Fréttablaðið - 31.07.2007, Blaðsíða 28

Fréttablaðið - 31.07.2007, Blaðsíða 28
Nú er fólk bara lamið fyrir að sitja ekki þegjandi undir því þegar aðrir troða sér fram fyrir þá í röð. Þetta er algjörlega nýr kapítuli í umræðunni um Íslendinga og raðir. Hvaða raðir? Það eru engar raðir á Íslandi. Í djammheiminum er það til dæmis algjörlega tilgangslaust að fara í röð. Maður getur staðið í nokkra klukkutíma í röð án þess að mjakast áfram og á meðan streymir fólk meðfram röðinni í einhvers konar mikilmennahrúgu. Og þó fólk leggist svo lágt að skella sér með í hrúguna er ekkert víst að það verði „valið“ til að fá að fara inn. Þetta er ekki lengur spurning um að vera frekur, heldur hver er frekastur af þeim freku! Öllum er sama um alla aðra nema sjálfan sig. Ef maður er á endanum svo heppinn að ná inn með því að fara í heiðarlegu röðina eftir að hafa horft á allt „mikilvæga fólkið“ streyma inn þá hefur maður gengið í gegnum svo mikla niðurlægingu á síðustu tímum að það liggur við að maður gráti með ekka og þakki dyraverðinum fyrir með ástríðufullum kossi. Bíóraðirnar eru líka eitthvað sem ég botna ekkert í. Ef maður hættir sér á nýja mynd og salurinn er ekki opnaður strax þá lendir maður nánast í slagsmálum þegar dyrnar opnast og troðningurinn hefst. Til þess að ná sér í góð sæti sko. Fullorðið fólk gefandi olnbogaskot, popp út um allt og kókblaut föt. Hvar er herramennskan og dömulegheitin? Erum við svona mikill lýður og skríll að við getum ekki tekið því rólega og borið virðingu fyrir náunganum á svona stundum? Er það í ALVÖRUNNI svona mikilvægt að komast fyrstur inn á staði, vera afgreiddur fyrr en hinn eða ná sér í sæti? Það virðist aldrei gilda sú eðlilega regla að sá sem komi fyrst gangi fyrir. Reyndar þegar ég spái í það ætti ég kannski ekkert að vera að kvarta yfir þessu. Ég mun allavega ekki þora það þegar ég er stödd í enn einni blóðugri röðinni, ég vil ekki hætta á að það verði bitið af mér eyrað!

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.