Tíminn - 04.07.1982, Blaðsíða 10

Tíminn - 04.07.1982, Blaðsíða 10
Djupstæður komplex lætur undan síga ■ Einu sinni fór ég í handbolta. Einu sinni! Það var í gömlu löggustöðinni úti á Seltjarnarnesi en þar var íþrótta- kennsla frá Mýrarhúsaskólanum í þá daga. Ég hef ekki verið nema sjö átta ára og þó ég þætti vera umtalsverður snillingur i brennibolta - vegna smæðar, grunar mig nú - var þessi háþróaða iþrótt handbolti mér alveg nýtt og óþekkt fyrirbæri. Þvi var stráksi svolítið óöruggur með sig. Hinir pollarnir létu aftur á móti eins og ekkert væri meðan Hálfdán kennari skipti í lið og voru með gamanmál og hrindingar. Svo lagðist Hálfdán upp á bekk mcðfram veggnum, kom sér eins þægilega fýrir og frekast var kostur og blés í flautuna sem hékk um hálsinn á honum. Leikurinn átti að byrja. Og víst byrjaði leikurinn vel. Strák- arnir voru hressir og léku á milli sin af mikilli leikni (hm - ætli árin villi mér ekki sýn?) og gott ef ekki voru skoruð nokkur mörk. Ég fylgdist með af mikilli athygli, hljóp fram og aftur um „völlinn" og hugsaði með mér hvað þetta væri skemmtilegt. En svo fékk ég boltann. Ekki veit ég hvaðan; raunar er það mér hulin ráðgáta enn þann dag í dag. En það var nú þrátt fyrir allt staðreynd að einhver félaga minna i liðinu hafði fengið þá flugu i hausinn að kasta boltanum til min og nú átti ég að gera rósir. Sjálfur hafði ég fullan hug á þvi og ákvað að senda boltann áfram til næsta samherja svo leikurinn gæti haldið áfram. En þá rann upp fyrir mér hræðileg staðreynd. Ég hafði ekki hugmynd um hverjir voru með mér í liði. Enginn sem ekki hefur upplifað annað eins getur imyndað sér þær pislir sem á mig voru lagðar þarna úti á miðju gólfinu. Þeir stóðu allt i kringum mig, æpandi, öskrandi, biðjandi: „Til mín! Til min!“ - en af þvi ég vissi, þótt ungur væri, að maðurinn er fláráð skepna þá gerði ég mér grein fyrir þvi að innan um hugsanlega samherja stóðu andstæðing- arnir, hlakkandi, og kölluðu af engu minni innlifun: „Til mín! Til mín!“ Að lokum rumskaði Hálfdán og sá undir eins hvílik óhæfa var hér á ferðinni. Hann stökk fram af bekknum, blés i flautuna sina og hrifsaði af mér boltann. „Tími!“ hvæsti hann og sendi boltann upp í loft. Strákarnir slógust um hann, Hálfdán fór aftur á sinn stað en ég, ég var alveg niðurbrotinn maður. Ég hljóp eftir sem áður fram og aftur um gólfið en nú fannst mér ekkert skemmtilegt og reyndi meira að segja að koma mér þar fyrir á „vellinum“ sem boltin var ekki. Ég hefði ekki þurft að gera mér neinar grillur; engum minna óljósu félaga kom sýnilega til hugar að endurtaka mistökin og gefa boltann á mig. Einu sinni lá þó við að yrði slys. Einhver sóknarlotan rann út i sandinn og boltinn barst í óvænta átt. Til min! Ég stirðnaði upp, leit undan og hreyfði mig ekki þegar boltinn skoppaði framhjá mér og var þó enginn nálægur; hvorki andstæðingur né nokkur hinna síst skárri samherja. Loks náði einhver boltanum og gott ef sá hinn sami skoraði ekki i „mitt“ mark, þá stóð ég út undir vegg og virti fyrir mér loftflísarnar. Ég man ekki til þess að hafa orðið fegnari á ævinni en þegar þessum leik lauk. Alla tið hef ég snúist til vamar þegar einhver vill henda gaman að þeirri kenningu að djúpstæðir komplexar stafi af einhverju „sem kom fyrir í bemsku". Þama hafði ég, i bernsku, orðið mér úti um djúpstæðan komplex: andúð á - já, allt að því ótta við boltaíþróttir. Alla mína hundstið i Mýrarhúsaskólanum, Melaskólanum, Hagaskólanum, MR, var sifellt verið að spila fótbolta, handbolta, körfubolta og i hvert sinn hvolfdust yfir mig minningarnar um drengina sem slógu hring um mig og hrópuðu: „Til min! Til mín!“ Ég var heldur ekki til mikils nýtur i þessum vinsælu iþróttum, var alltaf siðastur ■ Glzsimark Zico gegn Nýja-Sjálandi á dögunnm. valinn í lið og reyndi að láta lítið fara fyrir mér þegar bölvaður leikurinn hófst. Var aftasti maður í vöm í fótbolta, spilaði langt úti á vellinum í handbolta og lét yfir höfuð ekki sjá mig i körfubolta. Ég átti aldrei Adidas-tösku, né Hummel; fór aldrei á fótboltaleik og aðeins stöku sinnum á handbolta. Aftur á móti las ég íþróttafréttir í blöðum af stakri prýði og hélt með FH. Dlugi Jökulsson, blaðamaður, skrifar Og hvað? Jú, það stendur yfir heimsmeistarakeppni i fótbolta og þrátt fyrir drengjahringinn, hvæsið í Hálfdáni og siðastur valinn i lið hef ég staðið mig að þvi að horfa á nokkra leiki. Alveg bergnuminn. Það hefur nú svo sem gerst áður. Árið 1974 grét ég fögrum tárum þegar Cruyff tókst ekki að verða heimsmeistari og 1978 vonaði ég að Rensenbrink gæti haldið uppi merki hans. Helvítið hann Rensenbrink; stóð aldrei við þær vonir sem ég batt við hann. Og nú eru Hollendingar ekki einu sinni með; ég sór að horfa ekki á einn einasta leik í þessari keppni. En ég geri það samt. Knattspyrna er dálítið furðulegt áhugamál. Að stórum hluta er hún náttúrlega fyrst og fremst áhugamál, þörfin á að skipta heilanum á sér niður i skema og mikil er víst vellíðan þeirra sem hafa ensku knattspyrnuna á hreinu og vita hvemig Kevin Dillon i Birming- ham City hefur staðið sig undanfarin ár, hverjir em hans kostir og gallar og skapgerðarbrestir. En það er líka bara gaman að horfa á, sumt er næstum fallegt. Eins og brasiliska landsliðið þetta sumar. Má ég gera það að tillögu minni að enska knattspyrnan verði lögð niður en þess i stað sýnt beint frá Brasilíu á hverjum laugardegi, eða hvenær svo sem það er sem Brassamir keppa? Þá sjaldan ég hef gotið hornauga á ensku knattspymuna í sjónvarpinu hefur mér jafnan staðið ógn af því hversu ljót og ruddaleg þessi iþrótt er. Langar sending- ar, mikil hlaup, svæsnar tæklingar (seisei - svona orð kann ég!); óstöðvandi baráttukraftur en lítil list. Svo fær maður að sjá Brasiliumenn leika (eða Cruyff á sínum tima) og þá er allt í einu skemmtilegt að horfa á fótbolta. Sumir vilja fá sjónvarp af leikjum í Vestur- Þýskalandi en þar (segi ég af öllu mínu fótboltaviti) er knattspyrnan nú ekki par fallegri en á Englandi. Beint sjónvarp frá Brasiliu, það er krafan! Ég trúi heldur ekki öðru en skipulagsfýsn heilans yrði jafnvel, eða betur, svalað með þvi að vita allt um Zico, Eder og Socrates (Socrates!) og hinu, að þekkja Kevin Dillon út og inn. Þeir félagar mínir á fylgiriti Helgar- Tímans, Tímanum, eru alveg rasandi, bókstaflega rasandi, vegna slælegrar frammistöðu sjónvarpsins i þessari heimsmeistarakeppni. Bjarni Fel og Pétur Guðfinnsson eru ekki vinsælustu mennirnir á þeirri stassjón. Sjálfum er mér nokkuð sama en þó langar mig að sjá leik Brasilíu og Argentínu fýrir næstu jól. Og svona til að vera ábyrgur þjóðfélagsgagnrýnandi, þá er það i meira lagi skrýtið dómgreindarleysi hjá forráðamönnum sjónvarps að nota ekki þá möguleika sem fyrir hendi eru. „Við vissum ekki hversu mikill áhugi yrði á heimsmeistarakeppninni," sagði Pétur í viðtali við eitthvert blað nú í vikunni. Það getur verið að sjónvarpsmenn hafi ekki vitað það en að minnsta kosti vissu það allir aðrir - meira að segja ég! Sjónvarpið svaraði ekki bréfum þar sem spurt var um óskir þess i sambandi við heimsmeistarakeppnina. Svolitið asna- legt af stofnun sem hlýtur að vera til til að uppfylla óskir notenda sinna. En þýðir víst litið að fást um það héðan af, og næsta heimsmeistarakeppni er hvort eð er eftir aðeins fjögur ár! Nú skilst mér að úrslitaleikurinn verði sýndur beint á sunnudaginn eftir viku, en sennilega i svart-hvítu. Flestir eru liklega nokkuð ánægðir með að fá að sjá hann yfirleitt en sjálfur hef ég sem sagt mestan áhuga á Brasiliu-Argentínu. Hvernig væri að sýna hann fyrr um daginn? Og svona, nákvæmlega svona, getur fótbolti leikið jafnvel þann sem hefur djúpstæða andúð á boltum, aftan úr bemsku.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.