Lesbók Morgunblaðsins - 04.09.2004, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 04.09.2004, Blaðsíða 4
4 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 4. september 2004 eru lyngvaxnar lautir og mosagróið holt og mik- ið af berjalyngi. Þar, undir þessum steini og í þessum lautum, átti ég marga skemmtilega stund í bernsku og hef sjálfsagt búið mér til margar ímyndanir í sambandi við þennan stað. Um tvítugsaldur eða rétt innan við tvítugt, skrifaði ég skáldlega hugleiðingu um þann anda, sem býr í steininum.“ Sagan sem Halldór vísar til hét Steinninn minn helgi og er með elstu smásögum hans. Á þeim árum átti Halldór til að skrifa í anda upp- gerðarlífsþreytu samfara mikilmennskulátum, þótt hann væri ekki nema 19 ára, og í sögunni lýsir hann því hvernig hann hafi farið um heim- inn og völundarhús mannlífsins, og ekkert hafi getað svalað innstu þrá hans, „hvergi hefi ég fundið bergmál við helgimál hjarta míns, nema í einum steini í heimahögum mínum.“ Vegna þess að við þennan stein vitraðist honum Krist- ur, einn sólskinsdag um hásumarið þegar hann var sjö vetra sveinn, einsog segir í sögunni. Í draumsýn verður steinninn að höll og út kemur maður í skínandi hvítum klæðum og leggur hönd á höfuð drengsins: „Og ég fyltist unaði, slíkum sem ég aldrei hef síðar kent, lotningin og tilbeiðslan fóru um sál mína slíkri magnan að mér fanst á þessum augnablikum að ég væri alt, að ég væri sjálfur Guð.“ Kristur ávarpar drenginn, og „síðan hafa allir hlutir mist ljóma sinn frammi fyrir minningunni um það, að ég hefi í barnæsku minni staðið aug- liti til auglitis við mannkynsfrelsarann“. Kristur hefur víst oft vitjað trúaðra barna, og Halldór gerir góðlátlegt grín að vitruninni úr æsku í minningabókinni Sjömeistarasögunni löngu síð- ar, en heldur henni þó til haga. Í millitíðinni hef- ur hann eignað Ólafi Kárasyni sömu skynjun í Ljósi heimsins, þegar hann er ekki orðinn fullra níu ára og finnur fyrst kraftbirtingarhljóm guð- dómsins. Það er sameiginlegt þessum frásögn- um öllum, skrifuðum á sextíu ára tímabili, að þau lýsa vitrun ungs drengs í heimahögunum; skyndilega birtist honum innsýn í æðri heim og um leið nýr lífsskilningur: héðan af kemst ekk- ert að nema ritlistin. Halldór Laxness var lengstaf ævinnar ekki trúrækinn maður, ef undan eru skilin bernskan, nokkur kaþólsk ár uppúr tvítugu og svo kannski síðustu árin. Í deilugreinum sínum var hann oft jarðbundinn og gat hæðst að loft- kenndum tilraunum til að fegra mannlífið. En í listskilningi hans er alla tíð þessi þáttur frá vitr- uninni í æsku: að listin veiti innsýn í æðri heim eða sé ófullkomin speglun hans, heims fegurðar og drauma. Að skrifa, yrkja eða segja sögur, verður alltaf öðrum þræði tilraun til að fanga þann heim, draga hann fram í basli mannlífsins. 16 ára gamall yrkir Halldór í Barni náttúrunn- ar, fyrstu prentuðu skáldsögu sinni: „Dáið er alt án drauma / og dapur heimurinn.“ Og tæpum sextíu árum síðan tilfærir hann þetta kvæðið í minningasögunni Í túninu heima, og bætir við: „Þannig mundi ég líka yrkja núna.“ Vitrunin í Laxnesi, steinninn, gljúfrið, þetta hefur skipt Halldór meira máli en hann segir beinlínis í minningasögunni. Sérhver maður býr til eitthvað sem kalla má söguna um sjálfan sig, hvernig varð ég til, af hverju er ég það sem ég er. Sagan um drenginn sem fær vitrun sem hann geymir með sér og þráir það sem eftir er ævinnar er slík smíði, í goðsögulegum anda. Hún fylgdi Halldóri alla tíð. Auður byggir Holtið þar sem húsið Gljúfrasteinn stendur nú tilheyrði landi Laxness þegar Halldór ólst þar upp, og hann fékk snemma augastað á því sem stað þar sem hann vildi reisa sér hús. Þannig skrifar hann móður sinni 24. janúar 1928 frá Los Angeles, eftir að hafa sagt henni að hann hyggist eyða tveimur árum í Ameríku til að afla sér fjár: „Ef það tekst kem ég til Íslands, og er ákveðinn í því að reisa bú í Laxnesi með tím- anum. Þú mátt ómögulega selja jörðina. Ef ég skyldi eignast penínga, þá byggi ég sennilega hús uppi við gljúfrin, – þar sem væntanlega kemur brú á ána, þegar vegurinn verður lagður til Þíngvalla.“ En móðir hans seldi samt jörðina þetta sama ár. Sautján ár liðu áður en Halldór gat látið drauminn rætast, sautján ár og næstum tutt- ugu bækur, tíu ára hjónaband með Ingibjörgu Einarsdóttur, ferðir um hálfan heiminn, barátta innan lands og utan. Halldór var helst aldrei um kyrrt meira en hálft ár í einu þar til heimsstyrj- öldin neyddi hann til þess. Samfara batnandi hag landsmanna, aukinni kaupgetu og vaxandi bóksölu vænkaðist fjár- hagur hans, ekki síst eftir að hann hafði sent frá sér sína vinsælustu bók fram að því, Íslands- klukkuna. Rétt áður en annað bindi hennar, Hið ljósa man, kom út, hinn 13. desember 1944, und- irritar Jónas Sveinsson á Bergstaðastræti 67, eigandi jarðarinnar Laxnes í Mosfellshreppi í Kjósarsýslu, afsal þess efnis að hann selji hér með og afsali til Halldórs Kiljans Laxness þrí- hyrnda spildu úr landi sínu við Köldukvísl. Kaupverðið er 1.000 krónur. Svo afsala Bjarni og Kjartan Magnússynir á Hraðastöðum sér rösklega 2.000 fermetra spildu til Halldórs. Hann lætur girða svæðið og nú er bara eftir að byggja. Kærasta hans, Auður Sveinsdóttir, fréttir af þessum áformum þar sem hún er að koma úr ferð út í Viðey með Steini Steinari en hún og systur hennar höfðu verið að leika sér að hugmyndum um að setja upp barnaheimili í „Í holtinu fyrir ofan Laxnes er steinn“ Í stofunni á Gljúfrasteini Stóri glugginn mót suðvestri varð strax blómagluggi en innréttingunum fyrir framan hann var breytt árið 1960, þegar langur sófi var settur þar og flygillinn færður í hornið. Sófinn hef- ur þrisvar verið yfirdekktur. Steinda glerverkið í endaglugganum er eftir þýskan listamann sem aðstoðaði Nínu Tryggvadóttur við gerð steindra glugga. Morgunblaðið/Einar Falur

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.