Fréttablaðið - 06.06.2003, Blaðsíða 21
FÖSTUDAGUR 6. júní 2003 5
H R Ó K U R N N
Hrafn segir að það marki vonandi
upphafið að skákvæðingu Grænlands.
„Verkefnið er heillandi og það stendur
okkur Íslendingum nærri að kynna
nágrönnum okkar þá gersemi sem skák-
listin er. Mótið er tileinkað minningu
Willard Fiskes sem er líklega mestur vel-
gjörðarmaður íslensku þjóðarinnar. Við
minnumst hans með því að taka brot af
því sem hann á sínum tíma gaf okkur, þá
bláfátækri útkjálkaþjóð, og gefa það
áfram til þeirra sem á þurfa að halda. Við
viljum einnig stuðla að því að grann-
þjóðirnar kynnist betur. Í rauninni vita
Íslendingar sáralítið um Grænland og
Grænlendinga og byggja álit sitt yfirleitt
á innistæðulausum klisjum. Staðreyndin
er sú að Grænlendingar líta upp til
Íslendinga um margt og sjá okkur sem
helstu vinaþjóð sína. Grænlendingar eru
á þeim stað í sögu sinni að þeir þurfa
sannarlega á vinarhug að halda. Svo er
líka ótalmargt sem við getum af þeim
lært. Það er ánægjulegt að Flugfélag
Íslands skuli rjúfa múrinn sem verið
hefur á milli landanna með því að hefja
flug til Suður-Grænlands í sumar.
Um skákvæðingu Grænlands og fleiri
verkefni hefur verið stofnað félagið Skák
í norðri. Benedikte Thorsteinsson er
framkvæmdastjóri verkefnisins en að
auki hafa margir góðir menn lagt málefn-
inu lið. Næsta skref er að búa til skákbók
á grænlensku fyrir börn því að eina raun-
hæfa aðferðin til að gera Grænlendinga
að skákþjóð er að byrja á grunninum. Þá
ætti ekki að taka nema fimm til sjö ár að
byggja mjög blómlegt skáklíf hjá okkar
góðu grönnum.“■
Ég held að áhugi krakkanna hér á
Drangsnesi á skákíþróttinni hafi farið
mjög vaxandi að undanförnu,“ segir
Einar Ólafsson skólastjóri grunnskólans
á Drangsnesi.
„Sjálfur átti ég því láni að fagna
þegar ég var ungur að innan fjölskyldu
minnar var mikið teflt og þegar ég var
rúmlega tíu ára fór pabbi til dæmis með
mig á hraðskákmót Íslands sem oft var
haldið í Breiðfirðingabúð á þeim árum.
Og það var ekki ónýtt fyrir lítinn gutta
að fá að tefla við ýmsa sem þá voru átrú-
naðargoð og maður leit upp til. En eins
og hjá mörgum unglingum þá vék
skákin fyrir heimsins lystisemdum en
samt fylgir hún manni alla ævi sem
gefandi og þroskandi íþrótt sem verður
að sannkallaðri list hjá þeim ofur-
snillingum sem lengst hafa náð. Því
hefur það alltaf verið mér hugleikið að
skólarnir nái að virkja þá skapandi
hugsun sem býr í krökkum. Krakkar á
aldrinum sex til tólf ára eru líklega
ótrúlega næm, ef hugur þeirra opnast
fyrir leyndardómum þeirrar hugsunar
sem gerir skákina að jafn mikilli list og
raun ber vitni.
Sjálfur hef ég sem skólastjóri sett
skák inn á stundatöflu hjá nemendum
mínum og það hefur gefið góða raun.
Hluti af skákinni er jú stærðfræði og
öguð hugsun. Í dag fer oft mikill tími í
það hjá kennurum að fá krakka til að
sitja kyrr og sökkva sér niður í verkefni.
Ekki er hægt að hugsa sér betri leið til
að þjálfa þetta en með skákiðkun sem
gengur út á að halda fullri einbeitingu.
Ég vil því hvetja stjórnvöld til að
hugleiða það hvort ekki sé tímabært að
skipa nefnd sem ætlað verður það
hlutverk að gera Ísland aftur að stór-
veldi í skák. Margir góðir skákmenn eru
nú á Alþingi sem örugglega muna
hversu þjóðlífið var litað skákáhuga.
Í dag er til eitthvað sem heitir
„Tónlist fyrir alla“ þar sem reynt er að
þjóna landsbyggðinni með því að senda
tónlistarmenn í skólana öllum til
ánægju. Auðvitað eiga stjórnvöld að
gera það sama fyrir skákina. Senda
menn inn í skólana og kenna mann-
ganginn, setja upp mót, aðstoða við
stofnun skákfélaga og svo mætti lengi
telja. Þess vegna ítreka ég það að meðan
eldhugar á borð við liðsmenn Hróksins
fyrirfinnast í þessu landi þá eigum við að
virkja þá, því ekki er víst að við fáum
annað tækifæri til að endurreisa skáklíf
á Íslandi.“■
Skákin á stundatöflunni á Drangsnesi
Ísland verði
stórveldi í skák
Steinar Stephensen hefur
kennt skák í Hvaleyrarskóla í
fimm ár og tekur þátt í barna-
starfi Hauka
Bæjaryfirvöld
íhuga skákkennslu
í öllum skólum
Hafnarfjarðar
Steinar Stephensen, kennari í Hval-
eyrarskóla, hefur staðið fyrir skák-
æfingum á þriðjudögum síðasta vetur
hjá skákdeild Hauka og segir að áhuginn
hafi verið mjög mikill allan veturinn.
„Það mættu að jafnaði 20-30 krakkar á
þessar skákæfingar. Í bígerð er að auka
við æfingar í skák næsta vetur. Við héld-
um fyrst að áhuginn myndi minnka en
það gerðist ekki,“ segir Steinar. „Það
sem Hrókurinn hefur verið að gera hefur
örugglega líka haft áhrif bæði á krakkana
sem og foreldra. Í Hvaleyrarskóla hefur
verið kennd skák undanfarin fimm ár
sem ég hef séð um. Skákkennslan hefur
verið í námsskeiðsformi og hafa nemend-
ur, kennarar, stjórnendur og foreldrar
verið mjög ánægðir með hana. Bæjar-
yfirvöld eru að íhuga að setja skák-
kennslu í alla skóla í Hafnarfirði, kenn-
arar myndu þá fá kennsluleiðbeiningar
varðandi skákkennslu og nemendur fá
skákbók sem og verkefnabók. Þetta
getur verið spennandi og eflaust mun
þetta auka áhuga á skák.
Skák í þessum skóla hefur nær
eingöngu verið bundin við yngri nem-
endur en ekki í unglingadeild. En í vetur
setti ég skákborð fram á gang í unglinga-
deild. Margir kennarar voru mjög efins
og sögðu að það myndi ekki fá að vera í
friði. En annað kom í ljós mikill áhugi var
fyrir skák og mikið teflt í frímínútum sem
og matarhléum þannig að á endanum
voru þrjú skákborð sett fram. Það var
staðreynd að unglingarnir voru rólegri í
frímínútum enda margir sem voru að
fylgjast með skákkeppninni. Þarna voru
bæði strákar og stelpur sem voru að tefla
og engum fannst þetta asnalegt eða hall-
ærislegt. Til þess að skákin nái fram að
ganga í grunnskólunum þá
er nauðsynlegt að
starfsfólkið sjái
um að koma
henni á framfæri
og haldi skákinni
á lofti.“
Þess má geta að
Skákdeild Hauka vann
frækilegan sigur í 4.
deild Íslandsmóts
skákfélaga nú í
vor. Lið Hróksins
sigruðu í 1., 2. og
3. deild og var
þetta í fyrsta
skipti frá upphafi
keppninnar árið
1974 sem eitthvert af
gömlu skákfélögunum
náði ekki að sigra í
einni einustu deild.
■
/ Eigum að virkja eld-
hugana í Hróknum, því
ekki er víst að við fáum
annað tækifæri til að
endurreisa skáklíf á
Íslandi. /
EDDUMEISTARINN 2003
Michail Gurevich sigraði óvænt á
Edduskákmótinu 2003 - Minningarmóti
Guðmundar J. Guðmundssonar. Mótið var eitt
hið sterkasta í heiminum á árinu, enda
verðlaunapotturinn freistandi. Gurevich, sem
er Rússi en býr í Belgíu, hlaut 10 þúsund
dollara í 1. verðlaun og fagran sigurkrans.
Hér er sigurvegarinn ásamt Björgólfi
Guðmundssyni, aðaleiganda Eddu útgáfu hf.,
sem stóð að baki þessu glæsilega móti,
sem Hrókurinn hélt í Borgarleikhúsinu.
Til minningar um Jakann
Edduskákmótið 2003 var tileinkað minningu
Guðmundar J. Guðmundssonar, eða Jakans einsog hann var
almennt kallaður. Guðmundur Jaki var
formaður Dagsbrúnar og einn helsti
leiðtogi verkalýðshreyfingarinnar á
ofanverðri 20. öld. Hann var lykilmaður
við gerð þjóðarsáttarinnar frægu 1990.
Guðmundur var ástríðufullur skákmaður
og skáklífið í Dagsbrún var öflugt undir
hans skeleggu stjórn.