Fréttablaðið - 25.09.2007, Page 14
greinar@frettabladid.is
Hvað er verið að byggja hérna á móti?“ spurði matargestur
á sunnudagskvöld. Ég hrökk
aðeins við, því sem sannur
borgarbúi vil ég alls ekki láta
byggja á móti hjá mér. Það má
þétta byggð, ég er voða hrifin af
því, en alls ekki í næsta nágrenni
við mig. Hér er allt eins og það á
að vera. Ég leit út um gluggann
og sagðist halda að þetta ættu að
vera blómaker á nýja torginu við
kirkjuna. Ég er nýbúin að vera
hjá fótaaðgerðafræðingnum
mínum og hefði því verið búin að
frétta ef eitthvað stæði til.
Ég viðurkenni að þó ég hafi
sérstakan áhuga á hverfinu mínu
og á skipulagsmálum almennt
hafa einstaka auglýsingar um
breytt skipulag á ýmsum reitum
samt farið fram hjá mér. Iðulega
hafa það verið vökulir grannar
sem hafa vakið mig upp af
Þyrnirósarsvefni mínum. Ef ég
sæi um kynningarmálin hjá
borgarskipulagi myndi ég
endurskoða vinnubrögð mín því
það er ekki einleikið hvað þetta
fer fram hjá fólki, það er ekki
fyrr en vinnuvélarnar mæta sem
við áttum okkur á því að eitthvað
standi til. Þannig hafði ég
samband við kirkjuna þegar
stórvirkar vélar fóru að ryðja
trjám um koll á túninu fyrir
framan hana. Ég hélt að bílstjór-
inn hefði misst stjórn á tækinu,
en fékk þær upplýsingar að til
stæði að leggja hér tilkomumikið
torg. Hafi það farið í grenndar-
kynningu fór hún fram hjá mér.
Ég skrifaði undir mótmælaskjal
gegn turninum á Grand hóteli
eftir að hann hafði farið í
grenndarkynningu þannig að
mótmæli voru of seint fram borin
og ekkert hægt að gera. Ég vildi
að grannar mínir nytu sólar alla
daga og þó ekki síður koma í veg
fyrir að annað eins ferlíki rísi í
kjölfarið á Blómavalslóðinni.
Turninn á Grand hóteli var
sagður kallast á við Hátúnsblokk-
irnar og turninn á Blómavalslóð-
inni verður sagður kallast á við
nágranna sinn Herra Grand. Eins
og ég sakna Blómavals þá get ég
samglaðst íbúum í Sigtúni sem
segja að þetta sé allt annað líf því
það dró svo mikið úr umferð í
götunni þegar verslunin flutti.
Hverfisbúar höfðu kannski
mestar áhyggjur af sólinni en
okkur barst skyndilegur liðsauki
þegar farið var að ræða um
réttindi fólks til útsýnis.
Allir sem aka Kringlumýrar-
braut í átt að sjónum hafa misst
töluvert af Esjunni. Það er
líklega tímabært að standa vörð
um Esjuna eða réttara sagt um
þann „rétt“ fólks að geta séð til
hennar sem víðast. Við sem
kjósum að búa í borg afsölum
okkur kannski útsýninu út um
gluggann hjá okkur, en við
hljótum þó að mega sjá Esjuna án
þess að þurfa að fara upp í
Hallgrímskirkjuturn eða niður á
Sæbraut. Háhýsalengjan við
strandlengjuna og turninn á
Grand hóteli þrengja sjóndeildar-
hring borgarbúa.
Fótaaðgerðadaman, sem býr í
hverfinu og gjörþekkir það, tjáði
mér að við yrðum að standa
vaktina því það væri þrengt að
Laugardalnum úr öllum áttum. Ef
heldur áfram sem horfir verður
ekkert eftir nema Grasagarður-
inn og túnið kringum Þvottalaug-
arnar. Ég ver drjúgum tíma í
Laugardalnum. Ég geng staf-
göngu um hann að minnsta kosti
tvisvar í viku, dæturnar æfa
skauta, skylmingar og fótbolta
þar og sjálf hef ég verið við-
skiptavinur Lauga frá opnun.
Laugardalurinn iðar af lífi alla
daga, börn að leik og fólk á
göngu, hjólum eða skokkandi.
Það eru fleiri en íbúar hverfisins
sem nýta sér þetta fallega
útivistarsvæði enda er það í
miðri borginni. Mikil umferð
fylgir Laugum þannig að
Reykjavegurinn er oft erfiður
gangandi vegfarendum á leið í
dalinn. Íbúar við Laugateig
komast varla á bíl út úr götunni,
að minnsta kosti ekki þeir sem
ætla að beygja til vinstri.
Reykjavíkurborg gæti haft
dágott upp úr því að hafa mann
alla daga við Lauga til að sekta þá
sem leggja ólöglega, því margir
virðast helst vilja aka alveg að
hlaupabrettinu og leggja því upp
á gangstétt við innganginn. Ég er
mjög ánægð með Laugar og með
gömlu og góðu Laugardalslaug-
ina. Ég verð þó að taka undir með
vökulum granna mínum að mér
er til efs að það verði Laugar-
dalnum til framdráttar að leggja
tjaldstæðið undir heilsuhótel. Það
er frábært að hafa tjaldstæði inni
í miðri borg og það fer vel að
hafa það í nágrenni við Farfugla-
heimilið. Ég geng þarna bæði
sumar og vetur. Á sumrin er það
sem kallast iðandi mannlíf og
þykir mjög eftirsóknarvert í
miðbænum að degi til og á
vetrum er þarna kærkomið autt
svæði þar sem börn geta leikið
sér eða kerlingar gengið við stafi.
Hér með mótmæli ég því að
heilsuhótel komi í stað tjaldstæð-
isins og treysti því að vinir
Laugardalsins, ekki síst nágrann-
ar hans sem sitja í borgarstjórn,
standi vörð um Laugardalinn.
Verndum Laugardalinn
Ingi F. Vilhjálmsson reiðir hátt til höggs í nýju menningarblaði Fréttablaðsins á
sunnudaginn. Ingi hefur lesið Aldingarðinn
eftir Ólaf Jóhann Ólafsson og Valentines
eftir sama höfund, og komist að því að þetta
er sama bókin! Það hefur hingað til ekki
verið sérstakt launungarmál, en Ingi kemst
að þeirri „huglægu niðurstöðu“ að Ólafur Jóhann hafi
„hugsað“ sumar setningarnar á ensku en „þýtt“ þær
svo á íslensku. Nú er það svo að Ólafur Jóhann vinnur
náið með þýðanda sínum, Victoriu Cribb, og hugsar
þá vonandi á ensku. Hitt get ég staðfest, og þar með
létt af Inga F. „tilfinningu“ hans um annað, að Aldin-
garðurinn er skrifaður á íslensku.
Ingi F. hefur sjálfsagðan fyrirvara á lestri sínum,
segir að þau málfarsdæmi sem hann taki úr
bókunum séu „yfirleitt ekki röng, aðeins óíslensku-
leg og óþjál“. Þeim mun furðulegri eru hinar hlálegu
ályktanir sem hann hrapar að í lokin.
Það er rétt hjá Inga F. að þau dæmi sem hann
tekur úr bókinni votta ekki um rangt mál. Og fjarri
því. Það er ekkert rangt við að segja „markaðurinn
tók dýfur“,„maður panikerar og frýs“, eða
að stúlka „brosi hálfu brosi“ eins og hún
hefði getað „hlegið hvellum hlátri“. Það vill
svo til að sjálfur er ég „gamall keppnismað-
ur á skíðum“ og gott ef ég var ekki líka
einhvern tíma sagður „fuglslegur“, án þess
að ég áttaði mig á því að þetta væri enska.
Ingi F. misskilur líka orðalagið þar sem því
er lýst þegar „ský líða fyrir mánann“.
Vissulega merkir orðasambandið „að líða
fyrir e-ð“, að þjást vegna einhvers, en í sögu
Ólafs er sögnin „að líða“ notuð í merkingunni „að
svífa“, og með forsetningunni „fyrir“ í stað „um“.
Þessi skipti á forsetningum hafa mér vitanlega ekki
verið bannfærð í íslensku.
Hingað til hefur Ólafi Jóhanni fremur verið lagt
til lasts að skrifa vandað mál í bókum sínum.
Aðfinnslur Inga F. eru því nýlunda fyrir Ólaf Jóhann
en lengi skal manninn reyna. Hitt er alveg ljóst að
með svona „rökfærslum“ gæti Ingi F. leitt undir sína
fallöxi ekki bara þorra íslenskra rithöfunda heldur
einnig flesta þá sem skrifa á íslensku.
Höfundur er rithöfundur og fyrrverandi útgáfustjóri
sem gaf meðal annars út Aldingarðinn.
Að gefnu tilefni
U
ndanfarna daga hafa ýmsir orðið til þess að velta fyrir
sér hvort kominn sé tími til að auka vægi enskunnar í
íslensku samfélagi. Innan fjármálageirans hafa heyrst
hugmyndir um að taka ensku upp sem vinnumál og á
laugardag skrifaði Ágúst Ólafur Ágústsson, varafor-
maður Samfylkingarinnar, hugleiðingu í Morgunblaðið þar sem
kom fram að rétt væri að „huga að tvítyngdri stjórnsýslu, íslenskri
og enskri“.
Yfir þessu mætti eflaust súpa hveljur ef þetta væri ekki nú
þegar nákvæmlega sá veruleiki sem starir í augun á okkur í gráum
hversdagsleikanum. Eða réttara sagt glymur í eyrunum á okkur
á hverjum degi; þegar við förum út í búð að versla, á kaffihús að
panta okkur drykk, í leik- og grunnskólana að sækja börnin okkar
eða á sjúkrahúsin og elliheimilin að heimsækja þá sem eru veikir
eða gamlir. Alls staðar mætir okkur fólk sem hefur aðra tungu en
þá íslensku að móðurmáli og enskan er gjarnan það samskiptatæki
sem gripið er til.
Ekki er langt síðan sigldir Íslendingar gátu sagt sögur af því að
hafa fengið far með túrbanklæddum leigubílstjórum í New York
sem voru illa mæltir á tungu heimamanna, og þótti merki um fjöl-
breytileika heimsborgarinnar. Hverjum hefði dottið í hug að svip-
uð staða gæti komið upp hér?
Umheimurinn hélt sem sagt í innrás til Íslands á sama tíma og
athafnamennirnir fóru í sína útrás. Og vissulega hefur þetta valdið
ákveðnum vanda. Það skilja ekki allir, í orðsins fyllstu merkingu,
breytingarnar.
Sá sem hér skrifar var staddur í bakaríi fyrir skömmu þegar inn
kom maður og vildi kaupa kjallarabollu. Afgreiðslustúlkan skildi
ekki óskina og enskan lék ekki á tungu mannsins, sem var kominn
yfir miðjan aldur. Viðskiptin leystust sem betur fer friðsamlega
en þeim var ákveðin vorkunn hvort sínum megin við afgreiðslu-
borðið. Hvað er eiginlega kjallarabolla á ensku? „A cellar bun“?
Í raun og veru er málið ekki lengur spurningin um hvort taka
skuli upp ensku í auknum mæli – stundin fyrir þá ákvörðun fór
fram hjá okkur fyrir allnokkru án þess að við hefðum nokkuð um
hana að segja – heldur hvernig við bregðumst við komu hennar.
Ein leið er með geðvonsku og leiðindum eins og útlendingar í
þjónustustörfum mega þola á hverjum degi og sagt er frá í Frétta-
blaðinu í dag. Hin er með jákvæðni og vissum skammti af þakklæti.
Staðreyndin er sú, og nauðsynlegt er að allir hafi hana á hreinu, að
ef ekki væru hér þúsundir útlendinga að störfum þá væri Ísland
óstarfhæft. Í því samhengi er líka rétt að ítreka að útlendingar
leika meðal annars lykilhlutverk í umönnun aldraðra og barna, og
þau störf eru svo sannarlega límið í samfélagi okkar.
En auðvitað tala ekki allir ensku og samskiptin geta orðið snúin.
Þá er gott að hafa á bak við eyrað að útlendingarnir eru heldur
ekki allir sterkir á svellinu í enskunni.
Svo er líka hægt að áorka mörgu með bendingum og vænum
skammti af brosi. Eða eins og Einar Skúlason, framkvæmdastjóri
Alþjóðahússins orðar það: „Hver og einn getur hjálpað til með því
að sýna vinsamlegt viðmót og aðstoða frekar viðkomandi við að
læra eitt eða tvö orð.“
Tvítyngdur
hversdagsleiki