Lesbók Morgunblaðsins - 19.11.2005, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 19.11.2005, Blaðsíða 7
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 19. nóvember 2005 | 7 U ppsetning Vesturports á leik- riti Jóns Atla Jónassonar Brim hefur ekki gert síður víðreist en sýning hópsins á Rómeó og Júlíu. Síðan Brim var frumsýnt í gamla véla- salnum í Vestmannaeyjum 2004 hefur sýn- ingin ferðast á leiklistarhátíðir í Þýskalandi og Finnlandi auk sýninga á Ísafirði, Akureyri og í Hafnarfirði. Skemmst er frá því að segja að líkt og með Rómeó og Júlíu hafa viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda síst verið af verri endanum, heima og heiman. Hinn 24. september síðastliðinn gerði Vest- urport hlé á æfingum og forsýningum á Woy- zeck og lagði á ný land undir fót með Brimið í farteskinu. Nú var förinni stefnt til Moskvu í þeim erindum að viðra sýninguna á leiklist- arhátíðinni Golden mask – Novaja Drama, hátíð nýrra leikverka og alþjóðlega hluta Gullnu grímunnar, stærstu leiklistarhátíðar rússneska málsvæðisins. Þess má geta að leikstjórinn Rimas Tuminas, sem sett hef- ur upp nokkrar sýn- ingar hér á landi, vann til verðlauna á Gullnu grímunni 2003 og af- henti Pútín, forseti Rússlands, viðurkenn- inguna í eigin persónu. Reyndar hafði verið tvísýnt um þessa ferð Vesturports austur á bóginn því þó að Gullna gríman sé virt hátíð stendur það í engu sam- hengi við fjárhagslegt svigrúm aðstandenda hennar. Framlag þeirra dugði engan veginn fyrir þeim kostnaði sem óhjákvæmilegur er þegar leikarar, tæknimenn, höfundur og leik- stjóri þurfa að komast á fjarlægan stað, svo ekki sé minnst á flutning leikmyndar, toll- skjalagerð, símtöl fram og til baka, gistingu o.s.frv. En með fulltingi menntamálaráðs og dyggum stuðningi Erlu, Laufeyjar og Jónu hjá Icelandair Cargo tókst að koma til móts við Rússana og sunnudaginn 25. september stóð messi úr íslensku fiskiskipi fullbúinn á leiksviði Meyerhold-leikhússins í Moskvu, í 300 sæta sal á sjöttu hæð. Reyndar ekki al- veg fullbúinn því rottur höfðu tekið sinn toll þegar leikmyndin var stöðvuð í ítarlegri rannsókn rússneskra tollþjóna, eyðublað vantaði í tollskjölin og þó að útflutningsráð Íslands héldi öðru fram varð að borga „sekt“ og stimpla eitthvað og undirrita annað. Skipuleggjendur ferðalagsins urðu óþægilega varir við það að hið alræmda skrifræði fyrr- um Sovétríkjanna virðist lifa góðu lífi enn þann dag í dag á flestum stigum rússnesks samfélags – þannig tók t.d. góða klukkustund að komast í gegnum vegabréfseftirlit She- remetyevo-flugvallar, og þar voru öll eyðu- blöð á rússnesku, þó að gera megi ráð fyrir því að útlendingar séu í miklum meirihluta þeirra sem lúta þurfa vegabréfsskoðun. Einnig var það svo að þrátt fyrir titilinn Int- ernational Hotel Molodyojnaya var það sama upp á teningnum þar, öll eyðublöð og upplýs- ingar á rússnesku og á öllu hótelinu starfaði bara ein stúlka sem gat tjáð sig á eng- ilsaxnesku. Sannast sagna er vistin á International Hotel Molodyojnaya efni í heila bók en fátt eitt skal nefnt hér sem verður að teljast sér á parti. Fyrir það fyrsta virtist hvert herbergi hafa fengið sinn eigin innanhússhönnuð, þ.e. þau voru öll innréttuð í mismunandi stíl, hvert út af fyrir sig. Allir hönnuðir hótelsins hafa þó líklega verið sérútlærðir í samsetn- ingu brúnna litatóna, notkun grófra næl- onteppa í hólf og gólf og sérviskulegri stað- setningu ljósarofa. Einnig virtist mikið hafa verið lagt upp úr pípulögnum sem skreyt- ingu, hvort heldur sem var á miðjum veggj- um eða upp við loft. Þó verður að hrósa sér- lega frumlegri hönnun veggfóðurs, undirritaður gisti t.d. í svarthvítum bjálka- kofa. Ástandið á herbergjunum er svo annar kapítuli útaf fyrir sig, helst datt manni í hug að einhver hefði lagt töluvert á sig til þess að rústa mublur og allt annað sem innanstokks mátti finna. Á herbergi 1107 var t.d. fer- metrastórt gat í baðherbergisveggnum, speg- illinn var sprunginn, sturtuhengið horfið, sturtuhausinn lak stöðugt, líklega eftir að hafa verið notaður til þess að berja sturtu- hausfestinguna af veggnum, niðursturtarinn á klósettinu var snúinn úr hálsliðnum og klóaksfrárennslið lak út á gólfið. Eins og til þess að storka hótelgestum lá svo papp- írsmiði ofan á sprungnu og ýldulegu klósett- inu sem á var letrað „Disinfected“ þó ým- islegt benti til annars. Ég sleppi því að lýsa svefnherberginu. Reyndar virðist Moskva öll frekar nið- urnídd, grá og skítug svo International Hotel Molodyojnaya stakk ekki sérlega í stúf við umhverfi sitt, það gerði hins vegar hið ný- reista og neonljósaprýdda spilavíti og diskó- tek New generation sem áfast var hótelinu. Nafnið vísaði væntanlega í þá stétt nýríku Rússa sem hafa efni á því að leggja stórt undir við spilaborðin og svo síðla nætur lyst á því að borga einhverjum fyrir að leggjast undir sig, en það er allt önnur saga. Frá International Hotel Molodyojnaya að Meyerhold-leikhúsinu er um 30 mínútna ferðalag með neðanjarðarlestarkerfi Moskvu- borgar, stór hluti kerfisins er frá því á tímum Stalíns og stórglæsilegt auðvitað á stórkarla- legan hátt, þó að það sé nokkuð farið að láta á sjá. Snjáðar veggmyndir af hetjulegum verkamönnum og konum, gylltir hamrar og þreskiáhöld skreyta veggi og gólf ásamt bronslágmyndum og stálskúlptúrum Sov- étríkjunum fyrrverandi til dýrðar. Ég veit ekki hvernig Moskvubúar upplifa þessar skreytingar í dag en sjálfum fannst mér eitt- hvert rétt samhengi vera í því að þær skuli vera grafnar djúpt í jörðu, án þess að ná að velta því of lengi fyrir mér, því okkur lá á. Sérlegur fulltrúi hátíðarinnar og umsjón- armaður hópsins Sonja Durova, dóttir Vla- dimir Ershov leikara og Ekaterina Durovu leikkonu, sonardóttir Lev Durov leikara, leiddi íslensku hersinguna af festu í gegnum ranghalana neðanjarðar eins og hún væri að leikstýra sljóum aukaleikurum í rússneskri grínmynd um útlendinga í Moskvu en ekki leikurum með þrautþjálfuð skilningarvit og virka athyglisgáfu. Að vísu komst undirrit- aður ekki hjá því að sakna leiðsagnar Sonju þegar hann ætlaði seinna meir að skoða sig um í borginni á eigin spýtur og komst að því að það er enginn leiðarvísir til og flest skiltin eru bara skrifuð með kýrilísku letri svo jafn- vel þó að þú vitir hvert ferðinni er heitið hef- urðu ekki hugmynd um það hvert þú átt að fara til þess að komast þangað og verður að reiða þig algjörlega á aðstoð nálægra Moskvubúa sem segja má að stökkvi ekki beinlínis hæð sína yfir tækifæri til þess að rétta mállausum og villtum Íslendingi hjálp- arhönd. Moskva er tólf milljóna manna stór- borg og þar er lögmál frumskógarins í fullu gildi: Hver hjálpar sjálfum sér sem best hann getur og hirðir ekki um hina. Það virð- ist lítið eftir af samvinnuhugsjónum í hinum dæmigerða Moskvubúa. Meyerhold-leikhúsið er hin þokkalegasta bygging, nokkuð miðsvæðis í Moskvu, það eru fimm ár síðan leikhúsið var reist og að sögn Ivans Vinogradovs, tæknistjóra sviðsins á sjöttu hæð, er það „Privat“ leikhús, „Not state?“ er spurt á móti, „Njet“ svarar Ivan með áhersluþunga, „Privat“! Ivan er íturvax- inn maður með grásprengt skegg og nokk- urra kílóa lyklakippu í beltinu, á nefinu tróna gleraugu sem minna helst á framrúður lang- ferðabifreiðar og gera augu Ivans að und- irskálum sem fljóta aðeins framan við andlit- ið. „Poster“ eru næstu tjáskipti, „Ha?“ er hváð. „Poster“ endurtekur Ivan og bendir á leikarana og leikmyndina. „No poster“ svör- um við forviða á því að manninum skuli detta í hug að við höfum látið prenta plaköt á Ís- landi til þess að auglýsa sýninguna í Moskvu. „No Poster“ endurtekur Ivan, kveikir sér í sígarettu og virðir okkur fyrir sér hugsi, í Moskvu er reykt alls staðar, líka uppi á sviði rétt fyrir sýningu. Klukkan átta eru allir komnir í búningana, sem lykta illilega af löngum ferðalögum og súrri svitalykt; allt eins og það á að vera, og svo er lagt í hann. Jónas stýrimaður rokkar salinn í gang með brælublús: „Káeta, her- bergi í skipi, herbergi sem drepur menn …“ Áhorfendur vita ekki alveg hvað er að fara í gang en fyrr en varir klappa allir í takt við áhöfnina á Albatrossinum RE. Eftir fyrsta lagið byrjar ballið með bar- smíðum og látum. Við leikum við „undirleik“ Tatiönu Sheniavskayu, kennara í íslensku við háskólann í Moskvu, sem þýðir það sem við segjum uppi á sviðinu hástöfum í míkrafón og þaðan berst rússneskan í heyrnartól áhorfenda. Þulan okkar hrópar reyndar á köflum og þó að hún sé stúkuð af með plex- ígleri heyrist í henni alla leið inn í messann. Það er eins og að heyra bergmálið af sjálfum sér berast utan úr myrkrinu, á rússnesku. Áhrifin á sýninguna eru reyndar þau að hún hægist aðeins niður, við verðum að halda aftur af hraðanum svo Tatiana Sheniavskaya hafi tækifæri til þess að koma þýðingunni að en það verður einhvern veginn að fylla upp í þögnina sem myndast, sekúndubrotin sem bætast við augnatillitin og meiningarnar. Við höldum dampi nokkra hríð en fljótlega fara brotin að telja og einhver þungi magnast upp. Undiralda, svelgur sem niðar fyrir eyrum okkar og magnast með hverri setningu. Persónur leiksins taka algerlega yfir og það er gott að gleyma sjálfum sér, hverfa og sökkva í löðrið, í 45 mínútur. Hlé. Hik í mykrinu og svo lófatak. Óþreyja eftir því að halda áfram. Er hægt að fá vatn baksviðs? Nei, en Ivan Vinogradov bendir á 3 lítra vodkakút með krana sem stendur til boða. Seinni hluti hefst eftir dúk og disk, áhorf- endur skeggræða sín á milli í makindum á meðan þeir streyma í salinn og eru lengi að koma sér fyrir. En um leið og ljósin dofna hverfa allir í sameiningu norður að heim- skautsbaug, um borð í dallinn með strákun- um. Stemningin er órofin frá fyrri hluta sýn- ingarinnar, undiraldan þyngist og eflist í takt við vaxandi túlkunarhita rússnesku þýðing- arþulunnar okkar sem hermir nú beinlínis eftir röddum leikaranna á sviðinu af mikilli innlifun, skræk- eða dimmrödduð á víxl. Áfram veltur dallurinn, það gerir vitlaust veður og Benni kokkur er að hugsa um að skella í köku, lífsins ólgusjór rís og hnígur. Áhorfendur hlæja og þegja á víxl í takt við ölduna. Undirritaður fær tækifæri til að líta fram í áhorfendasalinn eitt augnablik og tek- ur eftir nokkrum rauðum glömpum af vídeó- upptökuvélum innan um þéttsetna bekkina. Setningu fyrir setningu tifar leikurinn að há- punkti verksins og þegar allt vegur að lokum salt á hnífsblaði mætti heyra saumnál detta í salnum. Áhorfendur og leikendur eru tengdir í augnablikinu. Það er eins og allir skilji, eitt- hvað. Ljós út, áhorfendur þakka kröftuglega fyrir sig og leikendur sömuleiðis, einhver færir Nínu Dögg blómvönd og segir eitthvað á rússnesku, risið úr sætum, klappað meira, hrópað og flautað. Svo tekur þorska- charleston Bubba við sem útgöngulag. Stór hópur áhorfenda fer hvergi en nálgast sviðið til að blanda geði við aðstandendur sýning- arinnar sem tvístíga örlítið ringlaðir og gera sitt besta til að endurgjalda ábendingar og ánægjuþakkir á rússnesku, misskiljanlegri ensku eða táknmáli. Við brosum og tökum í hendur, skrifum á leikskrár og stöndum á myndum. Það lítur út fyrir að túrinn hafi bara verið nokkuð góður í þetta sinn en við erum öll fegin að vera komin í land. Á leiðinni út úr leikhúsinu grípur Ivan tæknistjóri undir handlegginn á mér og leiðir mig afsíðis, „Minut.“ Hann opnar inn á verk- stæðið sitt með lyklakippunni og kveikir ljós- ið. Uppi um alla veggi hanga veggspjöld leik- sýninga, rússneskra, pólskra, kínverskra, ótölulegur fjöldi. „Poster,“ segir hann útskýr- andi og réttir mér miða með heimilisfangi leikhússins. „Post, poster.“ Ég kinka kolli og tek í höndina á honum upp á það. Íslenskur háseti á rússnesku leiksviði International Hotel Molodyojnaya „Á herbergi 1107 var t.d. fermetrastórt gat í baðherberg- isveggnum, spegillinn var sprunginn, sturtu- hengið horfið, sturtuhausinn lak stöðugt, líklega eftir að hafa verið notaður til þess að berja sturtuhausfestinguna af veggnum, niðursturt- arinn á klósettinu var snúinn úr hálsliðnum og klóaksfrárennslið lak út á gólfið.“ Leiksýning Vesturports, Brim eftir Jón Atla Jónasson, hlaut nýlega verðlaun sem „Besta sýningin“ á Novaja Drama-hátíðinni í Moskvu. Hér er ferðasagan sögð en margt bar til tíðinda annað en verðlaun í Moskvu. Fyrirhugaðar eru nokkrar sýningar á Brimi í Þjóðleikhúsinu í nóvember samhliða sýn- ingum Vesturports. Höfundur er leikari í leikhópnum Vesturporti. Eftir Ólaf Egil Egilsson olafur@internet.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.