Tíminn - 05.06.1983, Blaðsíða 10

Tíminn - 05.06.1983, Blaðsíða 10
SUNNUDAGUR S. JÚNÍ 1983 MORGUNSARIÐ... ■ Því miður vannst ekki tími til að taka nema skyndimyndir af dýrinu Piss-Piss. Hann sést ásamt vinkonu sinni Ronju, hinni svörtu. MORÐÍ - EÐA ILL ÖRLÖG KATTARINS PISS-PISS ■ Ég gæti sem hægast byrjað svona: Nú höfum við íslendingar fengið nýja ríkisstjórn. Óskandi væri að hún tæki af einurð og festu á hrikalegum efnahags- vanda þjóðarinnar án þess þó að skerða hár á höfði hinna lægst launuðu. Eða ég gæti sagt eins og ónefndur alþingismað- ur: Uss, þetta eru mennirnir frá því í gær. Svo gæti ég líka fjallað af mannviti og húmanisma um utanríkismál: Hvern- ig er það með Reagan forseta, ætli Thatcher vinni kosningarnar, Afganist- an, agalegt þetta með alla kafbátana í Svíþjóð og Noregi. Enn gæti ég látið nokkur vel valin orð falla um fegurðar- samkeppni íslands og tertuát á þeim vettvangi: Niðurlæging kvenþjóðarinn- ar, hvar er Rauðsokkahreýfingin,hvern- ig krem var á tertunni, hvernig fór Unnur Steinsson að því að klára varalit- inn af taugatitringi en éta bara salatið. Þá er ónefnt að ég gæti skrifað um fótbolta, verandi eftir allt saman formað- ur eða ritari (man ekki hvort er, rifja það upp á Borginni eða Kjallaranum) í Zico-vinafélaginu á íslandi; ég gæti tekið upp hanskann fyrir Casagrande eða velt fyrir mér frammistöðu Bonieks í úrslita- leiknum við Hamburger. Ég gæti fjallað um táknkerfi Samúels Becketts, en ég gæti líka slegið á léttari strengi, gantast svolítið, sagt ykkur brandara og dillað mér. Ég gæti farið með ævisögu Míþri- datesar mikla Pontuskóngs. Ég gæti búið til krossgátu sem hefði tvær lausnir. Ekkert af þessu ætla ég að gera. Ég ætla að hafa hér nokkur orð um kött sem nú er sálaður og farinn til kattaguðsins egypska. f Vill til að ég er heimagangur í húsi einu vestast í Vesturbænum; á raunar heima þar við hliðina, eða svo til. Þetta er gamalt og býsna merkilegt hús; nefni- lega Skáholt það sem Vilhjálmur skáld kenndi sig við alla tíð. í húsinu býr nú slatti af fólki og til skamms tíma tveir og hálfur köttur. Sá elsti þeirra er kolsvartur fress, rösklega þriggja ára og heitir Pétur. Kannastu við hann, Ragnar Arnalds? Pétur varð, lesarar góðir, frægur fyrir fáeinum árum er hann kom, einn katta svo yitað sé, mjög við sögu deilna um álagningu skatta; það kom meira að segja viðtal við Pétur í Morgunblaðinu og var hann aldeilis ekki orðlaus, skal ég segja ykkur. Er þetta gerðist var Pétur enn ungur köttur og fjörugur; nú er hann ráðsettur, virðulegur og þykir heimarík- ur. Það vakti því töluverða undrun heimilisfólks í Skáholti þegar Pétur sætti sig, en með semingi þó, við innrás eins og hálfs kattar til viðbótar á heimilið. Fyrst kom Piss-Piss. Það var einn vondan veðurdag seint í vetur að hann stóð á tröppunum og gaf til kynna með látæði og mjálmi að hann hefði ekkert á móti því að komast inn fyrir dyr. Sannast sagna átti hann sitt rétta heimili í næsta húsi en þar var enginn heima og Piss-Piss að drepast úr kulda. Kötturinn fékk vitanlega að koma inn og fór svo að hann kunni hið besta við sig. Hann var þá ekki nema sisona stálpaður kettlingur, brönd- óttur en hvítur á bringu og fljótlega vöknuðu grunsemdir um að hann væri ekki nema í meðallagi vel gcfinn. Hann gat til að mynda alls ekki látið hinn snöfurlega heimiliskött Pétur í friði; vildi sínkt og heilagt ráðast að honum úr launsátri og gerði honum yfirleitt hverja þá skráveifu sem hann kunni. Stilling Péturs þótti aðdáunarverð. Hann veitti hinum unga uppivöðslusegg duglega of- anígjöf þegar gleðilætin og árásarhvötin ætluðu að keyra úr hófi fram, en tók þessari nýju framvindu að öðru leyti með heimspekilegri ró - enda dregur enginn skarpa greind Péturs í efa. Og - þessi köttur er kallaður hálfur vegna þess að þó hann ætti í raan aðsetur í húsinu við hliðina þá leið ekki á löngu uns hann hélt jafn mikið til í Skáholti. Fiskkaup heimilisins voru aukin í sam- ræmi við það. Hann fékk nafnið Piss-Piss af ástæðum sem óþarft ætti að vera að tilgreina öllu nánar. Svoleiðis athæfi jók vinsældir hans að sönnu ekki, en hann var léttlyndur köttur og alþýðlegur og illt annað en láta sér líka sæmilega við hann. Fyrir rúmum mánuði kom svo Ronja og Pétri var hætt að lítast á blikuna. Hún var ekki nema örfárra vikna þegar hún hélt innreið sína í Skáholt; kolsvört rétt eins og Pétur og mikill meirihluti katt- anna í Vesturbænum. (Á Melunum eru þeir umfram allt bröndóttir, eins og menn vita.) Ronja þessi, sem heitin er eftir ræningjadótturinni, var í eina tíð vistuð í Gullfiskabúðinni ásamt fleiri munaðarleysingjum en svo gerðist það að unglingar tveir hér í borg tóku upp á því að trúlofa sig og Ronja varð fyrir valinu sem trúlofunargjöf. Síðan hefur hún unað glöð við sitt í húsi skáldsins Villa. Nú var líf í tuskunum. Pétur fussaði bara og fór einförum en Piss-Piss og Ronja höfðu himin höndum tekið. Svip- myndir úr lífi katta; notið nú ímyndunar- aflið, vænir lesarar. Það var fjör! Svo gerðist það einn vormorgun fyrir tíu dögum eða þar um bil að ég vaknaði af draumum mínum - sem oftar! Það vantaði mjólk út í kaffið. Hafandi stung- ið á mig fjármunum fór ég út úr dyrunum á leið út í verslunina Snæbjörgu Snæ- bjarnardóttur. (Það er ómögulegt að taka nafnið M. Gilfjörð hátíðlegt.) Klukkan var tíu. I garðinum við hliðina á stóð lögreglu- þjónn. Hann var eitthvað að bogra bak við gróðurþykkni og hélt á skammbyssu í hendinni. Svo reið skotið af. Piss-Piss var allur. Hann lá þarna bak við grænkandi gróðurinn og engdist hræðilega í fjörbrotunum þó hann væri með skammbyssukúlu í hausnum. Hann hafði orðið undir bíl, sagði lögregluþjónninn. Einhver hafðL hringt og sagt frá særðum ketti; væntanlega sá sami og ók burt frá aumingja Piss-Piss á götunni. Ekki veit ég hvernig hann komst inn í garðinn; kannski hann hafi skriðið þangað sjálfur. Nú var honum stungið í plastpoka, fleygt í skottið á lögreglubílnum (Volvo R-20002!) og farið með-hann á öskuhaugana. Ég fór og festi kaup á einum lítra af kúamjólk. Nokkrar athugasemdir, fáar einar: í fyrsta lagi. Ég er ekki hissa þó kattargreyið hafi orðið fyrir bíl. Af einhverjum méróskiljanlegum ástæðum virðast bílprófshafendur líta á Bræðra- borgarstíginn sem hraðbraut og haga sér samkvæmt því. Á hverjum degi eiga nokkur börn fótum fjör að launa hér fyrir utan gluggann minn og oft liggur við árekstrum. Þeir verða líka stundum. Mér er sagt að ökuhraði hér í Vestur- bænum hafi verið lækkaður niður í þrjátíu kílómetra á klukkutímann eigi alls fyrir löngu. Ég hef ekki séð neinn fara eftir því. í öðru lagi. Lögreglumennirnir tveir voru menn á miðjum aldri, vörpulegir og góðlegir að sjá. Sjálfsagt fyrirtaks afar barnabarna sinna. Þeir höfðu aftur á móti ekki nokkurn áhuga á að vita hver teldist eiga dýrið sem þeir höfðu verið að skjóta og höfðu ekki haft fyrir því að gá á hálsólina sem Piss-Piss hafði stoltur borið. (Þar var hann kallaður Njáll en það nafn festist aldrei við hann í Ská- holti.) Þeir spurðu mig að vísu, úr því ég var kominn, hvar kötturinn ætti heima en hlustuðu ekki á svarið og flýttu sér burtu. Um kvöldið varsannreynt að þeir höfðu ókki látið vita og báru því við að heimilisfangið á hálsólinni hefði verið illa og ógreinilega skrifað. Það veit ég að er þvættingur. í þriðja lagi. Það var hreinasti óþarfi að drepa Piss-Piss; næstum glæpur að hafa gert það án þess að fara með dýrið til Iæknis. Ég sá ekki betur en Piss-Piss hefði einungis hlotið stórt svöðusár á annað lærið og þykist viss um það hefði mátt tjasla upp á hann. Nokkrum dögum fyrir morðið á Piss-Piss var sagt í blöðum frá ketti sem lögreglan bjóst til að drepa eftir að hann hafði orðið undir bíl; sá köttur komst undan, reyndist ekki nema marinn og stikar nú keikur um götur borgarinnar. Sá sem skrifaði lesendabréf um þann kött varaði bestu vini barnanna við of mikilli byssugieði; þeir reyndust ekki hafa tekið það til sín. Kettir eru skrýtnir. Á efri hæðihni hjá mér býr kolsvartur köttur (enn einn!) og heitir Sambó. Sá fylgdist grannt með því er Piss-Piss var drepinn og var hinn glaðasti. Ég hef grun um að Pétur sé ekki ýkja sorgmæddur heldur. Ronja er aftur á móti svolítið hissa á því af hverju Piss-Piss kemur ekki lengur í heimsókn. Ulugi Jökulsson blaðamaður skrifar

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.