Lesbók Morgunblaðsins - 30.10.2004, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 30.10.2004, Blaðsíða 9
óperuna, ræddi við mig um söngvara og óperur. Eins varð ég að syngja í messu á sunnudags- morgnum með kór kirkjutónlistardeildarinnar. Æfingar voru klukkan átta á laugardags- morgnum, og ný messa sungin á hverjum sunnu- degi. Við sungum gamla messusönginn af blaði; nóturnar eru kallaðar naumur; og ég er enn nokkuð slungin að lesa þær! Þessi maður, dr. Hans Gillesberger var ótrúlegur kennari. Ég fór fyrst í söngkennaradeild, lauk henni og fékk leyfi til að kenna við tónlistarskóla og tón- listarháskóla. Ég var þá tuttugu og fjögurra ára og fannst ég ekki vita margt. Eftir það fór ég í ljóða- og óperudeild háskólans og lauk þar prófi eftir fjögur ár. En stór partur af náminu var bara að vera á þessum stað. Fá stæði í óperunni og hlusta á hverja óperuna af annarri; fara á tón- leika, og fá þetta andrúmsloft allt í blóðið. Það má ekki vanmeta þennan þátt námsins. En þetta er erfitt hér á Íslandi. Þótt framboð á tónleikum sé gott, fer maður ekki á hverju kvöldi í óper- una.“ Ég spyr Sigríði Ellu um þá lífseigu goðsögn að músíköntum megi skipta í tvo hópa, annars veg- ar söngvara og hins vegar tónlistarmenn. Goð- sögnin á vafalítið rætur sínar að rekja til þess að oft hefur það borið við að söngvarar hafi ekki jafnalhliða músíkmenntun og aðrir tónlist- armenn og hafi til dæmis takmarkaða kunnáttu í tónfræðigreinum. Þeir komist langt á hljóðfæri sínu einu saman, þótt aðra kunnáttu skorti. „Ef þú hefur rödd af guðs náð, sem er sérstök, og getur sungið – þá hefur enginn áhuga á því hvort þú veist eitthvað eða ekki. Allra bestu söngvararnir, sem eru á toppnum, Pavarotti, Bryn Terfel og slíkir söngvarar eru auðvitað mjög vel gefið fólk. Annars hefðu þeir ekki afrek- að það sem þeir hafa gert. Maður finnur það mjög vel þegar maður kennir söng, að það er ekki hægt að búa til demant úr grjóti. Það má auðvitað slípa lengi þar til allir hæfileikar eru komnir í ljós. En ég held, að ef almenna skyn- semi vantar, þá heyrist það í söngnum um síðir. Ef maður ætlar að geta sungið flestar tegundir af tónlist – þá þarf hæfileika til að greina á milli blæbrigða, stíltegunda og annars og einnig kunn- áttu til að beita röddinni á ólíkan hátt. Ef þú hef- ur tæknina á valdi þínu, getur tónlistin verið frjáls en allir tónlistarmenn vilja þjóna tónlist- inni. Ég var í Vín í tíu ár, og eftir að ég lauk námi við Tónlistarháskólann var sagt við mig, að ef ég vildi einhvern tíma koma þangað til að kenna, þá væri ég velkomin. En á þessum árum var ég allt- af eitthvað að syngja. Ég fór heim og söng í Brúðkaupi Fígarós, og fór í söngkeppnir, meðal annars til Belgíu í tengslum við Festival of Flandern. Ég var líka í tólf manna hóp frá Vín- arborg sem ferðaðist um og flutti nútímatónlist. Ég söng með óperukór La Scala og kór Vín- aróperunnar á listarhátíð Bregens. Í karlhlutverki með tvíbura á brjósti Ég fékk tvisvar styrk til að fara til Ítalíu í stuttan tíma til að læra ítölsku. Á þessum tíma hafði ég kynnst manninum mínum Simon Vaughan bassabariton söngvara, sem er Breti. Ég söng Carmen í uppfærslu Þjóðleikhússins sem sló öll vinsældamet hérlendis. Næstu árin var ég mjög dugleg við að taka þátt í keppnum, enda þarf maður að gera það fyrir þrjátíu og fimm ára ald- ur. Ég vann til verðlauna í Toulouse söngkeppn- inni og var boðið að syngja í Arenunni í Verona. Einnig tók ég þátt í Benson&Hedges-keppninni þar sem Ólafur Vignir spilaði með mér. En hann spilaði fyrst með mér þegar ég var 17 ára og hef- ur reynst mér sannur vinur æ síðan. Þessi keppni var undanfari Cardiff-keppninnar. Mér gekk mjög vel í þeim báðum – vann einnig til verðlauna í Benson&Hedges-keppninni. Verð- launin fólust meðal annars í því að syngja á tón- leikum á Aldenburgh-listahátíðinni. En þegar að því kom, var ég á fæðingardeild- inni að eignast dóttur mína, þannig að ég varð að fresta tónleikunum um ár. Næsta ár kom og ég átti að syngja í Spanisches Liederspiel eftir Schumann, ásamt hörku bresku liði. Þá neyddist ég til að hringja aftur og segja: „Nei, ég er ófrísk aftur, en þótt ég eigi ekki að fæða fyrr en eftir mánuð, þá á ég von á tvíburum!“ Þá var þeim öllum lokið og spurðu mig hvort ég vildi ekki bara framvegis vera í barneignunum. En allt gekk þetta nú vel. Ég átti að syngja í Orfeusi og Evridis í jólauppfærslu Þjóðleikhússins. Strákarnir mínir fæddust 7. nóvember og ég stóð á sviðinu 26. desember. Ég var fyrsta konan sem söng karlhlutverk með tvíbura á brjósti!“ Sigríður Ella gerði fleira á barneignaárunum, eins og hún kallar þau. Henni fannst eiginlega engin almennileg músík vera til fyrir börn. Og ráðið var auðvitað að gefa bara sjálf út plötu, jafnvel þótt það þýddi margra ára skuldir. „Ég fékk breskan útsetjara, Gordon Lang- ford, til að útsetja fyrir mig. Hann var auðvitað mjög hissa þegar ófrísk kona gekk inn til hans að biðja um þetta. En þetta tókst, og ég held að hann hafi bara haft gaman af. Ég fékk svo fólk úr Sinfóníuhljómsveit Íslands til að spila með mér og barnakór og Garðar Cortes til að syngja með mér. En þetta varð þó til þess að börnin mín kunna þessi íslensku lög. Næsta skref verður að koma þessu út í annað sinn á geisladiski, og það stendur til. Þetta eru klassísk lög sem allir krakkar hafa gott af því að kunna.“ Beggja vegna Ermarsunds Sigríður Ella segir að það hafi verið nokkuð erf- itt að flytja til Englands. Menntun sína hafði hún jú sótt til Vínarborgar, og í London hafði hún engin tengsl í tónlistarheiminum. Hún hélt áfram að sækja söngtíma í London, þekkti enga og fannst erfitt að koma sér á framfæri. Í London var líka mikið framboð af góðum söngvurum. „Ólafur Egilsson sendiherra hefur ætið sýnt söngvurum mikinn áhuga og greitt götu margra sem músíkina hafa stundað. Hann aðstoðaði mig dyggilega við tónleika mína með Geoffrey Par- sons í Wigmore Hall. Hann er mikill músíkvinur. En svo var það að söngvari nokkur heyrði í mér og sagði umboðsmanni sínum frá mér. Um- boðsmaðurinn kom, hlustaði á mig og tók mig strax að sér. Eitt það fyrsta sem ég gerði var að syngja Dalílu í Albert Hall með amerískum söngvara, Gary Lakes, á tónleikum í minningu tónskáldsins Camille Saint-Saëns. Ég vann fyrir skosku óperuna, Opera North og tók þátt í mörg- um uppfærslum með öðrum breskum óperu- félögum. Ég var svokallaður cover söngvari í fjórum aðalhlutverkum, Carmen, Dalilu, Dora- bellu og Charlottu hjá Covent Garden. Ég söng allar sviðsæfingar. Ein af mínum góðu minn- ingum þaðan er þegar ég söng fyrstu aríu Dalilu á sviðinu, þá stóð hljómsveitin upp og klappaði fyrir mér. Það var góð upplifun. Með Covent Garden söng ég á Windsor-listahátíðinni hlut- verk Marzellínu í brúðkaupi Figarós. Ég söng oft á tónleikum í Barbican Center með mörgum af bestu hljómsveitum Bretlands eins og Philharmonia Orchestra og BBC Consert Orchestra, kom fram í útvarpi og sjónvarpi, með- al annars í Masterclass hjá Pavarotti sem sýndur var víða um heim. Ég söng víða í Frakklandi bæði óperur og á tónleikum. Ég söng til dæmis Carmen í konsert- uppfærslu í hátíðinni í Flaine í Frakklandi og Stabat Mater eftir Pergolesi á Bach hátíðinni í Saint Donat hjá organistanum Marie-Claire Alain, og Sálumessu Mozarts undir stjórn fiðlu- leikarans og hljómsveitarstjórans Jean-Jacques Kantarovs. Við ferðuðumst víða með þá tónleika. Ég var lengst í burtu að heiman í 6 vikur þegar ég fór með Covent Garden til Japan og Kóreu. Eftir það gat ég ekki hugsað mér langa fjarvist frá fjölskyldunni og miðaðist verkefnaval mitt við að komast heim um helgar til að elda góðan mat og sinna fjölskyldunni.“ Þegar Sigríður Ella telur upp hlutverkin sem hún fékk tækifæri til að læra og syngja talar hún af stakri hógværð, rétt eins og þetta hafi ekki verið neitt, neitt. Og hún telur upp ótal tónleika til viðbótar og óperuuppfærslur á Bretlandi og víðar. Ekkert af þessu hefði hún gert hæfi- leikalaus, og hún hefði ekki verið svo eftirsótt sem raunin varð án þess að hafa allt til að bera sem prýtt getur góðan söngvara. „Alltaf að læra,“ segir hún og lætur mig næstum halda að það hafi verið vegna þess að hún kunni of lítið. Gott að vita betur, og gott að vita, að enn eru til söngvarar, sem þrátt fyrir kunnáttuna og hæfi- leikana hafi þroska og hugrekki til að halda áfram leitinni að tóninum sanna og því sem enn er ófundið. Þessari reynslu hefur Sigríður Ella í æ ríkari mæli miðlað til annarra á síðustu árum. Með allan þann reynslusjóð sem hún hefur sank- að að sér á vegferð sinni um söngheima, er hún í dag afar eftirsóttur söngkennari. Hennar eigin örlög sem söngkonu réðu miklu um það, að hún hefur þótt skara framúr í „viðgerðum“ á söng- röddum, sem einhverra hluta vegna hafa átt í tæknilegum erfiðleikum. Hún hefur líka tekið að sér fjölmarga íslenska söngvara og söngnema, sem hafa lagt leið sína til Lundúna, til að læra af henni. „Ég þurfti að fara í svolítinn uppskurð; tann- holdsaðgerð sem átti ekki að vera neitt mál. En einhverra hluta vegna fékk ég vírussýkingu í tvær taugar, með þeim afleiðingum að ég lam- aðist að hluta í hálsinum. Í langan tíma var ég eins og haltur fótboltamaður og hafði 30 prósent minni mátt í hálsinum öðrum megin. Það kom að því að ég varð að segja við um- boðsmann minn, að ég vildi ekki láta hann senda mig neitt, ég yrði að taka mér frí. Ég var alltaf að bíða eftir að þetta lagaðist, en fann, að undir álagi versnaði ég. Loksins, eftir langan tíma, fannst ráð við kvillanum, og í dag er ég í fullu fjöri og syng það sem mig langar að syngja. Nú eru börnin orðin fullorðin og aðstæður mínar aðrar. Nú getum við hjónin bæði verið að syngja á sama tíma eins og okkur lystir. Það var sjaldan að við maðurinn minn fengum tækifæri til að syngja saman, og fáar óperur sem henta tveimur dökkum röddum. Hann hefur sungið mikið með Europian Chamber Opera, og ferðast mikið með þeim, og undanfarin tvö ár höfum við farið með þeim í ferðir og sungið um borð í skemmtiferðaskipinu Mínervu, sem er mikið lúx- usfley. Það býður upp á menningarferðir og um borð eru listviðburðir af ýmsu tagi, fyrirlestrar og önnur menningarleg dagskrá. Við fórum fyrst til Taílands, Indlands, Singapore og Malasíu. Svo var skipt um skip og við fórum í jómfrúarferð nýja skipsins í fyrra um grísku eyjarnar, til Tyrklands, Möltu og víðar. Næstu ferð fórum við til Mið-Ameríku og Mexíkó. Við fljúgum á stað- inn þar sem skipið er hverju sinni, og erum um borð í hálfan mánuð í vellystingum. Á þeim tíma syngjum við þrjár mismunandi uppfærslur. Mér finnst þetta algjör draumur. Við Simon erum að syngja saman, og höfum í leiðinni tækifæri til að sjá saman nýja staði og erum í vinnu. Þetta er þvílíkur lúxus. En hvað kennsluna varðar, þá er ég nísk á tíma minn þar. Ég kenni ekki nema þeim, sem virkilega vilja læra, og stunda þetta eins og um líf eða dauða sé að tefla. Ég er yfirleitt með einn til tvo Íslendinga, en annars fólk hvaðanæva. Oft er ég að lagfæra eitthvað sem hefur farið úr- skeiðis og finna leiðir til að kryfja raddirnar til mergjar, eins og ég þurfti að gera eftir lömun mína í hálsinum. Þetta er mikil fínþjálfun og maður lærir æ betur hvað líkami okkar getur verið viðkvæmur. Það þarf ekki annað en stíflur, ofnæmi, bakflæði eða svolitlar bólgur, til þess að röddin fari úr lagi. Það er oft óskaplega erfitt að greina hvað raunverulega er að, og viðgerðirnar eru oft hárfínar stillingar. Fólk sem hefur fengið vitlausa greiningu, er kannski búið að eyða mörgum árum til einskis, því það var aldrei lagað það sem raunverulega var að. Það getur tekið langan tíma að laga slíka kvilla. En þetta er al- gengt í lífi söngvara. Í mínu tilfelli var ég að syngja Bach, þegar röddin brást mér. Ég fann að röddin hegðaði sér ekki eins og ég vildi að hún gerði. Ég fékk köst, sem komu eins og vont veð- ur. Ég fann það sjálf þegar ég var að fá máttinn aftur, og fór að geta sungið, hvernig líffærin vinna saman og ég fór að skynja samhengið í söngnum svo miklu betur. Þetta er eins og með hverja aðra líkamsþjálfun – með réttum æfing- um er hægt að ná röddinni aftur, en það getur tekið tíma.“ Lánsöm og þakklát Sigríður er ekki búin að gleyma því hve erfitt var fjárhagslega fyrir foreldra hennar að koma henni til mennta í tónlistinni. Í framhaldnáminu átti hún kost á námslánum og kveðst afar þakk- lát fyrir að hafa haft möguleika á slíku. Á ferli sínum erlendis hefur Sigríður Ella sætt færis að syngja íslenska tónlist og kynna hana. Eftir- minnilegir tónleikar í huga hennar voru reyndar með íslenskum jólalögum, þar sem hún söng með The Collegiate Singers undir stjórn tónskáldsins virta Johns Rutters. Sigríður Ella segist vera lánsöm kona og hepp- in í lífinu. Hún talar um fjölskyldu sína og vini heima af mikilli hlýju og talar um þakklætið sem hún segist eiga svo mörgum að gjalda. Sigríður Ella Magnúsdóttir er ekki búin að gleyma upp- runa sínum þótt starfsævin hafi borið hana burt. Hún er ekki búin að gleyma Fjósamanninum sem fékk sér frí, fiðluæfingum, Pólýfónkórnum og draumnum sem hún þorði ekki að segja frá – draumnum um að verða óperusöngkona. Í dag á hún sér lítið athvarf í Vesturbænum, og nýtur þess að geta skotist heim af og til. Við munum hana fyrir þau skipti sem hún hef- ur miðlað af list sinni hér heima, bæði á tón- leikum og í óperuhlutverkum; þar sem hún var iðulega í hlutverki einstakra þokkadísa; hlut- verkum sem fóru henni og rödd hennar svo frá- bærlega vel; hvort sem það voru villingarnir Maddalena og Carmen, eða hin göfuga Amneris. Í mínum huga dugði þó alltaf eitt lítið lag til þess að gera Sigríði Ellu að sannri söngdrottningu og í túlkun þess hefur enginn íslenskur söngvari staðist henni snúning. Óviðjafnanleg söngfegurð í harmrænu sönglagi. Þetta er litla vögguvísan hans Jóns Leifs, Þei, þei og ró. Kannski að ég bregði henni á fóninn… Fiðlusveitin í Laugarnesskóla Á myndinni eru, talið frá vinstri: Arnór Sveinsson, Helga Gunnarsdóttir, Eygló, Sigríður Ella (stuttklædd), Katrín Árnadóttir (öftust), Þórarinn, Kolbrún Sæmundsdóttir, Stein- unn Guðmundsdóttir, Sigurður Björnsson, Þorgerður Ingólfsdóttir, Agnes Löve, Rut Ingólfsdóttir og Einar Sindrason. Sigríður Ella í Masterclass hjá Pavarotti sem sýnd- ur var í sjónvarpi víða um heim. Á Bregenzer Festspiele þar sem Sigríður Ella söng með kór Scala-óperunnar. Lesbók Morgunblaðsins ˜ 30. október 2004 | 9 „Sirry Ella Magnus, íslenski mezzósópraninn, skaraði framúr í hlutverki Emilíu.“ (Alan Blyth, Daily Telegraph, Rossini: Otello) „Það sem var langmest sannfærandi var aðlað- andi og mildur söngur íslenska mezzósópransins Sirry Ellu Magnus í hlutverki Rubiru.“ (Robert Henderson, Opera Magazine, Boito: Nerone, á Camden-hátíðinni) „Sigríður Magnúsdóttir miðlaði Ruhe Meine Seele eftir Richard Strauss af ástríðufullu næmi í ríkum mæli; og túlkaði lög Sibeliusar mjög fal- lega, þar á meðal Tryst, sem ég minnist ekki að hafa heyrt betur sungið.“ (Denby Richards, Hampstead and Highgate Express, Aldeburgh Festival International Concert Singer’s Award) „Við vorum þeirrar ánægju aðnjótandi að heyra hlýja mezzórödd Sirry Ellu Magnus skara fram- úr í hlutverki Amnerisar.“ (Louis Garde, Le Dauphiné, Verdi: Aida) „Hér er blæbrigðarík rödd, sem syngur vel á öll- um raddsviðum, með undurfagurri túlkun.“ (The Journal / Washington, Saint-Saëns: Samson og Dalíla) „Stórkostlegur mezzósópran, Sirry Ella Magnus. Tónleikagestir voru gagnteknir af blæfegurð þessarar breiðu og miklu mezzósópranraddar, stórfengleik hennar og músíkalskri túlkun.... hún var stórkostleg í orðsins fyllstu merkingu.“ (Germaine Vadi, Les Affiches, Berlioz: Les Nuits d’Été) „Þvínæst fylgdu litríkar þjóðlagaútsetningarnar, þrungnar tilfinningu, lífi og fegurð í söng ís- lenska mezzósópransins, Sirry Ellu Magnus.“ (Der Bund / Bern, Manuel de Falla: Sjö spænskir söngvar)

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.