Lesbók Morgunblaðsins - 19.11.2005, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 19.11.2005, Blaðsíða 6
6 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 19. nóvember 2005 Í grein minni „Biblíuþýðing og for- dómar“, sem birtist í Lesbók Morg- unblaðsins 28. maí síðastliðinn, fjallaði ég um nokkur atriði í nýrri þýðingu Biblíunnar sem Hið ís- lenzka Biblíufélag ætlar að gefa út á næsta ári, en einstakir hlutar hennar hafa nú þegar verið birtir til kynningar. Það var eink- um tvennt sem ég gerði að umtalsefni: annars vegar hið svo kallaða „mál beggja kynja“, sem þýðingarnefndin gerir sér far um að nota; hins vegar þýðing grísku orðmyndanna malakoí og arsenokoîtai í lastabálki fyrra bréfs Páls postula til Korintumanna (6:9- 10). Bein merking þessara orðmynda er „mjúkir (menn)“ og „þeir sem samrekkja karl- mönnum“. Í hinni nýju þýðingu eru þær hins vegar þýddar með „þeir sem leita á drengi eða eru í slagtogi við þá“. Eins og sjá má ber hér nokkuð á milli; í stað hlutlausrar þýðingar kemur túlkun sem byggist á allmiklu ímynd- unarafli. Þessa túlkun gagnrýndi ég í áð- urnefndri grein. Í Lesbók Morgunblaðsins 11. júní bregst Jón Sveinbjörnsson prófessor emerítus við grein minni. Reyndar segist hann ekki viss um að hann átti sig á tilgangi hennar, en sér sig þó knúinn til að svara henni í löngu máli. Bæði sökum þessarar óvissu Jóns og vegna þess að mér finnst hann vera á villigötum í túlkunum sínum, hef ég ákveðið að skýra mál mitt enn frekar. Því miður hefur það dregizt þar til nú. Um tilgang fyrri greinar minnar get ég ver- ið stuttorður. Hann var að minna á tvær kröf- ur sem gera ætti til íslenzkrar Biblíuþýðingar: í fyrsta lagi að hún stríði ekki gegn íslenzkri málvenju og í öðru lagi að hún sé jafnnákvæm og jafnhlutlaus og kostur er, en stjórnist ekki af fordómum þýðendanna eða nokkurra þeirra sem telja sig hafa hag af að koma sjónarmiðum sínum inn í sjálfa Biblíuna. Áður en ég vík að túlkunum Jóns, langar mig að bregðast stuttlega við tveimur atriðum sem skilja má sem gagnrýni í minn garð. Jón segir að í þeim hluta greinar minnar, þar sem drepið er á fyrirbærið „mál beggja kynja“, séu tilvitnanir mínar [í nýju Biblíuþýðinguna] „ekki nákvæmar“. Því er til að svara að á þeim stað eru engar tilvitnanir í nýju Biblíuþýð- inguna, hvorki nákvæmar né ónákvæmar. Ég nefni aðeins að setningar eins og „Sá getur allt sem trúir“ eða „Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki“ fari fyrir brjóstið á fylg- ismönnum Kvennakirkjunnar og sumra fem- ínista, sem vilja þess í stað segja „Þau geta allt sem trúa“ og „Sæl eru fátæk í anda, því að þeirra er himnaríki“, vegna þess að þeim finnst að hið málfræðilega karlkyn vísi ekki til kvenna. Það sem fyrir mér vakti var að benda á fordóma í afstöðu þessara manna. Á öðrum stað segir Jón að „orðsifjagrein- ing“ orðmyndanna malakoí og arsenokoîtai sé „ekki einhlít“, fremur beri að athuga merkingu þeirra í því samhengi, þar sem þær eru not- aðar. Hér er gefið í skyn að ég hafi í grein minni skýrt merkingu orðmyndanna út frá orðsifjum þeirra. Svo er þó alls ekki. Ég vék hvergi að uppruna eða þróun orðanna eða skyldleika þeirra við önnur orð. Hins vegar réð ég í merkingu þeirra með textafræðilegri og orðmyndunarfræðilegri athugun; þetta á raun- ar einkum við orðmyndina arsenokoîtai. Af þessu er ljóst að stoðirnar undir gagn- rýni Jóns eru veikar. En snúum okkur nú að túlkunum hans. Þegar grein Jóns er lesin, kemur í ljós að hann er síður en svo viss um, hvernig túlka beri grísku orðmyndirnar malakoí og arseno- koîtai. Á einum stað segir hann: „Arsenokoitai eru [...] sennilega þeir sem hafa mök við menn af sama kyni og malakoi geta verið þeir sem þýðast slíka menn eða láta eftir slíkum mönn- um“. Á öðrum stað: „Ýmsir þýðendur [...] eru þeirrar skoðunar að í 6. kafla Korintubréfsins sé um paiderastia eða kynferðislega misnotk- un á unglingspiltum að ræða. En erfitt er að tala um beinlínis ranga eða rétta þýðingu í þessu sambandi“. Á þriðja staðnum: „Í bréfinu er Páll að tala um ýmsa kynferðislega lesti án þess að beint sé hægt að draga ályktun um ald- ur aðilanna“. Á fjórða staðnum: „Kannski er [...] tillagan: „þeir sem leita á drengi og eru í slagtogi við þá (þ.e. í slagtogi við þá menn sem leita á drengi)[“] of þröng og því óheppileg. Annaðhvort ætti að þýða bæði orðin saman eins og í þýðingunni frá 1981 og segja: „Þeir sem hafa mök við menn af sama kyni“ (og fæl- ist þá bæði gerandinn og þolandinn í hugtak- inu „hafa mök við“) eða þýða orðin sitt í hvoru lagi og segja: „Þeir sem beita menn af sama kyni kynferðislegu ofbeldi og þeir sem láta slíka menn misnota sig/ná fram vilja sínum.““ Þess má geta að í grein sinni leiðir Jón hjá sér að skýra það misræmi í kynningarheftinu sem felst í þýðingu orðmyndanna arsenokoíta- is „mannhórum“ (í fyrra bréfi Páls til Tímó- teusar, 1:10) og arsenokoîtai „þeir sem leita á drengi“ (í Korintubréfinu). Skýring þess ligg- ur reyndar í augum uppi. Í Biblíuþýðingunni frá 1981 er arsenokoítais þýtt með „mann- hórum“, en arsenokoîtai með „kynvillingar“. Þeim sem bera ábyrgð á nýju þýðingunni var af skiljanlegum ástæðum mjög í mun að fjar- lægja hið niðrandi orð kynvillingur úr text- anum, en í Tímóteusarbréfinu hafði það ekki verið notað. Eins og fram hefur komið hefur Jón lagt til þrjár þýðingar á grísku orðmyndunum malakoí og arsenokoîtai í fyrra Korintubréfi. Þær eru: (1) „Þeir sem leita á drengi og eru í slagtogi við þá.“ (2) „Þeir sem hafa mök við menn af sama kyni.“ (3) „Þeir sem beita menn af sama kyni kyn- ferðislegu ofbeldi og þeir sem láta slíka menn misnota sig/ná fram vilja sínum.“ Nú hefur Jón komizt að því að fyrsta til- lagan kunni að vera „of þröng og því óheppi- leg“. Það er engin furða, enda viðurkennir hann að ekki sé unnt að ákvarða aldur þeirra aðila sem „leitað er á“. Í þessu sambandi er rétt að ítreka þetta: Sú túlkun að orðmyndin arsenokoîtai tákni menn er hafi mök við ung- lingspilta er úr lausu lofti gripin. Þeir sem engu að síður kjósa að túlka hana þannig ættu að spyrja sig, hvers vegna í ósköpunum Páll hafi ekki notað orðið paiderastçs, sem lengi hafði verið til í grísku, ef hann hefði átt við slíka menn. Mörgum hefur sennilega þótt orðalagið „[...] eða eru í slagtogi við þá“ í kynningarútgáfu Nýja testamentisins undarlegt. Í grein minni spurði ég, hvort það að vera í slagtogi við ein- hvern þyrfti að hafa kynferðislega skírskotun. Nú hefur Jón reynt að útskýra, hvernig þýð- ingin er hugsuð, án þess þó að svara spurningu minni (í textatilvitnun hans er samtengingin „og“ reyndar komin í stað „eða“ í kynning- arútgáfunni). Samkvæmt útskýringu hans vís- ar fornafnsmyndin „þá“ í orðasambandinu „eru í slagtogi við þá“ til þeirra sem leita á drengi. En það er auðvitað útilokað. Í sam- setta setningarliðnum „þeir sem leita á drengi eða/og eru í slagtogi við þá“ er frumlag sagn- myndanna leita (á) og eru eitt og hið sama. Þar af leiðandi hlýtur fornafnsmyndin „þá“ að vísa til drengjanna sem leitað er á, en ekki til þeirra sem leita á drengi. Umrædd þýðing- artillaga hefur sem sé fleiri ókosti en þann að vera „of þröng“. Önnur tillaga Jóns er ekki skárri. Forsenda hennar er sú að gríska orðmyndin malakoí tákni samkynhneigða menn. Þó hefur ekki tek- izt að renna stoðum undir þá túlkun og er hún í raun mjög ósennileg (sjá nánara hér að neðan). Þá virðist tillagan gera ráð fyrir að í Kor- intubréfinu sé talað um samkynhneigða menn almennt; eðlilegast er að skilja þýðinguna þannig að karlkynsmyndin „þeir“ hafi hlut- lausa merkingu, þ.e. tákni bæði karla og kon- ur, og orðið maður sé notað í merkingunni „manneskja“. En í frumtextanum vísar ar- senokoîtai, sem hin kynferðislega túlkun orð- myndarinnar malakoí byggist á, að sjálfsögðu aðeins til karla. Um þriðju tillöguna nægir að segja að hún er hrein fantasía. Í öllum þýðingartillögum Jóns er gert ráð fyrir að orðmyndin malakoí hafi kynferðislega skírskotun. Í fyrstu tillögunni er að vísu mjög óljóst, hvernig hann ímyndar sér hana. Sam- kvæmt annarri tillögu er um samkynhneigða menn að ræða án nánari skilgreiningar. Í þriðju tillögunni eru þeir menn sem kallaðir eru „mjúkir“ í frumtextanum orðnir að fórn- arlömbum kynferðislegs ofbeldis. Þess má geta að í fyrstu og þriðju tillögu sinni neyðist Jón til að víxla orðmyndunum malakoí og ar- senokoîtai í þýðingunni, til þess að túlkun hans fái röklegt yfirbragð. Nú er rétt að athuga nánar orðmyndina malakoí og freista þess að komast að því, hvernig skynsamlegast er að þýða hana. Í grein minni benti ég á að í forngrísku var orðið malakós stundum notað í yfirfærðri merkingu um lyddur, skræfur eða bleyður, og sagði ég að ekki væri ósennilegt að það hefði einmitt þá merkingu í Korintubréfinu. Í því sambandi nefndi ég að í íslenzkri þýðingu Nýja testa- mentisins frá 1827 er malakoí þýtt með „mann- bleyður“ (svo einnig í Viðeyjarbiblíu (1841), Reykjavíkurbiblíu (1859), Lundúnabiblíu (1866) og í útgáfu Biblíunnar frá 1908). Eftir að hafa hugleitt málið betur hallast ég frekar að því að leita beri annarra kosta um þýðingu. Meginástæðan er sú að ragmennska er kannski ekki svo mikill löstur að hann eigi að nægja til að útiloka menn frá himnaríki. Ég tek fram að textasamhengið eitt og sér leyfir ekki einhlíta túlkun myndarinnar malakoí. Af þeim sökum er sá sem vill lesa úr henni mjög þrönga eða sérhæfða merkingu á hálum ís. Orðið malakós (eiginl. „mjúkur“) er alltítt í grísku. Í Nýja testamentinu kemur það fyrir á tveimur öðrum stöðum (Mt 11:8, Lk 7:25) og er þar haft um fatnað; líkleg merking þess er „skartlegur, dýrlegur“. Í ritum kirkju- feðranna sýnir það jafnólíkar merkingar og „huglaus“, „fágaður“, „veiklyndur“, „blíður“ og „siðspilltur“. Í siðferðilegu samhengi merk- ir það mjög oft „(sá) er skortir sjálfsaga“, „léttúðugur“ eða „ósiðlátur“.1 Í Siðfræði Níko- makkosar (7.4.4) segir Aristóteles að þeir menn séu kallaðir „malakoí“ sem ekki hafa taumhald á sér gagnvart líkamlegum nautn- um. Fullyrða má að hvorki Aristóteles né nokkur annar maður í fornöld hafi litið svo á að þessi löstur einkenndi aðeins samkynhneigða menn. Við túlkun myndarinnar malakoí í 1. Kor. 6:9 hljóta menn að taka mið af þeirri staðreynd að samkvæmt grískum heimildum hefur þetta orð aldrei verið notað um samkynhneigða sem heild eða með almennri skírskotun til kynlífs þeirra. Þvert á móti geyma rit frá tíma Páls postula mörg dæmi um að orðið vísi til gagn- kynhneigðra manna eða athafna þeirra.2 Þeir sem halda því fram að orðmyndin malakoí sé notuð um samkynhneigða hafa bent á að í Súd- unni, býzantínsku orðasafni frá ofanverðri 10. öld, birtist malakós sem samheiti lýsing- arorðsins malthakós, en í kynlífs- og lækna- máli var það notað um „kvenlega“ aðilann í ástarlífi samkynhneigðra karla.3 Í raun sýnir þetta aðeins þá vitneskju höfundar að grunn- merking orðanna malakós og malthakós er hin sama, þ.e. „mjúkur“. Umrætt rit gefur sem sé ekkert tilefni til að ætla að orðmyndin malakoí í Korintubréfinu tákni samkynhneigða menn. Nú skal hugað að vitnisburði býzantínskrar grísku og nýgrísku. Á fyrrnefnda málskeiðinu (5.–15. öld) kemur lýsingarorðið malakós fyrir í merkingunni „(sá) sem fremur sjálfsfróun“. Í samræmi við það hefur óhlutstæða nafnorðið malakía, sem af því er leitt og merkti eiginlega „mýkt“ (síðar „veikleiki“ o. fl.), einnig fengið merkinguna „sjálfsfróun“.4 Þessa merkingu varðveitir orðið í nýgrísku, þar sem nafnorðið malákas (leitt af malakós) er notað um þá er fremja sjálfsfróun. Í latínu samsvarar mollitia eða mollities (einnig ritað mollicies) merking- arlega gríska orðinu malakía. Frá og með 13. öld eru öruggar heimildir um að latneska orðið hafi verið notað í merkingunni „sjálfsfróun“.5 Telja má víst að þessi notkun orðsins stafi af grískum áhrifum. Í ljósi þess sem sagt hefur verið kemur ekki á óvart að allt fram yfir siða- skipti – og í kaþólskum sið jafnvel fram á 20. öld – hefur orðmyndin malakoí verið túlkuð þannig að hún vísi til sjálfsfróunar.6 Af ein- hverjum ástæðum minnist Jón Sveinbjörnsson hvergi á þessi atriði í grein sinni. Til viðbótar því sem nefnt hefur verið skal bent á einn hlut sem e.t.v. hefur hér nokkra þýðingu. Í lastabálkinum er tíu lestir taldir upp sem eiga að koma í veg fyrir inngöngu manna í himnaríki. Þessi tala er hér að öllum líkindum engin tilviljun, heldur þjónar hún ákveðnu hlutverki. Meðal fornþjóða var talan ‘10’ oft notuð, þegar um slétta heild eða ramma upptalningar var að ræða. Mikilvægi tölunnar á rætur að rekja til þess, er talið var eftir fingrum beggja handa.7 Ef talan ‘10’ gegnir því hlutverki í lastabálkinum að mynda ramma ut- an um upptalningu alvarlegra lasta, má helzt ekki raska henni í þýðingu textans, en það ger- ist hins vegar, þegar þeim sem kallaðir eru malakoí og arsenokoîtai er slegið saman í þýð- ingu líkt og í útgáfu Biblíunnar frá 1981 („kyn- villingar“) og í annarri þýðingartillögu Jóns Sveinbjörnssonar (sjá hér að ofan). Í þessu samhengi má auðvitað spyrja, hvort sennilegt sé að Páll postuli hafi séð ástæðu til að eigna samkynhneigðum körlum 20% af lastabálk- inum með því að aðgreina þá eftir hlutverkum í ástarlífinu. Sú túlkun að malakoí vísi til þeirra sem gegni „kvenlega“ hlutverkinu í ástarlífi sam- kynhneigðra karla stafar að mestu leyti af áhrifum frá ensku þýðingunni „effeminate“, sem fyrst kemur fyrir í „Reims-testamentinu“, þ.e. í þýðingu Nýja testamentisins sem gefin var út í Reims árið 1582 (hún var tekin upp í Jakobsbiblíu frá 1611 og mörgum öðrum Bibl- íuþýðingum). Athuga ber að þessi þýðing, sem unnin var af rómversk-kaþólskum guðfræð- ingum, byggist einvörðungu á hinni latnesku Vúlgötu, þ.e. eina undirstöðutextanum sem rómversk-kaþólska kirkjan viðurkennir (þrátt fyrir að upprunalegu ritningarnar séu á hebr- esku og grísku). Í Vúlgötu er gríska myndin malakoí þýdd með „molles“ (= „mjúkir“). And- stætt gr. malakós gat lat. mollis merkt „kven- legur“ (og þannig verið samheiti effeminatus).8 Til þessarar merkingar latneska orðsins má rekja þýðinguna „effeminate“, en ekki til merkingar gríska orðsins sem notað er í frum- textanum. Af þessu knappa yfirliti er bert að hvorki textasamhengi né annar vitnisburður Nýja testamentisins eða grískrar tungu almennt leyfir þá túlkun að orðmyndin malakoí í 1. Kor. 6:9 tákni samkynhneigða menn. Flest bendir til að átt sé við þá er ekki hafa taumhald á sér gagnvart einhverjum líkamlegum nautnum. Meðan ekki koma fram nýjar og áður óþekktar heimildir um notkun orðsins í fornöld, er varla gerlegt að komast nær þeim skilningi sem Páll postuli lagði í myndina malakoí. Því væri skyn- samlegast að þýða hana með „nautnaseggir“ eða áþekku orði á íslenzku.  Tilvísanir: 1 Sbr. John Boswell, Christianity, Social Tolerance, and Homosexuality, Chicago 1980, bls. 106. 2 Sjá John Boswell, op. cit., bls. 107. 3 Sbr. Reallexikon für Antike und Christentum, 16. b., Stutt- gart 1994, dlk. 339. 4 Sbr. ritið Poenitentiale sem eignað er Jóhannesi IV Jeiuna- tor frá Konstantínópel (PG 88.1893). 5 Sbr. Tómas frá Aquino, Summa theologiae, 2.2.154.11, og Vincentius frá Beauvais, Speculum doctrinale, 4.162 (þar sem sjálfsfróun karla er nefnd „mollicies“, en mök samkyn- hneigðra „sodomia“). 6 Sbr. New Catholic Encyclopedia, 9. b., New York 1967, bls. 438. 7 Sbr. Theologisches Wörterbuch zum Neuen Testament, 2. b., Stuttgart 1935, bls. 35-36. 8 Sbr. t.d. dæmin sem tilfærð eru í Oxford Latin Dictionary, Oxford 1968-1982, s.v. mollis. Mjúkir menn hjá Páli postula Táknar orðmyndin malakoí í 1. Korintubréfi samkynhneigða menn? eins og þýðandi nýrr- ar íslenskrar Biblíuþýðingar heldur fram. Flest bendir til að átt sé við þá er ekki hafa taumhald á sér gagnvart einhverjum lík- amlegum nautnum, segir í þessari grein en greinarhöfundur leggur til að orðmyndin verði þýdd með „nautnaseggir“. Eftir Jón Axel Harðarson jonaxelh@hi.is Höfundur er dósent í íslenzkri málfræði við Háskóla Íslands. Nautnaseggur Greinarhöfundur telur að orðmyndin malakoí í 1. Kor. 6:9 tákni ekki samkynhneigða menn heldur nautnaseggi. „Flest bendir til að átt sé við þá er ekki hafa taumhald á sér gagnvart ein- hverjum líkamlegum nautnum.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.