Lesbók Morgunblaðsins - 30.10.2004, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 30.10.2004, Blaðsíða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 30. október 2004 Þ að er stuttur vegur frá Kjarvals- stöðum yfir að styttunni af Ein- ari Ben. Skammt frá er Flóka- gata 17, þar sem málarinn Jón Engilberts bjó, í sérstöku húsi og fallegu. Þannig mynda þeir félagar Jón, Kjarval og Einar örlítinn þríhyrn- ing liðins tíma, þar sem íslenskar og kannski fyrst og fremst reykvískar menningarrætur hafa grafið sig niður í einu horni Klambratúns- ins. Það er ilmur í lofti og ég leyfi huganum að flögra um fegurð myndanna eins og maður sér þær. Ég tylli mér við fótskör skáldsins undir gígjunni. Einar Ben kinkar kolli og stingur því að mér að sig langi að flytja inn að Höfða, trén byrgi sér sýn. Mikið rétt. Sú var tíðin að stytt- an var ein í nöktu túninu, en nú hefur rjóðrið umleikis vaxið henni yfir höfuð. Skáldið, sem stendur undir strengjum hörpunnar, horfir til norðurs yfir aspirnar í túninu og trjágróin Holtin og bíður. Það fer ekki meira milli okkar og skilningsrík þögnin ríkir. Þegar Reykjavík- urbær var að verða borg og Hringbrautin, sem átti að umlykja bæinn, fékk ekki það hlutverk, var Miklabrautin lögð beint í austur frá Hlíð við Öskjuhlíð yfir Norð- urmýri og sem leið liggur upp í Árbæ. Hverfin urðu til utan við bæinn og bærinn varð borg með hverfum árið 1961. Býlin urðu undir í bar- áttunni við borgina og túnin urðu að götum og lóðum. Klambratúnið var leikvöllur bernsku minnar. Minningar af hamingjuríkum dögum, í túninu heima, í leik með börnum og álfum, koma upp þar sem ég heilsa upp á skáldið á stallinum. Ég ólst upp við Miklubrautina og við borðstofugluggann heima lá túnið fyrir augum. Bærinn á Klömbrum, sem er löngu horfinn, var í miðju túninu en Holtin og Háteigur fyrir handan. Akrafjall og Skarðsheiði fjólublá í fjarska. Kerhólakamburinn – norðurvegg- urinn; hin „sviptigna Esja með ennið hátt“, var yndisfögur á að líta yfir túnið – „Við elskum þig, börnin þín, fjallið blátt“ kvað Einar um Esjuna sem ljómaði „sem litfríð stúlka í ljós- grænni sumarflík“ eins og málverk eftir Eng- ilberts eða dulræn vættaborg eftir Kjarval í ímynd krakkanna við túnið. Í fjallinu flugu hvítir hrafnar um björg meðan sólroðin ský vöktu yfir. Á vorin, þegar nóttin hættir að slökkva ljósið, sindra vesturgluggar í húsunum við aftansólinni. Þá er sem kvöldið brenni, myrkrinu til dýrðar. Fjólublá sýnin norður yfir er gjörningum líkust. Þannig er fegurðin óhlut- bundin í sjálfu sér og engu lík og Esjan sjálf uppspretta hennar. Hún er innblástur barna og annarra kúnstnera, skálda og málara. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur orti um útsýnið við Klambratúnið „Vorkvöld í Reykjavík“ við lag Everts Taube og innfæddir Reykvíkingar kyrja sönginn þegar þeir lyfta sér á kreik á vorin. Við Klambratúnsgluggann mátti una við síbreytileikann allt um kring. Litbrigði fjallsins og dulúð beislaði skáldfákinn og lét gamminn geisa út í víddir ævintýra og draumheims til að sjá vonirnar rætast í hillingum lífsins. Slíkur var máttur Esju. Svo var það í október eitt sinn, að ég var við borðstofuborðið á Miklubrautinni að læra Ís- landsljóð Einars Ben fyrir skólann. Það var slagveðursrigning og ekki hundi út sigandi: „Þú fólk með eymd í arf! Snautt og þyrst við gnóttir lífsins linda, litla þjóð sem geldur stórra synda …“ og þannig áfram að læra ljóðið í takt við beljandann úti, uns komið var að ljóðlínunni „Líttu út og lát þér segjast, góður“ að mér varð litið upp úr bókinni til að hvíla augun sem reik- uðu út á túnið, sem nú var allt forugt flag, eins og í mó- eða klömbrugröf, ekki svipur hjá sjón. Athyglin staðnæmdist við nokkra svarta bíla af betri gerð sem hafði verið lagt túnmegin í röð við Miklubrautina á móts við Reykjahlíð. Hvað stóð til? Ég fékk hugboð um eitthvað óvænt í túninu sem hlyti að vera skemmtilegra en ljóðastaglið í stofunni þetta napra síðdegi. At- burðafíkn og bíladella lögðust á eitt að svala forvitninni, þótt hann rigndi, svo ekki var til setunnar boðið. Ég hafði reyndar tekið eftir því nokkru fyrr, að sökkli að einhverju mannvirki hafði verið komið fyrir í túninu, einmitt á móts við þann stað sem bílarnir voru nú sam- ankomnir. Það hafði samt hvorki gefið mér til- efni til vettvangskönnunar né ígrundunar um hvað til stæði. Túnið var heldur ekki lengur vettvangur leikja, þar stóðu nýframkvæmdir fyrir dyrum og búið að rífa Klambra. Svo var þarna vellandi for í haustrigningunum og því illfært öðrum en fólki í góðum bomsum. Það átti eftir að sá í túnið og gera það að skrúð- garði, var sagt, og ef til vill markaði þessi loka- dagur októbermánaðar árið 1964 þáttaskil í hlutverki Klambratúnsins. Hvað sem var, hér var eitthvað ýkt upp á teningnum. Furðuverk var komið á sökkulinn í túninu eða flagið öllu heldur, og drossíur og fínt fólk mætt til leiks. Ég dreif mig út án tafar. Einar Ben gat beðið. Þegar ég nálgaðist bílana var eins og hendi væri veifað. Þeir opnuðust nánast samtímis og út komu regnhlífar sem breitt var úr og beitt upp í hviðurnar. Undir regnhlífunum svart- klæddir menn í frökkum, nokkrir með hatta líka sem þeir ríghéldu í fyrir rokinu. Ég staldr- aði við álengdar með beljandann í bakið. Mann- skapurinn fetaði sig eins og eftir einstígi sem erfitt var að fóta sig á í áttina að verkinu. Sumir sýndu stíllega göngulist á þeirri leið sem farin var, en ég sá það síðar að plankaröð hafði verið lögð þennan stutta spöl frá götunni yfir forina þangað sem fólkið átti erindi að stallinum. Ég færði mig nær til að sjá betur, en hélt þó kurt- eisri fjarlægð. Hattur fauk af manni í vindhviðu út í buskann. Ég sá saknaðarsvip mannsins þegar hann sá á eftir hattinum. Fólkið safn- aðist í hnapp, á litlum nýlega tyrfðum reit, fyrir framan furðuverkið. Það var ekki margt í bomsum, eða skóhlífum, svo eitthvað hlaut að vökna í fæturna. Verkið var eins og keila. Þeg- ar betur var að gáð snærisbundin keila, sveipuð segldúk, á að giska fimm metrar á hæð og odd- hvöss efst, og var oddurinn boginn líkt og goggur sem einnig var umvafinn dúknum. Ég vissi ekki strax, að til stóð að afhjúpa styttu, en ég renndi grun í það. Ég hafði aldrei séð slíka athöfn og kannski þess vegna varð atburðurinn þarna í flaginu minnisstæður. Svo voru engir aðrir utanaðkomandi vitni að því sem gerðist, aðeins ég einn. Fólkið úr bílunum, sem átti er- indi, skóhlífalaust, þekkti ég ekki, en kannaðist þó við manninn með hattinn, pabba hennar Völu, skólasystur minnar. Hann var ráðherra og ætlaði að fara að halda ræðu af blaði sem var ómögulegt í veðrinu svo hann vöðlaði bréfinu aftur ofan í vasann og var stuttorður, blaðlaust. Svo kom annar, sem ég vissi að var mennta- málaráðherrann. Sá talaði líka blaðlaust, en átti í basli með að þurrka af gleraugunum, en ég heyrði að hann nefndi að afkomandi mundi afhjúpa styttuna. Kona í svartri kápu með mik- inn hatt, sem illa gekk að hemja, fikraði sig að verkinu og tók í dúkinn. Henni til aðstoðar tók maður sig út úr hópnum og óð elginn að verk- inu til þess að taka í spotta sem sveiflaðist nið- ur undan seglinu og fór að toga. En það var sama hvernig maðurinn togaði; dúkurinn sat sem fastast eins og pakkinn vildi ekki opnast til að afhjúpa innihaldið í þessu veðri. Hófst nú basl við að leysa hnúta og vafninga utan af dúknum og urðu margir til að koma með til- lögur og bendingar um hvað best væri að gera og fóru hringi um verkið sem gnæfði yfir um- hverfið og upp í slagviðrið. Konan í kápunni dró sig í hlé. Hvernig sem menn báru sig að og hvað sem gert var, alltaf var eins og togað væri í að innan. Dúkurinn bifaðist ekki eins og verk- ið brygðist illa sinni eigin afhjúpun í augliti þessarar regnhröktu en samt virðulegu sam- kundu. Þetta var spennandi viðureign og tvísýn og það hvarflaði að mér að bjóðast til að príla upp á verkið til að losa dúkinn frá oddinum efst, en ég hélt aftur af mér. Mér fannst ég vera boðflenna, ég var óviðkomandi. Það fór líka svo að lokum að minnar aðstoðar varð ekki þörf. Öllum að óvörum hrifsaði vindurinn til seglsins og lyfti því í hæðir upp af verkinu og feykti dúknum langar leiðir út á völlinn og í svaðið. Við blasti verkið sjálft, mikil gígja og stytta af manni á stalli. Segldúkurinn hafði líklega fest efst í gígjunni, en það var þó ráðgáta hvernig það gat hafa gerst. Það var klappað lof í lófa. Verkið, sem opinberaðist, var þannig, að undir gígjunni stóð stytta af teinréttu herðabreiðu mikilmenni. Styttumaðurinn var hafður í drag- síðum frakka. Hann var þungbrýndur og með yfirvaraskegg og andlitið horfði skarpmót- uðum arnfráum augum norður yfir túnið til Esjunnar. Hann hélt vinstri hendi virðulega í frakkavasanum þeim megin, en sú hægri hvíldi við hlið og þannig er styttan enn, í senn hógvær og virðuleg. Hún sinnti klappinu engu, sem eðlilegt var, hún var gerð úr bronsi. Kannski var líka klappað þarna fyrir vindinum, að hafa tekist að afhjúpa verkið með snilldarbragði, að blása sér undir dúkinn, öllum á óvart. Eftir lófaklappið flýtti fólkið sér til bílanna, hrakið með hroll þarna úr elgnum og örugg- lega hundvott til fótanna. Sumir þoldu enga bið og stikuðu stórum yfir svaðið án þess að nota plankaröðina sem hafði verið lögð sérstaklega svo komast mætti þurrfóta yfir mýrarrauða og moldarfor. Þegar þeir síðustu komu að bíl- unum yfir einstigið eftir plönkunum voru fyrstu drossíurnar farnar út eftir Miklubraut- inni með sitt fólk í önnur erindi þessa haust- napra dags. Einn maður, sá sem togaði í dúk- inn, leit til baka að styttunni þegar hann steig í bíl sinn, en öðrum var atburðurinn horfinn, ef marka mátti flýtinn á því fólki öllu. Áður en varði var ég einn eftir í rigningunni hjá stytt- unni og gat farið að virða hana nánar fyrir mér af stuttu færi. Styttan var af heldri manni með áberandi hálsbindi. Hann var klæddur síðum tískulegum vetrarfrakka, að því er virtist, með loðkraga. Maðurinn stóð traustum fótum á stalli fyrir framan gígjuna, sjö strengja, einnig úr bronsi. Styttan var í berangri og sneri baki í Miklu- brautina og umferðina eins og virðulegi mað- urinn í frakkanum kærði sig kollóttan um mannlífið í götunni eða í hverfinu þar fyrir aft- an. Staðsetning styttunnar í túninu gaf samt tilefni til að ætla að hér væri á ferðinni minn- isvarði um mikið hörpunnar skáld og ástmögur íslensks raunveruleika. Kannski var það tón- skáld lífsins, sem hér var sett niður í reisn í hóf- legri fjarlægð frá fáfengi mannlegrar tilveru. Sjálfur vindurinn virtist á þeirri skoðun ef marka mátti fossdimman söng hans á strengi gígjunnar, jöfrinum til heiðurs. Þegar styttan afhjúpaðist í augliti þeirra sem á horfðu lék regnslagur vindhörpunnar þannig í eyrum að hljómleikurinn varð í senn eftirminnilegur og tónverkið yfirnáttúrulegt í seglhvellum sam- hljómskór atburðarins, þegar hinn mannlegi máttur var lens. En svo var stytt upp. Allt dottið í dúnalogn og kyrrð á Klambratúninu. Haustsólin braust fram úr skýjum og lék við gyllta strengi gígj- unnar sem upplýstist af sólinni. Heyra mátti óm hennar leika mjúklega við litbrigði drop- anna sem glitruðu um andlit hins mikilfenglega skálds á stallinum. Fólkið var á braut og ég einn gat mig hvergi hrært við sýnina. Hinn brúnfægði bronsjöfur lifnaði við í andartaki tímans, baðaður sólarblossa. Mér fannst hálf- vegis skáldið vera fegið því að fólkið væri farið. Heiðblár himinn hvolfdi sig yfir Esjuna í ör- stundarljóma. Það glampaði í tárvotum augum skáldsins og þau geisluðu af gleði í birtunni frá blámanum sem opnaðist svo óvænt á fjall- veggnum: „Með ljósanna hvelfing og litskreytt þil á lífsveginn skín þú og fyrnist ei. Þú dregur oss heim. Engin dásemd er til, sem dýrð þín á norðurveggnum.“ Svo dró fyrir dökkum tjöldum og suddinn brast aftur á. Án þess að velta því fyrir mér þá, hvaða andans jöfur var kominn í túnið, hvarf ég í skjól yfir götuna, þangað sem Einar Ben beið mín í stofunni heima með skáldskap sinn.  1 Úr kvæðinu Esja, Einar Benediktsson, Vogar 1927. 2 Úr kvæðinu Esjan og kvinnurnar, Þórbergur Þórðarson, Hvítir hrafnar 1922. 3 Úr kvæðinu Esja, Einar Benediktsson, Vogar 1927. Styttan af Einari Ben Morgunblaðið/Kristinn Smásaga Eftir Skúla Thoroddsen skulith1@simnet.is Höfundur fæst við skriftir. Stytta Einars Ben á Klambratúni 140 ár eru liðin frá fæðingu Einars Benediktssonar skálds á morgun, 31. október.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.