Lesbók Morgunblaðsins - 04.09.2004, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 04.09.2004, Blaðsíða 7
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 4. september 2004 | 7 Sirkus eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur Sirkus (Bjartur) eftir Guðrúnu Evu Mín- ervudóttur lýsir litríku lífi listamanna í kynlegum ís- lenskum sirkus sem gera allar mögulegar og ómögulegar kúnstir með líkamanum. Skemmtilega ögrandi saga sem afsann- ar í eitt skipti fyrir öll þá bábilju að limirnir dansi eftir höfðinu. Múrinn í Kína eftir Huldar Breiðfjörð Ungur Reykvíkingur fær þá flugu í höfuðið í upp- hafi tuttugustu og fyrstu aldarinnar að ganga eftir endilöngum Kínamúrnum og skrifa bók um þá reynslu. Hann sannfærir útgefandann sinn um ágæti hugmyndarinnar, sækir einkatíma í kín- versku, kaupir sér viðlegubúnað, kveður kær- ustuna og leggur síðan af stað. En það eru ekki liðnir margir dagar í nýju landi, í því ein- kennilega umhverfi sem kennt er við stærsta mannvirki veraldar, þegar það fara að renna á hann tvær grímur. Framundan er tæplega 3.000 kílómetra krefjandi ferðalag! Huldar Breiðfjörð sló rækilega í gegn árið 1998 með frumraun sinni á bókmenntasviðinu, ferða- sögunni Góðir Íslendingar. Hann fylgir nú þeirri bráðskemmtilegu bók eftir með Múrn- um í Kína (Bjartur), frásögn af glímu óreynds ferðalangs við framandi tungumál, endalausar eyðimerkur, torkennileg skordýr, lamandi vatnsskort og sína íslensku fordóma. Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson Börnin í Húmdölum (Bjartur) er sögð stefnu- mót Einars Áskels við Al- ien. Hún er frumraun höf- undar og ekki sögð við hæfi viðkvæmra lesenda. Sumarið er komið að fót- um fram og börnin í Húm- dölum – risavaxinni, skeifulaga íbúðarblokk í útjaðri borgarinnar – eiga sameiginlegt að hafa erfiðar draumfarir. Sum þeirra eru sann- færð um að inni í skúmaskotum í herbergj- unum þeirra hafi illar verur hreiðrað um sig, önnur heyra torkennileg soghljóð úr fata- skápunum um það bil sem þau eiga að fara sofa. Fullorðna fólkið lætur hins vegar eins og ekkert sé enda er það of djúpt sokkið sjálft í eigin vandamál og ólifnað. Börnin eiga ekki annars úrkosti en að snúa bökum saman og horfast í augu við ógnina. Hér er á ferðinni fantasía sem afhjúpar í senn ýmsar myrkustu hliðar íslensks samtíma og það einkennilega aðdráttarafl sem hryll- ingurinn hefur fyrir mannssálina. Hér eftir Kristínu Ómarsdóttur Kristín Ómarsdóttir send- ir frá sér nýja skáldsögu eftir þriggja ára hlé. Sag- an ber heitið Hér (Salka) og fjallar um stúlkuna Bil- lie sem allt í einu er mið- depill á hernumdu svæði. Kristín hrífur lesandann með sér inn í atburðarás sem endurspeglar varn- arleysi þolanda gagnvart miskunnarleysi stríðsherranna. Ljóðrænn og leikandi texti kemur sífellt á óvart og undir- strikar fáránleikann sem einkennir átök af þessu tagi. Laufskálafuglinn eftir Margréti Lóu Jónsdóttur Margrét Lóa Jónsdóttir hefur gefið út nokkrar ljóðabækur en kemur nú með sína fyrstu skáldsögu sem nefnist Lauf- skálafuglinn (Salka). Höf- undur leikur sér með ým- is form og vísanir, en aðalpersónan, Ína Karen, stendur á krossgötum og kannar nýja stigu í fleiri en einum skilningi. Hún yfirgefur mann sinn og barn og á ferðalagi um Spán skrásetur hún hugleiðingar og atburði og reynir að nálgast sjálfa sig og ástvini upp á nýtt. Málsvörn og minningar eftir Matthías Johannessen Í Málsvörn og minningum (Vaka-Helgafell) eftir Matthías Johannessen birtist persónuleg frásögn Matthíasar þar sem hann fléttar saman á sinn ein- staka hátt minningar og skáldskap. Víst er að þessi bók mun vekja mikla at- hygli því Matthías er óspar á skoðanir sínar á mönnum og mál- efnum. Eftirmál eftir Njörð P. Njarðvík og Frey Njarðarson Eftirmál (JPV-útgáfa) nefnist ný skáldsaga eftir Njörð P. Njarðvík og Frey Njarðarson sem gerist í heróínhelvíti Amst- erdamborgar. Margir muna ef til vill eftir bók sem þeir feðgar skrifuðu saman á níunda áratugn- um og nefnist Ekkert mál. Vélar tímans eftir Pétur Gunnarsson Í Vélum tímans (Mál og menning) heldur Pétur Gunnarsson áfram sköp- unarsögu heimsins og Ís- lands sem hófst með Myndinni af heiminum, og er þetta þriðja bindið í bálki sem hann kallar Skáldsögu Íslands. Barn að eilífu eftir Sigmund Erni Rúnarsson Sigmundur Ernir Rún- arsson er löngu lands- kunnur fjölmiðlamaður og ljóðskáld. Barn að eilífu (JPV-útgáfa) er fyrsta saga hans en hún segir af óvenjulegu lífshlaupi föður og dóttur. Svartur á leik eftir Stefán Mána Sögusvið nýjustu skáld- sögu Stefáns Mána, Svart- ur á leik (Mál og menn- ing), er Reykjavík í dag. Stefán er ungur maður ut- an af landi sem vinnur á bar og virðist hráblautur á bak við eyrun. En dul- arfull goðsögn um kíló af kókaíni og magnaðir kar- akterar hrífa hann með sér inn í ótrúlega og æsispennandi atburðarás sem styðst að hluta við íslenska sakamálasögu síðustu ára. Og allt í einu verður Stefán Stebbi Psycho, sem var aldrei eins bláeygur og hann sýndist. Bókin er kynnt sem fyrsti íslenski bókmenntaþrillerinn. Sólskinsfólkið eftir Steinar Braga Sérkennilegur háskóla- kennari leigir sér íbúð í fjölbýlishúsi í Reykjavík eftir áralanga dvöl erlend- is. Hann kemst að því að sá sem bjó í íbúðinni á undan honum hafi komist upp á kant við aðra íbúa hússins og fær brátt á til- finninguna að þeir hafi gert samsæri gegn sér. Eftir því sem dagarnir líða tengist líf hans ævintýrum ungrar lista- konu sem starfar í búningaleigu við Hverf- isgötu og er líka að festast í svikaþráðum sam- tímans. Bæði leita þau sér að undankomuleið, sem reyndar virðist leiða þau í enn meiri ógöngur. Steinar Bragi sendir frá skáldsöguna Sólskinsfólkið (Bjartur) vakti athygli fyrir skáldsögu sína, Áhyggjudúkkur, fyrir tveimur árum. Rauð mold eftir Úlfar Þormóðsson Rauð mold (Almenna bókafélagið) er söguleg skáldsaga, sjálfstætt framhald af Hrapandi jörð sem kom út í fyrra og fjallaði um Tyrkja- ránið og ferð hinna herleiddu Íslendinga suð- ur. Lífsbarátta Íslendinganna í þessum nýja veruleika er megininntakið í Rauðri mold; per- sónurnar heyja harða bar- áttu við andsnúin yfirvöld, veita lífi sínu í nýjan og ókunnan farveg og kljást við ágenga heimþrá. Og á sama tíma tekur valdamik- ill Íslendingur þátt í heift- ugum átökum í æðstu stjórn landsins. Samhliða meginfrásögn bókarinnar eru raktar ævintýralegar örlagasögur sem fléttast listilega inn í söguna sem er í senn spennandi, fróðleg og sveipuð suðrænni dulúð. Úlfar Þormóðsson hefur um langt árabil rann- sakað Tyrkjaránið og afdrif Íslendingana sem rænt var og margsinnis dvalist í Norður- Afríku við rannsóknir. Fífl dagsins eftir Þorstein Guðmundsson Á tímum þegar fólk getur ekki rabbað saman nema fyrir milligöngu fjölmiðla og þegar maður þekkir út og inn fólk sem aldrei kem- ur til með að yrða á mann – þá verða til sögur eins og Fífl dagsins (Mál og menn- ing). Þetta er saga um fá- ránleika aðstæðna okkar, leit okkar að einhverskon- ar sjálfi og fólkið sem við lifum í gegnum. Þeg- ar Siggi Tex, frægasti Íslendingur samtímans, flytur inn í stigaganginn hjá sögumanni með undurfagurri konu sinni tekur líf hans ham- skiptum. Bókin er sögð skemmti-harmsaga, saga sem kallast jafnt á við Kafka sem Leið- arljós, Séð og heyrt sem Being John Malko- vich. Baróninn eftir Þórarin Eldjárn Baróninn (Vaka-Helgafell) er heimildaskáldsaga eftir Þórarin Eldjárn sem bygg- ist á ótrúlegu lífshlaupi Hvítárvallabarónsins svo- kallaða, Baron Charles Gauldrée Boilleau. Þór- arinn dregur upp einstaka mynd af aldarbragnum um 1900 þegar trúin á framfar- ir var á hátindi sínum en lífsleiði og hnign- unarstefna einkenndi á sama tíma andlegt líf Vesturlanda. Það hefur ekki verið á vitorði margra hingað til að baróninn og fjölskylda hans var nákomin öllum þessum miklu hrær- ingum, jafnt austan hafs sem vestan, en hér nýtir Þórarinn í fyrsta sinn fjölmargar heim- ildir sem ekki hafa áður birst. Fyrir vikið verð- ur til fyllri og margslungnari mynd þessum margbrotna manni og hörmulegum endalok- um hans en áður hefur verið dregin upp. Hefndin eftir Þráin Bertelsson Hefndin nefnist ný skáld- saga eftir Þráin Bertels- son en hann vakti athygli í fyrra með sjálfsævisög- unni Einhvers konar ég. Þráinn á einnig að baki nokkrar kvikmyndir og hefur verið ötull höfundur fjölmiðlapistla í gegnum tíðina. Blóðberg eftir Ævar Örn Jósepsson Ný spennusaga, Blóðberg (Mál og menning), eftir Ævar Örn Jósepsson seg- ir frá atburðum við Kára- hnjúka. Að morgni 28. febrúar 2004 hímir portú- galskur verkamaður við Kárahnjúka undir hamri í gljúfurbotni, blautur og kaldur í óblíðu vetrar- veðrinu, og bíður eftir grjótflutningabíl. Sex manns til viðbótar koma aðvífandi áður en trukkurinn kemur, stíga út í bylinn og ganga í áttina til hans. Augnabliki síðar er eins og heimurinn hrynji yfir þá þegar bjargsylla ofar í hlíðinni hrapar niður í gljúfr- ið. Mannskæðasta vinnuslys Íslandssögunnar er staðreynd. Eða hvað? Ýmislegt kemur í ljós sem bendir til að þetta hafi ekki verið slys heldur kaldrifjað morð og jafnvel fyrsta, mannskæða hryðjuverk Íslandssögunnar. Tungumálaörðugleikar, fjandsamlegt viðmót og umfram allt hrikaleg náttúra og válynd veð- ur gera lögregluliðinu úr borginni erfitt fyrir þegar það mætir á staðinn. Einn fárra sem tekur þeim opnum örmum er portúgalskur verkamaður sem brosir breitt og býður þau velkomin með orðunum: „Welcome to Alcatraz…“ Úr Sam- kvæmis- leikjum Aðfaranótt sunnudagsins Um leið og Friðbert sagði bless við síðustu afmælisgestina tók hann eftir að við blómsturpottinn fyrir framan dyrnar var skópar sem hann kannaðist ekki við að hafa séð áður. Þetta voru lágir, svartir rú- skinnsskór, með ljósum reimum, og þótt stærðin benti fremur til þess að þeir væru af karlmanni var eitthvað kvenlegt við þá. Það hvarflaði að Friðberti að kalla á eftir þeim Dónaldi og Rúnu niður stigaganginn og spyrja hvort þau vissu hver ætti skóna en hann lét það vera; hugsanlega yrði það til þess að þau kæmu aftur upp tröppurnar og Dónald myndi þá nota tækifærið til að dvelja örlítið lengur. Það er sem sagt einhver inni í íbúðinni ennþá, hugsaði Friðbert og brosti með sjálfum sér. Það er kannski kvenmaður hérna inni hjá mér án þess að ég hafi hug- mynd um það. Í smástund virti hann fyrir sér skóna. Þeir sneru í átt að veggnum og annar þeirra snerti blómsturpottinn með tánni, þennan koparpott sem Friðberti fannst alltaf gefa til kynna miðausturlönd, að Elísabet, vinkona hans og eigandi íbúðar- innar, hefði til dæmis keypt hann í Líban- on, en þangað hafði hún ferðast með Sig- mari um það bil ári áður en þau skildu. Það gat líka hugsast að hún hefði fundið hann á fornsölu í Evrópu, hefði ratað inn í einhverja antíkbúðina og ekki kunnað við að ganga þaðan út án þess að kaupa eitt- hvað af gömlu konunni sem sat hokin í einu horninu, hálffalin bakvið dimm hús- gögn og lampa, og hafði ekki selt nokkurn skapaðan hlut í nokkur ár. En það var ekki af miskunnseminni einni við gamlar konur, eða aðra seljendur antíkmuna, að Elísabet átti til að kaupa þá handa sjálfri sér og öðrum. Jafn ung og frískleg sem hún var sjálf hafði hún alltaf haft sérstakt dálæti á notuðum hlutum – helst mjög gömlum og drungalegum (nokkuð sem Friðbert lét sér detta í hug á þessari stundu að hefði haft eitthvað með mótsagnakennt samband hennar og Sig- mars að gera). Hún hafði til dæmis gefið Friðberti gamlan kertastjaka í afmælis- gjöf. Hann vissi reyndar ekki hvort hún hafði keypt hann hér heima eða komið með hann frá Frakklandi þar sem hún vann, en hann ímyndaði sér að í honum hefðu brunnið óteljandi kerti, jafnvel á tímum þegar ekki var um aðra birtu að ræða en kerta- eða lýsisljós. Hann sneri sér við í dyragættinni og þegar hann horfði inn í forstofuna virti hann fyrir sér stjakann frá Elísabetu þar sem hann stóð á símaborðinu milli svefnherbergis- og stofudyranna. Hann spurði sjálfan sig hvort ekki hefði verið við hæfi að láta kerti fylgja honum. Elísabet hafði gefið honum viskíflösku með – sem var auðvitað dýrari hlutur en vaxkerti – en samt fannst honum eins og það hefði mátt fylgja með kerti til að prófa stjakann. Í framhaldi varð honum hugsað til rafmagnsleikfanga sem hann hafði fengið í afmælis- og jóla- gjafir sem barn. Stundum höfðu fylgt þeim rafhlöður en í minningunni kom oftar fyr- ir að það var ekki hægt að nota leikföngin fyrr en í fyrsta lagi daginn eftir – sem var auðvitað langur tími fyrir litla manneskju. „Við sjáumst!“ hrópaði Dónald neðan úr ganginum, óþarflega hátt í ljósi þess að það var mið nótt eða morgunn, og á næsta augnabliki lokuðust útidyrnar niðri, vænt- anlega í síðasta sinn áður en þær yrðu opn- aðar fyrir nýjum degi sem var sunnudag- ur. En Friðbert var kominn inn til sín og heyrði ekki kveðju vinar síns. Þegar hann hafði lokað dyrunum út á gang hallaði hann sér með bakið að hurðinni, eins og til að undirstrika með sjálfum sér að hann væri loksins orðinn einn. Svo horfði hann inn eftir forstofunni. Við eldhúsdyrnar stóðu tvær tómar rauðvínsflöskur, inni í opnum fataskápnum við enda gangsins sá hann kventösku sem hann kannaðist ekki við – enn einn ókunnugur hlutur, hugsaði hann – og uppi í loftinu við lokaðar svefn- herbergisdyrnar flaut eldrauð afmælis- blaðra, ábyggilega sú síðasta; hann hafði staðið í þeirri trú að það væri búið að sprengja allar þrjátíu blöðrurnar. Eftir Braga Ólafsson

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.