við. Sú spurning sem sækir að mér nú á þessari stundu er sú spum- tng sejn barn spurði eitt sinn. „Hvert fór dagurinn í gær“. Minningu um Svein geymi ég vel og bið guð að styrkja börn hans og barnabörn við fráfall hans. Þorvaldur Þór Björnsson ■ Þegar Sveinn vinur minn er allur sækja endalausar minning- ar á hugann frá þeim stundum, sem við nutum saman á ferða- lögum um landið og í veiðiskap. Það er sár söknuður að horfa á eftir sínum besta vini, hríslan stendur lauflaus eftir. Við Sveinn kynntumst rétt eftir að hann tók við embætti veiðistjóra árið 1958. Hann fékk mig oft til hjálpar gegn erfiðum dýrbítum og gegnum árin þró- aðist með okkur djúp vinátta og virðing. Sveinn var hæfileikamaður að hverju sem hann gekk og glæsi- menni. Hann var þéttur á velli og þéttur í lund, karlmenni að burðum og hrókur alls fagnaðar á gleðistund. Auk þess að vera hvers manns hugljúfi var Sveinn vinur minn þrautagóður á raunastund. Starf sitt stundaði hann af dugnaði og samviskusemi, ferð- aðist mikið um landið og leið- beindi mönnum. Hann varalltaf tilbúinn til hjálpar mönnum ef vargfugl, tófa eða minkur urðu of miklir skaðvaldar í löndum þeirra. En hann var mótfallinn illri meðferð og útrýmingu á þessum óvinum bænda. Menn skyldu ganga hreint til verks í veiðiskap, gæta ítrustu varfærni í meðferð skotvopna svo og særa ekki dýr að ástæðulausu. 1 þessum ferðum kynntist Sveinn mörgum góðum manninum og menn kunnu að meta hjálpsemi hans og tilsögn. En jafnvægi í ríki náttúrunnar skyldi í -heiðri haft. Fegurðar og tignar lands- ins naut vinur minn í ferðum okkar. Hann kunni að meta söng fuglanna og sindrandi lax- inn og ilm af lyngi og mold. Það var eins og hann væri eitthvað af þessu öllu saman og tilheyrði því. Sveinn fæddist að Miðdal í Mosfellssveit 14. janúar 1917 og var næstyngstur af ellefu syst- kinum. Nú eru aðeins þrjú á Íífi. Miðdalur var í þjóðbraut og var þar tekið vel á móti lúnum ferðalöngum, bæði mönnum og málleysingjum. Á uppvaxtarár- um sínum mun Sveinn hafa unnið við hin ýmsu sveitastörf. Ungur að árum fór hann að stunda veiðiskap með stöng og byssu með góðum árangri, enda maðurinn rólegur og athugull. Til Þýskalands fór hann til náms og lærði þar leirkera- og postulínsgerð. Eftir það kom hann heim og vann við Listvina- húsið í tuttugu og fimm ár, þar af í tíu ár sem forstöðumaðurog meðeigandi með Guðmundi bróður sínum, sem framleiddi ýmsa fallega muni úr leir. Sveinn var listrænn eins og svo margir í hans ætt. Margir eiga fallega muni frá þeim árum. Að loknu þessu starfi tók Sveinn við starfi veiðistjóra, sem hann gengdi til síðustu stundar. Sveinn var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Kamma N. Niels- en, þau giftust 1942, skildu 1960. Þau eignuðust 5 börn. Seinni kona hans var Lára Ein- arsdóttir, þau giftust 1966, hún andaðist 1975. Sveinn átti í mörg ár við mikið heilsuleysi að stríða, sem hann bar með karlmennsku og trú á lífið. Hann vissi að hverju stefndi og hafði trú á því góða. Sveinn hélt mikið upp á börnin sín fimm, sem öll eru á lífi og eru þessi: Örn, Sigríður, Valg- erður, Örlygur og Einar, enda eðlilegt, hópurinn er stórglæsi- legur og mannkostafólk. Afinn var brosmildur þegar smáfólkið kom í heimsókn og var reynt að gera öllum eitthvað gott. Barnabörnin eru 13. Eftir að Sveinn missti seinni konu sína bjó hann einn. Hann átti fallegt heimili og vildi hafa snyrtilegt í kringum sig. Ég fagna því að hafa átt með Sveini samstarf og fjallaferðir sem eru mér ógleymanlegar. Ég minnist hans með virðingu og þökk. Börnum hans og aðstandend- um votta ég dýpstu samúð. Guðbjörn Guðmundsson. Skáld og útvarpstæki ■ Egg-leikhúsið: Skjaldbak- an kemst þangað líka. Höfund- ur og leikstjóri: Árni Ibsen. Leikmynd og búningar: Guð- rún Erla Gerisdóttir. Leikhljóð og tónlist: Lárus H. Grímsson. Víða leggja menn stund á leiklist. Nýlistasafnið við Vatnsstíg er fljótt á litið ekki kjörið til leiksýninga, en þar frumsýndi Egg-leikhúsið á föstudagskvöldið nýtt íslenskt leikrit af óvenjulegri gerð. Leikhús þetta hefur hingað til verið Viðar Eggertsson einn, og hann fer með annað tveggja hlutverka í þessu leikriti sem fjallar um skáldin og vinina William Carlos Williams og Ezra Pound og samskipti þeirra. Mér er ekki Ijóst að hve miklu leyti texti þessa verks Árna Ibsen er þýddur upp úr bréfum þeirra skáldanna og öðrum ritum. En hér er rétt einu sinni sett á svið hversu togast á tvennskonar viðhorf í lífi og list: Pound gerist heims- borgari, slítur öll tengsl við hina smáborgaralegu þjón- ustu, en Williams rækir læknis- starf í litlu hverfi. Hann er það jarðsamband sem Pound þarfnast svo mjög. í orðræðum þessara manna er að finna margvísleg rök og gagnrök um þátttöku listamannsins í stríði aldarinnar og hversu hann gegni best skyldum sínum við listina og lífið. Sú viðureign sem hinir góðu og ólíku vinir heyja er kunnugleg úr drama- tískum bókmenntum; einhver nefndi Ibsen gamla og má til sanns vegar færa. Árni Ibsen hefur skiiað at- hyglisverðu verki og leynir sér ekki að hann hefur lagt í það mikla alúð. Orðræður þeirra skáldbræðra verða að sönnu stundum nokkuð bóklegar, og ekki skal ég dæma um þýðingar Ijóðanna af einni heyrn. En víst var sitthvað markvert um sýninguna þótt hún væri raunar í lengra lagi. Ezra Pound er eitt af stór- skáldum aldarinnar og í lifanda lífi var hann meir en lítið umdeildur fyrir stjórnmálaaf- skipti sín, „þeir eru líkast til fáir listamennirnir sem hafa laðað fram jafn margvísleg og öfgakennd viðbrögð hjá al- menningi“, eins og segir í leikskrárgrein höfundar. Á stríðsárunum flutti hann áróð- ursræður í útvarp fyrir ítölsku fasistana og verður af því mikið mál í leiknum, enda er Pound skilgreindur sem skáld og útvarpstæki, og talar raunar úr útvarpstækinu drjúgan hluta texta síns. Það er mikið í ráðist að leiða Pound inn á sviðið og engan veginn þótti mér Arnóri Ben- ónýssyni takast að bregða upp sannfærandi mynd af þessum frægðarmanni. í meðförum Arnórs og höfundar og leik- stjóra var Pound umfram allt ofláti og ræður hans voru einatt með tómahljóði, gjallandi sem náði engum tökum á áhorfand- anum. Árnór kemur vel fyrir á sviði og gæti vafalaust leikið á fleiri strengi en hér, en blæ- brigði skortir tilfinnanlega í meðferð hans á Pound. ■ Skáldin Ezra Pound og William Carlos Williams. Með hlutverk þeirra fara Arnór Benónýsson og Viðar Eggertsson á sviði Eggleikhússins. NT-mynd: Sverrir Annað er uppi á teningnum hjá Viðari Eggertssyni í hlut- verki Williams Carlos Williams læknis og skálds. Viðar sýnir það enn að hann er meðal athyglisverðustu ungra leikara. Hann hefur gott vald á rödd sinni, leikur á hljóðfæri hennar af öryggi, og sýnir eink- um vel hið húmaníska lífsvið- horf Williams, andstætt mann- fyrirlitningu Pounds. Vinarhug Williams, aðdáun hans á Po- und og sársaukann vegna þess að Pound gengur fasismanum á hönd; allt þetta túlkaði Viðar svo að ánægja var á að horfa og hlýða. Sviðið í Nýlistasafninu er ekki stórt eða hentugt, en raunar undrunarefni ' hversu vel tókst til að veita leiknum ákjósanlega umgerð. Þar nýtur við smekkvísi Guðrúnar Erlu. { upphafi er sviðið alhvítt, og Williams birtist, einmana skáld í auðum heimi. Smám saman sviptir hann hulunni af hinu jarðnána umhverfisínu; borði, síma, þvottafati, hurð, gluggum. Þetta var haganlega gert, og ekki má gleyma forn- fálegu útvarpstækinu sem svo miklu skiptir í samspili vin- anna. Ríkust í minni er loka- senan. Rödd Pounds deyjandi hljómar úr útvarpinu, Wil- liams gengur burt, hverfur upp stigann í Ijósgeisla, og birtan dofnar hægt og hægt á útvarps- tækinu með hinstu orðum Pounds. Skjaldbakan kemst þangað líka var að sviðsbúnaði vönduð sýning og ber vott um áræði og útsjónarsemi höfundar síns. Textinn var að sönnu misvígur, stundum slaki á honum, og einkum dofnaði athyglin ann- að slagið í hinum langvinnu heimspekilegu og abstrakt rök- ræðum vinanna. En þeir sem vilja kynnast sérstæðu leik- verki ættu að leggja leið sína í Nýlistasafnið næstu kvöld. Gunnar Stefánsson

x

NT

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: NT
https://timarit.is/publication/305

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.