Fréttablaðið - 23.01.2006, Síða 57
MÁNUDAGUR 23. janúar 2006
Fáir myndu neita því að húsið, eða
réttara sagt „blokkin“, við Vest-
urgötu 52 til 54 í Reykjavík er
áberandi lýti á gamla Vesturbæn-
um og kemst í flokk með mestu
skipulagsmistökum í borginni; er
þó af ýmsu að taka. Ástæðan er
auðvitað sú að blokkin gnæfir yfir
nærliggjandi hús og hverfi sem að
jafnaði samanstendur af tvílyftum
timburhúsum með þriggja hæða
steinhúsum á stöku stað, allt með
tilheyrandi áhrifum fyrir útsýni,
birtu og vindstrengi. Samt er
blokkin við Vesturgötu ekki nema
fimm hæðir!
Um þessar mundir vinna borg-
aryfirvöld að nýju skipulagi á því
svæði í gamla Vesturbænum sem
venjulega er kennt við slippinn og
Mýrargötu. Fyrir reit sem kenndur
er við Ellingsen og stendur vestast
á Mýrargötu liggur fyrir samþykkt
deiliskipulag um 7 hæða blokk.
Fyrir reit fyrir vestan Héðins-
húsið (Loftkastalann) liggur fyrir
deiliskipulagstillaga um 8 hæða
blokk. Fyrir svæðið í heild liggur
fyrir rammaskipulagstillaga, þar
sem gert er ráð fyrir því að bygg-
ingar verði almennt 5-7 hæðir
með þeirri einu undantekningu
að við Nýlendugötu á byggðin að
vera (aðeins) allt að 5 hæðum.
Samkvæmt tillögum borgaryf-
irvalda eiga við sjóinn að rísa 6
hæða byggingar sem munu vænt-
anlega taka af allt útsýni til sjávar
og loka gamla bæinn inni. Sumum
kann e.t.v. að finnast það skoplegt
að yfirlýst markmið með þessu
rammaskipulagi er „lág byggð, 3
til 5 hæðir, uppleyst að hluta, opin
í senn á móti sólarátt og að sjó.“
Íbúum í hverfinu er þó tæplega
hlátur í hug.
Hvernig dettur einhverjum í
hug að leggja fram tillögur um 5 til
7 hæða byggð í gamla Vesturbæn-
um þegar að vítin til að varast eru
svo borðliggjandi? Dagur B. Egg-
ertsson, formaður skipulags- og
byggingarnefndar, hefur á fundum
með íbúum vakið athygli á því að
landið halli í átt sjávar og því hljóti
allir að sjá að það sé í góðu lagi
að byggingar hækki eftir því sem
landið lækki. Með þessum rökum
væri auðvitað hægt að miða hæð
byggðar á Mýrargötu-Slippsvæð-
inu við Landakotsspítala og byggja
þar með 80 hæða skýjakljúfa með
fram sjónum. Og e.t.v. er það þetta
sem byggingaryfirvöld hefðu helst
hafa viljað gera, ef þau hefðu ein
verið í ráðum. Einhvers konar virð-
ing fyrir byggðinni sem fyrir er,
virðist a.m.k. algerlega hafa vikið
fyrir eftirsókn í hámarksbygging-
armagn á hvern mögulegan byggj-
anlegan fermetra, auðvitað með
tilheyrandi vandamálum fyrir
dagvistun, skólakerfi, umferð og
bílastæði. Stefnum við hraðbyri
að enn einu skipulagsslysinu í
Reykjavík?
Höfundur er íbúi við Bakkastíg
í Reykjavík.
(Enn) Önnur skipulags-
mistök í Reykjavík?
VESTURGATA 52-54 Blokkin (fyrir miðju) er aðeins fimm hæðir, en gnæfir þó yfir nærliggj-
andi byggð sem samanstendur að mestu af tvílyftum timburhúsum.
UMRÆÐAN
SKIPULAGSMÁL
SKÚLI MAGNÚSSON
Sumum kann e.t.v. að finnast
það skoplegt að yfirlýst mark-
mið með þessu rammaskipu-
lagi er „lág byggð, 3 til 5 hæðir,
uppleyst að hluta, opin í senn á
móti sólarátt og að sjó.“ Íbúum
í hverfinu er þó tæplega hlátur
í hug.
NFS ER Á VISIR.IS
NFS ER Á VISIR.IS