Morgunblaðið - 14.07.2004, Page 27
segja amma og afi og síðan hefur
hún alltaf kallað ykkur ömmu Fríðu
og afa Gunna í Svíþjóð.
Eftir tveggja ára dvöl okkar í Sví-
þjóð fluttum við litla fjölskyldan aft-
ur til Íslands, ævintýraferðin búin
og eftir sitja margar skemmtilegar
minningar en upp úr stendur sá
sterki vinskapur og öll sú hlýja og
hjálpsemi sem þið veittuð okkur á
þessum árum. Síðan liðu árin, þið í
Svíþjóð og við heima á Íslandi. Við
Beta töluðum reglulega saman í
síma og símreikningarnir voru oft
ansi háir á þessum tíma. Við fengum
fréttir af ykkur og alltaf munduð þið
eftir Írisi Ósk á afmælum og jólum
og eftir að Ólöf Ýr fæddist gleymd-
ist hún ekki.
Árið 1998 fluttust þið svo aftur til
Íslands. Mikil tilhlökkun hjá okkur
og áttum við saman margar gleði-
stundir eftir að þið fluttuð heim.
Árið 2000 fundum við litla fjöl-
skyldan aftur fyrir ævintýraþránni
og fluttumst til Danmerkur. Nokkr-
ar hafa heimferðirnar verið hjá okk-
ur síðasta ár vegna veikinda pabba
og núna í febrúar kvaddi hann svo
þennan heim eftir erfið veikindi. Þú
sem varst svo duglegur að stappa í
mig stálinu og er mér það svo minn-
isstætt hvernig þú kenndir mér
slökunaröndunina sem reyndist þér
svo vel við jarðaförina þegar móðir
þín dó. Ekki grunaði okkur á þeirri
stundu að þinn tími væri að nálgast,
svo hress og kátur sem þú varst og
ekki hægt að ímynda sér að aðeins 5
mánuðum seinna upp á dag yrðir þú
borinn til hinstu hvílu.
Megi guð varðveita þig, elsku vin-
ur.
Hversvegna er leiknum lokið?
Ég leita en finn ekki svar.
Ég finn hjá mér þörf til að þakka
þetta sem eitt sinn var.
(Starri í Garði.)
Elsku Fríða, Beta, Judith, Svav-
ar, Sunna, Tanja og Ísabella Eir og
aðrir ástvinir, við vottum ykkur
okkar dýpstu samúð. Guð blessi
ykkur í þessari miklu sorg.
Lilja, Hilmar, Íris Ósk
og Ólöf Ýr.
Elsku afi Gunni í Svíþjóð.
Þú hefur alltaf verið eins og afi
fyrir mig, ég hef elskað þig eins og
afa og þegar ég var lítil kallaði ég
þig alltaf afa í Svíþjóð og geri enn.
Í Svíþjóð hélt ég alltaf að þú vær-
ir afi minn. Mínar minningar munu
alltaf vera í hjarta mínu, minningar
um það hversu góð þið amma Fríða
voruð alltaf við mig. Þú gerðir mig
glaða og fékkst mig til að brosa og
hlæja ef ég var leið. Það er erfitt að
sætta sig við að þú sért farinn, það
er bara eins og að þú hafir farið í
vinnuna og komir brátt aftur. Ég
vona að þú hafir það gott í himnaríki
og megi Guð vernda, passa og elska
þig jafnmikið og allir elska þig hér.
Hugur minn mun alltaf vera hjá þér.
Kær kveðja
Íris Ósk.
Í dag kveðjum við vin minn Gunn-
ar Christiansen. Gunni, en það var
hann kallaður venjulega, var fæddur
í Færeyjum en flutti ungur til Vest-
mannaeyja og síðan til Reykjavíkur.
Það var í ársbyrjun 1965 að ég hóf
nám hjá Sláturfélagi Suðurlands, þá
var Gunni þar í námi og með okkur
tókst mikil vinátta sem staðið hefur
í tæp 40 ár og hafa aldrei slitnað
vináttutengsl okkar. Þegar Gunni
lauk námi réðst hann sem fagmaður
í kjötverslun í Hólmgarði. Þar
kynntist hann Fríðu (Hólmfríði
Kristinsdóttur). Gunni og Fríða
eignuðust hana Betu (Elísabet), hún
er í sambúð með Svavari Guðjóns-
syni og dæturnar eru þrjár. Þegar
ég skrifa minningargrein um Gunna
er það erfitt, þetta er eitthvað skrít-
ið. Þetta átti ekki að fara svona, við
áttum eftir að gera svo margt, eins
og t.d. að fara til Ítalíu, eins áttum
við eftir að spila marga hringi í golfi
og margt annað. Við vorum heppnir
með það að konurnar okkar urðu
líka góðar vinkonur. Það eru svo
margar samverustundir sem við
höfum átt saman og ferðalög bæði
hér heima og í Færeyjum og Sví-
þjóð en Gunni og Fríða höfðu búið
bæði í Færeyjum og Svíþjóð. Gunni
var góður fagmaður, matargerð
hafði hann í puttunum og þjónustu-
lund góða, hann var eftirsóttur í
þjónustustörf. Hann hlustaði vel,
það var oft sem við sátum saman að
spjalli um lífið og tilveruna, hann
hafði yndi af tónlist og var mikill
fagurkeri. Fæðingarstað sínum vildi
hann vel og skipuðu Færeyjar stór-
an sess í hans lífi. Gunni minn, ég
þakka þér fyrir þennan tíma sem við
höfum átt. Mér þykir slæmt að geta
ekki verið viðstaddur útförina en
þetta fylgir sjómennskunni. Fríða,
Beta, Svavar, Sunna, Tanja og Ísa-
bella, ykkur votta ég mína dýpstu
samúð.
Þinn vinur
Guðjón H. Finnbogason.
Gunni Færeyingur eins og við
vorum vanir að kalla hann er nú far-
inn frá okkur á annað tilverustig,
langt fyrir aldur fram.
Með þessum fátæklegu orðum
langar mig að minnast vinar míns
sem var mér svo kær.
Ég kynntist honum sem ungur
maður í knattspyrnufélaginu Þrótti.
Gunni var liðtækur knattspyrnu-
maður og spilaði og starfaði að fé-
lagsmálum fyrir félagið sitt í mörg
ár. Gunni kom hingað til lands
ásamt foreldrum sínum og systur
sem ungur maður frá heimalandi
sínu, Færeyjum, en alla tíð var hann
landi sínu mikill „ambassador“ hér á
landi.
Þó að Gunni væri færeyskur þá
var ekki hægt að heyra það á mæli
hans því íslenskan hans var betri en
okkar ef eitthvað var. Já, það lá
greinilega vel fyrir Gunna að læra
tungumál því hann dvaldist um hríð
í Svíþjóð og það sama var um
sænskuna, hann talaði hana eins og
innfæddur.
Ég varð þeirrar lukku aðnjótandi
að hafa Gunna í vinnu hjá mér, bæði
sem þjón og sem matreiðslumann.
Hann var reyndar lærður kjötiðn-
aðarmaður en matreiðsla var eitt-
hvað sem lék í höndunum á Gunna.
Við unnum saman að kynningar-
málum fyrir Færeyjar og það þótti
Gunna ekki leiðinlegt. Ef einhvern
ætti að aðla fyrir óeigingjarnt starf
fyrir land sitt þá hefði það átt að
vera hann en það er of seint núna og
við sem þekktum Gunna vitum að
það var ekki hans stíll að sækjast
eftir slíku. Hann var ekki vanur að
hrósa sjálfum sér fyrir mörg þau
góðu verk sem hann leysti af hendi
heldur sáu aðrir um það og mættum
við mörg taka hann til fyrirmyndar í
því sem svo mörgu öðru í fari hans
sem gerði hann svo einstakan.
Við fórum margar ferðirnar sam-
an til Færeyja og þá sá ég hversu
Gunni unni heimahögum sínum og
hélt ætíð tryggð við sitt fólk, já
þannig var Gunni sannur vinur vina
sinna. Þessi hægláti góðlegi maður
sem nú er farinn skilur eftir margar
góðar minningar sem koma til með
að vera í huga mínum um ókomna
tíð. Það fór ekki mikið fyrir Gunna
en skemmtilegur var hann og hnytt-
in tilsvör voru hans aðalsmerki sem
gerði það að verkum að Gunni var
hvers manns hugljúfi.
Að lokum vil ég segja þetta kæri
vinur:
Þakka þér fyrir allt sem þú gafst
mér með viðveru þinni, og Fríða mín
og aðrir nákomnir ættingjar, ykkur
votta ég mína innilegustu samúð og
megi góður Guð styrkja ykkur í
sorg ykkar.
Far þú í friði, elsku Gunni minn.
Jóhannes Viðar Bjarnason
Kæri vinur. Hvern gat grunað að
þegar við kvöddum þig í apríl væri
það í síðasta skipti sem við hittumst.
Á þessari stundu reikar hugurinn
vítt og breitt um fleiri ára minn-
ingar, þegar maður hefur þekkst í
yfir þrjátíu ár er af mörgu að taka.
Samt er allt bara tómt þegar það
rennur upp ljós, þú ert horfinn og
við komum aldrei til með að hittast
aftur. Hvernig kveður maður vin
sinn, bara í orðum eða með kveðju
sem birtist á prenti? Minningarnar
um þig verða alltaf til staðar, þær
getur enginn tekið frá okkur, að
setja þær á prent núna er alltof sárt.
Við höfum því miður ekki tök á að
fylgja þér síðasta spölinn, en kveðj-
um þig með þessum línum. Hvíldu í
ró, elsku Gunnar.
Elsku Fríða, Beta, Svavar, Sunna,
Tanja og Ísabella, við vottum ykkur
okkar dýpstu samúð og hugur okkar
er með ykkur á þessari sorgarstund.
Júlíus Sigmundsson
og Birna Ágústsdóttir.
Mér brá talsvert þegar góður vin-
ur okkar kom til mín þar sem ég var
að undirbúa síðustu vormessuna
okkar í Skårs-kirkju í Gautaborg og
sagði mér þær fréttir að þú lægir
þungt haldinn af erfiðum sjúkdómi.
Á hljóðri stund í guðsþjónustunni
sameinuðust allir gömlu félagarnir
þínir um kveðju. Hlýjar hugsanir
streymdu frá Íslendinganýlendunni
í Gautaborg heim til þín.
Á meðan þú bjóst hér var það
segin saga að þegar leið á sumarið
hringdirðu í mig og sagðir: „Eigum
við ekki að fara að byrja?“ Með
þessari spurningu áttirðu við það
hvort kórinn okkar ætlaði ekki að
fara að hefja vetrarstarfið. Þú varst
oft óþolinmóður og þér þótti satt að
segja eitthvað vanta þegar þú gast
ekki komið á æfingar á mánudags-
kvöldum. Þannig varstu dæmigerð-
ur fyrir hinn sanna kórfélaga og
alltaf varstu boðinn og búinn til þess
að standa í ýmsum uppákomum í
kórnum og nýlendunni allri. Það var
æði oft að þú varst aðalmaðurinn og
skipuleggjandinn í alls kyns veislu-
höldum og fagnaði.
En svo skildi leiðir. Þú fluttir
heim á Frón með fjölskylduna. Það
varð skarð fyrir skildi í nýlendunni.
En þannig er lífið og það eru sjaldan
gleðifregnir fyrir kórstjórann þegar
tryggur félagi kemur og segir:
„Jæja, nú er ég bara að flytja heim.“
En alltaf héldum við þó sambandi og
ég fylgdist til dæmis af áhuga með
tilraunum þínum og kunningjanna
með að halda utan um hóp heim-
fluttra kórfélaga.
Gunnar, vinur og félagi. Nú verð-
ur ekki af því að við förum til Fær-
eyja undir þinni leiðsögn, eins og við
vorum þó oft búnir að tala um. Ég
var búinn að hlakka til að fara þessa
ferð með þér. En það er ætíð svo að
maðurinn áformar en Guð ræður.
Kæra Fríða, á þessari stund vil ég
flytja þér samúðarkveðju kórfélag-
anna í Gautaborg. Kunningjar og
vinir hugsa til þín á erfiðri stund, en
við skulum vera minnug þess að
minningin um góðan dreng og
tryggan félaga lifir.
Kristinn Jóhannesson.
Leiðir okkar Gunna lágu saman
þegar hann hóf störf hjá Sælkera-
dreifingu sumarið 2002.
Gunni var og er yndislegur maður
sem á sér fáa líka. Góðmennska, yf-
irvegun, húmor og réttlæti – öllu
þessu fékk ég að kynnast hjá honum
Gunna.
Það voru skemmtilegir tímar sem
við áttum saman í Sælkeradreifingu
og mun ég aldrei gleyma þessum
fáu en góðu árum.
Elsku Gunni minn, megi góður
guð vera með þér og þínum á þess-
um erfiðu tímum.
Þessi yndislegu kynni mun ég
varðveita að eilífu, takk fyrir allt.
Þinn vinur
Sigurgísli Bjarnason.
Okkur langar að kveðja vin okkar
Gunna sem lést 1. júlí, eftir stutta en
erfiða sjúkdómslegu. Gunni var gift-
ur æskuvinkonu okkar, þau kynnt-
ust fyrir allmörgum áratugum, þeg-
ar hippatíminn, blómatíminn og
Glaumbæjarfjörið stóð sem hæst.
Þau gengu í hjónaband 1970, eign-
uðust sólargeislann sinn Elísabetu
1972 og hún á þrjár dætur. Gunni
var dagfarsprúður maður, hafði
mikið dálæti á dóttur sinni og afa-
börnum sínum. Hann var alltaf
reiðubúinn að gefa af sér til þeirra.
Hann var góður eiginmaður, hafði
marga eiginleika og áhugamál, þar á
meðal tónlist og söng sem var hans
yndi og hann var í kór. Þau voru
sérstaklega gestrisin og alltaf var
gott að koma til þeirra.
Nú er komið að kveðjustund. Við
vinkonurnar minnumst Gunna sem
sanns Víkings og Færeyings. Við
vottum Fríðu, Elísabetu, Svavari,
dætrum þeirra og ættingjum dýpstu
samúð.
Einn þú hefur allt í höndum,
öll þér kunn er þörfin mín,
ó, svo veit í alnægð þinni
einni mér af ljósi þín.
Anda þinn lát æ mér stjórna,
auðsveipan gjör huga minn,
og á þinnar elsku vegum
inn mig leið í himin þinn.
(Steingrímur Thorsteinsson.)
Hvíl þú í friði.
Hulda Fríða og Erla.
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(Vald. Briem.)
Við kveðjum þig með miklum
söknuði, elsku vinur.
Axel og Sólveig.
Fyrir þrjátíu og fimm árum síðan
stóð ungur maður fyrir framan mig í
Kjötbúðinni Hólmgarði, hann var að
sækja um vinnu. Gunnar var þá ný-
útskrifaður sem kjötiðnaðarmaður
frá Sláturfélagi Suðurlands, tvítug-
ur að aldri. Fljótlega kom í ljós að
Gunnar var frábær fagmaður, ná-
kvæmur og vandaður til allra verka.
Þrátt fyrir rólegt yfirbragð var
hann fljótastur allra að vinna kjöt,
en það var svo með öll hans verk að
hann gekk að þeim af miklu öryggi
og fagmennsku. Þar fór maður sem
vissi nákvæmlega hvað hann var að
gera.
Gunnar var 12 ára þegar hann
fluttist með foreldrum sínum og
systur frá Færeyjum til Íslands, en
ekki var hægt að greina á mæli hans
að hann væri frá Færeyjum. Hann
talaði vandað mál og málfræðin var
honum hugleikin. Oft mátti maður
sæta því að hann benti manni góð-
látlega á villur í fljótaskrift dagsins.
Á sama tíma vann hjá mér ung
stúlka, Hólmfríður Kristinsdóttir.
Fljótlega tókust með þeim kynni
sem enduðu með hjónabandi sem
hefur enst alla tíð síðan, svo hefur
og okkar vinátta.
Fallegt heimili og gestrisni var
þeirra aðalsmerki. Okkur Lillý er
mjög minnisstætt þegar við heim-
sóttum þau til Svíþjóðar fyrir
nokkrum árum. Þau hjón gengu úr
rúmi fyrir okkur og báru okkur á
höndum sér þá daga sem við dvöld-
um hjá þeim.
Tónlistin var stór þáttur í lífi
Gunnars. Hann átti stórt plötu- og
diskasafn og var mjög glöggur á
gæði tónlistar á hinum ýmsu svið-
um. Hann var sjálfur liðtækur
trommari og lék með félögum sínum
í Svíþjóð um nokkurra ára skeið
meðan hann dvaldi þar. Kórsöngur
átti hug hans allan og söng hann
bæði í kór í Svíþjóð og hér heima, en
ég veit að aðrir munu gera þeim
þætti betri skil.
Stuttu eftir að þau hjón fluttu
heim frá Svíþjóð hófum við Gunnar
að hittast reglulega og bættust aðrir
félagar fljótlega í hópinn svo úr varð
matarklúbbur sem hefur fundað
tvisvar í viku sl. 5 ár. Oft var gest-
kvæmt á þessum fundum og voru
það að mestu gestir á vegum Gunn-
ars bæði frá Svíþjóð og Færeyjum.
Hans er nú sárt saknað í þeim hópi.
Gunnar hafði mikinn áhuga á að
efla samstarf á sviði tónlistar milli
þessara þriggja þjóða: Íslands,
Færeyja og Svíþjóðar og hafði hann
ýmislegt á prjónunum í þeim efnum
þegar hann féll frá.
Elsku Fríða, við Lillý sendum þér
og fjölskyldu þinni okkar innileg-
ustu samúðarkveðjur. Megi Guð
styrkja ykkur í sorg ykkar.
Farðu í friði guðs héðan
frá þér tekin þraut
drenginn ljúfan fengum léðan
lífs á sinni stuttu braut.
Gunnar Páll og Lillý.
Mig langar með fáum orðum að
minnast vinar míns og félaga Gunn-
ars Christiansen.
Leiðir okkar Gunna lágu saman
er ég keypti af honum fyrirtæki
hans og réð hann í vinnu. Gunni var
góðmenni og sérhvers hugljúfi, ró-
legur og yfirvegaður herramaður.
Hann var fæddur í Færeyjum og
átti alla tíð góð tengsl við föðurland-
ið.
Við Gunni ferðuðumst mikið sam-
an og er einna minnisstæðust ferð
okkar norður að landamærum Sví-
þjóðar og Finnlands þar sem við átt-
um ánægjulegar stundir með
sænskum viðskiptafélögum okkar.
Gunni var mjög vel tengdur Sví-
þjóð enda bjó hann þar í mörg ár og
talaði sænskuna eins og innfæddur.
Það er mikil eftirsjá að Gunna og
sorglegt að læknavísindin gátu ekki
hjálpað honum.
Elsku Fríða, við biðjum góðan
guð að halda verndarhendi yfir þér,
dóttur ykkar og fjölskyldu í ykkar
miklu sorg.
Ég veit að það verður einmana-
legt til að byrja með en tíminn
læknar öll sár.
Megi góður guð blessa minningu
Gunna um alla eilífð.
Bjarni Óskarsson og fjölskylda.
Kveðja frá kórfélögum
Guð geymir sálir látinna,
við sem eftir lifum geymum minning-
arnar.
Kórfélagi okkar Gunnar Christi-
ansen er látinn og langar mig fyrir
hönd okkar kórfélaganna að minn-
ast hans. Minningarnar um Gunnar
eru í senn ljúfar og góðar. Gunnar
var prúður maður, einstaklega hlý-
legur og kurteis. Hann hafði góða
nærveru og brosið hans var í senn
fallegt og fullt af kímni. Það var gott
að fá bros frá Gunnari þegar mætt
var á kóræfingar, hann var lúmskt
fyndinn og oftar en ekki gátum við
hlegið að einhverri vitleysunni. Við
Gunnar ræddum síðast saman þegar
kórinn fór í æfingaferð í Brautar-
tungu í byrjun mars sl. og þá var
Gunnar orðinn veikur án þess að
nokkurt okkar gerði sér grein fyrir
alvarleika veikindanna. Þar ræddum
við um allt það sem lífið hefur upp á
að bjóða og er sannarlega hluti af
því að vera til. Það var í senn gaman
og fróðlegt að spjalla við Gunnar.
Það var einkennileg tilfinning, sem
við fundum öll fyrir þegar kórinn fór
til Færeyja í söngferð í byrjun júní
sl. en þá átti Gunnar þess ekki kost
að vera með. Þetta var hans hug-
mynd og hans heimaslóðir en veik-
indi hans komu í veg fyrir að hann
væri með okkur. Mig langar með
fallegu ljóði Páls Óskars að senda
fjölskyldu Gunnars og ættingjum
öllum, mínar dýpstu samúðarkveðj-
ur og bið guð að veita þeim styrk og
þol á erfiðum tímum.
Þegar næðir í mínu hjarta og í huga mér
engin ró
og ég þrái að sjá hið bjarta sem að áður í
mér bjó
þá er lausnin ávallt nálæg, ef um hana í
auðmýkt bið
og með bæninni kemur ljósið og í ljósinu
finn ég frið.
Ó, svo dapur er dagur vaknar,
dægurþrasið svo fjarri er.
Mundu þegar þú sárast saknar og sólin
skín hvergi nálægt þér
að í bæn er falinn máttur er þig magnar
þúsundfalt
því með bæninni kemur ljósið og í ljósinu
lagast allt.
(Páll Óskar/Brynhildur Björnsdóttir.)
Guðrún Jóna Bragadóttir.
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 14. JÚLÍ 2004 27