Lesbók Morgunblaðsins - 04.09.2004, Blaðsíða 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 4. september 2004
Í
Lesbók Morgunblaðsins þann 28.
ágúst síðastliðinn skrifar Sæbjörn
Valdimarsson stutta grein um skoð-
anir sínar á því hvaða starfsemi skuli
fara fram í gamla Austurbæjarbíói.
Sér hann fyrir sér að þarna sé kær-
komið tækifæri til þess „að gera raunhæfa
bragarbót, a.m.k. alvarlega tilraun“ til að
koma sýningarmálum listrænna og annarra
jaðarmynda í fast, markvisst form. Satt best
að segja brá mér við að lesa þessi orð en þau
eru skrifuð af einum helsta kvikmyndagagn-
rýnanda Morgunblaðsins til margra ára, en
maður sem gegnir þeirri stöðu ætti að vita að
frá því að Kvikmyndasafn
Íslands flutti starfsemi
sína til Hafnarfjarðar fyr-
ir sex árum hafa safn-
stjórar safnsins, og núna síðast forstöðumaður
þess, gert margar „alvarlegar tilraunir“ til
þess að „gera raunhæfa bragarbót“ á þessu
sviði. Í þau tæpu tvö ár sem ég gegndi starfi
safnstjóra safnsins var lagt mikið starf og fjár-
munir í að klára endurgerð á Bæjarbíói í Hafn-
arfirði sem miðaði að því að gera húsið hæft
undir rekstur á bíóteki eins og þau eru þekkt
víða um heim. Miðaðist þetta starf við fjóra
meginþætti sem allir voru alvarlegar tilraunir.
Í fyrsta lagi var unnið að endurgerð Bæj-
arbíós, sögufrægs hús í gömlu bæjarfélagi,
sem gegndi mikilvægu menningarlegu hlut-
verki í Hafnarfirði og nágrenni í áratugi. Þetta
bíóhús er að mörgu leyti hliðstætt fjölmörgum
kvikmyndahúsum víða um land sem voru
byggð í þeim tilgangi að vera miðstöðvar
menningarlífs í bænum. Í byggingarsögulegu
ljósi er endurgerð hússins merkilegt viðfangs-
efni á tímum lúxus- og fjölsala kvikmynda-
húsa, en á síðustu áratugum hefur gömlum
sérhönnuðum kvikmyndahúsum fækkað í
landinu. Fjölmörg sambærileg verkefni er að
finna erlendis í Evrópu og Bandaríkjunum, en
þar leitast menn við að vernda þessi hús og
hlúa þar með að þeirri sérstöku umgjörð sem
sköpuð var í kringum kvikmyndamenninguna.
Í annan stað var unnið markvisst starf í því
að búa húsið tækjum og tólum sem þarf til
þess að reka „alvöru“ bíótek. Frá því í árdaga
kvikmyndarinnar hafa myndir verið sýndar á
mismunandi filmustærðum. Flestar filmur
sem sýndar eru í dag í almennum kvikmynda-
húsum eru 35 millimetra en frá árinu 1895,
sem sagt er upphafsár kvikmyndarinnar í
sögubókum, hafa komið fram á sjónarsviðið
fjölmargar filmustærðir sem krefjast mismun-
andi sýningartækja. Hið sama gildir um
myndbandstæknina, en hún hefur komið fram
í ýmsum myndum. Markmið bíóteka er að geta
sýnt flestar stærðir filma og gerðir mynda-
banda og krefst því tiltekins tækjabúnaðar.
Einnig er skurður myndanna sem varpað er
uppá sýningartjaldið mismunandi og krefst
það sérbúnaðar. Til þess að mæta þessum
tæknilegum kröfum var sýningarklefi Bæjar-
bíós útbúinn með tækjum sem gátu sýnt
helstu stærðir og gerðir. Og einnig var sér-
pantað í bíóið sýningartjald sem gat lagað sig
að myndskurðinum. Hljóðkerfið í húsinu var
einnig endurbætt og var áskorunin ekki síst á
því sviði, þar sem þróun hljóðs og hljóðvörp-
unar í kvikmyndahúsum hefur tekið einna
mestum framförum við gerð kvikmynda.
Í þriðja lagi var unnið að eflingu sambanda
við erlend kvikmyndasöfn með það að mark-
miði að fá til landsins nýjar og gamlar kvik-
myndir. Slík sambönd eru grundvallaratriði
fyrir rekstur bíóteka og ekki síst þar sem
mörg kvikmyndasöfn erlendis lána ekki kvik-
myndir til sýningarhalds nema til fagaðila í
kvikmyndavarðveislu sem vitað er að kunna að
fara með filmuefni. Sérstakt átak var gert í því
að safna til varðveislu öllum kvikmyndafilmum
sem kvikmyndahúsin í landinu voru með í
geymslum sínum. Send voru til Kvikmynda-
safnsins hundruð kvikmynda sem urðu um leið
úrval mynda sem hægt var að sýna í bíóinu.
Þetta átak var í takt við samskonar aðgerðir
erlendis, en þar hafa mörg kvikmyndasöfn átt
í góðri samvinnu við kvikmyndahúsaeigendur
og dreifingarfyrirtæki. Einnig var safnað
prentefni sem tengist þessum kvikmyndum,
eins og plakötum og ljósmyndum. Við undir-
búning á rekstri Bæjarbíós var einnig mikil-
vægt fyrir kvikmyndasafnið að huga að eigin
kvikmyndaarfi. Ljóst var að gera þurfti stór-
átak í því að afla þekkingar á því hvað væri til í
fórum safnsins bæði með tilliti til myndefnis,
skráningar á því og forvörslu, en tryggja
þurfti að myndir væru í sýningarhæfu ástandi.
Einnig var unnið að gerð varðveislusamninga,
sem kváðu á um varðveislu og notkun á kvik-
myndaefni í vörslu safnsins, en flest af því efni
sem er til varðveislu í safninu er í virkum höf-
undarétti. Miðaðist sú samningagerð við að
safninu væri heimilt að sýna kvikmyndaefni í
fórum safnsins í Bæjarbíói án endurgjalds.
Að lokum er svo vert að minnast á eitthvað
af þeim útgáfu-, mennta- og sköpunarstefnum
safnsins sem voru liður í því að vekja áhuga og
auka skilning á hversu breitt og áhugavert
svið kvikmyndin hefur alið af sér. En slíkt er
grundvöllur að rekstri öflugs bíóteks eins og
fyrirmyndir erlendis hafa sýnt fram á. Sótt var
um stóran styrk í Evrópskan þýðingarsjóð, í
samvinnu við Bókmenntafræðistofnun, til þess
að þýða þrjár bækur sem fjölluðu um kvik-
myndir. Þær bækur litu dagsins ljós í nóvem-
ber á síðasta ári; Saga kvikmyndalistarinnar
eftir David Parkinson, Stríð og kvikmyndir
eftir Paul Virilio og Ímyndaða táknmyndin eft-
ir Christian Metz. Safnið fékk síðan styrk úr
Vísindasjóði Rannsóknarráðs Íslands til þess,
í samstarfi við Þjóðminjasafnið, að gera rann-
sókn á starfi ljósmyndarans- og kvikmynda-
gerðarmannsins Lofts Guðmundssonar. Ár-
angurinn af því starfi skilaði sér í ljósmynda-
sýningu, kvikmyndasýningum í Bæjarbíói og
bók með ritgerðum um Loft. Einnig var unnið
að gerð námskrár fyrir safnastarfið sem fram
átti að fara í húsakynnum bíósins. Þar var
markvisst unnið að því að koma til móts við
námskrárútgáfur menntamálaráðuneytisins
fyrir öll skólastig og var námskrá safnsins birt
á heimasíðu þess. Sem fyrstu liður í námskrár-
starfi safnsins var stofnað til samstarfsverk-
efnis Kvikmyndasafnsins og Hafnarfjarðar-
leikhússins sem fékk heitið „Skemmtun fyrir
fólkið“. Ætlunin var að bjóða elstu nemendum
leikskóla í Bæjarbíó og láta leikara taka á móti
þeim. Fyrirmyndin að þessari uppákomu var
fengin frá Þorláki Ó. Johnson, sem var kaup-
maður í Reykjavík en hann bryddaði uppá
skemmtunum af þessu tagi í Reykjavík um
1890. Þessar skemmtanir voru gríðarlega vin-
sælar og sýndi hann bæði skyggnur og hreyfi-
myndir, sem voru undanfari kvikmyndarinnar
einsog við þekkjum hana í dag. Markmiðið
með þessum heimsóknum var að vekja unga
áhorfendur til umhugsunar um kvikmyndina
sem listform og vekja athygli þeirra á aðskilj-
anlegum þáttum kvikmyndar. Einnig lagði
Kvikmyndasafnið sig fram um að virkja sköp-
unargleði ungra tónlistarmanna með því að fá
þá til að frumsemja tónlist við þöglar kvik-
myndir og flytja hana í Bæjarbíói Verkefnið
nefndist Ný tónlist – gamlar myndir og snerist
um að endurvekja þetta gamla listform og um
leið að veita ungu tónlistarfólki tækifæri til
sköpunar. Hugmyndin var sú að tvinna saman
annars vegar vaxandi áhuga fólks á gömlum
kvikmyndum og hins vegar þá grósku sem rík-
ir í íslensku tónlistarlífi og virkja tónlistarfólk
með því að bjóða því að semja tónlist við þögla
kvikmynd. Gerðu áhorfendur og gagnrýn-
endur góðan róm að þessu framtaki.
Á síðum Morgunblaðsins hafa í gegnum árin
birst margar góðar óskir um rekstur á bíóteki
eins og því sem Sæbjörn Valdimarsson vill að
líti dagsins ljós í gamla Austurbæjarbíói. Skrif
Sæbjörns gefa tilefni til þess að fara fram á að
kvikmyndaáhugamenn vakni til vitundar um
það starf sem hefur verið unnið á Kvikmynda-
safni Íslands og taki það með í reikninginn í
umræðunni um bíótek. Verkið er hafið fyrir
mörgum árum en því er síður en svo lokið.
Starfsemin hefur alltaf miðað að því að gera
Bæjarbíó í Hafnarfirði að þeirri leiftrandi
menningarstofnun sem Sæbjörn sér fyrir sér
að starfi í Austurbæjarbíói. Af þeirri upptaln-
ingu verkefna sem hér hafa verið reifuð mætti
það vera ljóst.
Bíótek og Austurbæjarbíó
Höfundur er fyrrverandi safnstjóri
Kvikmyndasafns Íslands.
Eftir Sigurjón Baldur
Hafsteinsson
ziggy@temple.edu
Morgunblaðið/Golli
Bæjarbíó „Mikið starf og fjármunir hafa verið lagðir í að klára endurgerð á Bæjarbíói í Hafnarfirði
sem miðaði að því að gera húsið hæft undir rekstur á bíóteki eins og þau eru víða um heim.“
B
andaríski heimspekiprófessorinn Daniel C.
Dennett lýsti því yfir í grein í The New York
Times í fyrra, að tími væri kominn til að „snjöll-
in“ kæmu út úr skápnum. „Snjöll“ er íslensk
þýðing á enska orðinu „Brights“, sem Dennett
notar, og er því hvorugkynsnafnorð í fleirtölu – í
nefnifalli eintölu er það „snjall“, og beygist að sjálfsögðu eins og
„fjall“.
En hvað er „snjall“? Dennett segir: „Snjall er einstaklingur
sem er náttúruhyggjusinni og trúir ekki á yfirnáttúruleg fyrir-
bæri. Við snjöllin trúum ekki á drauga, álfa eða páskahérann –
og ekki heldur á Guð.“ Dennett tekur lesendum sínum vara við
að líta á „snjall“ sem lýsingarorð. „„Ég er snjall“ er ekki mont,
heldur yfirlýsing um að lífsviðhorf manns einkennist af þekking-
arþorsta,“ segir hann.
Dennett fullyrðir að snjöllin þurfi að
taka höndum saman því að þau eigi undir
högg að sækja í Bandaríkjunum, þar sem
þeir er ekki trúi á Guð eigi á hættu að vera gerðir hornreka í
samfélagi sem einkennist af miklum trúarhita. Óneitanlega
hvarflar það svo að manni, að ekki sé útlit fyrir að samtök sem
beinlínis hafa það í stofnskrá sinni að félagsmenn trúi ekki á álfa
gætu átt upp á pallborðið á Íslandi, því telja má víst, að huldu-
fólk falli í þann fyrirbæraflokk sem snjöllin afneita. Og sam-
kvæmt þessu myndi meirihluti Íslendinga ekki geta talist til
snjalla.
Dennett er einn af þekktari heimspekingum samtímans, og
bækur hans, sem eru ófáar, seljast vel og verða umdeildar. Af-
staða hans er skýr. Í grein um hann í The Guardian í apríl síð-
astliðnum var vitnað í næstu bók sem væntanleg er frá honum.
Þar segir meðal annars:
„Ég efast ekki um það eitt andartak, að hin veraldlega og vís-
indalega heimsmynd er rétt, og að hana ættu allir að hafa. Und-
anfarin árþúsund hefur orðið ljóst, að hjátrú og trúarsetningar
verða einfaldlega að víkja.“ Viðbúið er að póstmódernistum
detti í hug að Dennett sé í rauninni sjálfur heittrú-
aður – það er að segja að hann sé vísindatrúar.
Að minnsta kosti virðist ekki fara mikið fyrir
efasemdum hjá honum um það mikilvæga hlutverk
er hann telur snjöllin gegna í bandarísku þjóðlífi. Í
greininni í NYT segir hann: „Við [snjöllin] erum í
rauninni siðferðisleg undirstaða þjóðlífsins: Snjöll
taka borgaralegar skyldur sínar alvarlega, einmitt
vegna þess að þau treysta Guði ekki til að bjarga
mannkyninu frá villuráfi.“
Það þarf ekki að koma neinum á óvart að kald-
hæðnislegum viðbrögðum við skrifum Dennetts
rigndi yfir snjöllin. Dinesh D’Souza, rithöfundur
og sérfræðingur við Hoover-stofnunina, skrifaði í
The Wall Street Journal að ekki færi milli mála
hvað fælist í orðum Dennetts: „Snjöll eru gáfaða
fólkið sem lætur ekki blekkjast af heimskulegri
hjátrú.“
Dennett, líkt og margir trúleysingjar, skrifar D’Souza, telur
að trúleysingjar séu einfaldlega snjallari – skynsamari – en trú-
aðir. Þeir hugsi sem svo: „Við trúleysingjarnir beitum gagn-
rýnni hugsun, en þeir trúuðu trúa í blindni.“ En ef nánar sé að
gáð komi í ljós að Dennett og hin snjöllin vaði í rökvillu, sem ef
til vill megi kenna við Upplýsinguna.
Þessi Upplýsingarrökvilla sé fólgin í þeirri sannfæringu, að
mannkynið geti uppgötvað sífellt meira um heiminn uns þar
komi, að ekki sé meira að uppgötva. Með skynsemina og vís-
indin að vopni geti mennirnir afhjúpað raunveruleikan allan eins
og hann leggur sig. D’Souza vísar í engan annan en Immanúel
Kant, sem hann segir hafa sýnt fram á að þessi sannfæring
Upplýsingarinnar gangi ekki upp.
Það má ef til vill hrista þessar athugasemdir D’Souzas af sér
með því að segja að hann sé alræmt íhald og WSJ helsta hægri-
mannamálgagnið í Bandaríkjunum. En það verður ekki sagt um
bandaríska „ríkisútvarpið“, National Public Radio, að það sé
íhaldsmálpípa og því ekki hægt að gera þannig lítið úr orðum
Stevens Waldmans í NPR, sem var engu hrifnari af „Snjalla-
hreyfingunni“ en D’Souza.
„Ekki veit ég hvað ímyndarsmiðirnir ætluðu sér, en orðið
„snjall“ bendir til að þetta fólk telji sig gáfaðra en aðra. Ég geri
ráð fyrir að við hin séum þá einhverskonar
„ósnjöll“,“ segir Waldman. Þetta orðaval sé svo
óheppilegt að þeir sem fundu upp á þessu (einhver
tvö „snjöll“ í Kaliforníu, að því er Dennett upp-
lýsir) hefðu eins getað valið orðið „oflátungar“ eða
„monthanar“.
Margir sem hafa tjáð sig á prenti um þetta nýja
fyrirbæri – snjöllin – virðast í rauninni ekki hafa
neitt á móti þessu nema orðið „snjall“. Það sem
orðið vísar til – einstaklings sem ekki trúir á guð
og telur að finna megi náttúrulegar útskýringar á
hverjueina – er enda vel þekkt fyrirbæri, og jafn-
vel enn frekar hér í Skandinavíu en í Bandaríkj-
unum. (Þó að þetta með álfana og huldufólkið veki
stórar spurningar um möguleika snjalla í íslensku
samfélagi).
Að skilgreina sjálfan sig sem „snjall“ felur óhjá-
kvæmilega í sér að maður aðgreinir sig með því frá
öðrum og þannig er í rauninni ekki hægt að nota orðið „snjall“
nema vekja um leið óminn af einhverskonar andheiti þess – ósn-
jall, heimskur, vitgrannur, eða eitthvað þvíumlíkt. Linda See-
bach, dálkahöfundur á blaðinu Rocky Mountain News, bendir á
að þessari aðferð hafi áður verið beitt með góðum árangri: „Þeg-
ar við tölum um Upplýsinguna erum við í rauninni að samsinna
þeim dómi mannanna sem fundu upp það nafn, að þeir sem ekki
gengu Upplýsingunni á hönd hafi setið áfram í myrkri.“
Af áðurnefndri grein í Guardian að dæma er reyndar ólíklegt
að sjálfsupphafningin sem manni finnst óþægilega nálæg í orð-
inu „snjall“ valdi Dennett miklu hugarangri. Hann virðist ekki
sérlega plagaður af efasemdum um eigið ágæti og réttmæti
skoðana sinna. Það virðist sem hann hafi helst skapað sér nafn
innan heimspekinnar með því að útskýra hvernig mörg helstu
ljós hugmyndasögunnar, til dæmis Descartes og Quine, höfðu
kolrangt fyrir sér. Svoleiðis gerir maður ekki nema sjálfs-
öryggið sé í góðu lagi og maður telji sjálfan sig bara harla snjall-
an.
Heimasíða snjallahreyfingarinnar er the-brights.com, og það-
an eru tenglar í margar áttir, meðal annars í það sem virðast
vera kóresk og ítölsk systursamtök. Hvar eru nú íslensku snjöll-
in?
Snjöllin trúa ekki á huldufólk
Nýleg hreyfing náttúruhyggjusinna í Bandaríkjunum geldur
fyrir yfirlætislegt nafn. Og hún ætti líklega erfitt uppdráttar
á Íslandi, en þó af annarri ástæðu.
Eftir Kristján G.
Arngrímsson
kga@mbl.is
Daniel C. Dennett