Lesbók Morgunblaðsins - 30.10.2004, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 30.10.2004, Blaðsíða 6
6 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 30. október 2004 É g kann ekki að meta þetta veggspjald frekar en flestar þær kynningarmyndir og aug- lýsingar sem gerðar voru fyrir myndina í Bandaríkjunum. Það er verið að reyna að gera eitthvað úr myndinni sem ekki á sér stoð í raunveruleikanum. Gera því skóna að hér sé á ferð einhver krúttleg Disneymynd fyrir börn. Ég sá aldrei fyrir mér að myndin væri fyrir börn. Þurfa myndir með dýrum í aðalhlutverki endilega alltaf að vera ætlaðar börnum?“ Þessi hvíthærði, kurteisi og hvatvísi Frakki er staddur í kjallaraherbergi á 101 hóteli í Reykjavík, hallar sér upp að ballskákborði og virðir fyrir sér kynningarveggspjald fyrir nýj- ustu mynd sína Two Brothers – eða Bræður tveir – sem kynning- arstjóri myndarinnar hér á landi hefur hengt upp í tilefni af viðtali blaðamanns við þennan kunna kvikmyndaleikstjóra. Þetta var fyrir nokkrum vikum þegar Annaud var staddur hér á landi í einkaerindum, aðallega til að njóta lands og náttúru með eiginkonu sinni, en þó einnig, svona í aðra röndina, til að skoða mögu- lega tökustaði „fyrir einhver óráðin framtíð- arverkefni“. „Ég er alltaf með augun opin. Það er kækur okkar kvikmyndagerðarmannanna.“ Hann not- aði einnig ferðina til að kynna fyrir blaðamönn- um þessa umræddu nýjustu mynd sína, „mynd- ina sem ég er stoltastur af“ eins og hann kemst sjálfur að orði. Sér á báti Hann er maður með ákveðnar skoðanir og það orð fer af honum að hann sé einn allra óútreikn- anlegasti kvikmyndagerðarmaður samtímans, í það minnsta úr röðum þeirra sem fá almenna heimsdreifingu á myndum sínum. Kannski ein- mitt þess vegna eru myndir hans svona vinsæl- ar, út af því að þær eru algjörlega sér á báti, ólíkar öllum öðrum myndum sem rata í almenn kvikmyndahús. Enginn annar hefur komist upp með að gera vinsælar myndir sem svo gott sem eru án tals – Leitin að eldinum (Quest For Fire) – gerast í munkaklaustri – Nafn rósarinn- ar (The Name of The Rose) – eða skarta dýrum í titilhlutverkum – Björninn (The Bear) og Bræður tveir (Two Tigers). En þrátt fyrir að vera sífellt að ögra viðteknum gildum og spám markaðssénía um hvernig myndir fólk vilji sjá í bíó virðist hann einhvern veginn alltaf – eða oft- ast nær – afreka að fanga áhuga fólks, jafnvel hinna ólíklegustu hópa, með, að því er virðist á pappírunum, æði langsóttri hugmynd. Grunn- hugmyndirnar á bak við Leitina að eldinum og Björninn geta varla hafa þótt girnilegar eða gróðavænlegar; raunsæ mynd um samskipti og lífsbaráttu fornaldarmanna sem ekki tala stakt orð í „mannamáli“ og raunsæ mynd um sam- skipti og lífsbaráttu skógarbjarna sem ekki tala stakt orð í „mannamáli“. En samt, samt slógu myndirnar báðar í gegn og skiluðu Annaud nægilegum tekjum og trausti til að geta haldið áfram að gera djarfar og metnaðarfullar mynd- ir á skjön við meginstraum kvikmyndanna. Hann segist vanur því að vera misskilinn, einkum af dreifingaraðilum og framleiðendum. „Þeir hafa gjarnan ekki hugmynd um hvernig ber að markaðssetja myndir mínar, í hvaða dilk skal draga þær. Er þetta heimildarmynd? Náttúrumynd? Ævintýri? Búningadrama? Barnamynd? Fjölskyldumynd? Fullorð- insmynd? Fræðslumynd? Klóra sér í hausnum og búa síðan til kynningarplott sem er mér sjaldnast að skapi. Þeir eru t.d. búnir að vera með þessa nýjustu sem einhvers konar alvöru Konung ljónanna, Disney-teiknimynd með lif- andi dýrum og mönnum. Það hvarflaði aldrei að mér að ég væri að gera einhverja Disney- mynd. Fjarri því.“ En markaðsmönnunum er svolítil vorkunn. Að segja myndir einstakar og ólíkar öllum öðr- um dugir bara ekki alveg alltaf. Það er eins og markaðurinn, almennir bíógestir, þurfi að fá einhverja tryggingu, treysti sér ekki lengur til að láta koma sér á óvart. Við hverju má ég bú- ast? Get ekki farið í bíó til að sjá bara eitthvað. Verð að geta gengið að einhverju vísu. „Það má ganga að því vísu með mínar mynd- ir að þar séu sagðar sögur af einlægni og fullri virðingu fyrir þeim sem um er fjallað. Það má ganga að því vísu að ekki sé hægt að ganga að neinu vísu,“ segir brögðóttur Annaud og glott- ir. Ástríðan leynir sér ekki, ástríðan í garð kvik- myndanna og þess er hann fæst við hverju sinni. Hér er sannarlega maður sem ber virð- ingu fyrir fagi sínu og sköpunarverkum. Tekur við þau ástfóstri, nærir þau og ræktar eins vel og honum er unnt. Honum liggur mikið á hjarta, baðar út höndum, eins og sannur Frans- maður, notar allan líkamann til tjáskipta, líkt og helstu stjörnur mynda hans, dýrin. Margverðlaunaður Jean-Jacques Annaud fæddist 1. október 1943 í Essonne í Frakklandi. Hann lærði bókmenntir við Sorbonne-háskóla áður en hann lærði kvik- myndagerð. Hann hóf kvikmyndaferil sinn með glæsibrag er fyrsta mynd hans Svart og hvítt í lit (La Victoire En Cahantant) fékk Ósk- arsverðlaunin árið 1977 sem besta erlenda myndin. Myndin var framlag Fílabeinsstrand- arinnar til Óskarsins en í myndinni fjallar Ann- aud á mjög gagnrýninn hátt um nýlendustefnu og yfirgang Frakka í Afríku. Næsta mynd hans Skaphundur (Coup de tête) frá 1979 var gam- anmynd sem vakti ekki eins mikla athygli en það var með þriðju myndinni Leitinni að eld- inum (Quest For Fire) sem nafn Jean-Jacques Annauds varð heimsþekkt. Þessi forsögulega saga um leit frumbyggjaættbálks að eldi vakti mikla athygli og gekk vel í kvikmyndahúsum um heim allan árið 1981, þótt ekki hafi verið mælt eitt einasta kunnuglegt orð í myndinni. Hann hlaut franska Césarinn fyrir auk þess sem myndin vann til Óskarsverðlauna fyrir förðun og var tilnefnd til Golden Globe- verðlauna. Næsta mynd hans, Nafn rósarinnar (1986) sem hann gerði eftir metsölubók Umbertos Ecos, vakti ekki síðri athygli en hún skartaði Sean Connery í hlutverki hins snjalla frans- iskusmunks Vilhjálms frá Baskerville sem fenginn var til að rannsaka hrottafengin morð í Benedikts-klaustrinu árið 1327. Enn hlaut Annaud César-verðlaun fyrir leik- stjórn árið 1989 fyrir Björninn, mynd sem al- mennt var talin valda straumhvörfum fyrir það hvernig hann gat fengið dýr, í þessu tilfelli alaskabirni, til að leika aðalhlutverk með svo sannfærandi hætti í heilli kvikmynd. Flestum að óvörum naut myndin að auki mikilla vin- sælda, einkum í Evrópu. Næstu myndir Annauds vöktu kannski ekki eins mikla athygli en þóttu samt athyglisverð- ar, hver á sinn hátt. Elskhuginn (L’amant) þótti djörf mynd, Á vængjum þöndum (Wings of Courage) var fyrsta kvikmyndin sem gerð var í þrívídd fyrir IMAX-kvikmyndahúsin, Sjö ár í Tíbet (Seven Years in Tibet) skartar Brad Pitt í einu af hans kröfuhörðustu hlutverkum og síð- asta mynd Annauds á undan Bræðrum tveim er sögulega stríðsmyndin Óvinur í nánd (Enemy at the Gates) frá 2001 með Jude Law, sem enn í dag er eitthvert stærsta og kostn- aðarsamasta verkefni sem evrópskur kvik- myndagerðarmaður hefur nokkru sinni ráðist út í. Fílabúgarður við rætur Heklu Af öllum myndum Annauds er Leitin að eld- inum trúlega hans kunnasta hér á landi. Hún var sýnd við miklar vinsældir í Háskólabíói, óvenju miklar vinsældir reyndar. Ástæðan, fyr- ir utan hversu góð og sérstök hún þótti, var sú að myndin hafði fengið mikla kynningu í ís- lenskum fjölmiðlum meðan á gerð hennar stóð – eða réttara sagt áður en gerð hennar hófst. Þannig er að það var lengi vel ætlun Annauds að taka upp stóran hluta myndarinnar hér á landi enda þótti honum hin ósnortna íslenska náttúra tilvalið sögusvið fyrir hina forsögulegu mynd sína. „Ég hef alltaf séð mjög eftir því að hafa ekki getað tekið myndina á Íslandi,“ segir Annaud. Hann segir tvennt hafa ráðið því að hætta þurfti á síðustu stundu við að taka myndina hér á landi. „Það fyrsta er að Hekla tók upp á því að gjósa um það leyti sem við vorum að hefja tök- ur. Svo vildi til að tökustaðurinn var nálægt og fílabúgarðurinn sem við höfðum byggt hvarf undir öskufallið og eyðilagðist ásamt leikmynd- inni sem reist hafði verið. En það sem þó aðallega réð því að við neydd- umst til að hætta við Íslandstökurnar á síðustu stundu var að skyndilega skall á verkfall leik- ara í Bandaríkjunum. Leikararnir mínir ætluðu fyrst að hunsa verkfallið og halda sínu striki en þá greip stúdíóið sem framleiddi myndina, 20th Century Fox, inn í og meinaði leikurunum að vinna. Við neyddumst því til að finna annan framleiðanda til að geta haldið áfram og mynd- in varð að fransk-kanadískri framleiðslu. Út af þessum vandræðum urðu tafir á því að tökur gætu hafist og endurskipuleggja þurfti töku- tímann og tökustaðinn. Það munaði svo mjóu að við hæfum tökur hér á landi að við vorum meira að segja búnir að flytja fílahjörð til Ís- lands, sem var um borð í flutningaskipi við Reykjavíkurhöfn, þegar endanleg ákvörðun var tekin um að hætta við allt saman og skipta um tökustað. Ég man að það var háð ströngum reglum að geta flutt slík dýr inn til landsins og við fengum íslenskan dýralækni til að skoða dýrin í Lundúnum áður en þau voru flutt yfir hafið til Íslands. Hann var indæll og ég man hvað ég dáðist að því hversu nákvæmur hann var í rannsókn sinni á dýrunum og sá að þar fór greinilega maður sem var annt um dýravernd. En þessi dýraverndunarlög á Íslandi þýddu það líka að við gátum einungis verið með dýrin í landi í takmarkaðan tíma og við sáum fram á að vegna allra tafanna sem myndu verða vegna verkfallsins og endurfjármögnunarinnar myndu öll leyfin renna út. Þessa helgi sem allt þetta dundi yfir okkur fór ég til Skotlands, fann þar hentugan tökustað og ferjaði fílhjörðina aftur til baka, til Skotlands, þar sem við á end- anum skutum þau atriði sem skjóta átti á Ís- landi.“ Annaud segist muna vel hversu erfiðlega gekk að finna gistingu fyrir hið fjölmenna töku- lið í nágrenni Heklu. En það mál hefði fengið farsæla og gleðilega lausn. „Eftir að við höfðum leitað til þrautar að gistiplássi í þéttbýliskjörnum í nágrenninu án árangurs brugðum við á það ráð að gera fólki á bæjunum í kring tilboð. Við buðum því í ferða- lag til Karíbahafsins gegn því að við fengjum að nota hús þeirra. Margir þáðu það og fóru til Karíbahafsins. En svo varð náttúrlega úr að við þurftum aldrei á húsum þeirra að halda. Mér hlýnaði því mjög um hjartaræturnar þegar við fengum sendan fjölda bréfa frá eigendum húsanna sem tilkynntu okkur að við ættum inni hjá þeim gistingu og mættum nýta okkur hana hvenær sem við vildum. Ég á því inni gistingu hjá fjölda manns hér á Íslandi,“ segir Annaud og hlær dátt að þessari sögu sem greinilega rifjaðist þar upp fyrir honum í fyrsta sinn í langan tíma. „Þetta var afar vinalegt samfélag sem við komumst í kynni við.“ Annaud segist enn dreyma um að geta tekið upp kvikmynd hér á landi, hann sé enn hug- fanginn af íslenskri náttúru. Bíómyndir eru ferðalag Það er því kannski eðlilegt að spyrja hvort þetta yndi hans á náttúrunni ráði mestu um verkefnaval hans og sé kveikjan að þeim hug- myndum sem hann fær. „Nei, í raun ekki. Það er alltaf sagan. Góð saga. Réttara sagt þá eru það samverkandi áhrif þriggja þátta; góðrar sögu, tímabils í sög- unni eða staðar sem kemur draumum mínum af stað. Það má segja að með því að gera kvik- myndir sé ég að uppfylla drauma mína. Það er mín helsta nautn sem kvikmyndagerðarmanns að geta lifað öðru lífi í gegnum myndir mínar. Þess vegna læt ég myndir mínar aldrei gerast í París, því þar bý ég. Ég nýt þess að búa þar, ekki misskilja mig, en kvikmyndirnar eru flóttaleið, rétt eins og þetta ferðalag mitt hing- að til Íslands. Bíómyndir eru ferðalag. Draumar. Þær flytja mig yfir í aðrar víddir en þær sem ég lifi og hrærist í, víddir sem ég vildi óska að ég gæti upplifað. Ef og þegar ég kemst á hugarflug reyni ég að endurskapa áning- arstaðinn í kvikmyndum mínum.“ Annaud hefur þar lög að mæla því myndir hans eiga það allar sammerkt að gerast á öðr- um tíma, í öðru rúmi en hann lifir sjálfur í. Jafnvel þegar hann segir ástarsögu í borginni á hún sér stað í Saigon á þriðja áratug síðustu aldar (Elskhugi, sem Annaud gerði eftir skáld- sögu Marguerite Duras). „Sumir eru heimakærir og óttast ferðalög. Þeir notast við töframátt kvikmyndanna til að stunda sín ferðalög. Þegar ég var ungur dreng- ur var ég hrifnastur af þeim myndum sem tóku mig burt frá heimahögunum, hversdagsleik- anum. Ég hef lítið breyst, er sama manneskjan. Finn mig knúinn til að gera nákvæmlega þann- ig myndir. Hluti af mér er ennþá þessi litli drengur í París sem þráir að ferðast. Ekki endilega til fjarlægra staða heldur líka til fjar- lægra tíma. Ég undra mig oft á að hafa aldrei gert framtíðarmynd. Ætli það sé ekki vegna þess að mér finnst það kvikmyndaform orðið heldur útjaskað, alltaf verið að reyna að draga einhverjar ályktanir, fella einhverja spádóma um að framtíðin verði góð eða slæm.“ Aðspurður segist Annaud sannarlega hafa heillast af norrænum sagnaheimi og söguöld- inni. Hann segist hafa lesið nokkrar Íslend- Af björnum, tígrum og „Það er algengur mis- skilningur að dýr geti ekki fundið og upplifað, hafi enga sál,“ segir sér- legur málsvari dýra og náttúru í bíóheimum, franski kvikmyndagerð- armaðurinn Jean- Jacques Annaud, sem ræðir hér um dýrin, nýj- ustu mynd sína Two Brothers og tökur sem fóru næstum því fram á Íslandi. Eftir Skarphéðin Guðmundsson skarpi@mbl.is Ævintýramaðurinn Aidan McRory (Guy Pearce) handsamar

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.