Morgunblaðið - 04.12.2005, Side 12
12 | 4.12.2005
Fimi, stökk og augnæfingar eru reyndar ekki eina hreyfingin sem Labbi hrífst af,
því útivist og klifur laða hann jafnframt og lokka. „Ég virðist ótrúlega tengdur
náttúrunni og fæ mest út úr því að klífa fjöll og vera í stórbrotnu og miklu um-
hverfi. Það hef ég bæði gert einn og með fleirum í gönguhópum. Við fimleikakarl-
arnir göngum á fjöll einu sinni í viku yfir hásumarið, þegar æfingar liggja niðri.
Við erum hér og þar í grennd við Reykjavík og höfum mikið gengið á Hellisheiði.
Þegar ég fer á fjöll dóla ég ekkert, heldur strekki og sprengi til þess að auka þrek-
ið. Svo nýt ég útsýnisins á eftir. Einnig fer ég með krökkunum mínum eða öðrum
góðum félagsskap til þess að slaka á. Ég hef farið á Skálafellið, Lambafellið, Vífils-
fell og Hengilssvæðið, svo dæmi sé tekið. Sum fjöll eru svo skemmtileg að maður
fer aftur og aftur. Á sunnudögum fer ég svo yfirleitt upp Ingólfsfjall. Ég spila um
hverja helgi í reykjarsvælu og þungu lofti og fer því daginn eftir og arka upp eins
og óður maður þar til ég stend á öndinni. Þá fyrst finnst mér líkaminn pústa út og
hreinsast. Ég reyni líka að setja ekkert ofan í mig, nema að það geri mér gott og
hef lagt áfengi á hilluna. Svallið fylgir auðvitað spilamennskunni og þegar manni
er farið að líða svona vel og maður er orðinn svona vel á sig kominn tímir maður
bara ekki að skemma það.“
Og það er fleira en sullið sem fylgir þessu lífsmynstri. „Það hefur gengið á
ýmsu í kvennamálum hjá manni, eins og oft vill verða hjá poppurum, en ég hef
verið svo heppinn að geta alist upp með börnunum mínum,“ segir hann.
Labbi á fjögur börn og gekk einu barni í föður stað á sínum tíma og á nú orðið
sex barnabörn. „Ég er ekki í sambúð í dag en á þessa fínu kærustu, Sigrúnu
Ólafsdóttur listakonu, systur Guðlaugar Elísabetar leikkonu. Hún býr í Þýska-
landi, svo það má segja að við séum í fjarbúð. Ég var trúlofaður Sigurjónu Sverr-
isdóttur um tíma og átti með henni dóttur, Guðlaugu, sem er sprenglærð djass-
söngkona og bjó í Hollandi um hríð, en er nú flutt heim og búin að eignast sitt
fyrsta barn. Síðan á ég tvö börn, Björn og Guðlaugu, með Ernu Margréti Laufdal.
Sísí, sem Erna átti fyrir, varð að sjálfsögðu ein af börnunum mínum. Einnig á ég
dóttur, Laufeyju, með Andreu Jónsdóttur. Börn mín og Ernu ólust upp hjá mér
eftir að við skildum og Björn býr hjá mér enn og hefur verið með mér í hljóm-
sveitinni.“
Í fótspor feðranna | Börn Labba og Guðmundar Benediktssonar hafa fetað í fót-
spor feðranna og komu meðal annars fram á tónleikum Mánanna á Broadway í
haust. „Björn sá um slagverk og Guðlaug syngur bakraddir. Pétur sonur Gumma
Ben lék á píanó og söng bakraddir og Unnur Birna dóttir Bassa bróður míns spil-
aði á fiðlu og söng bakraddir. Unnur er 17 ára en hin milli tvítugs og þrítugs,“
segir hann.
Mánarnir sýsla í fleiru en tónlist og mynddiskagerð því nú er á döfinni bók um
hljómsveitina, ekki síst stemmninguna á sveitaböllunum sem áður fyrr voru ein
aðal skemmtun ungs fólks. „Það stefndi á böllin um helgar og oft allt að 15 rútur
sem komu úr þéttbýliskjörnunum, auk leigubíla. Böllin sóttu 700 til 1.200 manns
og oft haldin þrjú böll um hverja helgi. Á þessum tíma kom fólk austan úr Vík og
ofan úr Borgarfirði og úr Keflavík og Reykjavík. Það hittist og kynntist og að
mörgu leyti var þetta miklu skemmtilegra en það er í dag. Aldurinn var líka miklu
breiðari, frá 15–16 ára og hátt á þrítugsaldur. Helstu staðirnir voru Borg, Ara-
tunga, Flúðir, Árnes, Hvoll og Selfossbíó, Hellubíó og ýmsir smærri eins og Þjórs-
árver og Félagslundur.“
Fleira finnst Labba hafa færst til verri vegar í nútímanum, til dæmis skilgreining
fólks á verðmætum. „Það brennur á manni hvernig þróunin er að verða; allt þetta
unga fólk sem flytur ekki inn í sína fyrstu íbúð nema allt sé nýtt. Ég er að verða 55
ára og hef svotil aldrei keypt mér húsgagn. Samt er ég ósköp ánægður með þetta
allt, annað hvort fær maður þessa hluti gefins, hirðir sjálfur eða smíðar. Maður
kann ekki að meta það sem maður þarf ekki að hafa fyrir því að eignast, það færir
ekki sömu gleði að fá allt upp í hendurnar án fyrirhafnar. Svo er allt á endalausum
lánum sem múlbinda mann og ekkert má út af bregða. Það er varla hægt að njóta
lífsins undir þessum kringumstæðum, sem maður ætti þó að einbeita sér að.
Maður hélt sjálfur þegar maður var að byrja að lífsgæðin fælust í veraldlegum
eignum. Nú kann ég að fara varlega í hlutina.
Mér finnst heldur ekki gott hvernig peningavaldið stjórnar öllu. Ég vil ekki lifa í
þannig heimi. Það er ekki hægt að nota peningalegan mælikvarða á allt. Það er
meira að segja talað um hagnað á skólum og sjúkrahúsum. Hann verður ekki
mældur í fé. Það má ekki allt snúast um peninga,“ segir hann.
Labbi kveðst líka mikið fyrir að lifa einfalt og flækja ekki hlutina, eða velta sér
upp úr því sem hann veit að hann fær ekki botn í. „Ég er lítill grúskari að eðlisfari,
en mikið fyrir að hafa í lagi það sem ég er að gera og þekkja allt vel á því sviði en
fara ekki út fyrir það, nema ég þurfi á því að halda. Ég hrífst mjög af fólki sem lifir
einföldu lífi en gerir skyldur sínar og reynir að láta gott af sér leiða.“
Hann hefur haft viðurværi af tónlist í rúm 40 ár og segir ofsalega gaman að spila
og geta stjórnað salnum, eins og hann tekur til orða. Þá er betra að fólk sé aðeins
við skál,“ segir hann líka í gríni. „Maður fær heilmikið út úr áhrifunum sem fylgja
því að láta fólk skemmta sér og ná tökum á því. Maður þarf að lesa stemmninguna
rétt, ef maður gerir það ekki getur maður misst hana með því að taka kolvitlaust
lag,“ segir hann og hljómar óneitanlega dálítið eins og dávaldur.
Hann kveðst jafnframt eiga mikið ógert á tónlistarsviðinu.
„Ég hef engan áhuga á því að dæla út efni endalaust, en um leið og ég er tilbúinn
með eitthvað kem ég því á framfæri. Ég hef haft mitt viðurværi af tónlist í rúm 40 ár
og er ráðinn allar helgar fram í miðjan mars með hljómsveitinni Karma. Björn sonur
minn spilar með okkur, sem er sérlega gaman því hann er svo flinkur. Ég er búinn að
koma öllu mjög þægilega fyrir og fæ alveg jafn mikið út úr því að spila á litlu þorra-
blóti eða við jarðarför og brúðkaup og í Laugardalshöll. Það gefur mér meira að ná
sambandi við fólk sem kann að meta það sem ég er að gera og er mér meira virði en
margur glamúrinn. Maður er í voðalega fínni og góðri aðstöðu, verð ég að segja. Mig
langar líka mikið til þess að gera myndband við sumarplötuna, þar sem ég er hopp-
andi og skoppandi úti í náttúrunni og tek heljarstökk, ekki síst til þess að sína fram á
að maður þurfi ekki að verða að hræi þótt maður verði fimmtugur. Það er nauðsyn-
legt að taka sig ekki of alvarlega, það fer illa með fólk.“ | helga@mbl.is
L
jó
sm
yn
d:
Á
rn
i S
æ
be
rg
„Maður þarf ekki að verða að
hræi þótt maður verði fimmtugur,“
segir Labbi og svífur í loftinu.