Morgunblaðið - 04.12.2005, Side 10
10 | 4.12.2005
Ragnarssyni, meðal annars frá Kárahnjúkum. Myndin heitir Mánar í Höllinni og
var sýnd um helgina á Selfossi.“
Fyrirhuguð sumarplata Labba er þriðja sólóplatan og lýsir hann henni í stuttu
máli sem órafmagnaðri, með lögum sem hann hefur samið fyrir aðra, nokkrum
nýjum lögum og gömlum smellum.
Labbi hefur verið í hljómsveitinni Karma síðastliðin 18
ár og var líka um tíma í hljómsveitinni Kaktus, þar sem
hann fékk Björk Guðmundsdóttur meðal annars til liðs
við sig. „Ég hafði séð hana í sjónvarpi þar sem hún spilaði
á flautu og söng. Eftir það hafði ég samband við hana og
var hún til í að koma. Björk var reyndar pönkari þá hinn
mesti en Kaktus spilað á dansleikjum. En hún lét sig hafa
þetta og gerði það vel og starfaði með okkur í tæpt ár.
Einnig kom í ljós að hún hafði rífandi áhuga á bústörfum
og fór því að vinna hjá mér í Glóru þar sem ég var með
búskap og var hörkudugleg. Svo fór hún í skóla um vet-
urinn. Seinna spiluðum við aftur saman undir Mánanafn-
inu. Í þeirri hljómsveit voru þrír úr gömlu Mánunum,
Pálmi Gunnars og hún og við spiluðum eitt sumar. Það
var mjög gaman. Í dag erum við í litlu sambandi, enda
nennir hún ábyggilega ekki að elta ólar við gamla sveita-
kalla.“
Fylgt á böllin | Mánar spiluðu saman í fyrsta skipti á
Landsmóti á Laugarvatni árið 1965. Labbi var þá fimm-
tán ára en hafði verið í hljómsveitum frá 12 ára aldri, svo
sem Bimbó Tríó ásamt Guðmundi Benediktssyni, sem
hefur komið við sögu í flestum hljómsveitum sem Labbi
hefur spilað í. Bimbó Tríó hitaði til dæmis upp á fyrstu
bítlatónleikunum með erlendri hljómsveit hér á landi,
sem Haukur Morthens stóð fyrir í Austurbæjarbíói. Aðal-
númer kvöldsins var danska bítlahljómsveitin Telstars og
hitaði tríóið upp með Shadows-lögum, Labbi var þá 13
ára. Björn bróðir Labba er sjö árum eldri og var líka í
hljómsveit. „Bimbó Tríó fékk að spila í pásum á böll-
unum þar sem hljómsveitin lék, gegn því að feður okkar
Gumma Ben fengju að fylgja okkur,“ segir hann.
Foreldrar Labba hétu Þórarinn Sigmarsson og Ingi-
björg Björnsdóttir og var Þórarinn bróðir Sesselju sem
reisti Sólheima. Hann vann því mikið að uppbyggingu
Sólheima forðum og dvaldist fjölskyldan þar oft á sumr-
in, en Labbi á tvær systur, einn bróður og hálfbróður.
„Vistmenn Sólheima frá fyrstu tíð eru nánast eins og fjölskyldan okkar, en sumir
þeirra hafa nú fallið frá.“
Labbi fæddist á Selfossi en flutti eins árs í Glóru með foreldrum sínum og
stundaði búskap þar í 15 ár þegar hann var sjálfur kominn með konu og börn.
„Ég byrjaði búskap 1978 eða ’79, fyrst nautgriparækt og svo svínarækt til þess að
auka veltuna. Ég byggði stærðarinnar íbúðarhús og svaka útihús en lenti svo í
verðbólgufárinu eins og það gerðist verst með alla mína uppbyggingu. Ég sótti
um lán og gekk frá öllu en áður en þau voru greidd út var verðtryggingin sett á í
einni svipan, svo það var eins óheppilegt og það gat verið að öllu leyti. Allar for-
sendur brugðust fyrstu árin og ég fór eiginlega strax á hnén með þetta. Reyndar
barðist ég þarna í 15 ár, en gafst svo upp því maður sá aldrei fyrir endann á þessu.
Ég náði aldrei einu sinni að vinna fyrir vöxtunum sama hvað ég streðaði. Ég var í
aukavinnu sitt á hvað, spilaði um helgar og vann í stúdíóinu á nóttinni og í bú-
störfunum og byggingunum á daginn. Að lokum gafst ég upp og flutti á Selfoss
með Birni syni mínum, þar sem við höfum búið síðan og ég
er með mitt stúdíó.“
Labbi segir að áhugi sinn á tónlist hafi kviknað mjög
snemma. „Ég byrjaði að spreyta mig sex eða sjö ára.
Mamma var mjög skilningsrík og lipur við að eiga og leyfði
okkur bræðrunum að vera með trommusett og græjur upp-
settar í stofunni. Það var látið viðgangast, nema kannski ef
gestir komu og um jólin, þá þurfti ég að taka þær niður.
Það var kannski eins gott, því á þessum tíma var ekki í nein
hús að venda til þess að æfa sig og engir bílskúrar til af-
nota.“
Hann var líka með stúdíó í Glóru, en segir ólíku saman að
jafna, hvað tækjabúnað áhrærir. „Í Glóru var ég með stóran
og fyrirferðarmikinn búnað, nú er þetta allt komið í eina
tölvu. Það er geysilega gaman að vinna með allri þessari
tækni og stórkostlegt að fá að upplifa allar breytingarnar, frá
frumstæðum tækjum út í þessa fullkomnun.“
Labbi tekur upp alls kyns lög fyrir kóra og einstaklinga og
útsetur, þegar hann er ekki að vinna að eigin tónlist. Tónlist-
in er reyndar ekki það eina sem heillar í seinni tíð. Búskapar-
árunum fylgdi mikil líkamleg áreynsla og segist hann reyndar
hafa verið kominn í algera klessu með tilheyrandi krankleika
og verkjum eftir allt stritið. „Ég hef alltaf haft þörf fyrir að
hreyfa mig mikið og þegar ég var kominn undir fimmtugt
byrjaði ég að æfa fimleika, sem er vel hægt þó maður sé að
byrja frá grunni. Með mér í hópi eru menn bæði yngri og
eldri sem æfðu fimleika á yngri árum og höfum við sýnt á
vorin þegar Ármann er með sýningar í Höllinni,“ segir
Labbi og kann nú að fara flikk flakk og heljarstökk. Hann er
líka með nemendur í leikfimi í Reykjavík og á Selfossi, frá
tvítugu og upp úr, aðallega kvenfólk. „Það eru ekkert síður
þær sextugu sem taka gríðarlegum framförum ef þær leggja
sig fram. Ég læt fólk fara kollhnís, standa á höndum og
standa á haus. Sumir fara jafnvel handahlaup. Svona æfingar
auka liðleika og snerpu og ég tek mjög eftir því hvað hug-
urinn hefur mikið að segja. Ef maður drífur fólk af stað, getur
það meira en það heldur. Í leikfiminni sem ég kenni legg ég
áherslu á æfingar sem styrkja bakið í bland við annað, til dæmis æfingar sem styrkja
augnbotnana. Ekki má heldur gleyma grindarbotninum. Ég byrjaði að þjálfa því ég
á tvær systur á Selfossi og þegar maður kemst að því að hamingjan felst meðal ann-
ars í því að hreyfa sig vill maður láta aðra njóta þess. Ég byrjaði á að drífa þær af
stað og svo vatt þetta upp á sig og nú er ég með fríðan og föngulegan hóp. Í bænum
byrjaði ég síðan með dætur mínar og hafði saman háttinn á og fékk lánaða aðstöðu.
Þegar ég byrjaði að þjálfa á Selfossi hafði ég áhuga á því að gera það formlega, en
þeir sem voru við stjórnvölinn höfðu lítinn skilning á því. Ég fæ inni í húsnæði á
veturna fyrir velvild, en á sumrin kenni ég úti. Það er svo skrýtið, að það rignir eig-
inlega aldrei á okkur, þótt rignt hafi fyrr um daginn.“
L
jó
sm
yn
d:
G
ol
li
Börn Labba og Guðmundar
Benediktssonar komu fram á
Broadway með þeim í haust, á
tónleikum þar sem upphit-
unardagskráin fyrir Deep Purple
í Höllinni í fyrra, var flutt á ný.
Guðmundur, Labbi, Guðlaug og
Unnur Birna. Á myndina vantar
Björn og Pétur.
Labbi með
gítarinn í stof-
unni í Glóru,
líklega 10–11 ára.
Bimbó Tríó var skipað Labba (til vinstri), Þorvaldi
Guðmundssyni og Guðmundi Benediktssyni.