Lesbók Morgunblaðsins - 19.11.2005, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 19.11.2005, Blaðsíða 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 19. nóvember 2005 | 3 S jáðu skáldið,“ sagði félagi minn. Hann benti yfir götuna á mann sem virtist styðja sig við norðan- áttina svo hann dytti ekki fram- fyrir sig og var greinilega á hrað- ferð. Þótt fæturnir lyftust vart upp af gangstéttinni skutust þeir ákveðið fram um leið og sígarettustrókurinn stóð upp af yf- irvaraskegginu eins og eimreykur úr sjóðandi katli. Það var ekki oft sem fullorðið fólk á besta aldri sást fótgangandi í bænum um miðjan dag. Allir voru í vinnu. Þyrftu menn að komast ferða sinna fóru þeir þær í bíl. En skáldið gekk. Og án þess að við hefðum á hraðbergi nokkurt kvæði eftir þennan mann, eða vissum til þess fyrr að hann hefði nokkurt ort, þá skynjuðum við að hér voru á ferð ósvikin tákn þess skáldlega. Hvort sem litið var á hið gróskumikla skegg, hinn fjarræna svip eða hina filterslausu sígar- ettu sem bálaði skáhöll upp í goluna; þá var okkur ljóst að hér var öll bandvídd skáldskap- arins á ferð út í sína dularfullu erindisleysu. Þessi maður var ekki á leið út á Kaupfélags- skrifstofur, hann var ekki á leið út á Eyri – hann bara gekk. Þetta var Geirlaugur Magnússon. Hann var kominn þarna norður í útlegðina á Króknum. Það voru hins vegar ekki yf- irvöldin sem höfðu sent hann að þessu Svartahafi eins og hinn klassíska Óvíð, heldur höfðu keisarar fátæktar og óreglu hrakið hann burt úr borginni. Honum var ekki vært fyrir sunnan fremur en öðrum sem gátu ekki dansað línudans meðalmennsk- unnar. Sá sem elst upp á landsbyggðinni kemst fljótt að því að andlegir hressingarstraumar berast honum einvörðungu í líki slíkra manna. Skáldskapurinn, stóri skáldskapurinn, er þar ekki til nema sem hvísl einmana manns á flótta undan ógæfunni sem virðist þrátt fyrir mátt sinn hafa heykst á því að elta hann alla leið inn í þorpið en sveimar útifyrir eins og snuddandi refur, og bíður. Þegar hér var komið sögu voru útgefin verk Geirlaugs ekki mörg og raunar ekki útséð um hvert ferill hans stefndi, en þau voru öll til á bókasafninu og þar kíkti maður í þau af forvitni sinni og sá að hann skrifaði „tunga“ með „ú“i. Hann var jafn einn í ljóð- unum og hann var á berangri skagfirskra gang- stétta. Eldar loguðu og maðurinn í kvæðinu gekk um þá hring eftir hring. Hinir miklu merkingareldar loguðu honum ekki, heldur skuggum sem bærðust afskræmdir á nakinni jörð og gerðu dvergana stóra svo þeir mikl- uðust af skuggaveröldinni. Kvæðamaðurinn vissi betur. Skuggarnir voru skin af eldum sem aðrir höfðu kveikt. Dvergarnir voru ekki risar. Og það skar hjarta hans að enginn annar hafði augun til að sjá og maður fann að það var engin uppgerð. Með því að blanda í orðin nægilega mikilli hélu varð sársaukinn að vísu stilltari, rétt eins og þegar hrært er í rjúkandi sláturblóði svo storkan smám saman stillist og úr verður dökk- ur og kaldur vökvi. Það breytir því hins vegar ekki að þessi vökvi er áfram blóð. Útlegðin Sársaukinn reynist skáldum erfiðari en aðrar kenndir vegna þess að hann er sínálægur. Menn eins og Houllebecq segja að án sársauka og örvilnunar sé enginn skáldskapur. Þess vegna eru mikil sársaukaskáld alltaf umbreyt- ingamenn og myndasmiðir. Kynslóðir örvænt- andi ungmenna hafa staðið með viðbjóðsgrettu frammi fyrir allri þeirri framfaraglöðu bjart- sýni sem nútíminn hefur átt ókjörin af frá fæð- ingu sinni. Hugur þeirra stóð ekki til þess að kveikja í bílum eða hengja harðstjóra. Eða til hvers að standa í því? Til að reisa við enn eina borgaralegu framfarastjórnina? Koma af stað enn einni fáránlegri öldu bjartsýnna væntinga á verðbréfamörkuðunum? Tilfinningar þeirra urðu að ljóði. Á ferð við skógarjaðar í ljósaskipt- unum sáu þau döggina perla á dádýrsbóg og aldna borgarmúra drjúpa höfði yfir sjúkri byggð. Þau drukku svarta mjólk í dimmum klefum. Þau fóru í útlegð. Þessi sjúki nútími: þetta sölumannasamfélag sem gat ekkert fag- urt séð svo ekki yrði úr því verðmiði. Þessi nú- tími sem gat ekki hitt fólk af öðru bergi brotið nema breyta því í markaði og hráefni og hætti ekki fyrr en síðasta tréð var hoggið, síðasta áin virkjuð og síðasti olíudropinn brunninn upp í síðasta slagrýminu. Andspænis honum var and- staðan, mótmælin, aðeins enn ein staðfestingin. Það er í óvissu hinnar flöktandi merkingar út- legðarskáldsins sem spurningamerkið lýsir skærast. Þess vegna sækja alltaf einhverjir af hverri kynslóð í þennan brunn. Hvort sem það eru Bukowski, Baudelaire eða Bök. Alltaf er sótt í það sem er í senn áhrifalausast og áhrifa- mest: ljóðmálið. Málamiðlanalaust tungumál sem hræðir í óræðni sinni. Í meira en tuttugu ár bjó Geirlaugur Magn- ússon í eins konar frumgerð þessa andlega um- sátursástands. Einhver andstyggileg tilviljun hafði ráðið því að á ljótasta og vindasamasta bletti í hinum annars fagurmótaða Skagafirði hafði myndast bær sem í byrjun níunda áratug- arins var orðinn nægilega stór til að hýsa fram- haldsskóla. Þar hafði Geirlaugur lent. Eftir langa útivist í Sovétríkjunum, Póllandi og suður í Frakklandi þarfnaðist föðurlandið helst krafta hans við kennslu í nýstofnuðum fjölbrautaskóla. Jónas frá Hriflu sagði víst við Jakob Benedikts- son á heimleið þess síðarnefnda – þá spren- glærður doktor, háskólakennari, þýðandi og mikilsvirtur fræðimaður – að það væri nú gott að hann væri á leiðinni heim, það vantaði ein- mitt barnakennara á Tálknafirði. Framfara- sinnarnir vilja alltaf hafa ljóðskáld einhvers staðar við kennslu, helst við barnaskóla í Kas- akstan. Það verður ekki fyrr en verðbréfakyn- slóðin drepst að til verða nógu ríkir erfingjar á Íslandi til að bera uppi sjálfstæð ljóðskáld sem geta ort sín hnignunarljóð í friði frá stjórnvöld- um og þurfa ekki að betla. Aðrir hafa lýst því betur en mér er unnt – ég bendi á bókina Steintré eftir Gyrði Elíasson – hvernig Geirlaugur bjó sér til einstæða bóka- veröld mitt innan um einbýlishúsin, jeppana og síhvínandi norðanáttina á Sauðárkróki. Þeir sem lesið hafa ævisögur rússneskra útlaga í París eða frásagnir þeirra þýskumælandi rit- höfunda sem hröktust til Ameríku undan nas- ismanum kannast við þessi lofttæmdu rými. Út- laginn finnur sér alltaf leið til að endurbyggja sitt andlega föðurland í mínatúrmynd. Og fyrir þá sem villtust inn í þetta rými utan úr skag- firsku sagnagleðinni og sönglistamennskunni var þetta hressandi bað. Því heima hjá Geir- laugi sló önnur klukka en sú sem mældi tímann í Skagafirði. Þar voru bókmenntirnar vart til á bókum, þær voru nánast undantekningalaust mæltar af munni fram. Sagnageymdin náði í grófum dráttum tvær kynslóðir aftur, svona til síðustu áratuga 19. aldar, þaðan sem slitrur af vísum, einkennileg tilsvör og goðsögulegt hátt- erni á borð við kappreiðar á hestasleðum eða björgunarafrek gáfaðra forystuhrúta lýsti inn í sjónvarpsvæddan nútímann eins og geisli af ótrúlegu ævintýri. Hjá Geirlaugi var þessi heimur útþurrkaður með öllu. Orðin voru á sviði heimsins, hinnar víðfeðmu evrópsku menningar þar sem þau spyrntu við og ólmuðust og tálguðu út kenndir og fundu til. Þau tengdu saman merkingarheima og skýrðu óskarpa skynjun og undir þeim byltist sársaukinn: Þetta skildi mað- ur strax þegar komið var heim til hans. Þeim ferðum mátti líkja við ljóðaboðhlaup því aldrei þótti Geirlaugi fullrætt um skáld nema hann héldi líka á bók eftir það, en þá kom í ljós að hann mundi ekki alveg hvort hún var í þriðju eða annarri hilluröð, eða hvort hún var kannski inni í svefnherbergisskáp, kannski undir öðrum bókum í stafla í eldhúsinu eða þá þeim sem var við hliðina á sófanum, og yrði manni á að nefna óvart einhvern andlegan nábýling þessa góða höfundar hófust hlaupin umsvifalaust aftur uns eftir mikið rót og rask að úrvalsritröð tiltekins skáldskaparstíls lá á borðinu fyrir framan mann. Þá var tekið til við upplestur og viti menn, kom þá einmitt ekki í ljós að hann hafði einmitt verið að dunda sér við að þýða eitthvað upp úr honum þessum og heitur í höfðinu rangl- aði maður heim seinna um kvöldið með dans- andi norðurljósin fyrir augum en hraðkúrs í evrópskum módernisma suðandi í heilanum, nötrandi af blekkaffinu og miklum óbeinum reykingum. En svo sat maður næsta dag og grenjaði af hlátri yfir tilsvari hjá einhverjum sem hermt var eftir af stakri nákvæmni eða heyrði þá um ævintýralegt kappskeið á gullöld reiðmennsk- unnar og um leið lifnaði þetta svið sem manni hafði heima hjá Geirlaugi virst vera hreint eyði- land. Í híbýlum útlagans, í svarta herberginu þar sem svart kaffið og filterslausu sígarett- urnar voru teygaðar með spurningamerkjum módernismans, var líkt og ekkertið fyrir utan væri svo hyldjúpt að enginn umbreytingarvilji gæti fundið sér þar nokkurt hald, nema ef vera skyldi í einni stjörnu, einni norðurljósalínu, einu korni af svörtum sandi. Sjálft samfélagið með ættfærslum sínum, blóðlínum og munnlegri geymd var gjörsamlega tilgangslaust sírat. Og hin óhjákvæmilega spurning vaknaði: Var sá sem tileinkaði sér bókmenntahefð þessa sam- félags ófrávíkjanlega sokkinn í slíkt fen af bulli að orð hans væru marklaus? Þegar maður las ljóð Geirlaugs skynjaði mað- ur fljótt að tjáning hans reis af þessum óhjá- kvæmilega samanburði. Allur hressleiki og til- finningasemi alþýðumenningarinnar varð honum að efnivið í þjáningarfullar myndir af einmana manni sem hvílir svefnlaus með nótt- inni uns dögunin kemur og stelur þessari einu huggun frá honum, manni sem biður lesendur sína að vara sig á fuglasöngnum. Þessi heimur fyrir utan svarta herbergið var eins konar gildra. En ég var og er þess fullviss að skilin á milli heima svarta herbergisins og ljóssæknu sönglistamannanna voru alltof skörp, því hvern- ig hafði ég átt að fordæma skáldskap Geirlaugs fyrir það að vera módernísk einangrunarstefna þegar hann opnaði mér sjálfum leið úr ein- angrun skagfirsku sagnalistarinnar? En oft síð- ar, og raunar alla mína hunds- og kattatíð í bók- menntalífinu, hef ég verið umsetinn mönnum og konum sem vilja slá upp múrum, loka eitthvað inni, eyða öðru til að upphefja hitt. Það er alltaf annaðhvort eða. Hefði ég staðið í þeim sporum gagnvart Geirlaugi hefði ég orðið að velja eða hafna: Vil ég fylgja honum að málum eða hafna honum? Í mínum augum var sjálfur lykillinn að honum fólginn í stórbrotnum núningnum á milli útlagans og flóttalandsins, ekki í því að ganga inn í útlagaheiminn og dvelja þar með honum. Maður skildi hann ekki nema innan- og utanfrá í senn. Og burtséð frá því voru skilin milli heim- anna ekki skiljanleg nema maður hefði lagt á minnið markatöflur borgarastétta Vesturlanda síðustu tvöhundruð árin. Hvers vegna skildi ég, verkamannssonurinn og bændadrengurinn, elta svoleiðis dellumakerí? Þegar spurn- ingamerki fara að vera útilokunarmerki eru þau hætt að virka. Því til hvers eru spurningamerki ef ekki má nota þau til að spyrja? Hvað með þá sem aldrei hafa heyrt þeirra getið? Samkvæmt aðskilnaðarstefnunni máttu þeir í raun ekkert segja nema til að staðfesta borgaralegt sölu- ógeðið. Það opnaðist fyrir mér gátt: Hinir brennandi umbreytingarstólpar tungumálsins þurfa ekki að koma utan úr módernísku ljóða- hefðinni. Þeir geta alls staðar stungið upp koll- inum. Fyrsta skrefið til að átta sig á því er að opna svörtu herbergin og faðma sársauka út- lagans. En kannski sættist maður aldrei fylli- lega við annan sársauka en sinn eigin. Í hellinum Geirlaugur orti sínar bestu bækur á rúmu tíu ára tímabili frá miðjum níunda áratug fram á miðjan þann tíunda. Á þessum tíma skapaði til- vera útlagans, sársaukinn yfir að lifa á þessum tímum og ljóðmálið sem hann hafði þjálfað við lestur evrópsku bókmenntahefðarinnar sér- stakar og miklar bókmenntir. En undir lok þessa tímabils fór mörgu að hraka. Ógæfurebb- inn beit í hælana á honum jafnskjótt og hann komst út fyrir Krókinn. Ég hitti hann hér í Reykjavík illa til reika, drukkinn og slæptan og heilsulítinn þar sem hann slútti yfir glasið með sígarettuna og átti lítið eftir af sinni gömlu and- legu glóð. Eins og eðlilegt er finnst manni að sjálfur hafi maður brugðist á slíkum stundum. Einhvern veginn hefði maður kannski getað hjálpað og gert sig að hetju, en auðvitað eru það bara sjálfsgælur sálarinnar. Hver maður ber sinn sársauka með sínum hætti. Hann hraktist sífellt lengra að jaðrinum. Síð- ast þegar ég hitti hann á Króknum var hann sestur að í eins konar afhýsi í heimavist fjöl- brautaskólans. Líkt og í metafísísku draum- málverki eftir de Chirico gekk maður upp fá- ránlegar tröppur sem tyllt var utan á vegg uns komið var að hurð hátt þar uppi, eiginlega á miðri húshliðinni. Fyrir innan blasti síðan við íverustaður sem minnti allt í senn á sumar- bústað, helli og sorpgeymslu. Mörg hundruð galtómum gosflöskum var raðað upp um háa glugga, uppi á bitum, bekkjum, skápum og búkkum, en undir þeim voru bækur, ekkert nema bækur, og það logaði á tölvu með tvískipt- um skjá, fréttirnar á RÚV voru í einum hlut- anum en ljóð í hinum. Samræðurnar voru stirðar. Geirlaugur var eins og hestur sem er erfiður í tamningu. Það þurfti að eiga við hann á hverjum degi til að fá fram það besta í honum en jafnvel þá þegar maður hélt að maður hefði í fullu tré við hann átti hann til að hrekkja. Ef hann hafði ekki verið brúkaður lengi var hann ómögulegur. Maður náði einfaldlega engu sambandi við hann. Undir lok heimsóknarinnar sátum við lengi og þögð- um, hann horfði á þöglar sjónvarpsfréttir sem höktu í netútgáfunni eins og manneskjurnar á skjánum væru púsluspil sem sífellt var verið að raða saman. „Jæja,“ sagði hann loks. „Ég má ekki vera að hanga yfir þessu lengur.“ Ég hitti hann nokkrum sinnum eftir þetta, alltaf fullan og aldrei til viðræðu um neitt af viti. Ég sá hann síðast í Bankastræti þar sem hann stikaði skáhallt gegnt útsynningnum eins og hann hallaði sér upp í hann og upp af honum stigu reykjarský líkt og eimvél væri kynt í sí- fellu. Hann var á hraðferð og ég skynjaði þrátt fyrir allt að hér var öll hin mikla vídd skáld- skaparins á ferð með sitt dularfulla erindi. Ég sá skáldið. Sjáðu skáldið Í minningu Geirlaugs Magnússonar Morgunblaðið/Einar Falur Geirlaugur Magnússon „En skáldið gekk. Og án þess að við hefðum á hraðbergi nokkurt kvæði eftir þennan mann, eða vissum til þess fyrr að hann hefði nokkurt ort, þá skynjuðum við að hér voru á ferð ósvikin tákn þess skáldlega.“ Hér sést skáldið á Suðurgötu á Sauðárkróki, með kerti í hönd.Eftir Kristján B. Jónasson kristjan.jonas- son@edda.is Höfundur er bókmenntafræðingur og þróunarstjóri Eddu útgáfu.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.