Lesbók Morgunblaðsins - 19.11.2005, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 19.11.2005, Blaðsíða 4
4 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 19. nóvember 2005 Þ að virðist mega líta á þessa bók í samhengi við tvær síðustu bækur þínar, Vetrarmynd og Meira en mynd og grunur, bæði eru yrk- isefnin lík og formið eða tónninn. Hafðir þú hugsað þér þessar þrjár bækur sem heild? „Nei, slíkt var engan veginn fyrirhugað, og þannig hef ég aldrei unnið að ljóðabókum mínum. En ég tek undir það að þessar bæk- ur þrjár eru náskyldar og mynda kannski ákveðna heild, hvað snertir innihald, efnistök og form. Bók sem heitir Meðan þú vaktir kom út 1999, en að því loknu brá svo við að ég var tilbúinn með bók ári síðar; það var Vetrarmyndin. Að vísu lá henni til grundvallar dálítill eldri stofn, en að öðru leyti varð hún til á einu ári, óvenju hratt og eins og af ríkulegri þörf, svona eftir á séð. Með henni urðu einhver skil, sem aðrir sjá þó kannski bet- ur. Menn hafa minnst á þetta. Og hinar síðari tvær sækja mjög í áþekka slóð.“ Það er reyndar erfitt að skilja einstakar bækur þínar frá öðr- um í höfundarverkinu og reyndar verður ekki betur séð en þú sért markvisst að vinna með ævina og höfundarverkið í þessum bókum, kannski ekki síst samfylgdina við skáldskapinn. Er þetta eins konar ljóðævisaga? „Það er að minnsta kosti fullkomlega leyfilegt að kalla þær ljóðævisögu, þótt ég myndi aldrei gera það sjálfur. Hugleiðingar um skáldskap í bland við persónulegar upplifanir – slík sam- fylgd er áberandi í þessum bókum. Einkum er Meira en mynd og grunur nánast ákall eða þakkarávarp til skáldskaparins, eins konar mansöngur: hugleiðingar um skáldskapinn, tilveruna, hagi og líf þess sem yrkir – rétt eins og hjá skáldum hér fyrr meir, þótt aðferðin sé önnur. Þessi bók var eiginlega árétting þess hve ljóðið er samofið lífinu, sem höfuðlausn, fjörlausn og huggun. Skáldskaparmál eru einnig á sveimi í þessari bók, Dyr- um að draumi, og skarast þar saman við ýmislegt annað.“ Það er oft vísað til fortíðar ljóðmælanda í bókinni en svo er líka talað um óskir og drauma, til dæmis í öðru ljóði bókarinnar, Hið máttuga ker, en það gæti reyndar verið vísun til kersins sem segir sögu fulla af eyðum í upphafi skáldsögu þinnar Him- inbjargarsögu og Skógardraumi. Í þessu ljóði er kerið í molum og: Við freistum þess, skjálfandi fingrum, að safna brotunum saman, grannskoða allt sem á mætti byggja líkur varðandi lögun og blæ þess draums, sem dýrastur er Í bókinni má þannig sjá ákveðinn trega eftir tíma og heimi sem er ekki lengur heill eða glataður, til dæmis í ljóðinu Mað- urinn þar sem talað er um eyðu í lífi manns sem þó vissi aldrei hvað var honum glatað. Í ljóðinu Dans er sungið þetta Streng- leikastef: „Ég ann því eins og það var!“ Viðhorfið til fortíðar er þó engan veginn einhlítt: „Í sál þinni hafði sólin/aldrei skinið á allt“ segir í ljóðinu Vegfarendur. Má ekki finna blendnar tilfinn- ingar til tímans í bókinni, bæði þess liðna og líðandi stundar? „Þú talar um trega eftir tíma og heimi sem er ekki lengur heill. Þessi tilfinning er fyrir hendi þarna í nokkrum ljóðum. Ég er líkast til bara að fást við forgengileikann eins og hann leggur sig í henni veröld, hitt og þetta sem hefði mátt öðruvísi fara, eitt- hvað sem týndist og var tröllum gefið. Rótin að þessum yrk- ingum liggur trúlega í einhverju sem maður hefur sjálfur reynt, en þetta er sammannleg kennd og engin nýlunda í skáldskap. „Ég ann því eins og það var“, heyrðist kveðið í klettinum; slíkt á við þegar minningin er manni hugþekk, þótt inntak hennar sé horfið veg allrar veraldar.“ Það eru líka skuggar í þessari bók og rökkur, skuggar lífsins og skuggalegt yfir að litast, jafnvel birtan „sundrar/þykkni sem kennt er við þéttleika, festu/og kallað öryggi, afdrep ...“ En samt er erfitt að halda því fram að þetta sé myrk bók, ekki í neinum skilningi, bókin er aðgengilegri en margar eldri bóka þinna, hún opnar þessar dyr að draumi og það birtir yfir. Og þú bægir frá þér skuggum og rökkri, segir enda: „Ég svara/að mér lýsi, hvort sem er, misbjartir lampar/en frá engum þeirra/kenni ég kul“. „Nei, ég held að þetta sé síður en svo myrk bók. Miðað við þá áherslu sem hún leggur sums staðar á vanmátt mannsins í við- sjálum heimi, sjálfa óvissuna, þá er, að ég hygg, öllu meira lagt í þann yl og þá birtu sem finna má í mannheimi. Ég hlýt að minna á einkunnarorð bókarinnar, tekin frá Jóni Óskari, sem lúta bein- línis að leit manns að fegurð. Sá sem hefur orðið í þessari bók er auðsjáanlega í slíkri leit og finnur held ég fegurðina bara nokk- uð víða.“ Í titilljóðinu ýjarðu að ákveðnum mislestri eða að því að stundum finna ljóð sér aðra merkingu í haus viðtakandans en skáldið ætlaði. Er þetta réttur skilningur, svo maður spyrji nú í anda ljóðsins, og ef svo, hver var þessi draumur sem þú áttir í upphafi en hefur síðan orðið einhver allt annar? „Ætli þetta sé ekki áminning um að hlutirnir eru sjaldnast ná- kvæmlega það sem þeir sýnast vera; fletirnir eru alltaf fleiri en sá sem að manni snýr þá stundina, og þetta á ekki síst við um skáldskap, sé hann nokkurs nýtur. Sjálfur segi ég stundum eitt- hvað, frekar en ekki neitt, sé ég spurður út í efni ljóðabókar eftir mig, til að mynda núna. Það er þá eitthvað sem mér er efst í huga hverju sinni; óskhyggja kannski. En umfram allt er það lesandans að finna það sem honum líst. Og draumurinn, já – um hann vísa ég aftur til einkunnarorðanna – hann heldur áfram að vera til, en rætist kannski öðru vísi en til stóð.“ Ljóðin þín tala gegn vissunni og fyrir efanum, fyrir spurning- unni fremur en sjálfbirgum svörum. Þú viðurkennir reyndar vanmátt ljóðsins í heimi hins eina sanna svars og skáldið segist reyndar í Ljóði um ljóð stundum orna sér við örugg svör, en ljóðinu er eðlilegt að efast segirðu? „Auðvitað erum við alltaf í leit að svörum, en reynsla manns- ins ætti gróft sagt að hafa kennt honum að tortryggja þau jafn- harðan. Í þessum kvæðum er að verki ofnæmi fyrir staðhæf- ingasýkinni, allri þessari sýn í svarthvítu, sem lítið hefur lagast, samanber Bush og hans fylgifiska. Skoðum svör eins og þau hljóða hjá allt of mörgum stjórnmálamönnum: oft gefin á eins konar flótta, afundin, oftar en ekki afbötun, sjálfsréttlæting, út- úrsnúningur; stærilát, ósvífin og fullyrðingasöm, svör sem stað- hæfa, stýra og refsa. Meira að segja hin einlægu svör, gefin samkvæmt góðri vitund, þau úreldast og geta orðið að hreinustu öfugmælum, en þegar upp er staðið eru það samt þau sem við verðum að setja traust okkar á hverju sinni. Ég segi þarna sem svo, að við ornum okkur stundum við svokölluð örugg svör, ein- hverja vissu – en ljóðið tekur á öllu varfærnari tökum. Ef ljóðið fer að staðhæfa er það statt á hálum ís. En ég tala auðvitað fyrir hönd sjálfs mín í þessu efni.“ Mig langar til að spyrja þig út í hlutverk skáldskaparins sem mikið hefur verið talað um að undanförnu. Menn spyrja hvers vegna sé skrifað. Hvers vegna skrifar þú? „Mér þykir þú spyrja stórt. En líklega er hreinlegast að ég vitni rakleitt til bernsku- og unglingsára til að svara spurn- ingum um hlutverk skáldskapar. Hvað gerði skáldskapur fyrir mig? Þar verður efst á baugi sú staðreynd að góður skáldskapur heillaði mig einfaldlega. Út frá gildi skáldskapar fyrir mig gæti ég tekið undir með Jóni Prímusi: „Sá sem ekki lifir í skáldskap lifir ekki af hér á jörðinni.“ Að vissu leyti má segja að nánast all- ur skáldskapur, eins og allar listgreinar, gegni félagslegu hlut- verki, hvert sem inntak hans er; ef ekki sem áhugaverð list- sköpun, þá að minnsta kosti sem mannlegur vitnisburður. Mér finnst að við eigum að hætta öllum getsökum í þá átt að skáld- skapur hjá okkur nú til dags taki ekki neitt til umfjöllunar sem „fram fer í þjóðfélaginu“. Hver veit nema það sé einmitt sjálfur skáldskapurinn, sem fram fer í þjóðfélaginu og gerir það líf- vænlegt, ásamt hinu daglega brauði! Og allt skraf um dauða ein- stakra listgreina felli ég mig ekki við. Við erum að tala um hvorki meira né minna en meginþætti siðmenningarinnar. Ljóð og aðrar listgreinar lifa svo lengi sem menn gangast við tilfinn- ingum sínum, ásamt skynsamlegu viti. Maðurinn hefur ort, sungið og mótað myndverk hvort sem hann bjó við sælu eða sára neyð. Hann var ekkert endilega að gera sér rellu út af hve margir eða fáir voru vitni að því. Mælikvarði markaðs- hyggjunnar hefur ekki alltaf ráðið ríkjum í því efni. Annað mál er það að listgreinum getur reitt misvel af í öldu- róti tímanna. Á okkar dögum má búast við að bókstaflega hvað sem er geri kröfu til að teljast til listsköpunar, og hitt viðhorfið er líka á sveimi að eitt geti ekki kallast list fremur en annað, allt sé jafngilt og svo framvegis. Kannski er gott að gera það upp við sig núna, á afmælinu hans Jónasar?“ Þú gefur reyndar ákveðið svar í ljóðinu Vúdú, skáld er sá galdramaður sem tekst að losa sig úr þeim viðjum sem birtast í forgengilegum táknum og binda svipmót þess og nafn, kannski við fyrirfram ákveðinn merkingarheim, einhvern hring sem allir eru innan í nauðugir viljugir. Er skáldskapur galdur sem leysir okkur úr viðjum viðtekinnar merkingar? „Ójú, að einhverju marki tek ég undir það. Hann er útleið í margvíslegum skilningi. Við getum tekið dæmi af hugsunum okkar. Sumar hugmyndir mega nánast ekki við því að vera gefið nafn eða númer. Við höldum að við náum betur utan um þær þannig, en eigum svo á hættu að þær staðni þar og storkni. Þá hefur löngum komið til kasta skáldskaparins. En gagnrýn hugs- un er góð líka.“ Það hefur líka farið fram mikil umræða um eðli samtíma- bókmennta, menn greinir á um það hvort við séum enn að vinna í veldi módernismans. Ef ég yrði spurður hvort þessi nýja ljóða- bók þín væri módernismi myndi ég sennilega svara því játandi en samt, þótt þú byggir á íslenskri módernískri hefð í ljóðagerð þá hefur orðið breyting á skáldskap þínum síðustu bækur, hann er opnari og kannski sjálfsævisögulegri eins og hluti skáldsagna síðustu ára eru líka. Hvað segir þú um þetta tal um módernisma og ekki módernisma? Hvernig myndirðu lýsa þróun þíns eigin skáldskapar síðustu ár? „Um módernisma og ekki módernisma kýs ég að vera fáorð- ur. Hef alltaf ort og skrifað eins og verkast vildi án þess að hugsa mikið á þeim nótum. Sjálfsagt eru þessi kvæði mín mód- ernisk afurð, en það liggur vafalaust fleira að baki, fornt og nýtt. Fyrr á árum hneigðist ég til að skipta bókunum mínum í hluta eða kafla með einhverja efnisþætti eða því um líkt í huga; stund- um var þetta örugglega mesti misskilningur, og á síðari árum hefur mér þótt slík aðferð fráleit. Efnið skarast ýmislega og bækurnar mynda ef til vill sterkari heildir. Sjálfsævisögulegri, segirðu, já því ekki það? Þess konar tilhneigingar verður reynd- ar vart hjá mér í eldri bókum, til dæmis Fiðrinu úr sæng Dala- drottningar og Spjótalögum á spegil, ef ég man rétt. Þótt ég sé því samþykkur að greina megi breytingar í ljóðasmíð minni að undanförnu, gæti ég trúað að glöggir lesendur sjái það fullt eins vel eða skýrar en ég. Margt í senn kann að stuðla að slíkri til- breytni eða þáttaskilum: tíðarandi, fólk, veður – og ekki síst það að árin líða.“ Ef ljóðið fer að staðhæfa er það statt á hálum ís Morgunblaðið/Brynjar Gauti Þorsteinn frá Hamri „Auðvitað erum við alltaf í leit að svörum, en reynsla mannsins ætti gróft sagt að hafa kennt honum að tortryggja þau jafnharðan.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.