Fréttablaðið - 27.11.2006, Side 18
fréttir og fróðleikur
Leiðtogafundur NATO hefst
í Riga í Lettlandi á morg-
un. Togstreita um deilingu
byrða, einkum og sér í lagi
af hinu vandasama verkefni
í Afganistan, og óeining um
frekari stækkun bandalags-
ins munu setja mark sitt á
fundinn.
Frá lokum kalda stríðsins fyrir
hálfum öðrum áratug hefur Atl-
antshafsbandalagið smám saman
verið að finna sér nýjan tilveru-
grundvöll. Hefur það einkum verið
gert með því að opna raðir banda-
lagsins fyrir nýjum aðildarríkjum
og með því að það taki að sér
verkefni utan marka hefðbundins
athafnasvæðis þess og verkefna-
sviðs.
En nú þegar leiðtogar aðildar-
ríkjanna, sem eru orðin 26, safnast
saman í lettnesku höfuðborginni
Riga, virðist stuðningur við hvort
tveggja – stækkun og aðgerðir
„utan svæðis“ – fara þverrandi.
„Stækkunarþreyta“ virðist þess í
stað vera komin í bandalagið og
tekizt er hart á um deilingu byrð-
anna af kostnaðar- og vandasöm-
um, hættulegum aðgerðum eins og
þeim sem í gangi eru í Afganistan.
„Stækkunarmálin verða örugg-
lega ekki efst á baugi á leiðtoga-
fundinum í Riga,“ sagði James L.
Jones, aðalhershöfðingi NATO í
liðinni viku.
Riga-fundurinn verður fyrsti
leiðtogafundur NATO frá því Var-
sjárbandalagið var leyst upp, þar
sem engu landi í Mið- og Austur-
Evrópu verður boðin aðild.
Vorið 2004 fengu inngöngu sjö
lönd, sem áður voru hluti af Aust-
urblokkinni – Eistland, Lettland,
Litháen, Slóvakía, Slóvenía, Rúm-
enía og Búlgaría. Það var umfangs-
mesta stækkunarlota bandalagsins
frá upphafi, en árið 1999 gengu
Pólland, Tékkland og Ungverjaland
í bandalagið.
Þau fyrrverandi Austurblokk-
arlönd sem nú bíða þess að fá boð
um NATO-aðild eru Albanía,
Króatía og Makedónía, og fyrrver-
andi Sovétlýðveldin Úkraína og
Georgía.
Þótt bandarískir ráðamenn hafi
þrýst á um aðild síðarnefndu land-
anna tveggja þykir ósennilegt að
þeim verði gefin nein skuldbind-
andi fyrirheit um aðild að banda-
laginu. Ein ástæðan fyrir því er
dvínandi áhrif Bandaríkjamanna á
stefnumótun bandalagsins, sem
rekja má til deilnanna um Íraks-
stríðið og þeirrar stefnu núverandi
Bandaríkjastjórnar að velja sér
bandamenn eftir þörfum. Þessi
stefna, sem Donald Rumsfeld, frá-
farandi varnarmálaráðherra
Bandaríkjanna, orðaði svo: „The
mission defines the coalition,“
hefur tvímælalaust grafið undan
NATO og áhrifum Bandaríkja-
manna á stefnumörkunina.
Hvað Úkraínu varðar flækir
það líka málin að síðan í marz á
þessu ári er þar við völd ríkisstjórn
sem er klofin í afstöðunni til þess
hvort fýsilegt sé fyrir landið að
stefna inn í NATO. Flokkur Viktors
Janúkovítsj forsætisráðherra vill
halda í náin tengsl við Rússland
frekar en að nálgast NATO frekar.
Hvað Georgíu varðar fara erind-
rekar í höfuðstöðvum NATO í
Brussel ekki í neinar grafgötur um
að sú mikla spenna sem ríkir í sam-
skiptum Kákasuslýðveldisins við
Rússland geri að verkum að banda-
lagið myndi hugsa sig tvisvar um
áður en það byði því aðþrengda
ríki aðild, vitandi að Rússar tækju
það mjög óstinnt upp.
Af öðrum ríkjum í biðröðinni er
Króatía álitin eiga bezta mögu-
leika. Hernaðarleg aðlögun að
stöðlum NATO er þar langt á veg
komin og pólitískur stöðugleiki
ríkjandi. Makedónía kæmi næst
þar á eftir og Albanía þarnæst. Lík-
legt þykir að á fundinum í Riga
verði í það minnsta einhverjum af
þessum ríkjum veitt fyrirheit um
að þau geti gert sér vonir um að fá
inngöngu á árinu 2008. „Það er
mjög mikilvægt að sýna að það sé
engin stækkunarþreyta í bandalag-
inu,“ hefur AP-fréttastofan eftir
Jamie Shea, yfirmanni stefnumót-
unarsviðs NATO.
Hugmyndir um að teygja raðir
NATO út fyrir landfræðileg mörk
Evrópu og Norður-Ameríku eru
hins vegar mun umdeildari.
Bandaríkjastjórn áréttaði fyrir
Riga-fundinn að hún væri því
hlynnt því að NATO byði Japan,
Suður-Kóreu og Ástralíu til náins
samstarfs, auk Svíþjóðar og Finn-
lands. „NATO verður að verða
áfram Evró-Atlantshafsstofnun,“
sagði franski varnarmálaráðherr-
ann Michele Alliot-Marie nýlega í
grein í dagblaðinu Figaro. „Að
breyta bandalaginu í hnattræna
stofnun gæti ... grafið undan nátt-
úrulegri samstöðu Evrópumanna
og Norður-Ameríkumanna og
útvatnað það,“ skrifaði Alliot-
Marie.
Jaap de Hoop Scheffer, fram-
kvæmdastjóri NATO, hefur sagt að
hugmyndin um NATO-aðild ríkja á
borð við Japan og Ástralíu væri all
fjarstæðukennd. En hugmyndin á
sér áhrifamikla stuðningsmenn,
líka í Evrópu.
„Við verðum að breyta því
hvernig litið er á bandalagið land-
fræðilega og opna raðir þess fyrir
þeim þjóðum sem deila gildum
okkar, sem standa vörð um þau í
reynd, og eru viljugar til að taka
þátt í baráttunni gegn hugmynda-
fræði „heilags stríðs“ herskárra
múslima,“ skrifaði Jose Maria
Aznar, fyrrverandi forsætisráð-
herra Spánar, í marz síðastliðnum.
Hann mælti því með því að NATO
byði Japan, Ástralíu og Ísrael aðild
að bandalaginu.
Søren Gade, varnarmálaráðherra
Danmerkur, gagnrýndi önnur
bandalagsríki um helgina fyrir að
víkja sér undan því að taka á sig
sinn skerf af byrðunum af verk-
efni bandalagsins í Afganistan. 290
danskir hermenn eru í ISAF-fjöl-
þjóðaherliðinu, sem NATO stýrir, í
suðurhluta Afganistans þar sem
það er stöðugt að lenda í bardögum
við skæruliða talíbana. Áður hafa
ráðamenn Bretlands og Kanada
kvartað yfir því að Þjóðverjar, Ítal-
ir, Spánverjar og Frakkar haldi
sínum hermönnum í norður- og
vesturhluta Afganistans, þar sem
lítið hefur verið um vopnuð átök
síðan innrásarlið undir forystu
Bandaríkjamanna steypti talíbana-
stjórninni í landinu síðla árs 2001.
Kanadíski varnarmálaráðherrann
Gordon O‘Connor sagði að her-
menn þessara þjóða ættu framveg-
is að „vera með hvar sem er í
Afganistan“. Að sínu áliti verði
þetta „aðalmálið í Riga“.
Danir hafa samþykkt að verða
við beiðni NATO um að senda liðs-
auka til Afganistans, en „öll aðild-
arríkin ættu að leggja sitt af mörk-
um,“ sagði Gade í viðtali við
dagblaðið Politiken á laugardaginn.
Hik hinna við að heimila að þeirra
hermenn sinni líka hættulegustu
verkefnunum grefur undan trú-
verðugleika NATO, að mati Gades.
Angela Merkel, kanzlari Þýzka-
lands, sagði á laugardag að Þjóð-
verjar væru staðráðnir í að leggja
sitt af mörkum til að tryggja að
verkefni NATO í Afganistan tækist
vel. Þátttaka þýzkra hermanna í
Afganistanverkefninu, svo og
öðrum verkefnum langt „utan
svæðis“ NATO, er hins vegar við-
kvæmt pólitískt deilumál í Þýzka-
landi. Í þýzka vikuritinu Der Spi-
egel var í síðustu viku þessi vandi
orðaður þannig, að krafa NATO
væri sú að Þjóðverjar „lærðu að
drepa“. Eftir Ronald Neumann,
sendiherra Bandaríkjanna í Afgan-
istan, er haft að þýzkir hermenn
ættu að taka þátt í bardögum í
Suður-Afganistan og láta þar lífið,
ef nauðsyn krefði. Þátttaka þýzkra
hermanna í hernaðarverkefnum
fjarri heimavelli er hins vegar
nógu umdeild fyrir meðal þýzks
almennings, þótt ekki bættist við
að þeir stæðu í því jafnvel daglega
„að drepa“ herskáa heimamenn í
Hindukush-fjöllum.
Líf og dauði rússnesks njósnara
Verkir og
hreyfihömlun
Togstreita og stækkunarþreyta