Fréttablaðið - 11.09.2007, Blaðsíða 14

Fréttablaðið - 11.09.2007, Blaðsíða 14
greinar@frettabladid.is Karen Kjartansdóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, telur sig hafa náð á mig ansi góðu skensi í slúðurdálki blaðsins á leiðarasíðunni á sunnudag. Í skensi sínu sem sett er fram með svo ódýru öfugmælaháði að jafnvel rauna- mæddustu meðlimir blaðamannastéttar- innar væru vel sæmdir af lætur blaðamaður Fréttablaðsins eins og ég hafi farið með fleipur í útvarpsviðtali á laugardag. Hér vill hins vegar svo illa til fyrir blaðamanninn að skensið hittir hann sjálfan fyrir og opinberar vanþekkingu hans á því viðfangs- efni sem hann kaus að hæðast að. Þessi stutta saga er svona: Fréttastofa Útvarps bað mig um að meta helstu kosti þess fyrir neytendur ef Ísland tæki upp evru. Til viðbótar við ýmsa þætti sem snúa að evrunni sjálfri benti ég einnig á nokkra þætti sem aðild að ESB myndi hafa í för með sér en evran er jú gjaldmiðill ESB- ríkja og almennt er ætlast til að þau ríki sem vilja taka upp evru gangi fyrst í ESB. Það var í því sambandi sem ég benti á þá staðreynd að gjarnan er ódýrara fyrir íbúa í Evrópusambandinu að kaupa sér vörur frá öðru Evrópuríki yfir netið heldur en það er fyrir okkur Íslend- inga. Blaðamanni Fréttablaðsis þótti þessi ummæli mín greinilega til marks um að ég hafi þarna farið með staðlausa lofræðu. Staðreyndin er eigi að síður sú að þar sem Ísland stendur fyrir utan tollabandalag ESB þá hafa íslensk stjórnvöld getað innheimt allskonar aukatolla og gjöld af vörum sem eru framleiddar fyrir utan ESB en keyptar til landsins í gegnum vefverslanir í Evrópu. Þetta myndi Karen vita ef hún hefði til að mynda prófað að panta sér bækur frá evrópskum vöruhúsum yfir netið. Væri Ísland hins vegar í ESB myndu þessir tollar og gjöld falla niður. Nú þekki ég ekki vinnulagsregl- ur á Fréttablaðinu en í stað þess að beita ódýru öfugmælaháði hefði blaðamaðurinn hæglega getað aflað sér réttra upplýsinga með einu símtali. Höfundur er dósent og forstöðu- maður Evrópufræðaseturs Háskól- ans á Bifröst. Háð hittir blaðamann Umferðin er ekki fólki bjóðandi sagði Hafnfirðingur í skemmti- legri grein í Fréttablaðinu sl. föstudag. Þar fékk blaðamaður að sitja í með honum til vinnu sinnar í Skaftahlíð og skráði ferðasöguna á blað. Hafnfirðingurinn þurfti að halda áfram niður í miðbæ Reykjavíkur og fengum við því miður ekki að fylgjast með ferð hans þangað. Ég sem fyrrverandi íbúi á Þórsgötu var t.d. forvitin um hvar hann myndi leggja bílnum. Notaði hann Bergstaði, bílastæða- hús? Eða teppti hann allan daginn eitt af örfáum bílastæðum í mjóum götum Þingholtanna? Vinnufélagar mínir hafa sömu sögu að segja um langan ferðatíma úr Hafnarfirði og nú er spurning dagsins til þeirra ætíð sú sama: Hvað varstu lengi á leiðinni? Bílstjórinn í fyrrnefndri grein var með lausn á „umferðar- vandanum“, það ætti að byggja brú frá Álftanesi niður í miðbæ fyrir þá sem þar vinna, starfsmenn nýja fjármálahverfisins í Borgartúni færu Kringlumýrarbrautina og svo væri Breiðholtsleiðin fyrir þá sem vinna ofar í bænum. Ekki hvörfl- uðu að honum aðrar lausnir sem hafa þó verið notaðar með góðum árangri víða í hinum vestræna heimi. Ein leið er að sameinast í bíla og veita bílum með fleiri en þrjá farþega forgang í umferðinni á sérstökum akreinum. Einnig má notfæra sér sveigjanlegan vinnu- tíma þannig að ekki séu allir á ferðinni á sama tíma. Það drægi úr umferð ef tómstundastarf barna færi fram í skólanum eða nálægt honum þannig að fólk slyppi við allt skutlið sem fylgir því. Einnig er til í dæminu að stjórnvöld styrki fyrirtæki til að borga starfs- mönnum sem koma ekki á einkabíl til vinnu kaupauka. Að lokum má nefna þá byltingarkenndu hugmynd að hjóla, ganga eða það sem þykir enn róttækara: Nota almenningssamgöngur. Ég kasta hér steinum úr glerhúsi. Ég fer hjólandi til vinnu meðan átak með sama nafni stendur yfir og er þá um 20 mínútur á leiðinni. Ég er venjulega 7 mínútur að aka í vinnuna, 10 mínútur ef ég er óheppin með ljósin. Maðurinn minn hjólaði til vinnu uns hnakknum var stolið af hjólinu hans fyrir utan vinnustaðinn. Ég vil endilega að hann gangi, það tekur hann 20 mínútur og ég reyni að sannfæra hann um að þá verði hann mun betri í bakinu. Önnur ástæða fyrir stanslausum áróðri mínum fyrir umhverfisvænni ferðamáta hans er einnig að vinir mínir sem búa nálægt vinnustað hans eru síkvartandi yfir bílamergðinni í kringum fyrirtækið. Þau eru í sömu aðstöðu og ég var í á Þórsgötunni forðum – ef þau bregða sér af bæ á bílnum getur aðeins annað þeirra komið aftur heim áður en vinnudegi lýkur (fólk virðir það víst enn að leggja ekki í bílastæði fyrir framan bílskúr). Ég þarf líka á bílnum að halda fyrir skutl með börnin og útrétt- ingar. Það er svo langt á strætis- vagnabiðstöðina að það ég gæti alveg eins gengið í hálftíma til vinnu eins og að taka strætó. Kannist þið við afsakanirnar? Ein vinkona mín telur það mannréttindi að fá bílastæði fyrir utan búðirnar á Laugaveginum. Að leggja bílnum í Stjörnuporti og ganga Laugaveginn eða taka strætó hefur aldrei hvarflað að henni. Skyldi hún gera sömu kröfur í verslunarferðum sínum í London, París, Róm? Í fróðlegri skýrslu sem verkfræði- stofan Hönnun vann árið 2005 um samgönguskipulag í Reykjavík, kemur fram að álagstoppar í umferðinni vara í 10 til 20 mínútur á morgnana og svo aftur síðdegis! Er það þess virði að ana út í rándýr umferðarmannvirki þegar raunin er sú að því voldugri og meiri sem þau eru, því meira eykst umferðin? Í skýrslunni kemur fram að bíla- eign er orðin mettuð því það er nánast einn bíll per ökuleyfi. Reykjavík sker sig frá borgum á Norðurlöndum og líkist sífellt meir amerískum bílaborgum. Flestar bílferðir eru svo stuttar að það tekur því varla að starta bílnum, en gjaldfrjáls stæði ýta enn frekar undir bílanotkun. Þegar við bjuggum í Gautaborg þurftum við að leigja bílastæði sem var í 300-500 metra fjarlægð frá heimilinu. Gestir okkar urðu að borga í bílastæði allan sólarhringinn. Við fórum einu sinni á bílnum niður í bæ um kvöld, okkur nægði að fá eina 500 króna (4.500 íslenskar) stöðumælasekt til að læra að nota sporvagninn. Við sem notum bíla berum ábyrgð á umferðinni. Við bjóðum okkur þetta og verðum sjálf að leysa vandann, e.t.v. með því að ferðast á umhverfisvænni hátt, því lausnin er ekki sú að byggja brú eða mislæg gatnamót, hvað þá að flytja miðbæinn í hundaskítinn á Geirsnefi. Bílaröð í boði okkar S ómalska baráttukonan Ayaan Hirsi Ali er ein merkasta hetja okkar tíma. Hún er gestur alþjóðlegu bókmennta- hátíðarinnar sem hófst í Reykjavík á sunnudag og sat fyrir svörum á hádegisspjallfundi í Norræna húsinu í gær. Þar ítrekaði hún mikilvæg skilaboð til íbúa vestrænna ríkja. „Sú trú að öll menning sé jafngild er á villigötum,“ sagði hún af yfirvegun og færði rök fyrir því að vestræn siðmenning stæði öðrum framar. Tiltók hún fyrst og fremst þá grundvallarhugmyndafræði vestrænna ríkja að leitast við að jafna sem mest réttindi karla og kvenna til menntunar og tækifæra á lífsleiðinni. Hirsi Ali var alin upp í strangri múhameðstrú en hefur helgað sig baráttu fyrir réttindum múslimakvenna eftir að hún flýði til Hollands fyrir fimmtán árum og hlaut þar ríkisborgararétt. Lífshlaup hennar er dramatísk hetjusaga sem fólk getur kynnt sér í sjálfsævisögu hennar Frjáls sem er nýkomin út í íslenskri þýðingu. Bakgrunnur og reynsla Hirsi Ali gefa boðskap hennar aukna vigt. Orð hennar eru hugvekja sem á mikið erindi við okkur Íslendinga sem deilum nú landi með fjölda útlendinga. Nánast eins og hendi hafi verið veifað erum við Íslendingar komnir í svipuð spor og fjölmargar nágrannaþjóðir okkar voru í fyrir mörgum árum eða jafnvel áratugum. Seint verður það brýnt um of að íslensk stjórnvöld hafa öll tækifæri til að afstýra að sömu mistök verði gerð hér og urðu svo víða á Vesturlöndum í málefnum innflytjenda. Við erum í þeirri einstöku stöðu að geta horft um öxl og lært af því sem fór úrskeiðis annars staðar. Á þessum vettvangi hefur oftar en einu sinni verið bent á að ein mestu mistökin sem þjóðir Evrópu gerðu var að ætla sér að laga innflytjendur frá fjarlægari stöðum að nýju samfélagi. Þar var gerð grundvallarvilla sem má kenna við þá pólitísku rétthugsun að í lagi sé að gefa innflytjendum afslátt af ríkjandi réttindum nýja landsins ef þeir hafa aðra siði og lífsreglur í farteskinu. Í skjóli slíkrar hugmyndafræði hafa konur í hópi innflytjenda stundum mátt búa við minni réttindi en kynsystur sínar í nýja landinu án íhlutunar stjórnvalda. Barátta ýmissa evrópskra stjórnmálamanna gegn því að stúlkur og konur beri höfuðklúta í skólum eða við opinber störf er viðleitni til að snúa til baka af þessari leið. Enda er hún vörðuð háskalegri tillitssemi sem gerir ekki annað en að ýta undir kúgun kvenna. Engu skiptir hverju talsmenn höfuðklútanna halda fram, hvort sem þeir eru karlkyns eða kvenkyns, búrkur og höfuðklútar eru birtingarmynd feðraveldis þar sem konan á að lúta valdi karlmannsins. Sú afstaða verður aldrei aðlöguð vestrænni siðmenningu. Ayaan Hirsi Ali reis upp gegn hugarfari slíkrar tillitssemi í Hollandi; tillitssemi sem lét ekki á sig fá umskurð lítilla stúlkna, nauðungarhjónabönd og harkalega kúgun kvenna, vegna þess fólk varð að fá frið til að iðka sína menningu. Þegar upp er staðið er hornsteinninn í boðskap Hirsi Ali að Vesturlönd, og þar með talið Ísland, eiga að hafa nógu mikla trú á eigin samfélagi til að gera þá kröfu til innflytjenda að þeir verði þar fullgildir þegnar með tilheyrandi lífsreglum. Það nægir ekki að þeir aðlagi sig samfélaginu, þeir verða að samlagast því og verða hluti af heildinni. Vestræn siðmenning er langt í frá fullkomin en eins og Hirsi Ali bendir á er hún það skásta sem er í boði. Mikilvæg skilaboð

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.