Fréttablaðið - 16.03.2006, Blaðsíða 8
16. mars 2006 FIMMTUDAGUR8
Í GARÐINUM HEIMA
HAFSTEINN HAFLIÐASON SKRIFAR UM POTTAPLÖNTUR
Frá hinni sólbökuðu hásléttu og fjalla-
hlíðum í Suður-Afríku kemur urmull
plantna sem unnið hafa sér sess sem
skrautjurtir um allan heim, dásamaðar
fyrir fegurð og fjörugt litaspil. Hér á
landi þekkjum við pelargóníur, freyslilj-
ur, gladíólur og hádegisblóm – svona
til að nefna eitthvað. Og þaðan kemur
líka gerberan með sinn ótrúlega
litaskala á hvítu, gulu, rauðu, bleiku
og rauðbleiku nótunum. Gerberan er
eftirsótt afskurðarblóm sem stendur
vel í vasa og á síðari árum hefur hún
öðlast vinsældir sem pottablóm.
Sagan
Gerberan hefur ýmist verið kölluð
glitkarfa eða geislafífill á íslensku en
hvorugt nafnið hefur náð fótfestu
manna á meðal. Gerbera er ættkvísl
af körfublómaætt og til hennar teljast
nokkrar tegundir, allar bundnar við
tiltölulega afmörkuð svæði í Suður-
Afríku. Ættkvíslin varð kunn vísindun-
um um 1737 og hollenski grasafræð-
ingurinn Johan Frederik Gronovius
(1686-1762) gaf henni nafn Traugotts
Gerber (1710-1743) sem var þýskur
prestssonur frá bænum Zodel við
pólsku landamærin. Gerber þessi
lærði læknisfræði og gerðist læknir
rússnesku hirðarinnar og síðar í
rússneska hernum. Hann lést aðeins
þrjátíu og þriggja ára gamall í borg-
inni Viborg sem þá tilheyrði Finnlandi
og er rétt norðan við þá Pétursborg
sem um nokkra hríð var kölluð Len-
íngrad. Gerber var líka áhugasamur
grasagrúskari og var sendur á vegum
Önnu, keisaraynju Rússa, í grasa-
fræðileiðangur til hinna fjarlægu aust-
urhéraða rússneska ríkisins. Þaðan
kom hann með allmargar plöntu-
tegundir sem áður voru óþekktar
um Vesturlönd en hafa síðan orðið
vinsælar garðjurtir víða um Evrópu,
líka hérlendis. Í ferðarlok barði hann
saman flórubók fyrir hennar hátign og
kallaði „Flóru frá Moskvu“. Gronovius
og Gerber þekktust ekkert og Gerber
kom aldrei til Suður-Afríku. Mönnum
er því ráðgáta hvað réði nafngiftinni
á þessari ættkvísl. En líklega hefur
sá fyrrnefndi haft pata af orðstír hins
síðarnefnda og álitið hann verðskulda
eilíft líf á bókfelli grasafræðinnar fyrir
austurförina og flórubókina. En hvað
um það, íbúar smábæjarins Zodel
– sem státar af álíka íbúafjölda og
Ólafsvík – halda árlega sína Gerberu-
hátíð og hafa stofnað safn í minningu
þessa „sonar síns“ og fjölskyldu hans.
Hvort tveggja dregur að þúsundir
ferðamanna á hverju ári. Gott dæmi
um menningartengda ferðaþjónustu
eins og hún gerist best!
Uppgötvanir og kynbætur
Hinar fyrstu gerberutegundir, sem
uppgötvaðar voru, þóttu ekkert
sérstakar. Laufið rytjulegar blöðkur
og blómin skáru sig svo sem ekkert
úr. En árið 1878 eru tveir menn á
ferð á svipuðum slóðum, en þó hvor
í sínu lagi. Það voru hinn austurríski
grasafræðingur Anton Rehmann og
hinn skoskættaði sultugerðarmaður
Robert Jameson. Báðir ráku augun
í sérstaklega stór og gullinrauð
fífilblóm sem slógu út krónum sínum
í skjóli af gisnu runnakjarri á fremur
grýttum og kalkríkum jarðvegi. Og
alveg samtaka, þótt hvorugur vissi af
öðrum, gátu þeir ekki á sér setið að
koma þessari fegurð á framfæri við
þann menningarheim sem þeir voru
sprottnir úr. Antoni dugði að rífa upp
eina eða tvær plöntur til að þurrka
í grasasafninu sínu, en Robert gerði
ekkert minna en að koma fræi og
lifandi eintökum til hins konunglega
grasagarðs í Kew sunnan við London.
Þar tók Íslandsvinurinn Joseph Dalton
Hooker við sendinguninni, gaf henni
nafnið Gerbera jamesonii og sendi
nokkur fræ til starfsbróður síns,
Richard Lynch, sem var forstöðumað-
ur háskólagrasagarðsins í Cambridge.
Lynch kom þessu fræi á legg og
plönturnar blómguðust eins og vera
bar í fyllingu tímans. En Lynch var
bæði forvitinn og fiktsamur og próf-
aði að víxlfrjóvga plönturnar við aðra
gerberutegund, G. virdifolia, fremur
látlausa með slöppum, gulleitum
blómum. Árangurinn lét ekki á sér
standa. Afkvæmin báru mun stærri
og þéttari blóm en foreldrarnir, og
gott betur en það, því að í ofanálag
skiluðu þessir kynblendingar blómum
í margvíslega gulum, rauðgulum
og rauðum litum. Að þeirrar tíma
tísku hlutu þessir blendingar nýtt
vísindaheiti, Gerbera x gandavensis,
til heiðurs Cambridgeháskóla. Því
nafni er enn haldið víða, þótt oftast
sé látið nægja að skrifa bara Gerbera
x hybrida núorðið, enda er búið að
blanda fleiri gerberutegundum inn
í þær gerberur sem í ræktun eru
nú. Gerberur nútímans eru árangur
áratugalangra kynbóta sem hafa
miðað að því að fá fram plöntur með
sterka stöngla og blóm sem standa
lengi í vasa. Einnig hafa blómlitir og
blómgerð skipt miklu máli. Árlega
koma fram tugir nýrra og endurbættra
afbrigða sem leysa hin eldri af hólmi.
Afskorin og pottablóm
Sem afskurðarblóm stendur gerbera
afar vel (7-10 daga) í vatni með
blómanæringu.
Gerberur sem pottaplöntur vinna á
og geta blómgast frá því í mars og út
september. Bara þarf að gæta að því
að láta pottana ekki standa í sólheit-
um gluggum og helst á hitinn ekki
að fara yfir 25°C. Halda þarf moldinni
rakri og vökva með daufu áburðar-
vatni vikulega. Visin blóm eru fjarlægð
jafnóðum. Þær standa vel í garðskál-
um þar sem nokkurn skugga ber á.
Sömuleiðis eru þær ákjósanleg blóm
í eldhús, borðstofur og mötuneyti þar
sem birta er næg og ekki er of heitt.
Ekki borgar sig að geyma gerberur
yfir veturinn. Bæði leyfir vetrarbirtan
innanhúss það illa og eins dregur úr
blómgunarviljanum þegar plönturnar
eldast.
Sultugerðarmaður, sólbökuð háslétta
og gullni fífillinn Gerbera
BORÐ FYR IR TVO
K R I N G L A N
S ÍÐASTA
KRINGLUKAST IÐ
DÚNDURTILBOÐ
Í
I I
I
550 5000
AUGLÝSINGASÍMI