Fréttablaðið - 07.04.2008, Side 50
22 7. apríl 2008 MÁNUDAGUR
menning@frettabladid.is
Kl. 12.30
Sigurjón Hafsteinn Baldursson ræðir
um slys og list út frá kenningum
franska arkitektsins og menningar-
rýnisins Pauls Virilio í stofu 024 í
Laugarnesi, húsnæði myndlistar-
deildar Listaháskóla Íslands á
Laugarnesvegi 91, í dag kl. 12.30.
Aðgangur að fyrirlestrinum er
ókeypis og öllum opinn á meðan
húsrúm leyfir.
Leikarinn Hjalti Rögnvaldsson
er óumdeilanlega einn af helstu
upplesurum þjóðarinnar. Því ber
vel í veiði fyrir ljóðaunnendur í
kvöld þar sem Hjalti kemur fram
í Iðnó við Reykjavíkurtjörn og les
upp fjórar ljóðabækur eftir skáldið
merkilega Þorstein frá Hamri.
Upplestrarkvöldið er liður í dag-
skránni Þorsteinsvaka sem hófst
í síðustu viku og fer fram í tilefni
af því að á árinu verður Þorsteinn
frá Hamri sjötugur og jafnframt
að liðin eru 50 ár frá því að hann
gaf út sína fyrstu ljóðabók. Hjalti
Rögnvaldsson hefur því tekið að
sér hið metnaðarfulla verkefni að
lesa allar ljóðabækur Þorsteins í
réttri tímaröð í Iðnó á mánudags-
kvöldum og er í kvöld komið að þeim ljóðabók-
um sem komu út á áttunda og níunda áratug
síðustu aldar.
Hjalti hefur lesturinn kl. 17 í
dag með bókinni Veðrahjálmur
sem kom út árið 1972. Tveimur
tímum seinna, kl. 19, hefur hann
lestur á bókinni Fiðrið úr sæng
daladrottningar sem kom út 1977,
kl. 21 les Hjalti úr Spjótalög á
spegil sem kom út 1982 og kl. 23
hefst lestur úr Ný ljóð sem kom
út 1985.
Að upplestrarkvöldinu í kvöld
undanskildu eru tvö kvöld eftir í
Þorsteinsvöku, en dagskráin held-
ur áfram 14. apríl og 21. apríl. Þau
kvöld les Hjalti upp úr ljóðabók-
um Þorsteins frá tíunda áratug
síðustu aldar og svo úr þeim
ljóðabókum hans sem komið
hafa út á þessari öld. Aðgangur að upplestrunum
er ókeypis og öllum heimill. - vþ
Þorsteinsvaka heldur áfram
HJALTI RÖGNVALDSSON Les
upp ljóð Þorsteins frá Hamri í
Iðnó í kvöld.
> Ekki missa af...
Fyrirlestri Rúnars Guðbrands-
sonar um strauma og stefnur
í aðferðafræði leikstjórans.
Rúnar fjallar meðal annars
um mismunandi hugmyndir
um hlutverk leikstjórans í
gegnum söguna. Fyrirlestur-
inn er liður í vorfyrirlestraröð
Leiklistarsambands Íslands og
Leiklistardeildar Listaháskóla
Íslands og fer fram í kvöld á
Kaffi Sólon, Bankastræti 7a, og
hefst kl. 20.
30. mars - uppselt
3. april
4. april
10. april
11. april
17. april
18. april
23. april
24. april
Gítarslátturinn er félagslegt
athæfi fyrir fjölda manna: vinnu-
konugripin duga mörgum til per-
sónulegrar tjáningar. Margir
þeirra eru hermikrákur, elta uppi
gítarspilið í Rocky Racoon með
mikilli fyrirhöfn og elju. Gítar-
spilið bar þannig með sér einhvers
konar karókí-effekt löngu fyrir
tíma þess merkilega áhugamanna-
tækis. Löngu fyrr var gítarinn
þægilegt borgaralegt hljóðfæri,
jafnvel hér á landi þar sem píanó-
ið og nikkan voru lengi ráðandi.
Gítaristarnir eftir Line Knutzon
var frumsýnt á Litla sviði Borgar-
leikhússins á föstudag. Line var
fyrir fáum árum stóra bjarta
vonin í danskri leikritun og verk
hennar Fyrst verður maður að
fæðast var þá leikið hér á nýja
sviðinu. Gítaristar hennar er ekki
ósnoturlega samið verk þótt það
renni nokkuð út í sandinn sem
ræðst að hluta af efninu.
John Hansen er trúbadúrstípa,
menntað og metnaðarfullt tón-
skáld sem nær ekki frama en
semur sér til dægrastyttingar
kímin sönglög, einhver blanda af
Povl Dissing og Kim Larsen svo
gripið sé til samlíkinga sem skýra
manninn. Hann hefur átt í útistöð-
um við alla, er uppsigað við smá-
borgaraskapinn, hrærir saman
hugmyndum úr hversdagslífi í
bland við absúrdhúmor og ádeilu.
Og hann nýtur mikillar hylli.
Þegar hann deyr af slysförum
koma nokkrir aðdáendur hans
saman við heimili hans og slá sér
saman í undirbúningi á hyllingar-
tónleikum um hetjuna sína. Þau
eru reyndar bara fjögur þegar á
hólminn er komið og verkið lýsir
samfundum þeirra, átökum og
æfingu á nokkrum lögum Johns.
Gítaristarnir er gamanleikur,
efni hans eru skýrar persónur
skáldsins sem haf tiltölulega ster-
íotípisk einkenni; hasshausinn
með sínar þráhyggjur, reglumað-
ur með stjórnaráráttu, sveimhuga
stúlka ekkert of skýr, miðaldra
kaldhæðin kona. Hér er sem sagt
lagt upp í hendur fjögurra leikara
að búa til persónur, sparsla í rifur
í forsögulausum einstaklingum,
og skapa hlýlegar og skondnar
smámyndir. Þetta er mannlegur
gamanleikur, tekur sig ekkert of
alvarlega en er einhvers konar
brotinn lofsöngur um manninn og
lífið. Dönsk huggulegheit sem
rista ekki djúpt.
Hilmir Snær leikstýrir og hefur
pantað ný lög og texta við íslenska
sýninguna. Ekkert er að segja við
því. Leikstjóri hefur til þess vald.
Fyrir bragðið veit áhorfandi ekk-
ert hvort upprunalegir textar
standa í samhengi við samtölin,
hvort nýir textar og lög Björns
Jörundar eru þýðing?, stæling á
söngtextum verksins. En tökum
því sem að höndum ber: yrkingar
Björns eru frjálsar í formi, oft
ofhlaðnar línur til söngs og
rímdaufar. Lögin einhvers konar
gítargutl sem heimtar sterkan
bakgrunn stúdíóvinnu til þess að
þau geti talist lög. Stundum vor-
kenndi maður leikarahópnum að
flytja þau. Söngurinn var líka
fjarri því að vera harmonískur og
víða var erfitt að greina textann
fyrir bragðið. Látum það vera, þó
það sé galli.
Kostirnir við sýninguna eru per-
sónugerðir leikaranna - eða eigum
við að segja leikara - Jóhann Sig-
urðarson ber þessa sýningu uppi
með hreint frábærri persónusköp-
un – hasshausinn hans verður
hreint yndislega óþolandi asni –
Jóhann hefur fundið sig í vinnunni
þessi dægrin og leggur sig allan
fram í þessu hlutverki og uppsker
enda glæsilega með öllum sínum
smátöktum, innileika og pirringi
yfir minnstu smámunum. Þessi
leikur setur aftur alla aðra nokkuð
í skuggann, þótt Halldór Gylfason,
Hanna María Karlsdóttir og Aðal-
björg Þóra Árnadóttir vandi sig
ekki síður. Halldór og Hanna bæði
innan hins kunnuglega ramma, en
Aðalbjörg Þóra aftur glæsilega
samhæfð í öllum sínum brögðum
með þessa einföldu og sumpart
rugluðu sál. Það var gaman að sjá
þennan leikarhóp að störfum og
Hilmi hefur tekist prýðilega til.
Þessi sýning heimtar einfaldan
umbúnað. Henni er troðið undir
einn áttkantinn í Litla salnum sem
er nú best nýttur sem hringsvið þó
seint ætli menn að nota hann
þannig. Það er að stefna í tuttugu
ára afmæli Borgarleikhússins og
hvað má telja þær margar svið-
setningarnar sem hafa verið á
þessu eina sérhannaða hringsviði
landsins með bæði færanlegum
botni og flugkerfi. Þær eru ekki
margar. Þar er sannarlega ekki
verið að nota tæknilegar aðstæð-
ur. Bríet Héðinsdóttir kallaði Litla
sviðið besta leiksvið á landinu. Það
var smíðað utan um leikarann, án
umbúnaðar. Og í öllu skruminu um
Leikfélagið sem kompaníi leikar-
anna þá hefur sjaldnast áhersla
verið lögð á leikaragreyið á þessu
sviði. Það er notað sem hallæris-
lausn fyrir sjálfstæða leikhópa,
aldrei vinnur dansflokkurinn þar.
Mætti nýr leikhússtjóri bæta úr
því.
Sviðsmynd Helgu Stefánsdóttur
er hugvitssamlega unnin, stækkar
þröngina sem leikið er í, nýtir bak-
sviðið vel, en ekki fór mikið fyrir
nýtingu leikstjórans á sviðpallin-
um.
Páll Baldvin Baldvinsson
Aðdáendur og átrúnaðargoðið þeirra
LEIKLIST Jóhann Sigurðarson og félagar
hans í gervum aðdáendaklúbbs Johns
Hansen.
MYND/LEIKFÉLAG REYKJAVÍKUR/SIGFÚS MÁR PÉTURSSON
LEIKLIST
Gítaristarnir eftir Line Knutzon
Þýðing: Sigurður Hróarsson
Tónlist og textar: Björn Jörundur
Leikmynd og búningar: Helga
Stefánsdóttir
Hljóð: Guðmundur H. Viðarsson
Leikgervi: Elín Gísladóttir
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson
Leikstjóri: Hilmir Snær Guðnason
★★★
Skemmtileg sýning, vel unnin
persónusköpun um lítil, skoplítil
átök.
Því ber að fagna að verk þeirra
leikskálda sem efnilegust þykja í
álfunni um þessar mundir, rata nú
upp á svið Þjóðleikhússins trekk í
trekk. Á laugardagskvöld var
frum sýnt verkið Sá ljóti eftir
Maríus von Mayenburg á Smíða-
verkstæði Þjóðleikhússins. Um er
að ræða beitta nútímasatíru með
stílfærðum leik. Höfundur hefur
sjálfur bæði fengist við leikstjórn
og þýðingar fyrir utan eigin
skriftir. Þetta er fyrsta verk hans
sem flutt er hér á sviði en áður
hefur Útvarpsleikhúsið flutt eftir
hann tvö leikrit.
Bjarni Jónsson smýgur inn í
textann í lipurri og hnökralausri
þýðingu sem unun var á að hlýða.
Það var nefnilega unun að hlusta á
þann texta sem fram var borinn,
þótt forheimska og útlistdýrkun
nútímans hafi verið höfuðþemað.
Efnistökin voru bæði hröð og
smart inni í þessu lokaða hvíta
rými sem minnti helst á snjóhvít-
an ljósritunarpappír, enda voru
það staflar af ljósritunarpappír
sem mynduðu súlur og sæti í
alhvítri leikmyndinni. Fjórir leik-
arar skiptast á að leika átta per-
sónur.
Lárus á greinilega nokkuð
glæstan feril í tækniþróunarfyrir-
tæki. Honum hefur tekist að þróa
einhvers konar fjöltengi sem í er
mikil framtíð. Þegar við kynnumst
honum er hann að gera sig kláran
til þess að fara á söluráðstefnu og
kynna uppfinningu sína en það
kemur brátt í ljós að honum er
ekki treystandi til þess að fara
vegna þess að hið „ljóta“ andlit
hans er ekki talið hæft til þess að
heilla fólk til þess að kaupa.
Ármann sem er bara venjulegur
starfsmaður er látinn fara í hans
stað og það kemur í hlut forstjór-
ans að segja Lárusi frá þessum
ósköpum. Málin þróast svo þannig
að Lárus lætur breyta á sér andlit-
inu og slær í gegn hvert sem hann
kemur með nýjan söluþokka sem
skín úr listaverki lýtalæknisins.
Allir í verkinu – það er forstjór-
inn, lýtalæknirinn, eiginkonan,
gamla viðhaldið, sonur hennar
Ármann aðstoðarmaður og Lárus
sjáfur – eru talsmenn útlitsfor-
dóma. Lárus verður að kvenna-
gulli með þetta nýja andlit sem
hann greinilega á svo ekki sjálfur
því læknirinn fer að fjöldafram-
leiða slík andlit. Og verða því til
eins konar ljósrit af höfundaverki
læknisins.
Jörundur Ragnarsson sem fer
með hlutverk Lárusar heldur
áhorfendum spenntum allan tím-
ann og í löngu eintali þar sem hann
geystist í orðaflaumi inn og út úr
sinni eigin tilveru, var hann ekki
bara frábær heldur sýndi stórgóða
takta.
Dóra Jóhannsdóttir leikur eigin-
konuna auk 73 ára konu sem búin
er að láta strekkja sig og útlits-
breyta þannig að ómögulegt er að
segja til um aldur hennar. Skiptin
voru svo ör að stundum orkaði tví-
mælis hvor persónan var að tala
en það var hluti af galdrinum.
Hvenær veit maður hver er að
tala og hver er hvað þegar menn
skipta um andlit bara eins og nær-
buxur? Dóra býr yfir hæfileikan-
um að beita bæði svip og rödd
áreynslulaust til að kitla hlátur-
taugar áhorfenda.
Stefán Hallur Stefánsson leikur
forstjórann og lækninn og stækk-
ar við hvert hlutverk.
Vignir Rafn Valþórsson í hlut-
verki sonar ríku gömlu konunnar
skottast um eins og sá sem aldrei
fær að vera með. Hann eins og
hinir leikararnir skilaði hlutverki
sínu einkar vel og verður heildin
sem var mjög góð útkoma að skrif-
ast á meðvitaða og vel unna leik-
stjórnarvinnu Kristínar Eysteins-
dóttur. Það var heilmikið um
hljóðeffekta í verkinu sem fram-
leiddir voru af leikurunum sjálf-
um á staðnum. Leikurinn var stíl-
færður en fór aldrei yfir strikið í
neinum dans- eða hermannahreyf-
ingum sem hefði getað gerst. Um
er að ræða leikrit sem allir sem
sjaldan eða aldrei fara í leikhús
hefðu gott af því að sjá. Hér er
ekki um neina predikun að ræða,
síður en svo, heldur mjög þétta og
vel unna textavinnu þar sem sam-
skiptin ganga listilega vel fyrir
sig og þó svo að leikmyndin sé
aðeins snjóhvít og ekkert verið að
gera þegar menn segjast vera að
gera eitthvað, þá er víst öruggt að
myndir sem flugu upp í huga
hvers og eins í salnum voru vafa-
lítið fleiri og litskrúðugri en oft
vill verða þegar verk eru yfirhlað-
in af táknum og leikmunum. Von-
andi fáum við að heyra og sjá
meira úr smiðju þessa unga höf-
undar því það er í raun og veru
ekki til neitt eins skemmtilegt og
að fara í leikhús þegar verkið er
gott. Elísabet Brekkan
Ljósrit af sjálfum sér
LEIKLIST Vignir Rafn Valþórsson í hlutverki sínu í leikritinu, í fjarska situr Dóra
Jóhannsdóttir. MYND/ÞJÓÐLEIKHÚSIÐ/EDDI
LEIKLIST
Sá ljóti eftir Marius von May-
enberg
Þýðandi: Bjarni Jónsson.
Leikmynd og búningar: Stígur Stein-
þórsson.
Tónlist: Hallur Ingólfsson
Leikstjóri: Kristín Eysteinsdóttir
★★★★
Þetta var góð sýning