Fréttablaðið - 23.01.2005, Blaðsíða 18
láta karlana redda stúlkunni. Þá
fékk maður það sem mann
vantaði.“
Og svo byrjaði hún að skrifa
eftir að hafa tekið heita trú í
Oxford, þegar hún forvitnaðist
um afdrif skólasystur sinnar, sem
söðlaði um og fór í guðfræði.
„Í kirkju í Oxford upplifði ég
stórkostlegan hlut þegar prestur-
inn bað þá sem vildu eignast Krist
í sínu hjarta að sitja eftir. Í mér,
ungri leikkonu sem átti fallegasta
manninn í Reykjavík, yndisleg-
asta barnið og gekk vel í leikhús-
inu, vantaði eitthvað og var mikið
tóm, svo ég ákvað að verða eftir á
kirkjubekknum. Ekkert gerðist
nema hvað presturinn sagði okkur
hafa gert það erfiðasta; að viður-
kenna þörf okkar fyrir Guð, og nú
hefði hann tekið við okkur. Ári
síðar lendi ég í krísu og fannst líf-
ið harla erfitt. Missti fótanna og
fékk taugaáfall, en hafði þá tekið
barn í fóstur. Taldi mig réttu
manneskjuna þar sem ég hafði
verið sett í fóstur eftir móður-
missinn. Í stað þess að hjálpa
barninu grét ég með því og varð
aftur að móðurlausu stelpunni.
Þurfti því að láta barnið frá mér
og fannst ég bregðast öllu sem ég
vildi vera. Ég gat ekki hugsað mér
að senda hana aftur á þann stað
þar sem henni hafði liðið illa. Þar
sem ég stóð grátandi í stofunni
mundi ég eftir Oxford. Teygði mig
í Biblíuna, opnaði og þar stóð
Daníel: „Frá þeirri stundu er hug-
ur þinn beindist að andlegum
efnum, og þú lítillækkaðir þig
fyrir Guði þínum; vegna þess er
ég hingað kominn.“ Ég sá ekkert
merkilegt, en þarna var hann
kominn. Ég lagðist róleg til hvílu
og svaf sem barn til morguns. Var
ekkert hissa morguninn eftir
þegar barnlaus hjón hringdu og
báðu um stúlkuna mína í fóstur.
Guð var tekinn við. Það var ekkert
sem ég réði lengur.“
Dauðamaður hringir
Eftir þessa trúarreynslu hóf
Guðrún leitina með hjálp séra
Auðar Eir sem leiddi hana fyrstu
skrefin. Ævintýrin tóku við hvert
af öðru en Guðrún á óteljandi
vitnisburði um mátt bænarinnar
og Guð almáttugan.
„Á Þorláksmessu, eftir að hafa
talað um trú mína í sjónvarpssal,
hringir síminn klukkan hálfeitt
um nótt. Á línunni er kæfð rödd:
„Þú ert Guðrún Ásmundsdóttir.
Þú viðurkennir trú þína í fjölmiðl-
um. Ég gef þér fimm mínútur.
Talaðu! Ég ætla að fyrirfara mér.
Talaðu!“ Ég fór auðvitað í baklás
en bað Guð að svara þessum
manni. Ræði við hann nokkra
stund. Þá segir röddin, gjörbreytt:
„Þá þarf ég ekkert að tala við
þig.“ Ég man ekki hvað ég sagði
en bað allan tímann að vísdómur
Guðs talaði til hans. Þessi maður
hringdi svo alltaf einu sinni á ári
og við urðum bestu trúnaðarvinir
þótt við sæumst aldrei. Áttum
þetta leyndarmál saman. Ég veit
að hann er dáinn, því hann er
hættur að hringja.“
Í fótspor Ólafíu
Fyrsta leikritið sem Guðrún skrif-
aði var um tröllabarnið Lómu og
hét „Mér er alveg sama þótt ein-
hver sé að hlæja að mér“. Boð-
skapurinn var kristilegur og fór
fyrir brjóstið á mörgum sem
sögðu guðsbarnahjal tómt vesen
og leiðindi. Lóma varð síðar að
bók og Guðrún skrifaði fleiri
kristileg leikrit; Kaj Munk og
Heilagan syndara. Nýjasta leikrit
hennar fjallar um Ólafíu Jóhann-
esdóttur, einstaka konu sem gaf
öðrum kærleika og veitti aðstoð
um aldamótin 1900.
„Í átta ár kannaði ég líf Ólafíu
sem var stórkostlega merkileg
kona. Eftir allan þann tíma var
erfitt að troða efninu í eins og hálfs
tíma leikrit. Mér tókst að stytta það
og hélt að stóru leikhúsin yrðu him-
inlifandi að fá leikrit um þessa
merku konu. Það var nú aldeilis
ekki. Leikhússtjórarnir spurðu
bara hvort ég héldi virkilega að
kerling sem gerði góðverk í kring-
um 1900 væri efni í leikrit. Ég sótti
þá um styrki alls staðar; tvisvar til
Reykjavíkurborgar en fékk ekki
neitt. Samt vann þessi kona slík af-
rek fyrir Reykjavík að ekki er hægt
að lýsa því. Norðmenn hafa sýnt
henni mikla vegsemd. Í Ósló er
minnisvarði um Ólafíu þar sem
stendur: „Vinur hinna ógæfusömu.“
Þar er líka gata nefnd eftir henni,
Olafia-gade, og stór spítali, Olafia
Kliniken. Ég frétti svo af afhjúpun
minnisvarða um Ólafíu á Mosfelli,
þar sem hún var fædd og fékk eina
og hálfa milljón frá Listasjóði með
frumsamið leikrit og ellefu leikara.
Þetta voru leikarar í fremstu röð
sem vildu hjálpa mér þrátt fyrir
lítinn sem engan aurinn. Við frum-
sýndum svo á Mosfelli, en það var
mikill léttir að geta loks farið í
Ólafíuferð á bernskuslóðir hennar,
sagt sögur á leiðinni og hafa leikara
sem taka við hér og þar,“ segir
Guðrún og vísar til fyrirtækis
þeirra Birgis, Storytrips, sem held-
ur utan um menningartengda
ferðaþjónustu og býður dagsferðir
á slóðir Einars Benediktssonar og
Ólafíu Jóhannsdóttur.
Leikhús á hjólum
„Við byrjuðum á slóðum Einars
Ben. í Herdísarvík og í húsi hans á
Eyrarbakka, þar sem við höfðum
með okkur listamenn til að flytja
ljóðin hans, segja sögurnar og
syngja. Þessar ferðir gengu vel og
urðu mikið ævintýri. Ég varð upp-
veðruð af þessari reynslu því til
að segja sögur þessa fólks dugar
ekki einn og hálfur tími í leikhúsi,
þar sem allt er svo dýrt og þungt í
uppsetningu. Maður kemur í
Herdísarvík og hvílík leiktjöld!
Geitahlíðin, litla húsið, hafið;
veggirnir tala með manni. Það er
engu líkt að flytja ljóð Einars þar
inni og horfa út um sama glugga
og hann forðum. Reyndar er Her-
dísarvík, eins og Selvogurinn,
þessir afskekktu staðir í auðninni
handan borgarinnar, nú í útrým-
ingarhættu með tilkomu Suður-
strandarvegar, en staðurinn er
falin paradís. Það fer að verða síð-
asta tækifærið til að koma þangað
í kyrrðina og friðinn. Þetta er
reyndar orðin svo mikil della hjá
mér að nú vil ég færa út kvíarnar
og fara norður á slóðir Jónasar og
Davíðs. Þetta er nýjasta ævintýr-
ið í mínu lífi; eins konar leikhús á
hjólum. Framtíðin með magnaða
dagskrá um merkilegt fólk í ynd-
isfögru landi. Ég verð sjötug á
næsta ári. Hef oft hugsað: Vildi ég
verða ung aftur? En mig langar
ekki til þess. Það er svo mikið
stress. Maður þarf alltaf að
vera að meika það. Aldrinum
fylgir frelsi. Ég hef aldrei verið
hamingjusamari.“ ■
SUNNUDAGUR 23. janúar 2005 17
TRÚUÐ GAMANLEIKKONA Margir
sögðu Guðrúnu ekki geta verið leikkonu
eftir að hún tók að leita Jesú Krists og
gerðist trúuð eftir messu í Oxford. Guðrún
sagðist ekki kunna annað, enda yrði hún
að sjá fyrir sér eins og aðrir.