Lesbók Morgunblaðsins - 30.10.2004, Side 12

Lesbók Morgunblaðsins - 30.10.2004, Side 12
12 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 30. október 2004 Danski kvikmyndagerðarmað-urinn Lars von Trier hefur haf- ist handa við gerð hrollvekju sem hann kallar Antichrist. Á meðan set- ur hann þriðja kafla í Ameríku- þríleik sínum, Washington, í bið. Hrollvekjan er sögð eiga að vera aðgengilegri en flestar mynda von Triers en það verður fyrirtæki hans Zentropa sem framleiðir myndina. Peter Aalbæk Jensen, meðframleiðandi von Triers, við- urkennir að leikstjórinn hafi fallist á að gera hrollvekjuna „af fjárhags- legum ástæðum, að þessu sinni vegna hans eigin fjárhagsvandræða. Sem er gott og blessað því hann gerði Riget á sínum tíma til að bjarga fyr- irtækinu frá gjaldþroti.“ Hrollvekjan mun ganga út á þá ögrandi hugmynd að það hafi í raun verið djöfullinn sem skapaði heiminn en ekki guð. Myndin á að gerast í Bandaríkjunum en verður tekin í Evrópu sumarið 2006. Annar kafli þríleiksins áð- urnefnda, Manderlay, verður frum- sýnd næsta vor.    Leikstjóri Notting Hill og Chang-ing Lanes, Bretinn Roger Michell, frumsýnir nú um helgina nýja mynd vest- anhafs. Myndin heitir Enduring Love og byggist á samnefndri met- sölubók Booker- verðlaunahöfund- arins Ians. McEwans. „Þetta er spennumynd um ástina, þannig finnst mér best að lýsa henni,“ segir Michell um nýju myndina en hún segir sögu pars sem lendir í klónum á ofsóknaróðum ókunnugum manni. Rhys Ifans (Notting Hill, Human Nature) leikur sérlundaða einfarann Jed sem kynnist fyrir til- viljun heimspekifyrirlesaranum Joe, Daniel Craig (Road To Perdition), hrífst af honum og tekur að ofsækja hann. McEwan setti sig mjög upp á móti fyrstu handritsdrögunum en féllst svo á lokaútgáfuna, eftir að persóna Jed hafði verið gerð flóknari og óræðari. „Það var ekki fyrr en hann horfði á hráa útgáfu af myndinni sem hann áttaði sig á hvert við værum að fara með söguna hans.“ Michell skrifaði sjálfur handritið ásamt Joe Penhall. Upphaflega átti Scott Hicks, leikstjóri Shine, að gera myndina og ætlaði sér að heimfæra hana upp á Boston.    Svanasöngur hins yfirlýsta „verstaleikstjóra sögunnar“, Eds Woods, hefur loksins litið dagsins ljós. Myndin heit- ir Necromania og Woods gerði hana árið 1971 fyrir 7 þúsund dali, eða tæpar 500 þúsund krón- ur. Stuttu síðar hvarf hann spor- laust. Necromania er klámmynd sem fjallar um kynlífsuppgötvanir ungs pars sem er á valdi nornasamkomu. Johnny Deep lék Woods í kvik- mynd eftir Tim Burton frá 1994. Það voru sérlegir sérfræðingar um ævi og starf Wood, Alexander Kogan og Rudolph Grey, sem fundu hina „glötuðu“ Woods-mynd í vöru- geymslu í Los Angeles eftir að hafa leitað að henni linnulaust í hálfan annan áratug. „Þetta er meira en bara klám- mynd,“ segir Fredrik Carlstrom, sem hefur yfirumsjón með útgáfu myndarinnar á mynddiski. „Hún hefur söguþráð og er metnaðarfullt verk. Rétt eins og allar hans myndir þá er hún svo vond að hún er góð. Al- gjör snilld. Ekta Ed Wood.“ Erlendar kvikmyndir Lars von Trier Rhys Ifan Ed Wood Áhorfendur hafa alltaf rétt fyrir sér,“ sagðibandaríski leikstjórinn og stórmynda-framleiðandinn Cecil B. DeMille (d. 1959),sem var þekktastur fyrir biblíubíó á borð við Boðorðin tíu og Konungur konunganna. Á sinni tíð þótti hann næmur á smekk áhorfenda; þá virðist einna helst hafa verið „inni“ að komast nær guð- dómnum gegnum kvik- myndalistina. Sú tíð er liðin og biblíubíó er „úti“. Hafa áhorfendur enn alltaf rétt fyr- ir sér? Líklega í merkingu DeMilles, þ.e. að bíómynd sé góð þegar áhorfendur flykkjast á hana og peningarnir streyma inní miðasöl- urnar. Svo mikið er víst að enginn kvikmyndaframleið- andi hefur nokkurn tíma sagt að kvikmyndagagnrýn- endur hafi alltaf rétt fyrir sér. En samt eru það nú þeir sem frá öndverðu hafa umfram aðra áhorfendur reynt að meta gæði bíómynda á opinberum vettvangi. Svo hefur einnig verið hérlendis frá upphafi „íslenska kvikmyndavorsins“ fyrir tæpum aldarfjórðungi. Í þeim dansi sem þá var boðið uppí og lengi framan af, jafnvel til skamms tíma, stigu almennir áhorf- endur og gagnrýnendur sporin nokkurn veginn í takt. Þeir voru sammála um að styðja þessa ungu listgrein á Íslandi og reyna að aðstoða hana við að komast á legg. Þegar ég var að skrifa kvikmyndagagnrýni á þessum fyrstu árum „vorsins“ var ósköp einfaldlega þegjandi samkomulag um að fara öðrum og nær- gætnari höndum um íslensku nýframleiðsluna en þá erlendu. Hún fékk það sem nú er kallað forgjöf uppá eina ef ekki tvær stjörnur á þeim umdeilanlega gæða- skala sem stjörnugjöfin er. Lengst af hafa íslenskir gagnrýnendur einnig lagt sig fram um að vanda sig sérstaklega þegar kemur að umfjöllun og greiningu á íslenskum bíómyndum. Til skamms tíma þótti ábyrgðarlaus dónaskapur að fella lítt rökstudda sleggjudóma yfir okkar framleiðslu. Og áhorfendur sýndu greininni sömu virðingu, áhuga og nærgætni með því að velja íslenskt. Jafnvel þótt fókusinn dytti út á köflum, samtölin næðu ekki alltaf til hljóðhimnunnar, handritin væru ófullburða og leikurinn stundum stífur, leikhúslegur, ef ekki hreinlega amatörískur: Við vildum íslenskt og þess vegna völdum við íslenskt.. Þetta tímabundna ástand má kalla óæskilegt eða óeðlilegt, ef menn vilja. En það þjónaði tilgangi sín- um. Það var nauðsynlegur stuðningur við unga list- og iðngrein sem kostar mikla peninga. Nú hefur verið gert nýtt samkomulag á vettvangi kvikmyndagagnrýni um íslenskar bíómyndir. Silki- hanskarnir eru komnir ofaní skúffu. Forgjöf stjarn- anna er á undanhaldi, ef ekki hreinlega horfin. Gagn- rýnendur segja sem svo: Greinin er komin til þroska, fagmennskan orðin sambærileg við erlenda fram- leiðslu og opinberi fjárstuðningurinn orðinn traustur svo tími er kominn til að taka íslenskar myndir sömu tökum og þær erlendu. Gott og vel. Ýmsir gagnrýnendur okkar eru þeim vanda vaxnir að fjalla af sömu fagmennsku, þekk- ingu, áhuga og ástríðu um íslenskar myndir og er- lendar. En því miður á það ekki við um alla. Ekki þjónar tilgangi að nefna einstaka miðla eða einstök nöfn. Hins vegar eru sumir nýliðar í stétt íslenskra kvikmyndagagnrýnenda á rangri braut. Allt of marg- ar umsagnir gagnrýnenda af yngri kynslóð einkenn- ast af óvandvirkni, sjálfsupphafningu, derring og stælum í garð íslenskrar kvikmynda. Allt of fáar greina faglega það sem myndirnar eru að reyna að segja og hvernig þær segja það, að ekki sé minnst á að þær séu settar í kvikmyndasögulegt samhengi. Silkihanskarnir hafa í sumum tilfellum vikið fyrir grófum vettlingatökum. Slík gagnrýni er ekki aðeins gagnslaus; hún gerir ógagn. Í þeirri umræðu sem nú er hafin um viðbrögð við dvínandi gengi íslenskra bíómynda á heimamarkaði væri æskilegt að þáttur gagnrýnenda kæmi einnig til álita. Lýst er eftir sjálfsgagnrýni gagnrýnenda, ekki síður en kvikmyndagerðarinnar. Þeir verða að gera sams konar kröfur til sjálfs sín og sinnar fagmennsku og þeir gera til kvikmyndanna sem þeir fjalla um. Yf- irmenn viðkomandi fjölmiðla þurfa einnig að gera sér grein fyrir sinni ábyrgð. Hvað sem öllum álitamálum um gildi og gengi ein- stakra íslenskra bíómynda líður eiga höfundar og framleiðendur rétt á því að þær séu teknar alvarlega og þeir sem um þær fjalli á opinberum vettvangi sýni þeim virðingu, hafi á þeim áhuga og beri í brjósti sér einhverja ástríðu til þeirra. Eða stendur þessum gagnrýnendum á sama um hvort íslenskar kvik- myndir eru á boðstólum í bíóunum eða ekki? Stendur þeim á sama um allt nema spegilmynd eigin sjálf- hverfu? Enginn hefur alltaf rétt fyrir sér. Ekki áhorfendur. Ekki gagnrýnendur. Ekki kvikmyndagerðarmenn. En þessir þrír aðilar þurfa hver á öðrum að halda í þeirri viðleitni sem þeir eru vonandi sammála um: Að auka veg og efla fjölbreytni íslenskrar kvikmynda- gerðar, en ekki skaða hana. Þeir sem vettlingi geta valdið ’Stendur þessum gagnrýnendum á sama um hvort íslensk-ar kvikmyndir eru á boðstólum í bíóunum eða ekki?‘ Sjónarhorn eftir Árna Þórarinsson ath@mbl.is J eremy Renner er ungur og upprennandi leikari í Hollywood sem dvaldi hér á landi í tæpa tvo mánuði í haust. Ástæðan er sú að hann leikur stórt hlutverk í A Little Trip to Heaven, nýrri mynd Balt- asars Kormáks og Sigurjóns Sighvats- sonar. Hann var búinn að vera á landinu í tæpar tvær vikur þegar blaðamaður ræddi við hann á tökustað. Jeremy er skemmtilegur í viðkynningu, greinilega mikill fagmaður þótt hann orki á mann eins og gamall kunningi. Hann er 33 ára og hefur búið í Los Angeles í tólf ár og víða komið við á ferlinum. Jeremy hefur leikið í stórum sem smáum myndum líkt og hann ræðir í viðtalinu. Hann er líka töffari, syngur í rokk- hljómsveit og lék í myndbandi með Pink (man ekki einhver eftir lögreglustjóranum úr „Trouble“?) Hann segir þrjú atriði ráða því af hverju hann taki hlut- verk að sér; leikararnir, leik- stjórinn og sagan, og réðu þessir þættir einnig vali hans á A Little Trip to Heav- en. „Mér finnst Forest og Julia frábær, Baltasar áhugaverður og ég hafði gaman af handritinu,“ segir hann en bónusinn var að koma til Íslands. Drukknir víkingar „Mér finnst mjög gaman hérna og kann vel við drukknu víkingana. Ég passa ágætlega inn hérna. Ég er búinn að flækjast um í 101 og hef heimsótt Kaffibarinn nokkrum sinnum,“ segir hann. Hann segist ekki hafa vitað neitt um Ísland áður en hann kom hingað nema klisjuna að „Ísland sé grænt og Grænland ís“. Hans leið til að kynnast landi er ekki að skoða landslag heldur fólk. „Þegar ég ferðast til nýrra landa hef ég gaman af því að tala við fólk frekar en að horfa á styttur. Mér finnst maður ekkert endilega læra neitt um land með því að fara upp á hálendið eða jökul. Ég hef mjög gaman af fólki og mannlegri hegðun. Mér finnst magnað að það búi aðeins 300.000 manns hérna og þið hafið eigið tungu- mál. Mér finnst lífsstíll Íslendinga áhugaverður.“ Hann segist strax hafa lært mikið um landið og eins og svo mörgum öðrum er meintur drykkjuskap- ur Íslendinga honum ofarlega í huga. „Ég hef aldrei séð íbúa eins lands verða svona drukkna um helgar, þetta er algjör ráðgáta. Fólk hérna er kannski ekki beint dónalegt en það eru allir að hella drykkjum yfir aðra á Kaffibarnum og fólk er ekkert að hugsa um næsta mann,“ segir Jeremy sem segist hafa verið mjög óvanur því að gefa eftir svona mikið persónu- legt pláss. „Ég hef ábyggilega haldið á sjö manns út af börum á þeim tíu dögum sem ég hef verið hérna. Mér finnst hræðilegt að fólk skuli verða svona drukkið,“ segir Jeremy og ekki laust við að maður fari hjá sér. Hann er hins vegar ekkert feiminn í kringum þessa drukknu Íslendinga. „Ef einhver dettur niður á gólf fyrir framan mig, þá tek ég hann upp.“ Hann segir leikarastarfið gott fyrir mann eins og hann sjálfan með mikinn áhuga á mannlegri hegðun. „Ástæða þess að ég fór út í leiklist var til að geta stúderað mannlega hegðun, sálfræði, félagsfræði og heimspeki. Ég hef mjög gaman af að skoða sálfræð- ina á bak við mannlega hegðun og það hjálpar mér í leiklistinni.“ Hann segist ekki geta upplýst mikið um persónuna sem hann leikur í A Little Trip to Heaven og segir með glettnislegu brosi að myndin sé full af óvæntum uppákomum. Jeremy leikur Fred McBride, sem er kvæntur Isold, sem Julia Stiles leikur, en þau eiga barn saman í myndinni. „Inn í söguna blandast tryggingarannsóknarmaður sem Forest Whitaker leikur. Hann kemur til að rannsaka lát manns í bíl- slysi og ýmislegt, sem ég get ekki upplýst, kemur þá í ljós,“ segir hann og heldur áfram: „Kannski eiga áhorfendur eftir að átta sig á leyndarmálunum en þá er alltaf næsti hlutur handan við hornið. Þegar þeir telja sig vera búna að átta sig á hvernig málum er háttað kemur eitthvað nýtt upp. Myndin geymir mörg leyndarmál og ætti að verða skemmtileg spennumynd.“ Minna stress og kjaftagangur Hann er ánægður með samstarfið við Baltasar og segir að það sé gott að starfa með leikstjóra sem líka hafi unnið sem leikari. „Hann er góður í að segja sögu, kannski ekki síst af því hann skrifaði þessa sögu. Og þar sem hann er leikari kann hann að tala við leikara. Við skemmtum okkur vel saman. Við virðumst hafa lifað svipuðu lífi og hafa svipaða sýn á lífið. Hann er skemmtilegur maður sem gaman er að vera í kringum. Ég kalla hann Borgarstjóra Reykja- víkur.“ Jeremy segir að leikararnir hafi rætt sín á milli um að stemningin á settinu sé öðruvísi en þau hafi áður upplifað. „Við Julia og Forest vorum að ræða að það sé minna stress á settinu hér. Kannski er það vegna þess að ég skil ekki málið! Fólk er ekki með mikinn kjaftagang. Það lítur út fyrir að vera miklu rólegra en maður á að venjast í Bandaríkjunum. Þar eru hlut- irnir oft miklu háværari. Það vita allir hvað þeir eru að gera hérna. Kannski er minna stress hérna út af því? Fólk veit hvað það er að gera,“ segir Jeremy sem er í gervinu þegar rætt er við hann og kvartar oft yfir því að hann klæi undan álímdu yfirvaraskegg- inu. Hann á að fara í tökur innan skamms og bankað er á hjólhýsið og hann minntur á að hann hafi tíu mín- útur í viðbót þar til hann þurfi að vera klár. Jeremy er ekkert að stressa sig og gefur sér tíma til að ræða gömul og ný verkefni. „Ég hef leikið í mörgum mismunandi myndum, ódýrum og líka dýr- um myndum eins og S.W.A.T. Einn dagur við tökur á henni kostaði jafnmikið og gerð myndarinnar Dahmer, sem kostaði 200.000 dali í framleiðslu,“ seg- ir hann en í S.W.A.T. lék hann sérsveitarmann á meðan hann túlkaði fjöldamorðingja í Dahmer. „Colin og ég urðum góðir vinir, Sam er frábær, ég kynntist Michelle ágætlega. Það voru allir mjög skemmtilegir og það var líka mjög skemmtilegt að hlaupa um með byssur!“ Fyrir þá sem ekki vita ber umræddur Colin eftirnafnið Farrell, Sam er enginn annar en Samuel L. Jackson og Michelle er töffarinn Michelle Rodriguez. Charlize Theron næst Áður en Jeremy kom til Íslands hafði hann nýlokið tökum á annarri mynd enda hafa starfskraftar hans verið eftirsóttir að undanförnu. „Ég var að klára mynd í New York sem heitir 12 and Holding, sem er frábær lítil mynd. Minnir á blöndu af Stand by Me og Mystic River. Mjög falleg mynd sem fjallar um vin- skap tólf ára stráka. Ég leik slökkviliðsmann, sem kynnist einum tólf ára strákanna,“ segir Jeremy. „Og strax eftir þessa mynd leik ég í myndinni Class Action með Charlize Theron og Frances McDormand og ég held Sissy Spacek verði í henni,“ segir hann og fjölgar því sífellt stórstjörnunum sem Jeremy vinnur með. Leikstjóri er Nýsjálendingurinn Niki Caro, sem vakti mikla athygli fyrir Whale Rider. „Æfingar hefjast í desember og tökur í janúar og þetta fjallar um hóplögsókn gegn námufyrirtæki og er byggt á sannri sögu. Þetta ætti að verða skemmti- legt. Ég leik hlutverk sem ég hef leikið áður, hlutverk sjarmerandi skúrksins, manninn sem þú elskar að hata. Ég leik Bobby Sharp, sem kemur lögsókninni af stað með því að áreita persónu Charlize Theron kynferðislega með orðum. Frekar fyrirlitlegur gaur.“ Jeremy Renner segist aðspurður vera ánægður með líf sitt. „Já, ég get dáið hvenær sem er með bros á vör. Ég er mjög heppinn að fá að gera það sem ég elska að gera.“ Þegar rætt var við Jeremy átti hann von á vinum í heimsókn til Íslands og sú spurning vaknar hvort hann sé búinn að vara vinina við drykkjunni sem eigi sér stað á Íslandi. „Ertu að grínast? Þess vegna eru þeir að koma!“ Sjarmerandi skúrkur Jeremy Renner er ungur og upprennandi og leikur stórt hlutverk í A Little Trip to Heaven. Hann hefur áhuga á mannlegri hegðun og skoð- ar fólk frekar en landslag. Eftir Ingu Rún Sigurðardóttur ingarun@mbl.is Morgunblaðið/Þorkell „Ég get dáið hvenær sem er með bros á vör. Ég er mjög heppinn að fá að gera það sem ég elska að gera,“ segir Jeremy Renner m.a. í viðtalinu.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.