Tíminn - 17.12.1982, Blaðsíða 9

Tíminn - 17.12.1982, Blaðsíða 9
FÖSTUDAGUR 17. DESEMBER 1982 9 „Fáeinum dögum eftir að fundinum lauk lagði fjármálaráðherrann fram frumvarp á Alþingi sem gerir ráð fyrir að heimilt verði að veita greiðslufrest á aðflutningsgjöldum af innfluttum vörum. Það liggur í augum uppi að verði þetta frumvarp að lögum mun það hafa flestar aðrar verkanir en að draga úr innflutningi“. hafi gleymt þeirri stefnu sem samþykkt var að fylgja á flokksráðsfundinum. Fjármálaráðherra lét hér ekki staðar numið heldur lagði samdægurs fram annað frumvarp sem einnig ætti að bæta samkeppnisaðstöðu innfluttra vara gagnvart innlendri framleiðslu. Skv. frumvarpinu á að fjölgatollhöfnum um sex frá því sem nú er. Athyglisvert er að frumvarpið er lagt fram á sama tíma og fjölmiðlar bera okkur fréttir af því að Frakkar reyni að hamla gegn innflutningi á videótækjum með því að tollafgreiða tækin aðeins á einum stað í öllu Frakklandi. Loks má nefna þann hringlandahátt sem einkennir afstöðu Alþýðubanda- lagsins í verðlagsmálum. í vor stóð þingflokkur Alþýðubandalagsins að breytingum á verðlagslögunum frá 1978. Breytingarnar miðuðu að því að draga úr opinberum afskiptum af verðmyndun og auka sveigjanleika í verðmyndunar- kerfinu. A grundvelli þessara breytinga lýsti ríkisstjórnin yfir í ágústmánuði sl., þar með taldir ráðherrar Alþýðubanda- lagsins, að hún myndi beita sér fyrir því að verðlagning á innlendum iðnaðar- vörum sem eiga í erlendri samkeppni yrði gefin frjáls. Þessari yfirlýsingu fagnaði iðnaðarráðherra ákaflega í við- tali við Þjóðviljann 27. ágúst sl. En hvað gerist á flokksráðsfundinum? í fimm ára áætluninni er fyrst kvartað yfir miklum verðhækkunum. Þá er sagt að lögin sem þingflokkurinn stóð að séu mjög gölluð. Síðan er klykkt út með orðalagi sem ekki verður skilið öðru vísi en svo að flokksráðsfundurinn telji höfuðnauðsyn að verðlagshöft séu tekin upp sem víðast. Huggun Alþýðu- bandalagsins Þessi dæmi sýna að Alþýðubandalagið á erfitt með að gera upp við sig hvert það vill stefna. Einhverjum kunna að þykja dæmin léttvæg en mörg fleiri má nefna. Ef einhverja stefnu má lesa út úr störfum Alþýðubandalagsins að undan'- förnu þá er það helst löngunin til þess að setja sértækar reglur um sem flesta hluti. Löngun til þess að skammta og hafa afskipti af öllu sem nöfnum tjáir að nefna. En jafnvel hér getur Alþýðu- bandalagið ekki verið sjálfu sér samkvæmt, því í fimm ára áætlun flokksráðsfundarins predikar flokkurinn líka sparnað í ríkisrekstri. Sparnaður og beiting sértækra reglna eiga nefnilega ekki samleið. Eins og málum er nú komið er best að Alþýðubandalagið leiti sér huggunar hjá stjórnarandstöðuflokkunum, ekki aðeins í kjördæmamálinu, heldur Ifka í öðrum málum sem það á erfitt með að átta sig á. ■ Hermann Guðmundsson sem fulltrúa hins íslenzka þjóðarstofns. Átökin í stjómmálum Hafnarfjarðar voru hörð á þessum árum og bitnaði það ekki minnst á Kjartani Ólafssyni. Þrennt varð þess valdandi, að hann komst aldrei á þing, þótt hann væri þar öðrum sjálfsagðari sem fulltrúi Hafnfirðinga. Fyrst var það, að Sjálfstæðisflokkur- inn gat teflt fram mjög vinsælum lækni, sem í bókum Stefáns nefnist Halldór Hólmberg, en auðvelt er að kenna sem Bjama Snæbjörnsson. Annað var það, að þegar Hafnfirðing- ar vildu fá Kjartan fyrst til framboðs, greip flokksstjórnin í taumana og tefldi fram Þráni Úlfarssyni, öðm nafni Stefán Jóhann Stefánsson. Hann féll fyrir Hólmbergi lækni, en líkur benda til, að Kjartan hefði sigrað þá. Aðstaða var lakari í næstu kosningum, en þá féll Kjartan fyrir HÓlmberg. í kosningum, sem fóru fram ári síðar, vildu hvorki Kjartan eða Hólmberg heyja einvígi að nýju og kom þá til sögu nýr foringi Alþýðuflokksmanna í Hafn- arfirði, Eggert Steinsson bæjarstjóri. Sennilega kannast margir við Eggert undir öðru nafni, ef þeir lesa eftirfarandi lýsingu Stefáns á honum: „Eggert Steinsson var mikill hæfi- leikamaður í störfum, stærðfræðingur og húmanisti jöfnum höndum, ráðugur og framgjam, fáskiptinn allajafna og einmani í eðli sínu en lét vitið ráða og vissi að í hans stöðu og störfum þurfti að umbera þá raun að hlusta á marga og tala við marga. Hann var örfljótur að átta sig á flóknustu málum, kunni að aka seglum eftir vindi og vildi ráða hlutun- um. Hann var ekki mælskumaður á borð við Ásgeir Ólafsson en lagði málin klárt fyrir án málalenginga eða hita í framsögn: harðnaði þó og stæltist ef mörg járn stóðu á honum og gat þá orðið slyngur ræðumaður. Hann undir- ■ Stefán Júlíusson rithöfundur bjó og skipulagði kosningar vel og vandlega reikningslega séð en lét aðra um persónulegan áróður og smala- mennsku á kjördag. Hann var aðeins rúmlega þrítugur í kosningunum 1934, snyrtimenni í sjón, í hærra meðaliagi og miklu fremur vel á sig kominn; skildi pípuna sjaldan við sig.“ Það var Sjálfstæðisflokksmönnum mikið í mun að svipta Alþýðuflokkinn forustu í verkalýðsfélaginu. Þetta gekk þeim illa, unz þeir eignuðust þar foringja. í fyrstu þótti hann þó ekki foringjalega vaxinn, samkvæmt eftirfar- andi frásögn í síðara riti Stefáns, sem hér er rætt um: „Eins og þú hlýtur að hafa fylgst með í blöðum að heiman - og ég hef raunar imprað á í bréfum áður - tók Sjálfstæðis- flokkurinn að skipuleggja og magna samherja sína og fylgismenn í verkalýðs- stétt fyrir nokkru og stofnaði sums staðar félög sjálfstæðisverkamanna. Þessi félög gengu yfirleitt til liðs við kommúnista til að klekkja á jafnaðar- mönnum. Sama varð uppi á teningunum hér í bænum. í fyrstunni vantaði þá foringja. En hann kom brátt í leitirnar og þá var ekki að sökum að spyrja. Þú þekkir þennan foringja mæta vel, hann er skólabróðir okkar úr gagnfræðaskól- anum og bekkjarbróðir minn. Hann er raunar meira, hann er góðkunningi minn og leikfélagi úr vesturbænum, Hafsteinn Guðmannsson. Þú manst hann var skólatrúðurinn, hyskinn við nám og uppfullur með strákapör, galsa- fenginn og uppáfinningasamur, æringi sem enginn tók alvarlega, hvofki kenn- arar né skólasystkin. Hann þóttist vera nasisti í skóla og hann varð fyrstur til að sýna mér Mein Kampf á dönsku, bar hana í skólatösku sinni til að ögra okkur hinum. Ég tók það sem eina af brellum hans enda fannst mér hann alltaf pólitískt viðrini. Einn rauður þráður gekk þó í gegnum fjargviðri hans og flaumósa alvöruleysi sem hann iðkaði dags daglega: Hann hefur megnan ímugust á foringjum jafnaðarmanna í bænum. Ég hef aldrei komist til botns í hvaðan þessi kali er upprunninn, mér er nær að halda að hann sé sprottinn frá heimilinu eða einhverri persónureynslu í barnæsku. Eftir gagnfræðapróf fór hann að vinna á eyrinni eins og við flestir, stofnaði fótboltafélag og gerðist töluverður fé- lagsmálagarpur. Hafsteinn er í eðli sínu það sem við köllum sprautu. Hann fór á námskeið í netagerð og lagði stund á fleiri handíðir enda laginn og listfengur í höndunum. En það sem sköpum skipti var að hann fór á stjómmálaskóla sjálfstæðismanna, námskeið sem flokk- urinn hefur haft fyrir unga menn undanfarin ár. Þar frelsaðist minn maður til pólitískra átaka og gerðist foringi í málfundafélagi sjálfstæðisverkamanna í bænum.“ Hafsteinn Guðmannsson, sem margir munu þekkja undir öðru nafni, átti síðar eftir að koma meira við sögu Hafnar- fjarðar. Vafalítið átti hann meiri þátt í því en nokkur annar að brjóta niður veldi Alþýðuflokksins í Hafnarfirði. Svo viðburðarík var stjórnmálasaga Hafnarfjarðar á þessum tíma að hún jafnast á við spennandi skáldsögu. Á vissan hátt speglar hún stjórnmálasögu landsins á þessu tímabili, en margt gerðist þá umtalsverðra tíðinda, eins og jafnan þegar nýir tímar eru að ganga í garð. Stefán Júlíusson segir vel frá og forðast málalengingar. Frásögnin snýst ekki eingöngu um stjórnmál, heldur lýsir jafnframt atvinnuháttum og lífsbar- áttu alþýðu manna, sem oft var erfið á þessum tíma og þó einkum á kreppuár- unum. Hinum þræðinum er svo rakinn upp- vöxtur og námsferill þess manns, sem er látinn segja söguna, að ógleymdum ástarævintýrum hans. Sá þáttur bókar- innar er ekkert minna læsilegur. Spurn- ingin er sú, hvort þær persónur, sem þar koma til sögu, eru jafn raunverulegar og hinar, sem koma fram á stjórnmálasvið- inu eða hvort t.d. sögumaður er búinn til úr fleiri persónum. Mig brestur kunnugleika til að geta skorið úr því. Öðru máli kann að gegna um Hafnfirð- inga. Ég lýk þessu rabbi, sem ekki er ritdómur, með þökkum til Stefáns, því að umræddar bækur hans las ég mér jafnt til fróðleiks og skemmtunar, eins og reyndar segir í upphaft. Þ.Þ. menningarmál Átján ár í smíðum KRISTJÁN RÖÐULS: EINSKISMANNS LAND Ljóð 64 bls. Hrímnir 1982 Óuppskorin Ijóð ■ Það er annars orðið sjaldgæft, að maður fái í hendur nýja bók, nú á dögum og neyðist til að lesa hana með búrhníf, af því að bréfahnífar eru ekki lengur við höndina, þótt þeir væru jafn sjálfsagðir á heimilum áður og pennastöng, blek- bytta og þerriblað. Bókbandshnífar með margra tonna þrýstingi, eru nú látnir skera bækur, og lesandinn er bara til að fletta blöðum - og lesa. Ég man að fyrstu fullorðinsbækurnar, sem ég eignaðist voru svona. Fegurð himinsins varð að skera með hníf, líka Fuglinn í fjörunni. Sagt er að aumar bækur séu lítið lesnar, og nokkrar upplifðu þá reynslu, að verða aldrei skornar upp til fulls. Ljóðabók Kristjáns Röðuls kom þannig strax á óvart, er ég fékk hana í hendur til lestrar. Hún og ég urðum að leggjast undir hnífinn fyrst. Svo gat lesturinn hafist. Ekki veit ég hvert hnífurinn hjá ísafold hefur verið bilaður, eða kominn undir hamarinn. Þó finnst mér það líklegra, að Kristján Röðuls hafi viljað hafa þetta svona, því þegar hann byrjaði þessa bók - fyrir átján árum, skáru menn sínar bækur upp sjálfir. Og sá lesstíll er fylgir skurði, er einhvern veginn annar, en sá er fylgir þungaiðnaði í bókagerð. Þá er pappírinn þykkur og gulur eins og löggiltur skjalapappír, en einnig það minnir á aðra tíð og betri. Sagt er að til séu a.m.k. tvær nothæfar aðferðir við að týna bókum heima hj-a sér. Sú fyrri er að raða bókum eftir nákvæmu kerfi og skrám, hin er sú að setja þær bara einhvers staðar í hillu með öðrum bókum án allra kerfa. Ég nota síðari aðferðina, og það er ef til vill þess vegna, er mér tókst ekki að hafa uppi á áður komnum ljóðum Kristjáns Röðuls, en þær las ég á Njarðargötunni, svona nokkur stykki, en kvæði hans þekkti ég annars úr tíma- ritum og úr blöðum. Það er þessvegna, sem ég get ekki greint frá því hér, hversu margar ljóðabækur Kristjáns Röðuls hefur sent frá sér, eða hve langt er síðan hann hafði fyrst til kvæði. En þó man ég, að þegar ég var unglingur var mér sagt að þessi maður væri skáld og einnig að hann hefði verið eini íslendingurinn sem' tók í mál að mála möstrin í loftskeyta- stöðinni vestur á Melum. Þetta var því maður himinsins í fleiri en einum skilningi. Síðan eru mörg ár liðin og skornar bækur hafa tekið við af óskornum. Einskismanns land Kristján Röðuls nefnir nýju bók sína Einskismannsland, sem í almennum skilningi mun merkja það svæði er liggur milli herja í stríði. No man’s land nefna Englendingar svoleiðis svæði, en Danir Ingenmandsland. Hjá Kristjáni tel ég orðið annars merkja eitthvert hlutlaust afdrep, þar sem hann getur, án lögsögu, skoðað sinn heim og efnað í vísur og kvæði, þótt átök séu í umhverfinu. Skáldið hefur gefið sér góðan tíma. Átján ára munu elstu kvæðin vera. Ekki er rasað að neinu, heldur beðið. Fyrir slíku bera menn virðingu. Þótt eigi sé það eitt trygging fyrir miklum skáldskap, og þannig kvæði hljóti að tengjast öðru en atburðum seinustu vikna. Kristján skynjar líka tímann. Hann segir t.d. í kvæðinu Týnd borg: „I landi blárra jökla reisti ég mér hvita borg úr snjó. Borg mín var völundarsmíð og stóðst áhlaup hvítra herja. Eg taldi borg mína óvinnandi borg í frosthvítri auðninni. Einn morgun var borg mín unnin af gulum her með sólina að vopni“. Kristján Röðuls kemur víða við í ljóðum sínum. Hann byrjar á því að yrkja um ísland, sem er stolt hans og athvarf. Grikkland og fleiri lönd breytast í kvæði og svo er að sjálfsögðu ljóð um Kjarval, vin hans, sem meðal annars lýsti sumar af fyrri bókum hans. Einna best virðist mér Kristjáni takast upp í kvæðum eins og Sjávarmyndum. Þar segir: „Sjávarhljóð frá horfinni tíð vekur syfjaðan bryggjuhaus, - en hvítir turnar halda vörð í bláum fjarska. Á innsævi mannsins varpa skip akkeri og bíða eftir byr... Það er flóð og fjara - og mávarnir fara og koma.“ 1. des. Jónas Guðmundsson. Ný bók f rá Skúla á Ljótunnar- stödum Skúli Guðjónsson á Ljót- unnarstöðum: Hver liðin stund er lögð í sjóð. Skuggsjá 1982. ■ Það vekur ætíð nokkra eflirvæntingu þegar fréttist af nýrri bók eftir Skúla á Ljótunnarstöðum. Hann er löngu lands- þekktur fyrir bækur sínar, blöð og útvarpserindi, er einn þeirra manna, sem jafnan hafa eitthvað að segja, einhvern boðskap að færa. í þessari bók rekur Skúli ýmsa þætti úr ævi sinni. Hann segir frá námi sínu í bamaskóla og þá einkum frá kennara sínum, Arndísi Jónsdóttur, „elskunni hans Þorbergs." Skúli lýsir Arndísi og kynnum sínum af henni á stórskemmti- legan hátt og frásögn hans af kynnum þeirra Amdísar og Þórbergs er einkar fróðleg. Enn má nefna frásögn af námi höfundar í Samvinnuskólanum og stór skemmtilegir og fróðlegir þættir em hér sagðir úr sögu Borðeyrar, m.a. frá Borðeyrardeilunni frægu. Þá eru hér þættir úr heimabyggð Skúla, Bæjarhreppi og kennir þar ýmissa grasa. Þar segir frá dvöl breska setuliðs- ins þar á stríðsárunum,frá pólitískum átökum er Finnagaldurinn var mál mála. Fleiri þætti mætti nefna þótt ekki verði gert hér, en allir eru þessir þættir Skúla á Ljótunnarstöðum stórskemmtilegir, fróðlegir og sérstaklega vel samdir. fs- lensk tunga liggur honum betur á tungu en flestum öðmm og hann er afbraðs sögumaður, skýr og fjömgur. Allur frágangur bókarinnar er með ágætum. Jón Þ. Þór.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.