Tíminn - 21.11.1982, Qupperneq 23
Smuga á völiuidarhúsinu
— „í Dyflinni” eftir James Joyce
Jamcs Joyce:
í Dyflinni
Sigurður A. Magnússon íslenskaði
Mál og menning 1982
■ Með árunum hefur aukist óttinn við
Joyce. Hann er nú viðurkenndur sem
einhver stórkostlegasti og altént einn
áhrifamesti rithöfundur á þessari öld, en
eins og vanalega fylgir böggull skamm-
rifi. Eftir því sem skilgreiningum, skýr-
greiningum og rannsóknum á verkum
hans hefur fjölgað þá hefur Joyce lokast
tryggilegar inni í völundarhúsi fræði-
mennskunnar, og nú er svo komið að
margir virðast álíta að völundarhúsið sé
Joyce og Joyce völundarhúsið. (Hann
lagði nú svo sem sitt af mörkum til þess,
blessaður.) Skrifaði hann ekki bara
eitthvert rosalegt torf, gasalega menn-
ingarlegt og merkilegt, en ekkert fyrir
venjulegt fólk. Jæja, hér hafa íslending-
ar fengið tækifæri til að sannreyna að
Joyce var þrátt fyrir allt aðeins rit-
höfundur með sömu markmið og aðrir
slíkir, en að sönnu sínar eigin leiðir. í
Dyflinni eru fimmtán smásögur þar sem
Joyce leitast við, og tekst, að lýsa
heimabæ sínum og fólkinu þar. Ekkert
torf, ekkert menningarlegt og akkúrat
fyrir venjulegt fólk. Svoleiðis sögur eru
óteljandi. Undir snyrtilegu yfirborði
Joyce býr aftur á móti óvæntur hlutur;
nefnilega sjálf snilligáfan.
Uppgjöf eða
uppreisn
Eað mun hafa farið framhjá fáum að
á þessu ári eru rétt hundrað ár liðin frá
því Joyce kom í þennan heim; hann
kvaddi árið 1941. Hann ólst upp í Dublin
og milli hans og borgarinnar tók snemma
að þróast undarlegt ástarhaturssam-
band. Hann var með Dublin á heilanum;
það er engin frágangssök að segja að
hann hafi unnað þessari borg, en enginn
sá betur en hann missmíðarnar á henni
en einkum íbúum hennar. Smásálarhátt-
urinn, hrokinn, óttinn og einmanaleik-
inn, vonbrigðin og vítahringurinn - allt
lá þetta í augum uppi og á árunum
1904-06 skrifaði Joyce smásögur til að
lýsa því. Með tilliti til þess hversu heitar
tilfinningar Joyce bar til Dublin og
íbúanna þar mun líklega koma ýmsum
á óvart hve hljóðlátar þessar sögur
virðast vera. Einu gildir hvílíkri örvænt-
ingu hann er að lýsa, hvílíkri heimsku
og ruddaskap; aldrei grípur hann til
ódýrs skops eða stóryrða. Þegar upp er
staðið kemur vitanlega í ljós að þessi
aðferð, sem virðist svo kurteisleg, hefur
reynst máttugri í höndum Joyce en
skopstælingin eða ógurlegur reiðilestur
í höndum annarra.
Þema flestra eða allra sagnanna er
ýmist uppgjöf gagnvart þrúgandi um-
hverfi, eða misjafnlega markvissar upp-
reisnartilraunir gegn því hverfi. í sög-
unni „Eveline" hefur umhverfið kúgað
svo unga stúlku að hún þorir ekki að
leggja út í ævintýri með unnusta sínum,
brjötast burt. í „Skýhnoðri" rennur það
upp fyrir manni hversu fánýtt og lítilsiglt
líf hans er þegar hann hittir þann mann
sem hann hefði sjálfur getað orðið -
kannski. í „Samstæðum“ er því lýst
hvernig hver kúgar annan; í „Arabíu"
hrynja draumar skólapilts um æsandi
framandleika til grunna; „Náð“ lýsir
hinni kölkuðu gröf kirkjunnar sem
Joyce sleit sig snemma frá, og „Minning-
ardagur á kosningaskrifstofunni“ fjallar
á svipaðan hátt um pólitíkusa; tilveran
í „Tveimur kvalérum" er hreint út sagt
ömurleg. Og svo framvegis og svo
framvegis. í síðustu sögunni og þeirri
lengstu, „Framliðnum", kemur svo
dauðinn sjálfur til skjalanna; í einu eða
öðru formi má kalla hann meginþema
allra sagnanna. Þessi saga um valdið sem
hinir framliðnu hafa yfir þeim sem eftir
lifa hefur löngum verið talin hin besta í
safninu. Ef Joyce hefði leyft sér að gefa
þessari sögu viðlíka lykilorð og hann
gerði með nafninu á Ulysses, þá hefði
þessi saga verið látin heita „Orfeus".
Vald Joyce á
slfl sínum
Það er sem sé ekkert sérstaklega létt
yfir Dublin þeirri sem Joyce segir frá í
sögum sínum. Þær eru ekki gamansögur
en þær eru heldur ekki dapurlegri en
ástæða er til. Hér má alveg vitna til
formála þýðandans, Sigurðar A. Magn-
ússonar: „Þær eru einungis það sem þær
eru: fullgerðar myndir sem þola mætavel
nánari skoðun og leiða lesandann þang-
að sem höfundur ætlar sér og vekja með
honum tilfmningu listrænnar lausnar:
þetta er rétt, ómótmælanlegt, fullgert."
Þetta með nánari skoðun, það er alveg
satt. Þó þessar sögur virðist einfaldar á
ytra borði er það fjarri sanni þegar nánar
er að gáð. Það má njóta þeirra mjög vel
sisona, en það má líka sökkva sér ofan
í þær - ekki síður en hin sfðari stórvirki
Joyce - þræða Dublin þvera og endilanga
eftir þeim, kanna list höfundarins í
hnitmiðuðum persónulýsingum sem
virðast svo auðveldlega upp dregnar og
síðast en ekki síst hvemig hann notar
sér stílinn. Að líkindum hefur enginn
höfundur, hvorki fyrr né síðar, notað
stílinn jafn markvisst, beygt hann jafn
miskunnarlaust undir vilja sinn. Það má
efunarlaust finna höfunda sem eru
glæsilegri stílistar að eðli, en sá er
vandfundinn sem hefur jafn afdráttar-
laust vald á tóli sínu. Því látið ykkur ekki
detta í hug að Joyce hafi sett eitt einasta
orð á blað án þess það gegndi sérstökum
tilgangi; einmitt þetta orð en ekki
eitthvert annað. Nákvæmlega þetta orð
er það sem viðkomandi persóna myndi
nota við tilteknar aðstæður því, vel að
merkja, kemur höfundurinn sjálfur
hvergi nærri. Frásagnaraðferðin, orða-
valið; hvorttveggja er brennt marki
þeirra persóna sem segir frá í það og það
skipti. Þetta er það sem bandaríski (eða
er hann kanadískur?) bókmenntafræð-
ingurinn Hugh gamli Kenner hefur
kallað „Lögmál Charles frænda" eftir
einni persónunni í Portrait of the Artist
as a Young Man. Það segir sig sjálft að
slíkt getur verið erfitt, eða illmögulegt,
■ James Joyce - „með Dublin á
heilanum“.
að þýða en mér þykirsamt að Sigurður
A. Magnússon hefði mátt gæta meiri
nákvæmni. Svo ég taki eitt dæmi - sem
líka er komið óbeint frá Mr. Kenner -
fyrstu setninguna í „Framliðnum“.
Lily, dóttir
umsjónarmannsins
„Lily, the caretaker’s daughter, was
literally run off her feet.“ Þetta þýðir
Sigurður A. Magnússon svo: „Lily dóttir
umsjónarmannsins fékk bókstaflega
ekki stundlegan frið.“ Jæja? Málið er að
íslensku þýðinguna má til sanns vegar
færa; það getur vel verið að Lily hafi
ekki fengið frið eina einustu stund.
„Run off her feet“, er aftur á móti
orðtak sem stenst auðvitað ekki í þessu
sambandi. Engu að síður notar Joyce
orðið „bókstaflega" um líkingu. Hvers
vegna? Jú, vegna þess að orðið „bókstaf-
lega“ er komið frá Lily, dóttur umsjón-
armannsins. Það er hún sem segir að hún
hafi „bókstaflega“ verið komin að fótum
fram - eða eitthvað í þá áttina - þó hún
hafi í raun og veru alls ekki verið það.
Þetta er sem sé örlítið smáatriði sem
lýsir stúlkunni Lily en glatast í íslensku
þýðingunni. Fleiri dæmi mætti tína til,
en ég ætla að láta þetta nægja. Önnur
■ Sigurður A. Magnússon - „Þetta er
rétt, úmótmælanlegt, fullgerf".
ónákvæmni í þýðingunni er að stundum
eru götunöfn þýdd, stundum ekki, ög ég
kann alls ekki við að nafnið á Dublin sé
þýtt. Dyflin er tilgerðarlegt orð, þykir
mér, en það er víst smekksatriði.
Það er á hinn bóginn hárrétt sem
Sigurður A. Magnússon segir í formála
að erfitt sé fyrir okkur að gera okkur
grein fyrir því hversu óvenulegar og í
raun frumlegar þessar sögur voru þegar
þær komu fyrst út á bók. Síðan eru liðin
tæp sjötíu ár (þær komu ekki út fyrr en
1914) og ótal höfundar hafa reynt með
mísjöfnum árangri að tileinka sér aðferð-
ir Joyce. Líkast til hefur engum þeirra
tekist jafn vel upp og honum sjálfum.
Maðurinn var séní! Það er í sjálfu sér
þakkarvert að hann sé nú kynntur
íslendingum, þó ekki væri til annars en
þeir sjái að hann var hvorki skrímsli né
völundarhús heldur bara rithöfundur.
Mjög góður rithöfundur.
Illugi Jökulsson
skrifar um bók-
menntir
A GLERBROTABALLI
Páll Pálsson:
Hallærisplanið,
Iðunn 1982
■ Nokkur undanfarin ár hafa svolítið
verið í tísku bækur sem greina opinskátt
og á nýjan hátt frá unglingsárunum;
áhugamálum unglinga, vandamálum og
tilhugalífi. Og þá vel að merkja oftast
frá þeirra sjónarhorni. Meðal þessara
höfunda eru Pétur Gunnarsson, Egill
Egilsson og Ólafur Gunnarsson, svo
einhverjir séu nefndir. í þennan hóp má
nú setja Pál Pálsson og hans fyrstu bók,
Hallærisplanið. Oft fannst mér hún líka
minna mig sterklega á bók Péturs, Ég
um Mig frá Mér til Mín.
Það er greinilegt að höfundur þessarar
bókar, þekkir út í ystu æsar söguefni sitt.
Þar héld ég að ekkert gerist, sem ekki
gæti' átt sér stað. Við lesturinn fannst
mér það einmitt einn höfuðkosturinn;
frásögnin öll er trúverðug og persónur
flestar líka. Aðalpersónan er Eiríkur og
bekkjarsystkini hans. Foreldrarblandast
að sjálfsögðu líka í málið, en gera ekki
miklar kröfur um persónusköpun. Höf-
undur dregur á hinn bóginn upp skýra
mynd af nokkrum „venjulegum" ung-
lingum. Um það bil helmingur bókarinn- ’
ar gerist á einu kvöldi. Þarer lýst, — held
ég megi segja - dæmigerðu unglingafyll-
eríi...
„Ha? sagði Mogginn“
Samúð höfundar er unglinganna
megin, í togstreitunni við foreldra sína,
fmnst þeir lítt áhugasamir um afkvæmin.
„Mamman hékk bara í símanum og
pabbinn bakvið Moggann." (46) Annað
dæmi má taka, þegar Eiríkur þarf að
biðja föður sinn um peninga: „Eh, hérna
pabbi, hvíslaði hann að Mogganum. -
Pabbi... Humm, varstu að segja eitthvað
væni minn, sagði Mogginn.“ En það
verður líka að segjast, að áhugi aðal-
persónunnar, Eiríks, er frekar takmark-
aður, á samskiptum við foreldrana. Og
stúlkan sem hann er hrifinn af, finnst
það tómur slettirekuskapur, þegar móðir
hennar færir þeim kók og popp. „Hún
er bara að fylgjast með því að við séum
ekki að gera neitt ljótt af okkur. Það er
alltaf eins og maður sé smábarn. Aldrei
treyst til neins. Ég meinaða. Ekki ætla
ég að tortryggja mín börn svona þegar
þar að kemur.“ (39-40)
Eiríkur er semsagt ástfanginn. Eða er
í það minnsta sannfærður um það. Og
hann lætur sig dreyma um að „þau
mundu eiga heima í gömlu húsi í
Vesturbænum, sem búið var að gera
töff. Flottan bíl. Það yrði miklu
skemmtilegra að fara í bíltúr með Stínu
og börnin... Börnin?... Pabbi,... Það
yrði skrítið að vera sjálfur pabbi. Hann
ætlaði að vera miklu skemmtilegri við
sin börn, en pabbinn við hann. Ekki
eyða samverustundum sínum með fjöl-
skyldunni á bakvið Moggann.“ (41)
Fálmkenndum ástartilburðum Eiríks
lýsir höfundur einkar skemmtilega. Svo
og efanum og vangaveltunum...“ skyldi
hún vilja mig??“ Það fer lítið fyrir
rósrauðum ástarsenum: „Hann vildi
aldrei hætta. Það var svo gott að kyssa
hana. Helst vildi hann vera svona alltaf.
Loks, eftir um það bil kortér, dró Stína
tungu sína til baka, lokaði munninum
og kyngdi. Hún var að drukknaúr slefi.“
(40)
...einsog almennilegur
maður
Sem áður var á tæpt, gerist helmingur
bókarinnar á einu kvöldi. Þar fylgjumst
við með Eiríki og vinum hans, - sem
lenda í ýmiss könar uppákomum. Þeim
sem ekki til þekkja, þykir kannski
frásögnin t.a.m. af Hallærisplaninu ós-
ennileg eða út í hött. En kunnugum
kemur hún á hinn bóginn einkar trú-
verðuglega fyrir sjónir. Og þar liggur
hundurinn grafinn; höfundur er svosem
ekki að segja neitt nýtt, en hinsvegar er
tillegg hans þeim mun skemmtilegra og
fróðlegra fyrir sakir hins raunverulega
umhverfis sem honum tekst að skapa og
persóna sem hann glæðir lífi. Og
höfundur hefur lag á því að vera svolítið
fyndinn stundum. Oftast undir rós, og
nóg er af orðaleikjum.
■ Páll Pálsson: „Samúð höfundar er
unglinganna megin...“ .
Það er skoðun mín að höfundur hafi
beitt ansi vönduðum vinnubrögðum við
ritun þessarar bókar. Hvergi, - svo ég
fengi auga á komið - voru alvarlegir
hnökrar á stíl eða framsetningu. Ég held
að þessi bók gæti orðið mörgum um-
hugsunarefni, sem hingað til hafa býsn-
ast og hneykslast á unglingum fyrir það
að safnast saman, skemmta sér og
drekka brennivín. Það er staðreynd,
sem ekki verður framhjá horft. „Djöfull
vildi ég að maður kæmist á Borgina.
Ævar blés reyknum útámilli gnístra
tannanna og fékk sér sjúss. - Þá gæti'
maður sko fengið sér í glas einsog
almennilegur maður og setið við borð.
Hinir voru sko sammála. Eða Óðal.
Ekki væri það verra.
í staðinn skelltu þeir sér á glerbrota-
ballið í Fógetagarðinum." (82)
Hallærisplanið segir ekki margt nýtt.
En höfundur setur efni bókar sinnar
fram á læsilegan og oft á tíðum hnyttinn
hátt. Hann tekur fyrir efni, sem hefur
verið hitamál lengi, - og hann gerir það
vel og af skilningi.
Ég vil að lokum óska hinum nýja
höfindi til hamingju með verk sitt, þar
er svosem ekki á ferðinni neitt meiri-
háttar bókmenntaverk - enda varla
ætlunin - hinsvegar bók sem skrifuð
uppúr raunveruleikanum. Og skrifuð
vel. Svo legg ég til að bókin verði gerð
að skyldulesningu fyrir uppalendur...
- Hrafn Jökulsson