Fréttablaðið - 24.12.2007, Page 44
40 24. desember 2007 MÁNUDAGUR
Jólahald hjá gæludýrunum
Hreindýralifur, túnfiskur og hunangsstangir eru dæmi um hvað gæludýr fá í matinn á aðfangadagskvöld þegar gæludýraeigend-
urnir gæða sér á hamborgarhrygg, kalkún, rjúpum og fleiru. Dýrin þola þó ekki allt og árlega skapast annir á dýraspítölum milli
jóla og nýárs vegna magaveikra dýra. Sigríður Dögg Guðmundsdóttir ræddi við dýraeigendur og dýralækni um jólahald dýra.
Hundurinn Funi, sem verður þriggja ára í
mars, heldur nú fyrstu jólin sín með nýjum
eigendum. Þar sem Funi er alltaf á sérstöku
fæði vegna ofnæmis fær hann einnig sér-
stakan jólamat.
„Ég eldaði fyrir hann hreindýralifur sem
hann fær að gæða sér á ásamt þurrmatnum
meðan við borðum jólamatinn klukkan sex á
aðfangadagskvöld,“ segir eigandi hans, Inger
Anna Lena Þórðardóttir Ericson. Funi mun
einnig gæða sér á sérstöku jólaofnæmiskexi
sem Inger keypti í Bandaríkjunum og flutti
með sér í handfarangri til að það bærist heilt
yfir Atlantshafið.
Eins og aðrir fjölskyldumeðlimir fær Funi
innpakkaðar jólagjafir sem hann fær að rífa
upp sjálfur. „Ég keypti handa honum bæði
hundaól og hálsól í felulitum og sérstakt
ofnæmisnagbein. Svo fær hann líka nýtt bæli
og hundanámskeið í jólagjöf.“
Inger segir Funa ekki fá nein sérstök jólaföt.
„Ég er ekki mikið fyrir dýraklæðnað. Hann
verður í mesta lagi með jólasveinahúfu ef
hann vill vera með hana.“
Kötturinn Tommy fær alltaf nóg að borða
um jólin og fær sérstakan rétt á sama tíma
og aðrir fjölskyldumeðlimir fá jólamatinn
á aðfangadagskvöld að sögn eigandans,
Magnúsar Sævars Magnússonar.
„Uppáhaldsmaturinn hennar er túnfiskur og
gæðir hún sér á honum meðan við gæðum
okkur á jólamatnum. Það má segja að tún-
fiskur sé rjúpur kattanna og fær Tommy hann
reglulega þessa daga. Síðan er alltaf passað
að hún hafi nóg að borða og þurfi aldrei að
sníkja yfir jólin.“
Þegar aðrir í fjölskyldunni klæða sig upp í
jólafötin fær Tommy sérstakan jólabúning. Í
stað ólarinnar sem hún ber venjulega fær hún
rauða jólaslaufu sem hún hefur yfir jólin.
Tommy, sem er tveggja ára gömul, fær iðulega
jólagjafir og þá ekki bara frá eigendum sínum
að sögn Magnúsar. „Móðir mín á hund og um
næstsíðustu jól fékk hún jólapakka frá honum
sem vakti mikla lukku. Við höfum líka gefið
henni jólagjafir sem eru yfirleitt litlar gervimýs
eða litlir boltar sem hún hleypur með út um
allt. Og svo vill þetta týnast undir sófanum og
kemur síðan í ljós seinna í hreingerningum
við gífurlega gleði hennar.“
Kanínan Bowie fær svipaðan mat um jólin og hún fær allan
ársins hring þar sem litlu er við það að bæta, segir eigandi
Bowie, Valgerður Valgeirsdóttir. Valgerður eignaðist Bowie,
sem er nefndur eftir söngvaranum David Bowie vegna þess
að hann er með hálft auga brúnt og og hálft blátt, fyrir einu
og hálfu ári. Eru þetta því önnur jól þeirra saman.
„Um jólin borðar hann eins og venjulega hey, þurrfóður,
sætar kartöflur, ferskt grænmeti á borð við brokkólí, gulrætur
og sykurbaunir. Ég hef reyndar gert vel við hann með því
að gefa honum hunangsstangir. Þannig fær hann aðeins
meira sælgæti yfir jólin. En besta jólagjöfin væri ef hann gæti
fengið ferskt gras og fíflablöð eins og hann borðar á sumrin,
það er í uppáhaldi ásamt sætum kartöflum.“
Valgerður segir suma kanínueigendur gefa kanínum sínum
dót til að leika sér með en það eigi ekki upp á pallborðið hjá
Bowie. „Honum finnst ekkert gaman að henda boltum til og
frá. En ég mun mögulega bara gefa honum hunangsdropa
sem eru nammi eða einhvers konar stangir með kornum.“
Bowie fær engin jólaföt enda tíðkast það ekki að klæða
kanínur í föt að sögn Valgerðar. „Ég veit allavega ekki til þess
að svo sé og vona eiginlega ekki.“
Valgerður á einnig froska en segir ansi erfitt að ætla að reyna
að gera jólin hjá þeim eitthvað hátíðleg. „Það er helst að þeir
fái rækjur úr rækjubrauðtertunni hennar mömmu.“
Annatími er hjá dýralæknum milli jóla og
nýárs þegar gæludýraeigendur koma með
dýr sem hafa fengið í magann eftir að borða
nýstárlegan jólamat að sögn Ólafar Loftsdóttur,
dýralæknis á Dýraspítalanum í Víðidal.
„Við biðjum fólk að vera ekki of gott við dýrin
sín þar sem það fer illa í dýrin að fá mat sem
þau eru ekki vön. Það þarf að halda sig frá
reyktum og mikið unnum mat. Svínaham-
borgarhryggurinn og hangikjötið er dæmi um
reyktan mat. Við biðjum fólk því um að sýna
aðgát hvað þetta varðar.“
Ólöf bendir á að vilji fólk gera sérstaklega vel
við dýrin sín í mat umfram venjubundið fæði
geti það gefið þeim kjúklingakjöt eða einhvers
konar ókryddaðan mat. „Margir sem eiga ketti
gefa þeim til dæmis rækjur á jólum. Fiskur er
líka fínn. Fólk verður bara að hafa það í huga
að ef dýr fá skyndilega eitthvað sem þau eru
ekki vön fá þau í magann.“
Ólöf segir mikið að gera á dýraspítalanum milli
jóla og nýárs þegar fólk komi með gæludýr
sem eru með uppköst og niðurgang eftir jóla-
mat sem þau hafa ekki þolað.
„Ég man líka eftir einu tilviki í fljótu bragði
þar sem komið var með drukkinn kött eftir að
honum var gefin koníaksbætt fiskisúpa. Þannig
að fólk ætti að sleppa því að gefa dýrum
sínum þann rétt.“
Magaveiki er þó ekki það eina sem hrjáir
dýr sem koma veik inn á milli jóla og nýárs.
„Við höfum verið að vara sérstaklega við því
að köttum þykir mjög gaman að leika sér að
svokölluðum krulluböndum sem eru oft sett
utan um jólapakkana. Fólk þarf að passa að
þeir geri það ekki þar sem við höfum nokkrum
sinnum þurft að gera aðgerðir á köttum sem
hafa gleypt svona krullubönd og sækja þau í
þarmana. Þangað komin þræðast krullubönd-
in upp á þarmana og verða eins og hnífar
þarna inni. Þannig að þó að krulluböndin séu
spennandi þarf að passa að kettir séu ekki að
leika sér með þau. Þeir eru fljótir að byrja að
tyggja þau og ef þau komast ofan í maga er
voðinn vís.“
Annað sem Ólöf varar sérstaklega við er að
hundum sé gefið súkkulaði. „Súkkulaði, og sér-
staklega dökkt súkkulaði, er eitrað fyrir hunda
og geta þeir orðið fárveikir af neyslu þess.“
Hvað jólagjafir varðar bendir Ólöf á að flestar
dýraverslanir selji jólasokka með alls konar
gæludýranammi. Það sé sniðug gjöf handa
dýrunum því það sé eitthvað sem þau eiga að
þola nema við sérstakar aðstæður, til dæmis ef
dýrin eru með ofnæmi.
Ólöf hvetur gæludýraeigendur til að verja tíma
með dýrunum sínum um jólin þar sem góður
tími gefst til þess. „Fólk ætti bara að nýta fríið
sem tilheyrir jólunum til að fara út að ganga
með hundunum og hrista af sér jólakúluna.
Jólin ættu meira að snúast um að verja tíma
með þeim heldur en að gefa þeim of mikinn
jólamat.“
Ekki vera of góð við dýrin
Jólahátíðin gengur nú í garð með
tilheyrandi matarveislum og
gjafaflóði. Margir gæludýraeig-
endur vilja gera vel við dýrin sín
yfir jólin og færa þeim sérstakan
mat og jólagjafir og klæða þau
jafnvel upp á. Dýralæknar vara
þó eindregið við því að fólk
gangi of langt í velgjörðinni þar
sem mörg dýr þoli illa skyndi-
legar breytingar á mataræði.
Tommy
Funi
Bowie